Tuesday, October 31, 2006

Það reddaðist

Það fyrsta sem ég sá í metró-stöðinni í morgun var tilkynning til farþega (á rúllandi skilti): "Strætóar, lestir og metro keyra samkvæmt tímaáætlun í dag." Já vissara að setja þetta á tilkynningatöfluna því annars mundi fólk halda að það væri eitthvað að!

Sæta spænska stelpan í "system design" er svo ágæt og svo virðist sem hún komist til og frá vinnu með sama hætti og ég. Ágææææætt.

Utanáliggjandi harður diskur kostaði mig næstum því geðheilsuna í morgun. Sem betur fer fann ég kæruleysisgírinn og síðan hefur allt verið í himnalagi.

Borat í gærkvöldi var góð skemmtun og félagsskapurinn líka svona ágætur.

Fleira er ekki í fréttum í bili.

Sunday, October 29, 2006

Laugardagur til .. rigningar?

Kominn með sýningargrip fyrir J-dag. Gott mál.

"Á sunnudag er spáð rigningu, en ég set samt fyrirvara á það því danir segja daginn vera rigningardag þó aðeins rigni bara í 10 mínútur yfir daginn." Nákvæmlega!

Núna á ég öskubakka (í fleirtölu) og strigaskó og sitthvað fleira. Gott. Senn á ég dýnu og gestasæng og kodda og það allt. Gott. Maður getur kannski bráðum byrjað að kalla þetta heimili sitt.

Neits, ég er ekkert orðinn gamall neitt.

Ég fyrirlít ritstjórnarpartý (sumra).

Mig vantar "porn-buddy" - einhver sem fær forgang á að komast í tölvu manns að manni látnum til að eyða út klámi og öðru vafasömu áður en fjölskyldan fær hana í hendurnar. Trúnaði auðvitað heitið og það allt. Í hvaða kvikmynd sá ég eitthvað sem fjallaði um eitthvað svipað?

Helgarplanið heldur nokkurn veginn: Bilka, þvo, vinna, svefn og djammleysi. Ágætt. Næsta helgi verður gjörólík. Nóvember verður gjörólíkur.

Núna byrjar sama gamla sagan. Sjallar segja að það séu hlutfallslega margar konur í efstu sætunum á sínum framboðslista, og aðrir benda á að margar þeirra séu tiltölulega neðarlega. Þá umræðu ætla ég alveg að láta framhjá mér fara, viljandi.

Urgh, ég og mitt gullfiskaminni! Sem betur fer fann ég upp kerfi í vinnunni til að tækla það. Því miður er það eini staðurinn sem ég hef fundið leið til að tækla það. Fyrir vikið getur framkoma mín við fólk oft virst hrokafull, fjarlæg og áhugalaus. Sem er ekki endilega alltaf viljandi.

Hvenær kemur Brain Police til Köben?.

Wednesday, October 25, 2006

Já, Danmörk vantar verkfræðinga

Úr tilkynningu á innranetinu í vinnunni:
NKT Flexibles-medarbejdere der henviser en erfaren kandidat (mindst 2 års erfaring som ingeniør eller med anden for funktionen relevant erfaring), som efterfølgende ansættes, får udbetalt et engangsbeløb på 10.000 kr. Beløbet er skattepligtigt efter gældende regler.
Sem sagt, ef ÞÚ ert verkfræðingur með minnst 2ja ára reynslu, býrð á Stórkaupmannahafnarsvæðinu og vilt vinna hjá þessu fyrirtæki (sem sagt, með nördum)skaltu endilega hafa samband!

Tuesday, October 24, 2006

Langblogg (bara fyrir þolinmóða og/eða geðtruflaða)

Það er eins og alltaf: Ef mikið gengur á og vel gengur þá eykst orkan til fleiri hluta og enn meira gerist og gerist vel. Húrra fyrir því þótt þreytan í skrokknum sé mikil.

Svo virðist sem litla heimasíðan mín sé orðin að viskubrunni googlaranna þegar kemur að ýmsum háværum deiluefnum í samfélaginu. Ljómandi.

Þeir sem sækja kvikmyndir, tónlist og sjónvarpsþætti á netinu án þess að hika við það, en hafa samt slæmt samviskubit yfir því, ættu að smella sér á þetta lesefni. Svolítill doðrantur að lesa en a.m.k. áhugaverður doðrantur (segi ég).

Á fimmtudagskvöldið ætla nokkrir vinnufélagar að hittast á netkaffihúsi og spila Battlefield. Að spila með eða ekki, það er spurningin.

