Monday, April 30, 2007

Prímadonnudagur í dag

Sumir mánudagar eru bara dæmdir til dauða fyrirfram. Í fyrsta lagi að sofa yfir sig (þökk sé ónefndri manneskju sem hélt mér masandi um pólitík langt fram á nótt!), og svo að finna hugsanlega alveg gríðarlega alvarlega villu í skýrslu sem ég var að lesa yfir í dag en hafa ekki andlegt þrek til að fylgja því eftir alla leið (fresta því til morguns enda ekki þess eðlis að himinn og jörð farist alveg strax), og loks að vera gerður að skipuleggjanda út-að-borða-dæmis hjá hópnum mínum í vinnunni. Sem sagt: Kom engu í verk, og verkefnunum fjölgaði bara. Endaði vinnudaginn eftir litla 6 tíma og fékk mér kebab.

Ég sé þetta kannski í of dimmu ljósi. Villan fannst jú (ef villa reynist) og það er gott. Skipulagningarhlutverk er ábyrgðarstaða sem ber vott um traust og það allt. Að sofa út er bara önnur leið til að orða "sofa vel og lengi". Já, ég sé hlutina í of dimmu ljósi (er til dimmt ljós?). Allt er gott. Meira að segja kebabinn var í lagi.

Á morgun halda danskir verka- og námsmenn upp á 1. maí á meðan skrifstofan er þéttsetin verkfræðingum eins og á venjulegum þriðjudegi. Einhver í vinnunni sagðist ætla taka sér frí og drekka bjór með verkafólkinu og fékk í staðinn "ha? er það?" og mikla undrun fólksins í kringum sig. Skrýtið að vita til þess að Íslendingar í blússandi hagsveiflu taki 1. maí hátíðlegar en Daninn í sósíaldemókratísku ríkisbáknslandi.

Á föstudaginn er "stóri bænadagurinn" í Danmörku (sem stendur ekki fyrir neitt en einhver saga liggur á bak við hann). Kvöldið áður er einmitt út-að-borða-dæmið með vinnufélögunum, og djammplön byrjuð að myndast meðal þeirra þyrstustu í hópnum. Sjáum hvað setur með það.

Nú hafa hvorki fleiri né færri en tveir aðilar bent mér á þessa mynd af þjóðþekktum Íslendingi á förnum vegi. Er Ísland alltaf að minnka?

Fréttablaðið er ekkert að flýta sér að birta það sem ég sendi á það. Ég freistaðist til að skrifa örlítið lengri pistil en síðast í von um að skauta ekki alveg jafngrimmt yfir helstu króka og kima umræðunnar, en það er áhættusamt í blaðagreinaflóði kosningabaráttu upp á birtingu að ræða. Ég vona bara það besta.

Nokkrir auka þúsundkallar birtust á launareikningi mínum um þessi mánaðarmót (einhver yfirvinna og einhver orlofspeningur sem ég vissi ekki að ég ætti að fá) og ég get fullyrt mjög afgerandi að 50% af hverri aukakrónu hverfur jafnharðan í skatt. Why bother then, segi ég bara. Neyðist samt til að skrifa á mig yfirvinnutíma aftur því flextime-reikningurinn minn þolir ekki að hafa meira en 38 tíma á sér við mánaðarmót. Ætli skatturinn refsi mér á næsta ári fyrir allt þetta ótilkynnta fjárstreymi?

Alltaf gleymi ég að sinna mikilvægasta verkefninu á verkefnalistanum mínum: Að velja beibur í Beib dagsins á Dauðaspaðanum. Better get to it!

Sunday, April 29, 2007

Öfund

Stundum öfunda ég þá sem vinna með mér... fyrir að vinna með mér.

Þetta var hrós dagsins. Sjálfshól er ekki bannað (ennþá).

Saturday, April 28, 2007

Lexía

Lífið er dýrt,
dauðinn þess borgun,
drekkum í kveld
og iðrumst á morgun

Takk, Sóley, fyrir þessa vísu!

Brósi

Mig langar í yfirvaraskegg eins og það sem brósi er með núna:

Stærðfræði vs. lögfræði

Stærðfræðingur: Stærðfræðingum vantar lögfræðinga til að skilja lögin, þótt lögfræðingar taki fúlgur fyrir.
Lögfræðingur: Og okkur vantar stærðfræðinga til að leggja saman hvað við eigum að rukka.

Stundum spretta dýpstu sannindi upp úr einföldustu samtölum.

