Wednesday, January 31, 2007

Miðvikudagur til mikillar þreytu

Mikið var erfitt að fara á fætur í morgun eftir létta ölvun og leiðinleg úrslit í skemmtilegum handboltaleik í gær. Mikið var erfitt að halda fókus í vinnunni. Reyndar tókst það ekki. Hef líklega kostað meira fyrir atvinnurekandann í dag en ég aflaði honum.

Litla systir kemur til Baunalands á morgun og verða þá gestaskipti á hótelinu. Rúmfataskipti, athuga klósettpappír- og handklæðastöðuna og athuga hvort neyðarbirgðir af mat séu til staðar. Allt undir stjórn.

Neisko, var Hillary Clinton harður (og sæmilega sannfærandi) talsmaður þess að senda bandaríska hermenn inn í Írak? Jæja, hún skipti a.m.k. um skoðun, og heppilega svo rétt fyrir kosningar til bandaríska forsetaembættisins. Batnandi mönnum er best að lifa. Meira að segja svolítið diss á Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. Ætli það sé enn í gildi hjá henni? Líklega enn á móti skattalækkunum. Erfið kona að átta sig á, en hvaða kona er það ekki?

Mikið fékk ég létt verkefni um daginn: Skrifa eitthvað neikvætt um R-listann sáluga. Af nægu að taka og ekki einu sinni nauðsynlegt að setja fram efnið á einhvern sérstakan hátt til að gera það krassandi, jafnvel sláandi. Spurning dagsins: Hve mörgum sinnum yfir fjárhagsáætlun fór ljósleiðaraævintýri Reykjavíkur (lesist: hvaða tölu þarf að margfalda kostnaðaráætlunina með til að fá út kostnaðinn)? 3 sinnum, 13 sinnum eða 23 sinnum?

Ætli brennsla mannsins á olíu og gasi verði líka gerð að ástæðu pólskipta á Jörðinni? Ætli vangavelta af þessu tagi hætti að vera talin fáránleg eftir 5 ár eða 10?

Bush eykur herafla Bandaríkjamanna í Afganistan! Nú hlýtur borgarastyrjöldin að taka kipp þar í landi.

Ýmislegt bendir til að ég sé á leið á tónleika með Stuðmönnum og Sálinni í Köben um miðjan mars í vægast sagt fríðu föruneyti. Hressandi tilhugsun.

Superbowl-kvöld í allt öðruvísi fríðu föruneyti er einnig hressandi tilhugsun.

Hvað svo með þorrablótsball Íslendingafélagsins í Köben í lok febrúar? Ég er ekki frá því að það sé ágæt hugmynd.

Næsta góða hugmynd: Fara í háttinn. Langur dagur á morgun.

Monday, January 29, 2007

Endurnýjun

Glöggir menn taka sennilega eftir einhverjum útlitsbreytingum á þessari síðu. Síðan er sem sagt komin inn í næstu kynslóð Blogger.com og enn sem komið er er ég bara mjög hrifinn af því sem ég sé.

Ég ætla að prófa viðhalda tenglalista yfir fólk og sjá hvernig það gengur. Helstu vefsíður sem ég heimsæki eru einnig afhjúpaðar lesendum.

Happy spanking.

Ekki-nöldrið

Seinasta færsla var "nöldrið". Þá er komið að fagnaðarlátunum!

Hótel Geir hýsir nú vænan pilt, hugsjónarmanninn Lárus, á meðan hann kemur sér af götum Kaupmannahafnar og inn í eitthvert húsnæðið. Ljómandi gestur það og hillan mín einu kartoni og líter af vodka ríkari fyrir vikið.

Ákaflega ánægjuleg sending barst mér í pósti og lesefni því nægt í ófyrirsjáanlegan tíma. Eitthvað þarf samt að komast á blað sem afleiðing lestursins en það verður ekkert vandamál.

Núna er vika í að ég liggi heima með hausverk, ógleði í maganum og óljósar minningar af Superbowl-leik næturinnar. Ég hlakka til!

