Thursday, July 24, 2008

Færeyjar nálgast!

Drengirnir komnir til Köben - flug í fyrramálið - Færeyjar í viku. Ég hlakka til! Þetta verður ofsi í öllum skilningi orðsins!

Það verður líka ágætt að sleppa úr vinnunni í dag og ekki bara af því hitastigið er að banka á 30 gráðurnar. Aldeilis ekki. Um leið og ég er búinn að móttaka póst með ákveðinni skýrslu, ræða hana við forstjórann og sennilega halda smá símaráðstefnu með viðskiptavini þá þarf ég sennilega á miklu magni áfengis til að komast á jörðina aftur.

Ísland í seinustu viku var ákaflega ljúft. Vinnuvikan var í rólegri kantinum í Vestmannaeyjum og helgin blaut og sólrík. Gerist það betra?

Hvað um það. Ég verð fjarri tölvu næstu daga en ekki síma. Þá veit alheimur það.

Góðar stundir!

Friday, July 18, 2008

Monday, July 14, 2008

Ísland fram á sunnudagssíðdegi

Er á útleið (frá Hótel Plaza, Aðalstræti) en rétt næ að henda því inn að ég hef fengið Íslandsferð mína framlengda fram á sunnudagssíðdegi og býst því fastlega við því að einhver djammplön verði föndruð fyrir föstudags- og laugardagskvöld!

Verð í miðbæ Reykjavíkur í kvöld, mánudagskvöld, og á fimmtudagskvöldið, en með þeim fyrirvörum sem fylgja því að vera í vinnuferð og þekkja ekki öll plön mín.

Er í stuttu máli laus og liðugur frá því ég tjékka mig út af hóteli á föstudaginn og þaðan út helgina.

Símanúmerið mitt á Íslandi er hið sama og alltaf.

Farið vel með ykkur, og sjáumst (vonandi)!

Saturday, July 12, 2008

Ófétið fangað af myndavél


Mynd í boði frænku minnar.

Nýtt Íslandsplan

Ferðaplön á vegum vinnunnar eiga það til að breytast hratt með stuttum fyrirvara og á það til dæmis við um Íslandsferðina. Hún flyst nú um einn dag og nær því frá mánudagssíðdegi til föstudagssíðdegis, þar sem gist er í Reykjavík á mánudags- og fimmtudagskvöldið.

Þið eruð hér með upplýst.

Ég er megaþunnur eftir vinnudjammið og vona því að Gauti verði ekki of harkalegur við mig í kvöld og nótt!

Frænka mín og vinkona hennar gerðu danska karlmenn alveg óða í gærkvöldi. Ég hef ekki séð annað eins aðdráttarafl síðan ...tjah ....ég hef ekkert hliðstætt dæmi!

"Jeg elsker dig" fékk ég að heyra í gær án mjög mikilla frekari skýringa. Það var athyglisvert.

Ég hef ekki verið heima og vakandi á opnunartíma Netto í um 2-3 vikur. Núna er ég heima og vakandi og tæpur klukkutími eftir af opnunartíma Netto. Ljómandi.

Núna þarf ég, sem viðskiptavinur Landsbanka Íslands búsettur í útlöndum, allt í einu að byrja nota auðkennislyklaógeðið! Svei þeim!

Hið árlega hótunarbréf LÍN vegna tekjutengdu afborgunarinnar í september er komið. "Ef þú gerir ekki eins og við segjum þá getum við skv. 10. gr. laga 21/1992 mergsogið þig þurran án þess að þú getir nokkuð í því gert!" Já, gott hjá ykkur. Af öllum skuldunautum mínum í gegnum tíðina þá hef LÍN verið sá óhagganlegasti og verstur í viðmóti. Af öllum skuldum sem ég hef haft hlakka ég mest til að losna við skuldina við LÍN.

Gauti er hetja fyrir að reyna vekja mig á laugardegi daginn eftir föstudagsfyllerí hjá mér. Daði veit hvað það getur verið erfitt (ómögulegt?). Núna veit Gauti það kannski líka. Því miður.

Fleira er ekki í fréttum í bili. Farið vel með ykkur!

Tuesday, July 08, 2008

Svo það sé skjalfest

Hér er að finna a.m.k. eina rangfærslu og eitt annað atriði sem er til merkis um takmarkaða heimildaöflun fréttamanns. Þá er það skjalfest!