Straumlínulögum sokkaástandsins

Í þeirri von um að ég veiti einhverjum innblástur til að gera hið sama og ég gerði í dag, þá segi ég lesendum eftirfarandi sögu:

Ég kom heim úr verslunarferð með 50 pör af ódýrum svörtum sokkum, og 18 pör af aðeins betri svörtum sokkum (tegundirnar nógu ólíkar hvor annarri til að ég geti auðveldlega greint á milli eftir þvott) og núna rjúka allir aðrir sokkar í ruslið (eða poka sem lendir í einhverri fatasöfnuninni, enda allir sokkar heilir og bráðum þvegnir). Lífið einfaldast til muna. Miðað við sokka þá voru þetta svolítil útgjöld, en á móti kemur væntanlega seinustu sokkaútgjöld mín í langan tíma, og tvímælalaust eyðsla sem er fljót að spara tíma, sem aftur er peningur á morgni virkra daga.

Danska skattkerfið

Ég skil ekki danska skattkerfið og þrátt fyrir tilraunir til að öðlast skilning þá kemur hann ekki. Fyrir mér lítur það ferli að greiða "réttan" skatt svona út:

1) Giska á heildarlaun mín yfir árið (helst giska of mikið).
2) Áætla frádráttarbæra liði (greiðslur í lífeyrissjóði, kostnað vegna keyrslu til og frá vinnu ef vinnustaðurinn er í meira en 25 km fjarlægð frá heimili og maður á bíl, vaxtagreiðslur, vinnustaðanettengingu, athuga hvort vinnusími telst sem plús eða mínus, athuga ef strætókortið telst sem plús eða mínus, osfrv osfrv).
2) Athuga í hvaða skattþrepi tekjurnar eru þá í.
3) Reikna út tekjuskattinn sem passar við þær tekjur.
4) Reikna út leyfilegan frádrátt af skattgreiðslum til að tekjurnar lendi í réttu skattþrepi.
5) Lækka þann frádrátt örlítið ef ske kynni að einhverjar aukatekjur detti inn sem auki heildarskattgreiðsluna yfir árið örlítið.
6) Vona það besta.

Margir Danir leysa þetta mál með því að undiráætla stórlega undir lið 5) og vona að þeir fái í staðinn stóra endurgreiðslu í apríl-mánuðinum á eftir. Ég virðist vera á góðu hliðinni núna því ég fékk endurgreitt, en hver veit hvað gerist á næsta ári!

Íslenska skattkerfið er betra að því leyti að frádráttarhlutinn dregst af launum, ekki af skattgreiðslum. Mér finnst a.m.k. auðveldara að skilja það. Auk þess er þrepakerfið alveg að gera út af við mig þótt mig gruni nú að ég sé varla að fara niður um skattþrep (nema ég hafi misskilið frádráttarhlutann eitthvað sem gerir að ég er að misreikna mig um skattþrep af heildarskattskyldum tekjum, en það þýðir þá ofgreiðsla en ekki vangreiðsla og ég fæ engan aukareikning).

Lausnin hjá mér er sú að vona það besta á hverju ári. Í besta falli er ég að borga aðeins og mikið í skatt en veit a.m.k. að það sem ég fæ útborgað er eitthvað sem ég fæ af mikilli náð yfirvalda að halda eftir. Verra er að fá himinháan reikning vegna vangoldinna skatta. Ég fæ nóg af svoleiðis annars staðar frá.

Tuesday, April 24, 2007

Mandags- og tirsdagsbrok

Mandag:
Heilsan hafði það af að fá bara 4ra tíma svefn (sofa út á sunnudegi = sofna seint um kvöldið). Ég virðist hafa sloppið ágætlega frá vinnudjamminu á föstudaginn ef marka má söguleysið í Dönunum. Það var nú ágæt tilbreyting.

Hvernig hljómar eftirfarandi texti í blaðagrein? "Ólafur Ragnar Grímsson er e.t.v. fluttur á Bessastaði en skoðanasystkyni hans leynast enn á Alþingi Íslendinga og á framboðslistum vinstrimanna, og margir þeirra eru efnilegir kandídatar í næsta Skattmann. Er það vilji íslenskra kjósenda?" Þarf e.t.v. að fínpússa.

Danmörk aftur orðin hlý og fer batnandi. Gott.