Spurning kvöldsins: Fæst borð á O'Learys annað kvöld? Þarf ég þá ekki að grafa upp svörtu peysuna með íslenska skjaldamerkinu sem hefur vermt botninn á skúffunni síðan Íslendingur á Moose hrópaði "heyyyy ííííslendingur" til mín fyrir að verða ári síðan? Gott ef ég hef ekki haldið mig frá Moose líka síðan þá.

Daði er lentur. Gott mál. Þungur og góður endir á alveg ljómandi degi.

Nöldrið

Ég spurði samstarfsfélaga hvað mun gerast þegar hunsaðar verða nýjar reglur sem banna reykingar í verksmiðju atvinnuveitanda míns til að koma til móts við ný "reykingalög" í Danmörku sem taka gildi í byrjun apríl. Svarið var í formi sniðugrar athugasemdar:

Det er lettere at få tilgivelse end tilladelse.

Sniðug athugasemd því hún er svo sorglega sönn. Oft er léttara að fá fyrirgefnu en leyfi fyrir einhverju, og er það ekki eitthvað sem vekur til umhugsunar? Starfsmönnum verksmiðjunnar verður sagt að þeir megi ekki reykja. Þegar þeir svo brjóta gegn því þá fá þeir líklega fyrirgefnu synda sinna og eftir nógu mörg atvik verður bara byrjað að líta framhjá reykingabanninu. Það er eitt að fólkið í þægilegu og vel launuðu skrifstofuvinnunni vilji reyklausan vinnustað en þegar fílabeinsturninn er notaður til að skima yfir vinnustaði annarra er hætt við að niðurstaðan verði eingöngu íbúum fílabeinsturnsins að skapi. Ég spyr bara; hvaða ónæði kemur af reykingum á 10.000 fermetra verksmiðjugólfi þar sem lofthæðin er vel yfir 10 metrar? Eitthvað meira en sem nemur ósætti allra viðstaddra við óvelkomið bann sem enginn óskaði eftir?

Saturday, January 27, 2007

Globalisation is Good - Johan Norberg on Globalization

Föstudagskvöld með Geir
Bara smella hér fyrir örlítið betra útsýni.

Wednesday, January 24, 2007

Ungur enn!

Ætli ég láti ekki eftir mér eins og eina bloggfærslu núna. Lítið hefur verið um krassandi hráefni í spekingslegar færslur. Dagarnir rúlla framhjá með hóflegu kæruleysi af minni hálfu og febrúar heldur áfram að nálgast. Ekkert mikið um það að segja.

Ég keypti mér vetrarhelda skó um daginn í tilefni snjókomu og slabbs. Þá veit alþjóð það.

Vonandi hefur enginn staðið mig að því að skrifa að skoðanir annarra séu "argasta þvæla" á pólitískt vefrit eða í blaðagrein. Skoðanir sumra eru argasta þvæla, en oft er vænlegra til árangurs að benda á hvers vegna í stað þess bara að fullyrða það.

Svo virðist sem ég sé enn nógu ungur til að tilheyra "ungfrjálshyggjunni" - sjá hér. Húrra! Mér líður eins og einhver sé að spurja mig um skilríki í Ríkinu - ungum á ný! Eða er það einfeldingslegt af mér?

Loksins sé ég skynsamleg skrif (a.m.k. skemmtileg) um miðstöð ungra hryðjuverka- og ólátaunglinga í Kaupmannahöfn, Ungdomshuset: "Nej, disse unge voldelige personer kan få et hus på Grønland eller i det mindste flyttes væk fra boligområder. De har jo gang på gang vist, hvordan de ødelægger og smadrer ting og lemlæster vores gode og dygtige ordensmagt."

Á morgun mun ég sitja ásamt vinnuhópi sem ég tilheyri á fundi allan daginn. Átsj. Ég held að það sé ekki til kaffivél sem getur haldið mér með meðvitund svo lengi. Rúsinan í pylsuendanum er hittingur hópsins um kvöldið - fyrst á bar og svo veitingahúsi - þar sem áfengi og matur verður sett á reikning fyrirtækisins.

"Men nu vil jeg hjem. Jeg gider ikke mere." Ég geri orð Ole samstarfsmanni að mínum hér með!

