Mikið ætlar árið 2008 að fara vel af stað.
Janúar hefur verið svo ágætur í vinnunni (ef frekar eirðarlaus vinnudagur í dag er undanskilinn). Ég hef verið útnefndur "kælderpræsident" og þar með ábyrgur fyrir því að alltaf sé til öl í kjallara vinnustaðar míns að lokinni vinnu á föstudögum. Í viku 4 verð ég í París með vinnutölvuna mína að sitja fundi og reikna þreytuþol til skiptis. Smáverkefnin keyra líka hægt og rólega. Ekkert til að kvarta yfir nema síkvabbandi Danir, venju samkvæmt.
Vökustundir helgarinnar fóru mikið til í áhorf á NFL með góðum piltum, vitaskuld alltaf með áfengi í hönd. Næstu helgar munu sömuleiðis notast í NFL áhorf sem nær hápunkti sínum sunnudagskvöldið 3. febrúar þegar engin önnur en hún systir kemur í Kaupmannahafnar-heimsókn og sjálfur meistari Hlynur. Tilhlökkun: Mikil!
Í byrjun febrúar flytur alveg hreint ágæt stúlka til Köben í nokkra mánuði til að breyta um umhverfi og vinna að lokaverkefni sínu (undir strangri handleiðslu minni). Meðaltals-myndarleiki Danmerkur hækkar töluvert sem afleiðing þess.
Arnar minn er fluttur til Litháen sem er svo gott sem "næsti bær" miðað við verð og ferðatímafjölda til og frá Köben. Hann verður heimsóttur og hann heimsækir okkur Köbenbúa og tilhlökkun vegna þess er, já mikið rétt, mikil!
Stefáni þann 14. febrúar hef ég heldur ekki gleymt. Aldeilis ekki!
Á morgun eru horfur öllu drungalegri. Fulltrúar hins franska olíufélags Total koma til Köben til að skamma okkur í NKT Flexibles fyrir að gera eitthvað annað en þeir vilja, sem er samt ekki mjög skýrt greint frá nema óbeint með því að hafna öllum okkar tillögum. Skyrtan verður tekin fram, sleipiefnið haft við hönd og síðan vonast eftir því besta en búist við því versta!
Ég fór í klippingu um helgina. Umskiptin verða skjalfest á þessum vettvangi eins fljótt og ég nenni.
Hef ég eitthvað fleira að segja? Nei, ekki í bili.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment