Þessi færsla er hrein pólitík með örlitlu persónulegu ívafi. Hún gæti samt snert taugar hjá þeim sem vilja ekkert af pólitík vita.
Í byrjun næsta apríl verða reykingar bannaðar á öllum "opinberum" stöðum í Danmörku - veitingahúsum, börum (yfir 40 fermetrum), skemmtistöðum og svo framvegis. Þó verður leyft að koma upp sérstökum reykherbergjum en það var málamiðlun sem verður líklega afnumin innan fárra ára.
Á Íslandi munu svipuð lög taka gildi rétt eftir næstu Alþingiskosningar og Ísland þar með komið í hóp með löndum eins og Noregi, Írlandi, Svíþjóð og Skotlandi hvað þetta varðar.
Ég er á báðum áttum varðandi þessa löggjöf. Ég hef ekkert á móti því að dvelja á stöðum sem leyfa ekki reykingar - ég fer í bíó, á bókasöfn, vinn á reyklausri skrifstofu og sit í strætó. Ég var í Noregi um daginn og fór út á lífið og fannst ekki eins og líf mitt hefði verið eyðilagt með reykleysinu innandyra (reyndar var mjög þægilegt að fara út að reykja - margir staðir með tjöld utan við útidyrnar, nóg af öskubökkum þar og hitalampar til að ylja manni).
Það sem fer í taugarnar á mér er vanmáttur reykleysingja til að gera rekstraraðilum skemmtistaða það ljóst að reykleysi mun draga þá og seðlaveski þeirra að, og séu reykingar leyfðar þá muni þeir halda sig fjarri, eða a.m.k. ekki dvelja eins lengi. Sjálfur reykingamaðurinn ég læt alveg eiga sig að fara inn á suma staði sökum reykingamökks - ég þarf mitt súrefni!
Þessi vanmáttur langstærsta hluta neytenda - þeirra reyklausu - er sennilega hægt að útskýra af eftirfarandi ástæðum: Ríkið á að græja málin, reykmökkur í ölvunarástandi ónáðar ekki fyrr en daginn eftir í þynnkunni þegar föt og hár lykta af tjöru og nikótíni, reykingar eru svo sjálfsagður hlutur í ýmsu umhverfi að það tekur því ekki að malda í móinn fyrr en viðkomandi er kominn heim og getur skrifað reiðigreinar í blöðin, og, að sjálfsögðu, reykingafólk er svo skemmtilegt að fjarvera þess gerir stað hreinlega leiðinlegan!
Reynslan af lögboðnu reykingabanni er ekki svo slæm fyrir rekstraraðila skemmtistaða og veitingahúsa. Sagan segir að í upphafi haldi reykingamenn sig fjarri en reyklaust fólk streymir að. Smátt og smátt lætur reykingafólkið svo sjá sig aftur og venur sig hreinlega á að fara út til að kveikja sér í einni. En hvers konar lexíu á að draga af þessu? Að almenningur muni ekki passa upp á heilsu sína og virða aðra fyrr en hermenn mæta á staðinn og skikka alla til að fara í gymmið og sitja námskeið í kurteisi? Að fólk sé sauðfé áður en hirðirinn mætir til að reka það á og af fjalli? Mér sýnist það.
Lögbann á reykingar á almannafæri innandyra mun líklega ekki hafa neikvæð áhrif á mig. Ég mun kveikja mér í færri sígarettum, spara pening, bæta heilsuna og menga loftið minna (þar til viðrekstur verður bannaður líka). En þrátt fyrir allt þetta praktíska þá finnst mér réttlætið vera fótum troðið með löggjöf sem þessari (einkaeigendur húsnæðis í einkaeigu fá fyrirmæli um hvað þeir mega, leyfa og gera á sinni einkaeign) og af þeirri tilfinningu verður varla hægt að fá mig. Ef hermaður mætti heim til mín daglega til að segja mér að stunda æfingar á eigin gólfi, mér til hagsbóta, þá myndi það leiða til sömu tilfinningar, þótt niðurstaðan yrði heilbrigðari líkami og það allt.
Ég er þó fyrst og fremst illa svekktur - svekktur yfir því að neytendur skuli ekki geta sagt skoðun sína og þar með búið til framboð eftir viðskiptum þeirra. Þetta vald neytandans - almennings - er nákvæmlega það sem hefur tryggt mikið, öruggt og snöggt framboð af góðum varningi og góðri þjónustu. Ef þetta vald er nú sett í hendur stjórnmálamanna er hættan sú að tregðan á markaðinum verði aukin gríðarlega. Fórn af því tagi mun leiða til miklu verri afleiðinga en óhreins lofts á skemmtistöðum, á meðan beðið er eftir löggjöf til að græja málin. Stjórnmálamenn rífast miklu meira innbyrðis en eigendur Vegamóta og Kaffi Súfus hafa nokkurn tímann eytt púðri í, þótt reykingapólitík þeirra sé gjörólík.