Nú velta tilboð um ýmis hópefli inn í pósthólfið. Í seinustu viku var golfhópur myndaður, og núna er búið að plana einhverja leirdúfuskotfimi. Einhvers staðar keyrir einnig vikulegur fótbolti, bjórsmökkun, regluleg vínsmökkun, veiðitúrar, listaverkafélag og ég veit ekki hvað og hvað. Gamaldags bjórþamb og barfílingur með vinnufélögum er mér mest að skapi þegar öllu er á botninn hvolft.

MSN er hið prýðilegasta vinnutæki, ef rétt er farið með. Tvíeggja sverð ef rangt er með farið.

Á föstudaginn í næstu viku er "stóri bænardagurinn" í Danmörku og almennur frídagur þar með. Fimmtudagsdjamm eða nota rólegheitin á föstudeginum í vinnu?

Núna er andúð mín á ríkisvaldinu orðin slík að í hvert sinn sem ég sé mynd af eða les skrif eftir (harðan) vinstrimann þá hugsa ég: "Hvað vill nú þessi einstaklingur skipa mér með ofbeldi og valdboði lögreglu að gera eða ekki gera við sjálfan mig eða mínar eigur?", og kreppi stundum hnefana fast á meðan hugsunin líður hjá. Er sturlun að læðast upp að mér?

Svo virðist sem það sé ekki á allra vitorði að 1. maí er ekki það sem kallast "almennur frídagur" í Danmörku (lesist: dagdrykkja). Í Danmörku er 1. maí frídagur verkamanna sem verkamenn (og gjarnan námsmenn) taka. Verkfræðideildin á mínum vinnustað verður fullmönnuð eins og aðra virka daga og ég gef mér að hið sama eigi við víða annars staðar í Danmörku. Þegar kemur að 1. maí er því ljóst að Íslendingar eru kaþólskari en páfinn.

Tirsdag:
Trúföstum lesendum er bjargað frá miklum skrifum í dag sökum hárrar fundatíðni og mikils hasars á vinnustaðnum.

Monday, April 23, 2007

Hrós dagsins

Hrós dagsins fær afgreiðslumaður (og líklega þar með eigandi) sjoppunnar "minnar", fyrir að lofa því að muna héðan í frá hvaða tegund af reyktóbaki ég kaupi, en einnig fyrir að lána mér tvær krónur um helgina sem ég borgaði daginn eftir.

Aukahrósið fær Guðmundur Magnússon fyrir að minna okkur, með sögulegum dæmum, á eilífðarmótmæli íslenskra vinstrimanna gegn einkaframtakinu.

Saturday, April 21, 2007

Loksins



Úr Fréttablaðinu í gær (PDF, HTML). Kynæsandi djöfull!

Thursday, April 19, 2007

Helgi, já takk!

Ólíkt því sem gengur á gerist á mörgum fimmtudögum þá finnst mér svo sannarlega eins og það sé fimmtudagur núna. Helgin hefur verið vægast sagt sveiflukennd í svefni og vinnudagarnir snúnir eftir því. Ég stefni fastlega að því að taka stutta vinnuviku eftir helgi til að fagna því að þreytuþolsreikningum á 15" olíuflutningsleiðslu og hönnunarskýrslu 8" framleiðsluröri er nú að heita lokið, og þar með lokast vonandi og væntanlega stór kafli í vinnunni að miklu leyti.

Hverjum datt í hug að byrja kalla álver "álbræðslur"? Ef eitthvað þá eru álver álsteypustöðvar og þar fer ekki fram bræðsla á áli heldur einangrun þess (úr fljótandi báxítlausn) og hersla! Kannski menn læknist af notkun þessa orðskrípis þegar umræðuefnið er orðið þreytt og menn byrja aftur að njóta milljarðanna sem sala á ódýrri raforku aflar í gjaldeyri.

Svo virðist sem Svenni sé ekki eina véfréttin meðal Íslendinga í Danmörku (en hann var einmitt mjög nærri því að giska á úrslit boltaleiksins í gærkvöldi). Nú segir nýjasta skoðanakönnunin vegna komandi Alþingiskosninga nokkurn veginn það sama og ég um daginn. Spurning um að taka skrefið til fulls og segja hvernig úrslitin verða á endanum? Ég þori því varla af ótta við að þau verði vinstrinu í hag, Íslandi í óhag, en hvur veit.

