Monday, April 28, 2008

Og þá hefst hasarinn....

Vorið er tvímælalaust komið. Sólin skín núna frá degi til dags, hitastigið fer hækkandi og dagarnir orðnir langir en það er ekki hið eina. Á morgun negli ég niður tímabil Íslandsdvalar minnar í sumar (mjög sennilega lok maí til byrjun júní), um næstu helgi er löng helgi í Litháen, og kannski fæ ég bráðum staðfestingu á því að ég sé á leið til Færeyja í lok júlí.

Hróaskeldu er ég ennþá að hugleiða. Engin niðurstaða enn sem komið er.

Af fréttum hef ég eitthvað lítið. Vinnudjamm hér og sötur þar. Vinnan ekkert að róast. Svefninn tekur nú við - óþolandi óvæntur frídagur (uppstigningardagur) skýtur upp kollinum á fimmtudaginn og því vissara að hafa vinnudagana langa fram að því, sem hefst með góðum svefni sem senn hefst.

Yfir og út!

Saturday, April 19, 2008

Örfærsla

Svona fyrir sjálfan mig að muna og aðra að sjá þá hér með eftirfarandi upplýsingar um flakk á mér á næstunni:
- Noregur núna frá sunnudagskvöldi til mánudagskvölds.
- Litháen 2.-5. maí
- Kannski og vonandi Ísland í lok maí - lengd Íslandsvistar óviss enn
- Kannski og vonandi og líklega Færeyjar í lok júlí í eina viku

Óvæntar heimsóknir til Köben mega gjarnan lenda á milli þessara tímabila! :)

Sunday, April 13, 2008

Undarlegt seinasta föstudagskvöld

Föstudagskvöldið mitt var vægast sagt furðulegt, eða í það minnsta athyglisvert. Lok vinnuviku hófust, venju samkvæmt, með því að hitta góða vinnufélaga í kjallara vinnustaðar mins og hefja helgina á bjór eða tveimur. Sötrið hófst kl 15 og ekkert annað stóð til að ljúka því um 5-6 leytið og halda heim á leið.

Fólk kom og fór en þegar klukkan var að ganga sex vorum við fimm drengir eftir, allir úr minni grúppu (Pipe Design Group). Núna varð umhverfið orðið aðeins verndaðara, bjórarnir orðnir margir og málbeinið því byrjað að losna. Næstu fimm til sex klukkutímar urðu að miklu sötri (einhver fann skotflösku) og umræðum um, já vitaskuld, vinnuna! (Smá hliðarumræður um hver er ríðulegust á vinnustaðnum og sitthvað fleira í þeim dúr, en aðallega vinnutal.)

Í ljós kemur að piltar þessir eru meira og minna alveg drulluósáttir við stjóra, vinnustaðinn, skýrslu- og ritgerðavinnuna, launin, forgangsröðun, yfirstjórn fyrirtækisins, aðbúnað á vinnustað og ég veit ekki hvað. Meira að segja ég fékk væna sneið sem umsjónarmaður eins "templatesins" okkar (rammi að verklýsingu fyrir verksmiðjuna sem þarf að fylla út fyrir hverja hönnun sem fer í framleiðslu - frekar leiðinlegt plagg get ég alveg játað).

Kvöldið endaði niðrí bæ en skot, mikil bjórneysla og lítill svefn eru ekki bestu vinir mínir svo ég entist ekki lengi þar - hélt því heim á leið í kringum miðnætti minnir mig.

Ég kem út úr þessu óplanaða, óformlega sötri með góðum drengjum með rosalega áttavilltan haus. Er allt svona ómögulegt þarna? Er farið með okkur verkfræðingana eins og skít á meðan verkefnastjórarnir geta unnið stutt og hafa öll völd og baða sig í vellystingum og hrósi viðskiptavinanna?

Ekki hef ég upplifað vinnustaðinn á sama hátt (og mun takmarkaðra þegar ég hef haft álíka upplifanir). Mér finnst við fá mikið frelsi en því fylgir mikil ábyrgð. Ósætti þarf að nefna við stjórann, og ef hann hlustar ekki að taka málið hærra í valdastiganum. Ef ekki er hlustað þá er atvinnuástandið (fyrir vélaverkfræðinga með reynslu) hér í landi einfaldlega þannig að uppsögn er sáraeinfaldur kostur.