Monday, January 22, 2007

Dæmigerður Dani

Í dag er fyrsti snjódagurinn, smá frost og örlítil hálka. Hvað gerist? Danir klessa bílana sína! Ekki ódæmigert fyrir Baunana. Allt samgöngunet þeirra fer í algjöra óreiðu á fyrsta hálkudegi.

Saturday, January 20, 2007

Letiblogg á laugardegi

Eitthvað hefur farið lítið fyrir skrifum hér í vikunni. Andlega er vinnan, óreglulegur svefn og, fyrir daginn í dag, íbúð í rústi búið að sjúga úr mér orkuna. Ekki hefur rok og rigning hjálpað til heldur. Stemmingin er samt ágæt enda febrúar að nálgast og sá mánuður byrjar með hvelli!

Af laugardegi að vera hef ég gert ótrúlega mikið. Gott hjá mér. Best að halda óbreyttu striki á morgun.

Vinnufélagi minn, giftur maður og margra barna faðir, átti gullmola um daginn: Jöfn skipting á heimilisstörfunum snýst ekki um að gera jafnmikið og konan, heldur jafnmikið og hún, plús allt sem maður gerir sjálfur [t.d. ístandsetja baðherbergi sem hann var nýbúinn að gera]. Hlátur fylgdi þessari athugasemd að sjálfsögðu, auk þess sem ég og annar vinnufélagi þökkuðum fyrir að vera lausir við litla handjárnið sem gullinn hringur á fingri táknar.

Nyhedsavisen er tvímælalaust besta ókeypis-blað Danmerkur og ég segi það ekki bara af því Íslendingar eiga meirihlutann í fyrirtækinu sem á blaðið. Blaðið er til dæmis duglegt að bjóða ólíkum sjónarmiðum á síður þess til að deila beint um það sem oft er bara viðtekið og samþykkt hugsunarlaust (eitthvað sem Danir eru gjarnir á að gera). Dæmi: Fair trade er langt fra fair versus Fairtrade - så absolut fair.

Hvass vindur er eitt það mest óþolandi veðurástand sem ég veit um. Urgh!

Ég er ekki viss um að allir viti það, en ég er anarkisti í hugsjón, hlýðinn þegn í veruleika. Sár veruleiki en það besta sem ég get boðið upp á.

Mælikvarði pólitískrar rétthugsunar hlýtur að springa í komandi forkosningum Demókrataflokksins til forsetaefnis vegna komandi forsetakosninga þar í landi. Í boði eru nokkrir hvítir, miðaldra karlmenn, hvít kona og þeldökkur maður (væntanlega). Ef ég gef mér að hvítu, miðaldra karlmönnunum verður sópað í burtu hið snarasta af því þeir eru, 1) hvítir, 2) karlmenn, 3) bæði 1) og 2), hvor þeirra sem eftir stendur mun þá vinna? Repúblikanar ættu að framkvæma eitt stykki skák mát með því að stilla upp 1) þeldökkum einstakling, 2) konu, 3) einstakling sem sameinar 1) og 2). Þá væri það endanlega tryggt að málefni og hugsjónir væru endanlega vikin fyrir pólitískum rétttrúnaði.

Spurning kvöldsins: Tekst mér að ná nokkrum vinnutímum á morgun, eða tekst mér að sofa út í eitt? Bæði betra, en því miður ekki hægt.

Monday, January 15, 2007

Fyrstir í heimi

Úr grein á innraneti vinnunetsins, einnig að finna í kynningarefni fyrirtækisins:
NKT Flexibles has developed significantly since the company in 1967 developed the first commercial flexible pipe in the world. The technology forming the basis of this novel and innovative product derives from great experience in subsea cable manufacturing. In NKT’s own "history book" you will find the story about how the company in the 1960’ies was contracted to lay a pipeline between Iceland and the Vestmanna Islands. As the pipe was for drinking water and since it was to be laid in the salty ocean neither copper alloys nor could traditional water pipes be used. That resulted in the development of the first commercial flexible pipeline in 1967.
Ísland, best í heimi!

Wednesday, January 10, 2007

Ábending til ferðalanga

Svo virðist sem flugmiðaútsala Iceland Express hafi náð athygli margra. Ég fagna því ákaft og Hótel Geir hlakkar mikið til!