Skondið: "Það er látið eins og það breyti einhverju hverjir kjósa í prófkjöri Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi. Og í því felst sennilega að einhverju skipti hvað flokksmenn kjósi í prófkjörinu. Það er sem sagt látið eins og niðurstaða prófkjörsins breyti einhverju um röðun á listann." (#)

Tengill dagsins: Heimasíða danska kommúnistaflokksins.

Núna er atvinnuveitandi minn líklega að fá verkefni í Norðursjó sem heitir "Skarv" og hvorki ég né Færeyingurinn í deildinni minni eigum að vinna í því. Skandall!

Hvurslags að vera boða mann í bridge núna þegar maður er kominn á brækurnar einar fata, byrjaður að geispa og úti rignir eins og hellt sé úr fötu. Skamm!

Myndir af frambjóðendum eru alltaf annaðhvort kjánalega eða skondnar, þó yfirleitt hvoru tveggja.

Undur og stórmerki! Ögmundur Jónasson og pólitískt verkfæri hans, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, lýsir yfir stuðningi við skattalækkanir! Þetta eru undur og stórmerki og nú er lag að lækka og jafnvel fella niður alla aðra skatta og vörugjöld á þjónustu og allan annan varning sem fæst í íslenskum verslunum. Svo virðist sem lausnarorðið sé ekki "frelsi" heldur "lækkun á útgjöldum íslenskra heimila". Hið sama á væntanlega líka við um skatta á tekjur af hverju tagi, og sparnað, og flugferðir, og áfengi og tóbak. Frasinn sem virkar er fundinn og því lag að ganga á sem flesta skatta og hægt er á meðan tíðarandinn leyfir.

Alltaf gaman að sjá Ísland nefnt í dönskum fjölmiðlum. Ég get sagt ykkur (þér?) það að ímynd Danans af Íslandi er vægast sagt... sérstök, m.a. vegna frétta eins og þessarar og auðvitað stanslausra uppkaupa Íslendinga í Danmörku auk hinna vel þekktu sagna af náttúrunni, kvenfólkinu og djamminu.

Eitthvað fyrir dömurnar að kíkja á/lesa daglega.

Eitthvað fyrir Daða.

Hressandi: "We do, however, get the added bonus that pregnancy gives to most women. And no, I'm not talking about the glow..." (#)

Svona til að vera í takt við tíðarandann þegar kemur að umræðuefni: "Students of government can hardly be surprised that a government program ends up creating the very opposite of what it purported to accomplish. Welfare increases poverty, the minimum wage boosts unemployment, prohibition promotes the banned behavior, and, just as we would expect once we understand the logic, the war on terror has created and encouraged the rise of more terrorism and the ideology that backs it." (#)

Hvalveiðar eða ekki eru ekki pólitískt deilumál, heldur eitthvað allt annað, segi ég. Mér finnst a.m.k. ekki að hvalveiðar ættu að vera bannaðar.

Ég sé fyrir mér ónefnda vinnustofu sem vettvang koddaslags og blautbolskeppni. Ég held ég hafi rétt fyrir mér

14 ára frænka mín notar orðatiltækið "ekkert mál fyrir jón pál" sem mér finnst svolítið magnað því stúlkan var örugglega ekki fædd þegar Jón Páll var meðal lifandi manna (a.m.k. ekki með meðvitund um umhverfi sitt sem telur). Íslenska er svo ágætt tungumál.

Lexía dagsins: Ekki fara í doktorsnám í Bandaríkjunum. Maður gæti byrjað að stunda Járnmanns-keppnir og klifra fjöll. Reyndar er hvort tveggja (doktorsnám og Járnmanns-keppni) jafnólíklegt hjá mér en allur er varinn góður. Flöskugangur er meira við mitt hæfi (eða var það áður en ég hætti að vinna hann).

Endir.

Saturday, October 21, 2006

Skrifað frá skrifstofunni

Mér tókst að drullast á vinnustaðinn, hreinsa skrifborðið af smotteríi (mun hraðar en ég reiknaði með) og auka líkurnar á góðri byrjun á vinnuviku á mánudaginn. Ljómandi.

Atlas Shrugged, 1200 blaðsíðna bók, á hvíta tjaldið? Af hverju var enginn búinn að segja mér frá því!? Þetta er bók sem hreinlega breytti því hvernig ég lít á samfélagið (sama hvað fólk annars segir um rithöfundinn sjálfan, heimspeki hennar almennt og önnur verk hennar). Aðalhlutverkið ekki illa skipað: Angelina Jolie! Gott því hún er flott, vont því hún mun ekki geta annað en dregið athyglina frá boðskap myndarinnar, sem er e.t.v. sá að "A is A", sama hvað fólki svo sem finnst um það.

Í dag birti Mogginn litla grein eftir mig. Húrra fyrir því!