Á morgun er mikið vinnudjamm planað, en þó bara óformlegt og á eigin reikning. Ég hlakka mikið til enda er um að ræða afskaplega hressan hóp. Aðeins of hress stundum en þá eru til heyrnatól og hátt stillt þungarokk til að bjarga því sem bjargað verður á vinnudegi þegar Danir eru í góðu skapi og langar að tala mikið og lengi um ekkert og alls ekkert. Dani eftir einn bjór er alveg ótrúlega ólíkur bjórlausum Dana. Varla sambærileg mannesakja sem verður til þegar tappinn rýkur af flöskunni. Ætli það sé ástæðan fyrir meintri hamingju Dana?

Tuesday, April 17, 2007

Menningarmunur?

Svo virðist sem ég sé ekki sá eini sem á í erfiðleikum með franskan kúnna og viðhorf Frakka til hluta (bara vandamál, engar lausnir). Nú er auglýstur fyrirlestur á vinnustaðnum sem ber heitið, "Håndtering af kulturforskelle ved internationalt samarbejde i projekter,- med fokus på Frankrig". Ekki slæm hugmynd segi ég! Meðhöndlum Frakkana eins og þeir eru: Framandi þjóð sem hugsar öðruvísi en annað fólk.

Sunday, April 15, 2007

Nafnið mitt

Eitt af því sem segir mér að ég sé ekki hannaður til að búa í útlöndum er nafnið mitt: Geir. Þetta er nafn sem vefst fyrir öllum nema Íslendingum, Færeyingum og hugsanlega Norðmönnum. Nokkrar útgáfur þess fylgja nú:
"Gæjer" (samsetningin "ei" er af einhverjum ástæðum stundum borin fram sem "æ")
"Gæjeh"
"Gjer"
"Ger"
"Gííjh"
"Gjeh"
Þetta eru bara dæmi um það sem Danir segja. Frakkar, Kanar og fleiri þjóðerni eiga líka sínar útgáfur.

Sumir taka krókaleið og kalla mig "Island" eða koma sér algjörlega hjá því að ávarpa mig með nafni.

Skrýtið hvernig Dönum tókst að klúðra gömlu góðu íslenskunni. Gerir mig þeim mun stoltari af því að bera nafn sem fáir utan Íslands geta borið fram, og sérstaklega stoltur er ég af því að blessaðir Baunanir eiga svona erfitt með það.

Afslöppun sjaldan meiri

Alveg gríðarlega róleg helgi nú senn á enda. Ég hef ekki gert handtak (nema pistlaskrif, yfirlestur og heimilisstörf, drukkið bjór, kók og kaffi, farið í klippingu, horft á Seinfeld og niðurhalað klámi) og náð svefninum mínum og eitthvað af bræðandi sólinni úti og tel mig vera tilbúinn í slaginn sem tekur við í vinnunni á morgun. Hafnaði meira að segja ágætu boði um síðdegisbjór í sólinni, en það var vegna utanaðkomandi aðstæðna.

Laaaangur vinnudagur flesta vikudagana býst ég við! Úff.

Á þriðjudagskvöldið er húsfélagsfundur með langri dagskrá. Ég ætla að mæta og kjósa neitandi við öllum útgjaldatillögum umfram þær sem lúta að viðhaldi sameignar. Engan nýjan leikvöll takk fyrir! A.m.k. ekki á reikning húsfélagsins. Ekki ef ég fæ einhverju ráðið.

Íslenskar skoðanakannanir taka á sig hefðbundið mynstur í aðdraganda kosninga: Sjálfstæðisflokkurinn rýkur upp en mælist of hár miðað við það sem hann mun fá, Framsókn rís hægt og bítandi en mun fá enn meira í kosningum en skoðanakannanir mæla, Samfylkingin stefnir á sitt hefðbundna fylgi sem næststærsti flokkurinn á meðan VG lækkar og lækkar, og afganginn hirða Frjálslyndir. Gamla góða í nýjum umbúðum.

Hvernig stendur á því að margir sem hrópa "einokun" og "fákeppni" og "okur" í tengslum við starfsemi nokkura olíufélaga, banka, tryggingafélaga osfrv. eru oft þeir sem vilja bara að einn aðili sjái um að lækna okkur og mennta?

Hvernig stendur á því að þeir sem vilja að Ísland sé "fjölmenningarsamfélag" og "opið öllum" séu oft þeir sem vilja að ríkið banni með lögum ákveðna starfsemi á svokölluðum helgidögum kristinna manna?

Ætli nú sé komin röksemd fyrir því að Íslendingar eigi að kasta krónunni og taka upp bandaríkjadal? Svo mætti ætla miðað við svipað tal um evruna (þ.e. að af því eitthvað fyrirtæki tekur upp mynt sé það talið til röksemdar fyrir því að sú mynt eigi að koma í stað krónunnar hjá öllum öðrum).