En úr því bloggerinn er opinn þá er að henda út frásögn frá seinustu dögum og þéttu plani næstu daga svona til að hafa það lifandi í minningunni:

Kom heim eftir Hróaskeldu rétt fyrir miðnætti á sunnudagskvöldið (eftir drykkju allan daginn) - svaf aðeins lengur og náði hádegismatnum í vinnunni á mánudeginum - var eins og draugur í vinnunni en þó ekki alveg gagnslaus - hitti Herstein og frú beint eftir vinnu og drakk smá bjór með þeim (undir mótmælum til að byrja með) - kom heim rétt fyrir miðnætti og svaf ljómandi vel þrátt fyrir óendanlegan hita og raka í Danmörku - náði 12 tíma vinnudegi í dag og er núna bæði vakandi og heima hjá mér í fyrsta skipti síðan ég man ekki hvenær (sunnudagskvöld seinustu viku kannski?).

Fjörið endar ekki við þetta. Á morgun hitti ég Herstein og frú aftur beint eftir vinnu og stefni á smá sötur með þeim. Venjulegur vinnudagur á fimmtudaginn og flug til Parísar á fimmtudagskvöldið. Fundur í París á föstudaginn, flug heim um kvöldið og beint á vinnudjamm og hitting með Gauta sem verður þá staddur í Köben. Sennilega hitti ég eitthvað meira á þann ágæta mann um helgina og á sunnudagskvöldið hefst fjögurra daga ferð til Íslands með heimferð seinnipartinn á fimmtudaginn, og hvað þá? Fríkvöld? Það væri sosem ekkert óvinsælt, en sjáum hvað setur.

Yfir og út og farið endilega betur með ykkur en ég fer með mig!

Thursday, July 03, 2008

Barnið mitt er komið til Eyja

Mikið er ánægjulegt að sjá að barnið mitt er komið til til Íslands og fær nú brátt að leggjast á hafsbotninn milli lands og Eyja. Ég get ekki sagt að þetta hafi verið mitt léttasta verkefni hjá NKT Flexibles, en það var athyglisvert og lærdómsríkt. Nú er að sjá til hvernig gengur að leggja hið ágæta sveigjanlega rör og svo verð ég viðstaddur þrýstiprófun þegar sá dagur rennur upp. Svít.

Í dag tek ég stuttan vinnudag, kem við í bænum og heima til að kaupa og pakka og held svo til HRÓASKELDU og ég hlakka ekki lítið til! Sólin er í hitakasti og ég er þyrstur!

Yfir og út.

Tuesday, July 01, 2008

Á ferð og flugi

Ég ætti e.t.v. að bæta einhverju við seinustu færslu sem var hent inn á annasömum vinnudegi.

Planið er sumsé að ég fljúgi til Íslands sunnudagskvöldið 13. júlí, gisti á einhverju hótelinu í Reykjavík, fljúgi til Vestmannaeyja á mánudeginum, verði þar viðstaddur lokafrágang og þrýstiprófun á nýrri vatnsleiðslu milli lands og Eyja, komi mér til Reykjavíkur á miðvikudeginum (ef engar seinkanir verða), og fljúgi svo til Danmerkur aftur seinnipartinn á fimmtudaginn.

Ekki mikill tími fyrir heimsóknir og hittinga eins og gefur að skilja, en ég eygi smugu eins og planið lítur út í dag!

Ferðalögin enda ekki þar. Hugsanlega þarf ég að vera í París á föstudaginn í næstu viku. Þó bara í einn sólarhring. Það sleppur alveg.

Hróaskelda bankar á allar dyr núna en ég kemst ekki fyrr en á fimmtudaginn einhvern tímann eins og staðan í vinnunni er núna. Ekki alveg óskastaðan með það en ég er að pressa og pressa og eitthvað hlýtur að gefa eftir bráðum! Já, ég veit alveg að vinna er bara vinna og það allt - ég á bara erfitt með að láta svoleiðis tal bíta að ráði í vikum sem þessari.

Færeyjar eru greiddar og niðurtalningin byrjuð. Jess!

Danmörk er svínslega heit núna. Úff.

Fleira er ekki í fréttum.

Vinnuferð til Íslands

København til Reykjavik

Fly 1

søndag 13. juli 2008

bekræftet

Afrejse:

14:00

København, Danmark -

Copenhagen Lufthavn

, terminal 3

Ankomst:

15:10

Reykjavik, Island -

Keflavik International

Reykjavik til København

Fly 1

torsdag 17. juli 2008

bekræftet

Afrejse:

16:10

Reykjavik, Island -

Keflavik International

Ankomst:

21:10

København, Danmark -

Copenhagen Lufthavn

, terminal 3