Friday, October 20, 2006

Föstudagur til friðar

Heima á föstudagskvöldi eins og planið segir til um. Ég er samt farinn að sakna Barbanna og held ég verði að gera eitthvað í því fljótlega. Er þetta ekki ágæt afsökun til að svíkja edrú-loforð og fagna því að ég mun ná a.m.k. 5 vinnandi klukkutímum á morgun? Líka stutt að fara sem skemmir ekki (þó aldrei fótgangandi).

Fokkings klóett, hættu að sturta niður (án þvingunar)!

Í dag heyrði ég hvorki meira né minna en þrjá Dani tala um að þeir hefðu fengið eða ætluðu að fá iðnaðarmenn til að gera eitthvað fyrir sig, t.d. smíða gluggaramma, tengja rafmagn eða gera við þak. Í öll skiptin spurði ég, innblásinn af herferð yfirvalda gegn svartri vinnu, hvort þeir hefðu borgað iðnaðarmönnunum svart. Allir sögðu já. Tilviljun? Kannski ég skrifi blaðagrein: "Könnun segir: 100% Dana segjast hafa greitt vísvitandi fyrir svarta atvinnustarfsemi", og kem þannig engum á óvart nema stjórnmálamönnum. Úrtak er heldur aldrei gefið upp í dönskum fréttum svo það spillir ekki.

Dagurinn í dag byrjaði á miklum pirring út í Dani. Þeir geta verið algjör sauðnaut. Bókstaflega vilja þeir bara drekka kaffið, ekki hella upp á það. Líkingarlega gildir þetta líka um þá - þeir vilja borða kökuna en ekki baka hana. Kannski eru þeir viljandi að búa sér til umkvörtunarefni? Allir vita jú að Danir þrífast á bakstungum og tuði.

"Ekkert kaffi!"
Gettu af hverju, Danadjöfull!

"Lestin er alltaf sein!"
Auðvitað er lestin sein þegar fólkið sem vill inn stendur fyrir þeim sem vilja út (fyrir utan þann augljósa seinkunarvald að ríkið á lestarfélagið).

"Skattar eru of háir!"
Auðvitað eru skattar alltof háir þegar alltaf er verið að heimta að skattfé sé notað til að borga hitt og þetta.

"Innflytjendur aðlagast ekki!"
Hver aðlagast þegar honum er borgað fyrir að sitja heima og bora í nefið? Ekki arabar og ekki Binni og yfirleitt enginn.

Jæja nóg um það.

Dexter = snilld.

Ég var að lesa snilldarskrif um danska strætóa sem ég gæti, með örlitlum breytingum á smáatriðum, alveg sagt í fyrstu persónu líka. Eina leiðin til að lifa af í dönskum strætó er að vera annaðhvort öskrandi ölvaður eða hálfdauður úr þreytu.

Einn af hverjum tíu verkfræðingum í Danmörku er lagður í einelti, segir í fréttum. Ég og Óli vinnufélagi urðum því að vera extra duglegir að leggja í einelti í dag til að tryggja að hlutfallið sé örugglega til staðar á okkar vinnustað líka. Danir tækla vandamálið eins og önnur vandamál: Með því að halda langa fundi, hella áfengi í fólk og tala út í eitt þar til næsta fyrirsögn nær athyglinni. Að leysa vandamálið er yfirleitt látið liggja á milli hluta.

Hvernig er hægt að kalla skattahækkun "leiðréttingu"? Jú, með því að sitja í sæti móttakanda skattgreiðslanna. Dæmi: Fulltrúi æskulýðssamtaka kallar á að "leiðrétting verði gerð á fjárveitingu til æskulýðssamtaka" (úr aðsendri grein í Mogganum á fimmtudaginn). Oj bara.

Mikið er þetta eitthvað bitur færsla? Enginn yndislestur en á móti kemur að biturðin skrifast í burtu og er því ekki til staðar að færslu lokinni.

Gott ef eðaleinstaklingarnir Arnar og Ingigerður frænka eru ekki nágrannar í Bryggjuhverfinu. Heppið hverfi.

Netto er svo ágæt verslun. Vodkaflaska, kassi af bjór, matur fyrir viku, hreingerningarvökvi einhver; 290 danskar krónur. Gott að vera fyllibytta í Danmörku.

Mangó er ekki bara ávöxtur. Magnó er líka mjög sláanlegur rass.

George og Ringo eru vinir mínir.

Mig langar í veggspjald, u.þ.b. 60 cm breitt, hæðin er aukaatriði, og þarf að vera flott. Uppástungur? Búinn að eignast tappatogara sem kemur í veg fyrir að mig langi í fleiri veggspjöld á næstunni.