Reykingabannið er ekki endilega neikvætt í sjálfu sé. Tilurð þess er mér samt gríðarlega á móti skapi.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
11 comments:
Eiga lög (einka)eigenda húsnæðis að vera yfir lög stjórnarskrárinnar hafin, þegar um er að ræða athafnir í hans eigin húseign?
Já. Ég mismuna til dæmis af alveg óteljandi ástæðum þegar ég að velja gesti inn á einkaheimili mitt, þótt slík mismunun sé ekki leyfð af t.d. hinu opinbera m.t.t. stjórnarskrárheimilda.
Úbbs, svo ég fái nú ekki þannig afbakanir: Morð og þjófnaður og annað brot á sjálfseignarrétti einstaklingsins vitaskuld yfir allt hafið, bæði lög og stjórnarskrá, og aldrei heimilt.
Þér til ánægju og yndisauka
'...menga loftið minna...'
Þó þú myndir aldrei kveikja þér aftur í sígarettu, sem og allir aðrir í heiminum yrði afleiðingin á umhverfið, loftið og loftslag á jörðinni ekki mælanlegt.
Bara til öryggis ef einhver heldur því einhvern tíman fram að sígaretta mengi andrúmsloftið.
Hefur húsráðandi ekki eignarrétt á gestum sínum í sínum hýbýlum?
Sígarettur menga loftið staðbundið, og því ekki hægt að segja að sígarettur mengi ekki andrúmsloftið. Það er of víð fullyrðing.
Sígarettur drepa ekki. Það gerir reykurinn sem kemur þegar einhver kveikir í henni. Að sjálfsögðu drepur rettan reykingamanninn meira en þá sem standa nálægt en það hefur samt áhrif. Mér finnst ekkert sjálfsagðara en að banna reykingar á almennum stöðum. Ímyndið ykkur bara að vera barþjónn og þurfa að stytta ævina til að hala inn nokkrum spírum.
Eg geng svo langt að það ætti að banna að reykja utandyra á stöðum eins og stætóstoppum og lestartstöðvum. Eina ástæðan er sú að það hefur enginn rétt á að spúa reyk framan í mig, nema kannski heima hjá þeim sjálfum.
Hvort reykur mengar eða drepur eða ekki, hversu mikið og hvaða áhrif það hefur er aukaatriði. Ef ég baða úr örmunum inn á stað í leyfi eigandans og einhver gengur fyrir hnefann á mér þá er ekki við mig að sakast, heldur þann sem gekk inn á einkaeignina og inn á "hættusvæðið" án þvingunar.
Vandamálið við reykingar á almannafæri er ekki skaðsemi þeirra, heldur að almannafæri er "almannaeign" - ríkiseign - og þar með enginn grundvöllur til að vilja leyfa eða banna reykingar því ríkið ræður og aðrir þurfa að hlýða því. Lög sem banna reykingar á gangstétt í eigu ríkisins meika meira sens en lög sem banna eða leyfa ákveðnar athafnir á einkaeigu einstaklinga, sem ekki nokkur maður er píndur til að ganga inn á (sem starfsmaður eða kúnni) til þess eins að skrifa lesendabréf um vondu lyktina sem kemur af sígarettum, ilmvötnum, reykelsum eða hvað það er.
Hvor er sterkari, eignarréttur eigenda hýbýlisins eða sjálfseignarréttur gesta? Má eigandi skaða gesti sína mót þeirra vilja þar sem þeir eru á heimili hans, eða er sjálfseignarréttur gestanna yfirsterkari?
Þetta er bara skref í rétta átt. Ef sígarettur væru að koma á markað í dag þá væru þær settar í sama flokk og kannabis og yrði stranglega bannað að selja og reykja. En þar sem hefðin fyrir sígarettum er svona gömul og gróin þá er erfitt að banna þær algjörlega, en það er augljóst að þessi skref sem er verið að taka eru í þá átt að banna sígarettur alveg.
Bann veldur yfirleitt miklu meiri vandræðum fyrir non-users heldur en fjarvera banns nokkurn tímann.
Gestum sem líkar ekki að vera á heimili mínu er vísað á dyr, svo einfalt er það.
Varðandi rökin um það að vinna í reykmettuðu umhverfi -- ég geri ráð fyrir því að afstaða Geirs sé sú að líki starfsfólkinu ekki reykurinn geti það hreinlega fundið sér annað starf, ekki satt?
Post a Comment