Ekki ætla ég að stimpla allt sem ég heyrði sem rangt og ósanngjarnt. Fyrirtækið sem ég vinn hjá er að stækka gríðarlega hratt og verkefnaálagið hefur vaxið jafnt og þétt frá því ég byrjaði þarna. Kannski þarf bara ákveðinn "þroski" að gera vart við sig sem aftur leiðir til að fyrirtækið byrjar að nýta verkfræðinga í verkfræðivinnu og ritara í ritaravinnu. Kannski, en kannski ekki. Það er erfitt að vera verkfræðingur með mörg mismunandi verkefni á sinni könnu - marga verkefnastjóra, marga kúnna og allskonar verkefni sem ekki var hægt að sjá fyrir en þarf engu að síður að leysa. Kannski þurfi að kyngja einhverju af því slæma til að fá eitthvað af því góða. En kannski er hægt að breyta alveg um hugsunarhátt og stokka rækilega upp í verkaskiptingu á vinnustaðnum.

Nú veit ég ekki hvort einhver innbyrt gremja og reiði hafi fengið útrás sem muni á mánudaginn hafa afleiðingar. Kannski fellur allt í ljúfa löð eins og ekkert sé. Kannski fer ég að upplifa uppsagnir í kringum mig því fyrirtækið skellir skollaeyrum við öllum athugasemdum. Sjálfur er ég hálfáttavilltur en sé samt enga ástæðu til að taka sem heilögum sannleik tuð manna sem segja ekki til um gremju sína fyrr en í fjarveru stjóra og eftir 10 bjóra í vernduðu umhverfi, án þess samt að ég vilji stimpla allt tal þeirra sem vitleysu.

Mörg "kannski" hér, en það segir sennilega sitt um áhrif þessa kvölds á haus minn. Sjáum hvað setur þegar mánudagurinn keyrir allt á fullt á ný.

Thursday, April 10, 2008

Nokkur orð um Dani

(Uppfært hlaupandi)

Danir eru vægast sagt áhugaverður þjóðflokkur. Nú verður gerð tilraun til að sýna af hverju.

Það sem Danir halda um sjálfan sig:
- Þeir eru umhverfisvænir; vindmyllur eru góðar, bensín er vont, allir í lestir og strætó því það er umhverfisvænt! CO2-skattar eru góðir fyrir umhverfið
- Gæði ofar öllu; hönnun í fyrirrúmi, merkjavara á húsgögnun og hjólum, eingöngu það besta!
- Góður matur; lífrænt ræktað, grænmeti og ávextir, ekkert rusl!
- Dýrin eru vinir okkar og við förum vel með þau þótt við borðum þau
- Við erum umhverfisvæn og förum með tóm batterí í endurvinnslu
- Danir búa í "velferðarsamfélagi"; þeir ríku og aflögufæru skattleggjast þungt og þeir sem minna mega sín þiggja aðstoð "samfélagsins"
- Danir halda að himinháir skattar séu nauðsynlegir og góðir í velferðarsamfélagi, séu a.m.k. ekki "of" háir

Það sem Danir eru í raun og veru:
- Á mínum 200 manna vinnustað erum við ca. 5-6 sem notum strætó og lestir, 5-10 sem hjóla, og hinir eru á einkabílum (ýkjur en ekki fjarri sanni). Þeir hata hátt bensínverð
- Ódýrt er gott; IKEA er veldi, Fötex og Bilka og Nettó og Superbrugsen eru út um allt en Irma ekki
- McDonalds, perka-pizzur og skyndibiti fóðra Dani að langmestu leyti, offita er "faraldur" í dönskum blöðum
- Danskir grísar alast upp í dauðagildrum og eru teknir af lífi í tonnatali þegar þeir drepast næstum af sjálfsdáðum í svínastíum danskra svínabúa
- Danskir ruslahaugar taka við næstum því hverri einustu rafhlöðu Dana, bæði þeim sem er hent beint í ruslið og hinum sem eru sett í endurvinnslugáma
- Danir kvarta iðulega undan útborguðum launum og yfir því hvað sé tilgangslaust að vinna yfirvinnu því það sé allt étið af "skattefar"

Ég útvíkka þennan lista sennilega þegar ég man eftir fleiri atriðum, en þau eru mörg!