Thursday, October 19, 2006

Óli vinnufélagi

Þessi færsla er mikið til skrifuð í vinnutíma og er sjálfsagt eintómt froðusnakk að mati flestra. Hún hefur það þó sér til ágætis að vera að mestu laus við pólitík!

Mikið getur góður samstarfsfélagi gert vinnustað að skemmtilegum stað. Verkefnishópurinn sem ég tilheyri er "lokaður" af í stórri skrifstofu með fjórum plássum og ég og Óli (Ole) yfirleitt einir í henni enda hin tvö dugleg að skiptast á að vera í fríum, veikindum (sinna eða barna sinna) og erindagjörðum (vinnu- og óvinnutengdum). Mikill og súr einkahúmor er byrjaður að þróast á milli mín og Óla og greyið annað fólk sem stingur nefinu hingað inn. Miskunnarlaus kaldhæðni, brandarar sem spanna allt sem ekki má segja, hárbeittar móðganir, vinnustaðaeinelti og hreint og klárt bull og lygi um sig og aðra er uppistaðan í 90% okkar samskipta. Afgangurinn fer svo í að vinna ákaflega vel saman og vera nokkurn veginn á svipaðri bylgjulengd með það sem þarf að gera til að vinna fyrir laununum.

En ég er einmitt með kenningu um hvað veldur: Pilturinn veit að húmor er nauðsyn alls staðar og að það þýðir ekkert að taka sig of hátíðlega þótt maður taki vinnuna hátíðlega. Hann Óli er líka gagnrýninn piltur, bæði á torskildar ratleiðir í gegnum frumskóg pappírsvinnu og ferla sem óhjákvæmilega fylgja olíu- og gasiðnaðinum, og tortryggni á fjárþorsta og fyrirferð ríkisvaldsins; að mínu mati mjög skyldar efasemdir á yfirborðinu (þótt pappírskröfur olíufyrirtækja annars vegar og ríkisins hins vegar séu af MJÖG ólíkum toga og gjörólíku eðli).

Hann hefur einnig vit á því að halda sér frá föstu sambandi við kvenfólk. Hugsanlega liggja samt aðrar ástæður á bak við einhleypni hans en mína - ég kýs að vera laus við reglulegt samneyti við hitt kynið (sosem enginn þrýtingur í áttina að öðru) en hann hefur ekki gefið neitt upp um það, hvorki af eða á.

Óli er hress og minnir mig á margt sem ég sé í hinum ágætustu vinum mínum. Er það ekki hreinlega uppskriftin að góðum vinnufélaga? Einhver sem minnir mann á vini sína? Það held ég. Ég á heldur ekki leiðinlega vini. Ef Óli minnir mig á vini mína þá er hann skemmtilegur.

Tuesday, October 17, 2006

Vefritid.is

Það tók vefritið Vefritid.is hvorki meira né minna en eina viku að koma sér á (sjá) og svo af (sjá) leslista mínum. Þá veit alþjóð það.

Sól og blíða í Baunalandi

Óneitanlega hressandi dagur í dag. Margir af "hausunum" í haustfríi og mikill hasar og margar spurningar og eilífar truflanir. Fyrir vikið er einbeiting á bak og brott og eirðarleysi fylgir í kjölfarið.

2 GB í innra minni eru óneitanlega betri en 0,5 GB.

Umhverfisstefna Vinstri-grænna er einföld: Mannaverk eru alltaf verri en ekki-mannaverk. Alltaf. Næstum. Oftast. Ekki þegar á að byggja tónlistarhús fyrir 10+ milljarða. Bara þegar á að reisa virkjunina sem skaffar því rafmagn.

Ég er ekki frá því að af því ég var svona allt að því edrú eiginlega mest alla helgina þá hafi ég minnkað svefnþörf mína á virkum dögum, jafnvel umtalsvert. Það væri athyglisverð uppgötvun.

Ég nenni ekki í IKEA en neyðist eiginlega til þess. Djöfull.

Monday, October 16, 2006

Maður dagsins

Maður dagsins er BHM, hinn sparsami. BJM þökkuð ábendingin.

Sunday, October 15, 2006

Sunnudagsblaðrið

Ég sveik mikil og háfleyg loforð við sjálfan mig um helgina. Næsta föstudag kl 16 ætla ég að slökkva á símanum og ekki kveikja aftur fyrr en kl 9 að morgni laugardags! En steikin var góð og takk kærlega fyrir það.

Skrýtið þegar fólki lætur skattalækkun ríkisstjórnar D+B koma sér á óvart þegar ekkert annað stjórnarmynstur hefur nokkurn tímann í Íslandssögunni lækkað skatta (án þess bara að taka upp eða hækka aðra). Raunar frekar dapurlegt að hugsa til þess. Ef um ranga sagnfræði er að ræða þá er ég meira en lítið til í að vera leiðréttur.