Hér er hins vegar ábending til ferðalanga (í náinni og fjarlægri framtíð):
Ef þú ert reyklaus, vinsamlegast kauptu (í Leifsstöð!) karton af Marlboro Lights (hvítar umbúðir), og helst þær stuttu (sem eru EKKI merktar sem "Marlboro 100's"). Ég borga í dönskum krónum, í reiðufé, annaðhvort við afhendingu eða skömmu síðar (og eftir atvikum fyrir afhendingu).

Einnig að kaupa hámarks leyfilegt magn af sterku áfengi, helst hreinum vodka (helst bláum Smirnoff eða Eldur-ís) eða gini (Bombay í blárri flösku eða Tanqueray sem er í grænni flösku), og ég kaupi það sem verður eftir eða er ekki drukkið á meðan á dvölinni stendur (ólíklegar aðstæður en fræðilega mögulegar). Ég greiði að sjálfsögðu fyrir í reiðufé og hófleg álagning er ekki litin hornauga.

Mikilvægt að hafa í huga að tollinn þarf að kaupa á Íslandi því á Kastrup er ekki móttöku-fríhöfn eins og á Íslandi.

Fyrirfram þakkir!

Tuesday, January 09, 2007

Handahófskenndar hugleiðingar

Danir eru skrýtinn flokkur fólks. Núna er sem sagt verið að plana "team building" í mínum hóp/deild/grúppu, og ekki virðist eiga spara neitt til! Einn hópurinn fór til dæmis til Íslands í helgarferð og setti þar með "kostnaðar"þakið við svona lagað í nýjar hæðir. Minn hópur virðist vera tala um skíðaferð til Frakklands í eina helgi. Meira að segja mjög fljótlega, jafnvel innan tveggja vikna. Ótrúleg kvikindi. Hvernig ætli rauðvín smakkist á skíðum? Kannski kemst ég að því fljótlega.

Mér tókst einhvern veginn að krækja mér í augnsýkingu á vinstra auga. Bara væg en samt óþægileg. Sem betur fer er ég snillingur í að fá apótekara til að koma í stað lækna og afgreiddi læknahluta lyfseðilsins með einu símtali sem svo varð að tölvuskeyti á apótekið. Húrra fyrir því að komast hjá biðstofubið á læknastofu!

Ég er víst hluti af hópnum "einfalt fólk" og kvarta ekki yfir því. Stundum verð ég samt voðalega flókinn (og þó) og þá kvartar flókna fólkið. Erfitt stundum að halda jafnvæginu í þessum blessaða netheimi (og raunar í öllum heimum).

Fyrir þá sem hafa áhyggjur af ísbjarnarstofni Norðurheimskautsins þá er ég með huggunarorð fyrir ykkur öll: Ísbirnir eru ekki í útrýmingarhættu!

Hvernig stendur á því að á hverjum einasta fjárans degi er einhver "frétt" um það hvað þessi eða hinn hópur Dana er stressaður og að springa á limminu á meðan miklu hraðara, dýnamískara og kraftmeira Ísland býður ekki upp á eina slíka frétt á rúmum tveimur vikum? Hvernig getur þjóð með 25% fólks á "vinnualdri" utan vinnumarkaðar verið svona stressuð? Kenning stjóra: Danir setja svo strangar kröfur á sjálfa sig, t.d. að allt eigi að vera fullkomið - húsið, fjölskyldan, vinnan osfrv, og það höndla bara ekkert allir. Er til betri kenning?

Little Britain er fyndið.

Árátta Dana fyrir "hóp prófum" er mér alveg ofviða að skilja.

Hérna er danska ríkisútvarpið að segja að frá og með 1. janúar þurfi að vera tölvu-, internets-, farsíma- og útvarpslaus til að losna við afnotagjöldin. Hið nýja danska kerfi er sniðugt fyrir íslenska vinstrimenn í leit að fleiri leiðum til skattheimtu.

Iceland Express heldur sína árlegu afmælisútsölu á flugmiðum á morgun og hvet ég alla sem hyggjast kíkja út fyrir 31. mars að skella sér á hana! Fyrir sjálfan mig passar tímabil útsölumiðanna ekki ýkja vel svo ég sleppi því alveg að reyna að þessu sinni.

