Það hefur tekið mig alveg nú fram á fjórða í páskum að hrista helgina úr skrokknum. Hún fór niður með postulínssetu í gærkvöldi og það var hressandi.
Ekki úr vegi að taka stuttan annál: Meistaradeild og bjór með Daða og Svenna á miðvikudagskvöldið og það var ljómandi ágætt. Fimmtudagurinn fór í smálitla tiltekt og eilítið gláp fram að komu Örvars um kvöldið, en bjórdrykkja hófst vitaskuld um leið og sú stund rann upp. Við skruppum aðeins til Daða en þá var hann að laga sér samlokur sem fóru niður og drógu hann með sér svo sötrið í bænum var án hans.
Föstudagurinn var tekinn seint eftir væran svefn. Plön fæddust af sjálfu sér með óvæntu partýboði í það sem reyndist svo verða hið ágætasta partý. Leiðir mínar og Örvars skildust a.m.k. af hressandi ástæðum. Gott að ég gleypti ekki eyrnarlokkinn samt!
Laugardagurinn var einnig tekinn seint eftir væran svefn. Ég man eftir miklum en ósvöluðum kaffiþorsta lengi framan af degi enda ekkert kaffi að fá í lestarferð okkar til Óðinsvéa þar sem Pálmi "frændi" og fjölskylda voru heimsótt. Alveg hreint hrikalega ljúft kvöld það með dýrindis mat og hressu ungabarni og vaxandi bjórsötri sem hélt vitaskuld áfram í lestinni til Köben seinna um kvöldið. Þar beið Daði tilbúinn með vín í maga og við kíktum út á lífið - LA (þar skuldum við barsmíðar) og Skarvinn vitaskuld og sitthvað fleira sem fór samt að renna smátt og smátt í þoku.
Sunnudagurinn var svo kveðjustund hjá mér og Örvari. Takk fyrir mig!
Hvað svo? Bolti og bjór vitaskuld með Daða og Svenna. Gott spjall og fínn bolti (bæði alvöruboltinn og þessi sem spilast í Playstation). Mánudeginum eyddi ég í páskaeggjaát sem var fylgst margsinnis eftir með klósettferðum. Heilsan í vinnunni í gær var ekki upp á marga fiska en góður svefn í nótt bjargaði lífi mínu og afköstin í dag því með eindæmum!
Aldrei þessu vant er ég búinn að bóka mér flugmiða í langa helgarferð. Nei, ekki sú sem líklega verður á dagskrá í lok maí. Þessi er í byrjun maí og í austur en ekki vestur. Ég hlakka til! Fyrstu ólögbundnu frídagar mínir síðan 1. janúar sem er sosem í fínu lagi mín vegna en nánast ástæða til bannfæringar úr dönsku samfélagi sem fer í löng frí fjórum sinnum á ári!
Að lokum vil ég biðjast afsökunar á stanslausu flæði ófrýnilegra linka úr MSN-i mínu alla helgina. Einhver vírus eða róbót á ferðinni sem var á fullu sama hvort ég var við tölvu eða órafjarri, á MSN eða af. Ég vona að ég hafi náð að drepa óþverrann í gær!
Núna er engin ástæða lengur til að enda á að óska Fjólu góðs gengis lengur. Gengið var gott, og til hamingju með það, stúlka!
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
3 comments:
Takk aftur kærlega fyrir mig, alltaf svo frábært að hitta þig.
Takk minn kæri, gott að þið skemmtuð ykkur vel :)
Þú gleyptir víst eyrnalokkinn minn!
Post a Comment