Þörf mín fyrir sjónvarpstæki hefur aldrei verið minni en því miður er heilalaust glápið að í stað heilaleikfimi almennt.

Ef stjórnendur Smáralindar gera samning við öryggisgæslufyrirtæki (í krafti "fulltrúavalds" síns til að gera slíkan samning), en búðareigandi einn í Smáralind telur sig geta varið sína eigin verslun (eða trúir ekki á tilvist stelandi kúnna), ætli viðkomandi búðareigandi muni kalla öryggisgæslumennina "erlendan her" í hans landi? Her sem þurfi að koma á brott hið fyrsta!

Katrín og kaka var hin prýðilegasta blanda.

Kósket í jólapakkann í ár.

Ég vildi að ég gæti en get því miður ekki sótt 53 GB skjalið "Jenna Jameson Collection" en torrentspy listar það hjá sér (að vísu með fáum seeds og helling af leech) og ég hvet hvern sem hefur pláss til og þolinmæði til að slá til og svo koma til mín!

En nóg af sunnudagsblaðri. Góða viku!

Thursday, October 12, 2006

Þá er það fimmtudagsfærslan

Núna byrja piltar að mæta hvað og hverju til að spila bridge í Holunni. Ég hef blendnar tilfinningar til þess - hér er allt á rúi og stúi, föt hanga til þerris á miðju gólfi, tómar bjórflöskur út um allt, ég í þreyttari kantinum og kann þar fyrir utan ekki neitt í bridge. Á móti kemur að Óli er hress og fallegur maður.

Ónefnd stúlka er á fullu við að skrifa nafn sitt á svarta listann minn. Kvenlesendur, hvernig losnar maður við eina af ykkar kyni? Ég treysti á A.L.K. hér umfram aðrar, að öðrum ólöstuðum (jafnvel í tölvupósti/á MSN ef upplýsingarnar eru trúnaðarmál).

Ég skil ekki gagnrýni á skattalækkanir á matvælum. Fyrir utan hið augljósa að þær lækka matarverð, hvernig stendur þá á því að fólk telur að eyðsla opinberra embættismanna á launum Íslendinga sé minna þensluvaldandi en eyðsla launþega á eigin launum? Þeir sem andmæla Kárahnjúkum af þeirri ástæðu að þeir telja ekki framkvæmdina arðsama ættu sérstaklega að velta þessu fyrir sér því óarðsæm framkvæmd af þessari stærðargráðu hefði tæplega verið ýtt úr vör án þrýstings frá ríkinu og þar með hefðu 100 milljarðar af erlendu lánsfé aldrei náð að streyma inn í hagkerfið og auka peningamagn og þar með ýta undir verðbólgu.

Morgunblaðið hefur verið fóðrað með hugleiðingu um þetta efni. Ekki vel skrifaðri hugleiðingu en nóg til að veita mér ákveðna útrás. Fylgist með!

Ónefndur einstaklingur veldur því að ég er með samviskubit yfir því að vera "bara" í 100% vinnu og engu öðru að ráði. Ekkert fullt nám, engin formennska í félagi, engin vettvangsferð erlendis, engin regluleg skrif í blað, engin seta í nefnd. Bara 100% vinna. Hvað er til ráða? Ég sakna vetursins á Smyrilsvegi: 100% lokaverkefni í svo ljómandi ágætum félagsskap, 40-60% nám í kúrsum, mikil þátttaka í einu ágætu stjórnmálatengdu félagi, og já auðvitað að flytja inn, sjá um og skemmta erlendri stúlku þótt ég sakni þess hluta minna.

Vinnudagurinn í dag var góður og mikill hasar og meira að segja gómsæt súkkulaðikaka og árangur og niðurstöður og það allt. Ég hlýt að mæta á svæðið á laugardaginn og ná nokkrum tímum í ró og næði með hressandi verkefni sem datt inn í dag. Þá veit alþjóð það. Yfir og út.

Monday, October 09, 2006

Annar í þynnku nú á enda

Þá er helgin að baki og því enginn Hlynur til að kúra saman með lengur. Heilsan hefur verið betri en hún jafnar sig eftir því sem á líður. Þurrkur er á planinu út mánuðinn! Seinasta "lausa" helgin hjá mér í nóvember var að bókast af hinni ágætu móður minni og mánuðurinn því orðinn ansi þéttur. Gott mál enda allt saman öðlingar á gestalistanum.