Brósa óska ég til hamingju með nýja starfið og sigur í orustu í stríði hans við borgina.

Sunday, January 07, 2007

Ahhh... home sweet home

Þá er ég kominn aftur í Holuna mína í Danmörku eftir þægilegustu flugferð ævi minnar (takk Daði!). Á núna aðeins meira tóbak og áfengi en áður, harðan disk troðfullan af efni (bless bóklestur!), brauðrist sem býr til Mikka mús merki á ristaðar brauðsneiðarnar (takk amma!), meira og minna öll föt mín þvegin og samanbrotin (takk mamma!), heilsan í blessunarlegu ólagi eftir gríðarskemmtilegt gærkvöldið (takk Burkni!), í nýju náttbuxunum mínum (takk systa!), og halla mér aftur í sófann með þráðlaust lyklaborð og mús á vömbinni (takk brósi!) með bjór í einni og smók í hinni.

Get ekki kvartað.

Á morgun tekur rútínan við á ný. Keypti 2 kg af nammi fyrir vinnufélagana og kominn með nógu mikið af pappírum til að tala við skattinn um frádrátt af skattstofni vegna greiddra vaxta árið 2006 (eitthvað sem ég hefði viljað vita fyrr að væri hægt!).

Núna er ég loksins orðinn nógu feitur til að geta sagt fitubrandara um annað fólk, þökk sé góðum og yndislega óhollum mat á Íslandi í tvær vikur. Ljómandi segi ég.

Komið hefur í ljós að ég er líklega best geymdur í útlandinu ef ég ætla mér að senda fleiri greinar um stjórnmál í íslensk dagblöð. Kannski maður láti berja úr sér þessa pólitísku áráttu einhvern daginn en enn sem komið er er nóg af henni eftir.

Gestir eru þegar byrjaðir að skrá sig til leiks fyrir vormisseri árið 2007 og ekkert nema gott um það að segja. Hótel Geir er alltaf opið fyrir gott fólk!

Yfir og út!

Thursday, January 04, 2007

Danmark Survivor Guide

Nokkrum sinnum hef ég verið spurður að því hvernig stuttbuxnastrákur eins og ég get búið í "sósíalísku" landi eins og Danmörku, með háum sköttum og miklu skrifræði. Spurningin er vandasöm því Danmörk er ekki eins sósíalísk og margir halda, til dæmis miðað við Ísland, en auðvitað eru skattar háir og lestarkerfið ónýtt og það allt. Ég ætla samt að reyna svara spurningunni með örlítilli upptalningu. Tónninn er súr og bitur en það er bara til að ná fram ákveðinni stemmingu.

Danir eru einfeldingar: Danir hafa mikið álit á sjálfum sér, telja sig vera með besta velferðarkerfið, öflugasta atvinnulífið, liprustu almenningssamgöngurnar, góða spítala og skóla, fallegasta miðbæinn, bestu kaffihúsin, fallegt tungumál, gjafmildustu þróunaraðstoðina, bestu orkumálastefnuna og svona má lengi telja. Ekkert af þessu er satt, en að Daninn trúi því lýsir honum svolítið. Danir eru einfeldingar. Með því að hafa það stanslaust í huga (sérstaklega þegar dagblöðin eru lesin) er hægt að umbera hina dönsku þjóð, jafnvel hlægja að henni.

Danir vilja gleyma hversdagsamstrinu: Dananum finnst almennt svo leiðinlegt að vinna og sinna hinu daglega hversdagslífi að hann vill helst aldrei vera án aðgengis að áfengi og tóbaki til að brjóta upp líf sitt. Fyrir Íslendinginn mig kemur þetta fram í ódýrara áfengi (að jafnaði þriðjungur íslensks verðlags) og tóbaki (um helmingsverð m.v. Ísland) sem er mjög jákvætt fyrir Íslending eins og mig. Við vitum jú öll að fyrir Íslendinginn er bara tvennt að sækja í Danmörku: Barnabætur og ódýrara áfengi.