Monday, April 07, 2008

Velkomið sé hið danska vor

Með þreytu í haus og kók í maga verður nú gerð tilraun til að skrifa á skiljanlegu máli.

Hausinn er þreyttur því ég svaf bara í rúma þrjá tíma í nótt. Ég fór seint að sofa því ég var ekki þreyttur. Ég var ekki þreyttur því ég svaf út í gær. Ég svaf út í gær því ég var þreyttur eftir laugardagsnóttina. Ég var þreyttur eftir hana því ég vakti lengi. Ég vakti lengi því ég var að sulla í áfengi með Óla, Svenna og Daða og á tímabili dönskum stelpum og einni íslenskri á Tattúveruðu ekkjunni. Þreytu dagsins er því hægt að rekja til einhvers mjög jákvæðs!

Sullaði raunar á föstudagskvöldið líka sem gerir þessa helgi að tvöfaldri sullhelgi - nokkuð sem er orðið alltof sjaldgæft á seinni mánuðum! Sullið á föstudaginn fór fram í vodka og Red bull - blanda sem er orðin alltof sjaldgæf í seinni tíð! Fleiri tvöfaldar sullhelgar og fleiri vodka og Red Bull sull - voráheit mitt til mín!

Annars hefur fátt á daga mína drifið, en vissulega gott. Meistaradeildin er loksins byrjuð að snúast um að góð lið slái út góð lið og það leiðir til bjórhittinga með góðum drengjum. Einstaka sinnum eru Ósk og Beta á vegi mínum sem er einnig mjög jákvætt. Vorið er komið (og heldur vonandi) og þykkur jakki því kominn á háan snaga og þunnur jakki á lágan. Tvímælalaust mjög jákvætt það.

Vörubílstjóra-vegtálmar Íslands eiga sér ekki stað í Danmörku. Á móti kemur að með hlýnandi veðri vaknar (atvinnumanna-)atvinnulausa aumingjapakkið úr vetrardvala og fer í götustríð við lögreglu (beint) og saklausa vegfarendur (óbeint). Hvernig tekur hin danska þjóðarsál á skrílnum? Hún gefur honum hús á kostnað skattgreiðenda. Jibbíkóla! "Velferðarríkið" er ræningjaríki og hananú!

En að öðru. Hvernig stendur á því að fólk þrífur ekki upp skítinn eftir hundana sína? Sennilega því það er leiðinlegt að beygja sig niður og þegar hundfjandinn á bara að fá sinn litla labbitúr þá er mest áríðandi að ljúka honum af sem fyrst. Það er annað sem ég skil ekki: Hvernig stendur á því að fólk stoppar þegar hundur þess skítur á gangstéttina, týnir skítinn upp í lítinn, svartan hundaskítspoka, bindur fyrir - og skilur pokann svo eftir á jörðinni?! Eftir allt þetta vesen með að hreinsa upp kúkinn ofan í þar til gerðan poka þá hefði ég haldið að það væri minnsta málið að halda á pokanum að næstu ruslatunnu. En nei. Svo virðist ekki vera. Sumt skil ég ekki. Ég játa það hér með (og enn og aftur).

Annars skynja ég gríðarlega biturð og súrleika í skrifum mínum núna. Ég er ekki í vondu skapi. Síður en svo. Hins vegar fór dagurinn í vinnunni svolítið í taugarnar á mér. Þolinmæði dagsins er uppurin eftir eilífar og endalausar þreytandi spurningar ónefnds vinnufélaga míns í dag og því ekki þér, minn kæri lesandi, að kenna.

Súrleikann þarf ég bara að sofa úr mér, og það tekur bráðum við!

Góðar stundir!