Nágranni minn sem býr beint undir minni íbúðarholu er ansi skrýtinn. Hann fær oft vini í heimsókn og þeir öskra og hrópa og berja í gólf og veggi með reglulegu millibili, hvort sem það er að degi til eða nóttu, um helgi eða á virkum dögum. Mér fannst þetta pínu óþægilegt í byrjun, en núna sé ég kostina við hávaðasaman nágranna t.d. sem merki um að það búa ekki eintómir ellilífeyrisþegar í byggingunni. Einnig að hávaðasamur nágrannir gerir að þegar ég held heimboð (þar sem áfengi er haft við hönd) þá mun enginn taka neitt sérstaklega eftir því, því miðað við nágranna minn getur ekki verið að ég og mitt fólk höfum sérstaklega hátt, og verðum þar með ekki kveikja að kvörtun.

Ég fann "Í skugga hrafnsins" á torrent, og mikið gladdi sú mynd mitt þjóðveldis-áhugasama hjarta. Þessi mynd hefði aldrei verið gerð í dag. Í henni er selur drepinn með skutli og kylfu (þykir vera ófínt í dag), hvalur hlýtur að hafa verið útvegaður líka (það á víst að skaða ímynd landsins), hestum er att út í hestaat (beinlínis ólöglegt), aðalkvensöguhetjan er líka sýnd sem kynvera (þykir ófeminískt í dag), og svona mætti eflaust lengi telja. Ég þakka bara fyrir að það er til eitthvað sem heitir "í gamla daga".

Svo virðist sem sumir frjálshyggjumenn séu orðnir þreyttir á að reyna breyta löndum innan frá og vilja núna stofna ný ríki út á hafi þar sem enginn hefur ekki gert tilkall til yfirráða. Ég sé nú ekki alveg hvernig þetta á að ganga upp, en hugmyndin er athyglisverð engu að síður (bæði sem aðgerð gegn yfirráðum ríkisins og sem tæknileg áskorun).

Nú er liðin næstum því vika síðan frelsi.is var síðast uppfærð, og lesendur þeirrar síðu því búnir að góna á smettið á mér í hverri heimsókn í ansi langan tíma. Hverju veldur, svona rétt fyrir kosningar þegar það er gríðarlega áríðandi að halda sér við efnið svo vinstrið nái ekki völdum?! Tek það fram að ég er ekki búinn að skrá mig í Sjálfstæðisflokkinn þótt ég hafi fóðrað unga sjálfstæðismenn á nokkrum orðum.

Ég hélt að ég hefði einfaldað tilveru mína með því að skipta alfarið yfir í svarta sokka. Því miður eru ekki allir svartir sokkar bara svartir sokkar. Ég þarf að ég held að rýma sokkaskúffuna algjörlega og kaupa 60 pör af sömu gerð samtímis til að ná tilætluðum árangri.

Þetta er orðið ágætt sem sunnudagshugleiðing(ar). Þeir sem eru sólgnir í meira lesefni (eftir mig) er bent á Ósýnilegu höndina, moggabloggið og kannski Fréttablaðið prenti eitthvað í vikunni.

Yfir og út!

Thursday, April 12, 2007

Of heitt til að vera úti!

Fyrirsögn þessarar færslu er enginn misskilningur. Núna er einfaldlega ekki verandi úti. Í dag kann ég betur við mig á kaldri skrifstofu í skugga en úti í glampandi kvöldsól.

7 klukkutíma fundurinn í dag var ekki eins slæmur og ég óttaðist. Sumir Frakkar eru gott fólk, stundum.

"Det er med stor fornøjelse jeg kan meddele dig, at du er blevet udpeget af HR afd./din leder, til at deltage på et intensivt 1 dags kursus i Projektstyring for projektdeltagere."
Bölvun eða blessun? Erfitt að segja. Sennilega eitthvað mitt á milli.

Ojbara hvað er leiðinlegt að lesa yfir illa unnið skjal, troðfullt af villum af öllu tagi (klaufavillum, gleymskuvillum, aðferðafræðilegum villum, hugsunarleysisvillum og kæruleysisvillum). Ég ætla að kvarta á morgun. Hugsanlega i stjóra.

Tæpir fjórar tímar af lífi mínu hurfu í svarta holu vangetu annars. Ég held að slíkt kalli á heimför!