Dönum leiðist útlendingar: Þótt atvinnuleysi sé lítið í Danmörku núna, og uppgangur í hagkerfinu mikill, þá gleyma Danir seint stjórnarárum vinstrimanna þar sem hvert starf skipti máli og góðæri voru skammtímauppsveiflur á langri niðursveiflu. Þeir líta á útlendinga sem aðskotadýr sem vilja "stela" störfum, og þurfa sífellt að minna sig á að það er nóg af störfum í Danmörku núna, jafnvel meira en Danir geta séð um einir. Þeir minna mig oft á að ég er ekki Dani, og ég svara í sömu mynt og minni á að þeir eru ekki Íslendingar. Svoleiðis svar virkar fínt á Danann því þá veit hann að mér gæti ekki verið meira sama, og virkar á mig til að minna mig á uppruna minn því annars er hættan sú að ég danskist of mikið upp og geri mig þar með óalandi á íslenskum vinnumarkaði í framtíðinni.

Danmörk er stutt frá Íslandi: Ágæt leið til að tolla í Danmörku til lengri tíma er að rifja upp að það er stutt til Íslands þar sem starf í banka eða á verkfræðistofu bíður manns (sic). Þar með hverfur öll innilokunarkennd og hugsun um að maður sé "fastur" í útlandi. Danmörk er líka stutt frá meginlandinu ef svo færi að atvinnuleysi dytti niður fyrir 15% hjá ungu fólki einn daginn, en ég geri nú ekki ráð fyrir því á minni lífstíð.

Danmörk er fjölmennari en Ísland: Einn stærsti kostur Danmörku fyrir mig er sá að Danmörk er fjölmennara land en Ísland og mun auðveldara að hverfa í fjöldann (þetta gildir auðvitað um næstum því öll lönd í heimi). Á Íslandi þarf ekki annað en að reka við á skemmtistað og alþjóð veit, og í litlu landi er alveg hræðilega auðvelt að verða "þekktur" fyrir eitthvað, og lenda þar með á milli tannanna hjá fólki. Í Danmörku er hægt að komast upp með miklu meira en á Íslandi, og Íslendingar virðast almennt meðvitaðir um að það sem gerist í útlandinu helst í útlandinu. Margar af mínum bestu minningum frá Danmörku eru verndaðar af þeim þagnareið!

Lýkur þar með minni upptalningu. Ég vona að ég hafi náð að halda tóninum súrum og bitrum!

Tuesday, January 02, 2007

2007

Seinasta helgi ársins var hressandi. Fullur af hori og slími, hausverk og oft iðraverkjum reyndi ég að hella í mig áfengi við eins mörg tilefni og með eins mörgu fólki og heilsan leyfði. Ekki toppframmistaða en í góðu lagi.

Núna er ein helgi eftir á Íslandi og nokkrir virkir dagar fyrir hana. Stefna virku daganna er að halda uppi 10 tíma svefnmeðaltali á sólarhring að minnsta kosti og skoða vinnupóstinn í mesta lagi einu sinni á dag. Þeir sem vilja gera tilraun til að rífa mig úr sófanum er auðvitað velkomið að reyna það og mega alveg búast við jákvæðum viðbrögðum en frumkvæði er í algjöru lágmarki, því miður (eða sem betur fer?). Framkvæmdaglöðum, ofvirkum einstaklingum ætti að reynast þetta létt verk, svo dæmi sé tekið.

Engin áramótaheit strengjast hjá mér frekar en fyrri ár. Eitt finnst mér samt vera ljóst: Ég mun ekki eyða öllum mínum fríum á Klakanum á þessu ári. Jólin jú, og mjög líklega eitthvað stopp á Íslandi í sumar, en ekki mikið meira en það.

Ég ætla mér t.d. á Ólafsvöku í Færeyjum, heimsækja til frænku mína í Berlín og jafnvel skreppa til Svíþjóðar ef góð ástæða til þess kemur upp. Eru það ekki ágæt áramótaheit?

Svo er líka að vona að fólk haldi áfram að láta sjá sig í Köben, gista á Hótel Geir og drekka bjór með mér. Hver ætlar að gera það að sínu heiti?