Hvít jól urðu það þá eftir allt hávaðarokið og rigninguna mína fyrstu viku á Íslandi. Gott mál. Ég kýs fimbulkulda og LOGN fram yfir óþolandi rok og rigningu hvenær sem er!
Alveg hreint var ljúft að hitta piltana sína seinasta fimmtudag. Þeir eru akkeri í lífsins ólgusjó sem ekkert fær haggað!
Á föstudagskvöldið var örlítill jólahlaðborðshittingur frjálshyggjumanna. Það var hressandi kvöld og gott að sjá loksins mörg andlit sem hingað til hafa eingöngu verið sjáanleg sem myndir við hin skynsömu skrif í netheimum og í einstaka dagblaði. Minningum frá seinni hluta kvöldsins er varla til að skipta en vonandi tekur það enginn persónulega.
Frændsystkyni mín í föðurætt héldu teiti á laugardagskvöldinu og ég lýg ekki né ýki þegar ég segi að betur heppnaðan hóp skyldmenna er ekki hægt að finna! Óléttar voru þær nokkrar og árið 2008 verður því gott fyrir kynbætingu Íslendinga. Minningum frá seinni hluta kvöldsins er varla til að skipta en vonandi tekur það enginn persónulega. Eða jú, tók leigubíl heim í fyrsta skipti síðan ég kom til Íslands! Og já, á Sirkus er þjófótt pakk sem ég ætla aldrei að umgangast aftur.
Sunnudaginn nýtti ég í svefn og líkamlega úthreinsun áður en haldið var á Bubba-tónleika um kvöldið. Loksins hitti ég Arnar hinn fagra! Tónleikarnir voru hinir ágætustu en uppdópaðir pabbastrákar enduðu þá lagi eða tveimur of snemma með slagsmálum. Helvítis fífl. Má svo til að segja að ef síkjaftandi óþolandi vanvirðandi fólk er byrjað að venja ferðir sínar á Bubba-tónleika Þorláksmessu þá þarf ég að hugsa mig tvisvar um áður en ég sæki þá aftur!
Aðfangadagur var ljúfur og gott ef pökkunum fer ekki hreinlega fjölgandi með hverju ári! Einn er við hliðina á mér, enn ókominn til eiganda síns, en það vona ég að reddist! Pakkainnihaldið var ljúft svo ekki sé meira sagt. Ég þarf að byrja muna að ef ég bið um eitthvað einfalt og ódýrt þá verður það að dýrri og hátæknilegri gjöf. Hrós fær fjölskyldan fyrir að finna á hverju ári eitthvað sem mig "vantar" þegar ég hef sannfært mig um og gefið út að mig vanti ekkert. Dæmi: Veggklukka, skyrtur, Family Guy nærbuxur og semí-nektarmynd af vini sínum.
Á Jóladag var það jólaboðið hjá ömmu og afa og í ár var 100% mæting, hressandi actionary, gríðargóð stemming, ofgnótt matar og ég í jólasveinahlutverkinu á ný eftir smá hlé. Ég gæti alveg vanist því að hitta mína ágætu ætt aðeins oftar!
Núna er annállinn orðinn alltof margorður. Búið í bili.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
Systkini, Geir!!!
Post a Comment