Í ár er boðið upp á að velja á milli þriggja jólagjafa frá fyrirtækinu: Kaffisett+kaffi, sex flöskur af "gourmet" bjór eða kryddjurtabakki einhver. Samstarfsmaður hitti naglann á höfuðið:
"Þetta er EKKI val sem maður ber undir konuna sína."

Loksins fer að sjá tímabundið fyrir endann á eilífðarverkefninu sem ég er í í vinnunni. Á morgun eru skil og svo vonandi smá pása frá harkinu. Vinnuvikan lítur strax mun betur út fyrir vikið. Þá veit alþjóð það.

Innkaupalistinn fyrir íbúðina lengist bara eftir því sem ég hegg á hann. Svefnsófinn var keyptur en kallar um leið á aukasæng+kodda og undirdýnu. Nettenging kallar á utanáliggjandi harðan disk því annars fylli ég tölvuna um leið af kl.. bíómyndum og tónlist. Nýtt Netto-blað minnir mig á að ég þarf að kaupa reykskynjara. Eldteppi sem ég fékk gefins í vinnunni heimtar krók til að hengja það í. Svo vantar ýmislegt smálegt: Öskubakka, klakabox, litla gólfmottu, sennilega en ekkert endilega eitthvað potta- og pönnusett. Endar þetta einhvern tímann?

Truflar það engan nema mig þegar stjórnmálamenn tala eins og þeir séu að reka fyrirtæki? Þeir eru ekki að reka fyrirtæki (fara ekki á hausinn ef hugmyndin er slæm, verða ekki fátækir ef þeir sóa ógrynni fjár, verða ekki reknir svo glatt þótt þeir fari mörg hundruð prósent fram úr fjárhagsáætlun, osfrv). Stjórnmálamenn eru að rífast um hvaða ákvörðun á að taka fyrir fyrir alla og knýja alla til að vera aðila að.

Úr því pólitíska vélin er í gangi:
In branding profits as excessive and penalizing the efficient entrepreneurs by discriminatory taxation, people are injuring themselves. Taxing profits is tantamount to taxing success in best serving the public. The only goal of all production activities is to employ the factors of production in such a way that they render the highest possible output. The smaller the input required for the production of an article becomes, the more of the scarce factors of production is left for the production of other articles. But the better an entrepreneur succeeds in this regard, the more is he vilified and the more is he soaked by taxation. Increasing costs per unit of output, that is, waste, is praised as a virtue. (#)
Nákvæmlega!

DailyMotion.com er ákaflega hressandi síða fyrir þá sem fíla YouTube en deila ekki siðferðislegum hæðum þeirrar síðu! Fínt að enda langlokufærslu á svoleiðis hressleika.

Wednesday, October 04, 2006

Kárahnjúkar

Má til með að, og verð hreinlega að benda á þessa grein eftir Samma "fitness". Bæði stuðningsmenn og andstæðingar Kárahnjúkavirkjunar munu kinka kolli frá upphafi greinar og til enda.

Búhú

París aflýst klukkutíma fyrir brottför á flugvöllinn. Brandararnir fóru strax af stað:
"Nú þá rakaðiru þig án ástæðu!"
"Núna geturu loksins unnið almennilega frameftir með hrein föt með þér í vinnuna."
Brandarakallar.

Tuesday, October 03, 2006

Tuðgáttin opnast

Í dag var þjóðhátíðardagur vinstrimanna í Danmörku. Mikil mótmæli út um allt land og skólar og skólar sperrtir af af fólki sem klárlega er ekki að farast úr álagi á vinnustöðum sínum. Íslendingar tala um "velferðarkerfið" sem einhvers konar öryggisnet. Í Bandaríkjunum er maður "on welfare" ef maður tilheyrir minnihlutahópi og býr í glæpahverfi. Danir tala um "velfærd" sem magnbundna stærð háða því hvað ríkið eyðir miklu af fé skattgreiðenda í skóla, leikskóla og öldrunarstofnanir. Minna fé í og sérstaklega úr ríkiskassanum = minni velferð, eða svo segir Daninn.

Ekki mörg börn á vinnustaðnum (bara ein 3 ára stúlka hlaupandi um deildina) en það skýrist oft af því að makinn tók sér frídag.

Sem betur fer er einhver mótstaða í Danmörku gegn gengdarlausu kvabbi vinstrisins í Danmörku.

Hvað um það - ég heimsótti IKEA í dag og núna á ég sófaborð og svefnsófa. Mikill munur að vera laus við skrifstofuborðsskrýmslið og hætta að sitja á vondum skrifstofustól (sem skilur eftir nokkrar rispur í gólfinu í kveðjuskyni). Hlynur fær væntanlega að vígja sófakvikindið á föstudaginn. Gott mál í alla staði.