Wednesday, April 11, 2007

Langur dagur

Dagurinn er búinn að vera hinn ágætasti og fjölbreyttasti. Íslendingar sýndu og sönnuðu að þeir sjá ekki vandamál heldur lausnir (hressandi tilbreyting frá hinu franska hugarfari sem er þveröfugt). Maginn reyndar búinn að stríða mér svolítið í dag og senda mig oft á klósettið, og það hefur líklega haft mjög neikvæð áhrif á geðheilsu mína í dag, en vonandi tekur þessi slæmska fljótt enda.

Út að borða í kvöld á kostnað vinnunnar, íklæddur skyrtu og barinn verður sennilega ekki alveg lokaður. Ef það er ekki til að lækna öll mein þá veit ég ekki hvað!

Ég vil benda fjárfestum á þá skemmtilegu staðreynd að hlutabréfamarkaðurinn í Zimbabwe er sá sem sýnir mestan vöxt í heiminum um þessar mundir, eða sem nemur vexti upp á tólf þúsund prósent á seinustu 12 mánuðum. Ekki slæm ávöxtun það!

Svenni verður hér með þekktur sem Véfréttin frá Vanløse eftir spádómsframmistöðu seinustu viku.

Helgin verður víst upp á 20 stiga hita og logn í Danmörku. Ekki svo galin tilhugsun á miðvikudegi.

Monday, April 09, 2007

Annar í hausverk

Óli á mikið hrós skilið fyrir påskefrokostinn í gær. Hausverkur eins og sá sem ég hef núna kemur ekki eftir hvaða sötur sem er!

Páskarnir hafa annars verið hin ágætasta helgi. Náði ekki að sofa 12 tíma að meðaltali á sólarhring en allt að því.

Núna er ég búinn að stofna enn eitt bloggið og nú er bara að sjá til hvað ég held lengi út með það.

Dúllan 2007 er komin í loftið og hvet ég alla til að kjósa! Eftir frekar dapurlega frammistöðu í Music Quiz III er minn þunni haus ákaflega sáttur við einfalda netkosningu.

Þynnkuskita 2. umferð tekur nú við. Þakkir fyrir að deila þeim upplýsingum með umheiminum hér með afþakkaðar.

Friday, April 06, 2007

Reykingar heimilar!


Ég er að hugleiða að prenta út eins og eitt svona merki og hengja upp heima hjá mér. Lýsi samt eftir aðeins meira "pro" útgáfu af því, því ég er bara með mjög frumstæð verkfæri til að teikna í (eins og sést!).

Silvía Nótt, viltu giftast mér?



Ég held að ef það væri ekki fyrir Önnu Lind þá væri ég búinn að finna eiginkonuefnið í Silvíu Nótt.

Föstudagurinn langi er ekkert svo langur

Þessi föstudagurinn langi er ekkert svo langur. Ég er alveg gjörsamlega útsofinn - svo mikið að ég gat hreinlega ekki sofið lengur en 6 tíma í nótt/morgun. Sólin skín en örlítill sjoppuleiðangur leiddi í ljós að það er ekkert voðalega heitt úti. Aðeins of kalt til að vera á stuttermabol í skugganum. Ég hangi því inni, dæli pistlum í allar áttir (dæmi), sötra hina ýmsu vökva til skiptis (kaffi, kók, bjór, vatn) og reyni að ímynda mér hverjir væru til í eitthvað sötur í kvöld ef ég kæmist í þannig skap sjálfur.

Ætli vinstrimenn sem boða "fjölmenningarsamfélag" séu líka þeir einstaklingar sem vilja afnema lögbundna frídagaskyldu á kristnum hátíðardögum?

Ég er að íhuga að ganga í Sjálfstæðisflokkinn (aftur). Er samt á báðum áttum með það. Flokkurinn er að breytast í morkinn miðjuflokk og ungliðahreyfingin er ekki að veita neitt sérstaklega beitt aðhald. Hins vegar hefur margt gott gerst í stjórnartíð flokksins á seinustu árum - margt sem sést ekki endilega í dægurmálaumræðunni. Gallinn við að ganga í Flokkinn er samt sá að þá legg ég óumflýjanlega á mig þá kvöð að verja verk hans, sama hver þau eru. Þá er betra að standa svolítið utan við stjórnmálaflokkastarfsemi og gelta frá hliðarlínunni.

Talandi um stjórnmál: "Í grein sinni stingur Björgvin upp á að kennslubækur fyrir nemendur í framhaldsskólum verði borgaðar af ríkinu. Hann orðar þetta reyndar svo að þær verði ókeypis en ég hef nú ekki mikla trú á að höfundar og útgefendur séu til í að gefa framleiðslu sína.". Atli Harðarson er sniðugur.

Påskefrokost hjá Óla á sunnudaginn er byrjaður að kitla mínar jólabarnstaugar. Fjörið hefst kl 14 og óhætt að fullyrða að ölvun verði orðin þónokkur þegar líður á daginn. Getur einhver, sem þekkir til minna gríðarlegu takmarkana og óþolinmæði í eldhúsinu, gefið mér hugmynd um hvaða matrétt ég get tekið með mér? Ég var að hugsa um að kaupa nokkrar pizzur á laugardaginn, láta þær standa í ísskápnum yfir nótt og láta kaldar pizzusneiðar vera mitt framlag. Er það alveg hræðileg hugmynd? Mér sem finnst köld pizza vera svo gott snarl!

Gauti veit það kannski ekki sjálfur en hann er fyrirmynd hins vinstri-græna nútímamanns, og ég í rauninni líka! Því til staðfestingar get ég nefnt að um seinustu helgi fór ég ekki í sturtu frá fimmtudagsmorgni til mánudagsmorguns. Umhverfisvænni gerist maður varla!

Skattmann frá skaupinu 1989 gæti verið á leið á netið bráðum. Ég bíð spenntur! Óþolinmóður og spenntur!

Einhver seinkun hefur orðið á drekka-páskabjór-úti planinu en þó bara seinkun en ekki aflýsing. Það er mikilvægast.

Wednesday, April 04, 2007

Til hvers?

Getur einhver útskýrt fyrir mér þá áráttu skóla (bæði mennta- og háskóla) núorðið að neyða nemendur til að kaupa þessa forljótu og ofvöxnu grafísku reiknivélar sem geta reiknað runur og raðir, tegrað og ég veit ekki hvað? Ekki bara það, heldur er beinlínis sagt hvaða ákveðnu týpur af þessum reiknivélum eru "leyfðar"!

Hvað er verið að kenna fólki? Er verið að kenna því á reiknivél, eða að reikna? Annað námið tekur tíma af hinu. Annað skilar sér í starfi, hitt ekki.

Ég get a.m.k. sagt ykkur að sem starfandi verkfræðingur (í sæmilega nörduðu starfi) þá dytti mér aldrei í hug að eyða miklum tíma að hamra inn löng dæmi í grafíska reiknivél, og hvað þá að framkalla grafík í slíku kvikindi! Um leið og ég (og samstarfsfélagar mínir, margir með sínar grafísku reiknivélar) er kominn út fyrir einföldustu dæmi þá taka Excel og önnur tölvuforrit við. Ástæðan er ekki bara sú að það er einfaldara að vinna á lyklaborði en takkaborði, heldur einnig að ef einhver ætlar að fara yfir reikningana mína þá er frekar dapurt að hafa ekki betra svar en "ég eyddi korteri í vasareikninum mínum til að fá þetta svar, og get ekki sýnt þér eitt né neitt af því í dag"!

Ef menntakerfið er byrjað að kenna fólki á reiknivélar í stað þess að kenna því að reikna þá er ég gvuðsfeginn því að hafa fetað "gamaldags" menntaveg MR og HÍ þar sem vasareiknar eru aðstoðartæki, tölvur eru vinnutæki og sjálfur reikningurinn aðalatriði.

Monday, April 02, 2007

Mánudagsmolar

Enn einn sólríkur dagur og það bætir óneitanlega eitthvað upp fyrir þreyttan kropp. Lasagne í hádegismatinn gerði góða hluti, og góð skita eftir mat var toppurinn á tilverunni.

Ég þarf að finna upp á einhverri sniðugri húsreglu heima hjá mér ti að innleiða þegar ríkisvaldið afnemur einkaeignarrétt veitingahús- og skemmtistaðaeigenda í Danmörku (eða Íslandi þess vegna). Hvað með að banna bindindi eftir kl 18 á kvöldin, óháð vikudegi? Bannað að koma með undir tveimur bjórum inn fyrir mínar dyr, þar af annar ætlaður gesti og hinn gestgjafa? E.t.v. innleiða skyldutóbaksneyslu, þá annaðhvort í formi reyktóbaks eða reyklauss tóbaks (snus, snuff). Allar hugmyndir vel þegnar. Eitthvað verð ég nú samt að gera!