Á morgun eftir hádegi held ég frá vinnustað og upp á Kastrup og flýg til Parísar til að ræða við áhyggjufulla Frakka. Tilhlökkun og kvíði í sömu andrá en óspillt tilhlökkun. Á tímabili var verið að ræða um að hætta við en í kvöld fékk ég símtal og núna er búið að hætta við að hætta við. Gott mál. Er nokkuð búið að afnema einkaeignarrétt kaffi- og veitingahúsaeigenda í Frakklandi eins og víða í Bandaríkjunum, á Írlandi, Noregi og Svíþjóð?

Ég vona að allir séu að fylgjast vel með Celebrity Babe dagsins á Dauðaspaðanum.

Er illa gert af mér að lauma örlitlum áróðri inn í umræðuritgerð frænku sinnar í menntaskóla?

Stundum geta tvær góðar vinkonur verið ólíkar. Á meðan önnur borgar í topp og rukkar aldrei lofar hin að borga en svíkur það svo þrátt fyrir ítrekaðar kurteisislegar áminningar.

Íbúðin mín er hér með nefnd "Holan" (d. Holen, e. The Hole) og ég ætlast til að hún verði nefnd því nafni hér eftir en ekki neitt í ætt við "heima hjá Geir" eða "hjá Geir".

Hressandi tilvitnun í hressan fyrirlesara og almennt magnaðan mann sem hefur svo sannarlega upplifað tímana tvenna: "Jo mere socialisme, jo mindre velstand. I Sovjet havde vi maksimal socialisme, og fik maksimal fattigdom og maksimalt kollaps. I Europa er I ved at indføre gradvis socialisme, og I vil derfor få gradvis fattigdom." (kilde)

Jæja þá best að fara pakka. Yfir og út.

Monday, October 02, 2006

Talað með rassgatinu

Þá er að tala örlítið með rassgatinu (snakke med røven), því það er góð útrás.

Í fyrsta lagi: Minn næsti yfirmaður er að missa stig hjá mér þessar vikurnar. Honum til framdráttar þá er hann alveg rosalega hress náungi og mjög þægilegur í öllum samskiptum. Hins vegar er hann duglegri en flestir við að reka hnífinn í bakið á þeim sem eru ekki viðstaddir. Ákveðinn starfsmaður er mjög góður, "en" hann er ekki nógu mikið svona eða hinseginn. Ég veit ekki hvað hann segir um mig þegar ég er ekki nærri en ég veit (eða grunar sterklega) að það er eitthvað og ekki endilega jákvætt og sú tilhugsun er pínulítið óþægileg því hann talar við alla og hans álit því oft það eina sem heyrist (því fáir eru jafnduglegir að dreifa áliti sínu á hinum og þessum til allra opinna eyrna). Svei.

Í öðru lagi: Parísarferðin á miðvikudaginn nálgast óðfluga og það er hressandi tilhugsun því hópurinn sem ég fer með er með eindæmum skemmtilegur.

Í þriðja lagi: Ég hef ekki náð að horfa á einn Seinfeld-þátt í kvöld þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til þess. Hasarinn er of mikill til þess. Gott mál.

Í fjórða lagi: Til hamingju Sverrir!

Í fimmta lagi: Haustmisserið er of stutt til að gera einhverjar áætlanir. Sumarið er bara nýbúið og jólin eru strax handan við hornið. Ég lofa mér öllu fögru fyrir vormisserið í staðinn.

Í sjötta lagi: Ég þarf að tvímenna í eina nótt. Hvernig ætli það muni ganga?

Í sjöunda lagi: Nóg af hjali, meira sofa!

Mánudagur til móðu

Hvort er betra; að lágmarka uppvask eða borða alltaf af tandurhreinum diskum með tandurhreinum hnífapörum?

Stórkostleg gleðitíðindi fyrir umheiminn: Atvinnuveitandinn kominn með nýja heimasíðu! Full af göllum og virkar örugglega ekki í neinu öðru en IE, en nýtt er það samt.

Nýja vinnuþemað mitt er "vera alvarlegur" og reyna hræða suma af þessum Baunum sem eru byrjaðir að vera aðeins of afslappaðir í kringum mig. Félagsfræðileg tilraunastarfsemi á Dönum er ákaflega skemmtileg.

Föstudagurinn er dagur hinna mörgu gesta. Þið vitið hver þið eruð. Eftir næstu helgi er ég búinn að lofa mér þurrktímabili eitthvað út október. Þarf bara að sýna staðfestu!