Vefþjóðviljinn hittir naglann á höfuðið eins og svo oft áður: "Það er svo langt síðan að Íslendingar hafa setið uppi með vinstristjórn, að nú telja margir sig hafa vel efni á munaði eins og þeim að banna hreinlega [fyrirtæki sem skapar hundruðum manna eftirsótt og vel launuð hátæknistörf] að stækka!"

Ég er sífellt að komast meira og meira á þá skoðun að ef hlutir eiga að vera réttir þá sé líklega best að ég taki þá að mér sjálfur og útnefni sérlega samstarfsmenn sem ég treysti fyrir hlutunum. Þetta með að hleypa hverjum sem er að sumu er bara ekki að gera góða hluti fyrir sálarró mína í vinnunni.

Út að borða þann 11. apríl með herramönnum í jakkafötum. Ekki svo galið.

Greyið vinnutölvan mín er alveg hætt að ráða við einföldustu 200 blaðsíðna skýrslur. Sem betur fer getur hún farið að hlakka til að leggjast í helgast stein.

Mikið finnst mér skrýtið það hugarfar að halda því fram að náttúran eigi að "ganga fyrir" velferð mannsins. Sú hugsun, tekin til sinnar rökréttu endastöðvar, er sú sem margir halda beinlínis fram - að maðurinn sé meindýr á plánetunni. Þeir sem taka þennan hugsunarhátt hálfa leið eru ekki alveg jafnróttækir, en vildu samt gjarnan vera það.

Af hverju hætti Slipknot að spila? Nú fyrst er ég orðinn almennilega heilaþveginn af þeim og væri svo pungsveitt til í að komast á tónleika með þeim!

Hvað með að fá smá sólskin á sig í stað þess að fjasa á bloggsíðu? Já ég held það bara.

Hlynur á klósettinu að kúka

Kúka.

Sunday, April 01, 2007

Sunnudagsskvaldrið

Ég er ennþá alveg í skýjunum yfir staðfestingu á flutningum Hauks og fjölskyldu til Danmerkur í sumar. Góðir tímar framundan! (1.4)

2ja tíma tímamunur á milli Íslands og Danmerkur ("sumartími") truflar óneitanlega samskipti mín við eyjaskeggja.

Mikið er ánægjulegt að sjá sósíalista auglýsa forsýningu á bandarískri kvikmynd. Ég hélt að eingöngu óskiljanlegar evrópskar kvikmyndir sem enginn nennir að horfa á fengju slíka meðhöndlun.

Stundum er bara gaman að sjá orð rekin ofan í kok stjórnmálamanna: "Nú munu augu manna væntanlega beinast að uppbyggingu stóriðju norður á Bakka við Húsavík og suður í Helguvík í umdæmi Reykjanesbæjar. Á báðum þessum stöðum, einkum Húsavík, er atvinnuástandið mun síðra en í Hafnarfirði og á báðum stöðum stendur til að reisa álver nokkuð fjarri íbúðarsvæðum. Ef íbúarnir á þessum stöðum lýsa yfir vilja sínum til þess að álver verði reist þar, væri það þá til marks um íslenska þjóðin sé fylgjandi stórfelldri álvæðingu? Með röksemdarfærslu Ögmundar, og þeirra sem túlka úrslitin í Hafnarfirði með álíka hætti og hann, yrði svarið afdráttarlaust já."

Í dag hélt ég kvennadaginn hátíðlegan og þvoði föt og ryksugaði gólf og vonandi næ ég líka að vaska upp í kvöld.

Vill einhver hughreysta mig og segja mér að skoðanakannanir séu nú byrjaðar að benda til að stjórnin sé að tryggja sig betur og betur í sessi? Ég segi það a.m.k. hreint út að ef Íslendingar kjósa yfir sig vinstristjórn (einhver stjórn án Sjallanna) þá flyt ég ekki til Íslands fyrr en hún er sprungin (eins og þær gera allt að því án undantekninga, en því fyrr því betra).

Haukurinn heim!

Þá er það staðfest - Haukurinn minn flytur heim til Danmerkur í sumar og ekki bara það, hann verður samstarfsfélagi minn (Marketing Assitant, helvíti gott)! Velkominn heim Haukur og velkominn um borð! Leiðinlegt fyrir ykkur á Íslandi að missa Hauk en þið hafið nú haft góðan tíma með honum núna og komið að mér aftur!

Sólin er annars hátt á himni í dag eins og undanfarna daga og engin leið að leiða hugann frá bjór (eða kók eða hvað sem er sem er kalt) út á svölum, með góða bók í hendi.

Velkominn heim Haukur!