Nú á enn einu sinni að reyna sannfæra Dani um að svört vinna "skaði samfélagið" þótt slíkt sé fjarri lagi. Sagan segir að þeir áætluðu 45 dönsku milljarðar sem ríkissjóður saknar vegna svartar vinnu myndu "bæta velferðarkerfið", "gefa ráðrúm til skattalækkana" (danska ríkið rakaði inn 80 milljörðum umfram eyðslu á seinasta fjárlagaári þökk sé háu olíuverði og skattalækkanir eru að sögn enn of "dýrar"), þýða betrumbætt lestarkerfi og fleiri opinbera starfsmönnum - sem sagt; ríkið gæti þanið sig enn meira út án þess að nokkrum liði betur (skatta lækka þeir ekki). Ætli maður þurfi að hóa í litla stuttbuxnahópinn sinn til að svara þvælunni enn einu sinni?

"Ég prívat og persónulega tek óskynsamlegar ákvarðanir og tel mig ekki geta haft stjórn á mér, eigum mínum, fjármálum og tíma og virði ekki sjálfsstjórn og eignarrétt annarra. Þess vegna tel ég þörf á eftirfarandi reglugerð/skattlagningu svo ég og aðrir megi breyta rétt að mínu mati..."
Dagurinn sem einhver stjórnmálamaður játar þetta er dagurinn sem ég byrja trúa orðum þeirra sem vilja komast á toppinn í pólitík.

Hugarstríð klukkutímans snýst um svefnsófa: Á ég að nenna að ná í Jysk núna eða vinna (afsakið, "vinna") lengur og eiga tíma inni á morgun og hætta strax um kl 15 þá? Ég tek seinni kostinn. Set tvo hersteina af stað fyrir heimför.

Bannað!

Þeir sem eru á móti Kárahnjúkavirkjun (ýmist sem framkvæmd eða hugmynd) skiptast í þrjá hópa: Unnendur einkaframtaksins sem vilja að ríkið hætti að ráðstafa landi og ráðskast með fyrirtæki sín í pólitískum tilgangi (eða yfirleitt hætti að eiga fyrirtæki), þeir sem eru andsnúnir ákveðnum ríkisafskiptum (þau er taka mikið landrými) en ekki öðrum (köllum þá bara umhverfisverndarsinna), og svo þetta pakk sem ég mun nú kalla umhverfishryðjuverkamenn. Eða svona vil ég reyna draga í dilka og grófflokka.

Myndasýning fyrir þá sem hafa horft of mikið á samsæriskenningamyndir þar sem því er haldið fram að bandarísk stjórnvöld hafi skipulagt 9/11 atburðina. Sé það hins vegar raunin að Bush hafi á 8 mánuðum í embætti náð að draga saman alla þræði og hundruð manna til að sprengja hæstu byggingar New York niður þannig að fólk í bara eina mínútu hélt að flugrán hefðu átt sér stað þá á hann skilið verðlaun fyrir skipulagshæfileika.

Jæja fussumsvei hersteinar komnir af stað og ég ætla heim. Yfir og út.

Sunday, October 01, 2006

Létt þýðing

Hressandi innsæisfull athugasemd (héðan):
Umhverfisverndarhreyfingin heldur því fram að ekki sé hægt að treysta á vísindi og tækni til að reka kjarnorkuver á öruggan hátt, framleiða skordýraeitur sem er óhætt að nota, eða jafnvel baka brauð sem er óhætt að borða, ef sá brauðhleifur inniheldur tilbúin rotvarnarefni. Hins vegar þegar kemur að hitnun á lofthjúpi jarðar kemur í ljós að það er ein grein vísindanna sem umhverfishreyfingin sýnir alveg sláandi traust á - grein sem þar til nýlega hefur ekki notið trausts jafnvel hörðustu stuðningsmenn vísinda og tækni. Umhverfishreyfingin vill meina að eina grein vísinda og tækni sem stendur svo vel að vígi að við getum sýnt henni ótakmarkað traust sé sú spá fyrir um veðrið - næstu hundrað árin!
Hið sama mætti sennilega segja um þá sem tjá sig hvað háværast um meinta hættu af sprungum í Hálslónsstæðinu; verk- og jarðfræðingum er ekki treyst til að byggja stíflu á sprungusvæði á meðan veðurfræðingum er treyst til að spá fyrir um veðrið, 100 ár fram í tímann!

En svo það sé á hreinu þá er ég ekki mikill stuðningsmaður ríkisframkvæmda og Kárahnjúkavirkjun er ríkisframkvæmd. En að ég ætli mér að taka umræðu um burðarvirki virkjana og jarðfræði sprungusvæða við menntaða íslenskufræðinga er ekki alveg á dagskránni (sá einmitt hagfræðing og íslenskufræðing rífast um Hálslónsstæðið í Kastljósi í sumar og þótt skondið).