Með þreytu í haus og kók í maga verður nú gerð tilraun til að skrifa á skiljanlegu máli.
Hausinn er þreyttur því ég svaf bara í rúma þrjá tíma í nótt. Ég fór seint að sofa því ég var ekki þreyttur. Ég var ekki þreyttur því ég svaf út í gær. Ég svaf út í gær því ég var þreyttur eftir laugardagsnóttina. Ég var þreyttur eftir hana því ég vakti lengi. Ég vakti lengi því ég var að sulla í áfengi með Óla, Svenna og Daða og á tímabili dönskum stelpum og einni íslenskri á Tattúveruðu ekkjunni. Þreytu dagsins er því hægt að rekja til einhvers mjög jákvæðs!
Sullaði raunar á föstudagskvöldið líka sem gerir þessa helgi að tvöfaldri sullhelgi - nokkuð sem er orðið alltof sjaldgæft á seinni mánuðum! Sullið á föstudaginn fór fram í vodka og Red bull - blanda sem er orðin alltof sjaldgæf í seinni tíð! Fleiri tvöfaldar sullhelgar og fleiri vodka og Red Bull sull - voráheit mitt til mín!
Annars hefur fátt á daga mína drifið, en vissulega gott. Meistaradeildin er loksins byrjuð að snúast um að góð lið slái út góð lið og það leiðir til bjórhittinga með góðum drengjum. Einstaka sinnum eru Ósk og Beta á vegi mínum sem er einnig mjög jákvætt. Vorið er komið (og heldur vonandi) og þykkur jakki því kominn á háan snaga og þunnur jakki á lágan. Tvímælalaust mjög jákvætt það.
Vörubílstjóra-vegtálmar Íslands eiga sér ekki stað í Danmörku. Á móti kemur að með hlýnandi veðri vaknar (atvinnumanna-)atvinnulausa aumingjapakkið úr vetrardvala og fer í götustríð við lögreglu (beint) og saklausa vegfarendur (óbeint). Hvernig tekur hin danska þjóðarsál á skrílnum? Hún gefur honum hús á kostnað skattgreiðenda. Jibbíkóla! "Velferðarríkið" er ræningjaríki og hananú!
En að öðru. Hvernig stendur á því að fólk þrífur ekki upp skítinn eftir hundana sína? Sennilega því það er leiðinlegt að beygja sig niður og þegar hundfjandinn á bara að fá sinn litla labbitúr þá er mest áríðandi að ljúka honum af sem fyrst. Það er annað sem ég skil ekki: Hvernig stendur á því að fólk stoppar þegar hundur þess skítur á gangstéttina, týnir skítinn upp í lítinn, svartan hundaskítspoka, bindur fyrir - og skilur pokann svo eftir á jörðinni?! Eftir allt þetta vesen með að hreinsa upp kúkinn ofan í þar til gerðan poka þá hefði ég haldið að það væri minnsta málið að halda á pokanum að næstu ruslatunnu. En nei. Svo virðist ekki vera. Sumt skil ég ekki. Ég játa það hér með (og enn og aftur).
Annars skynja ég gríðarlega biturð og súrleika í skrifum mínum núna. Ég er ekki í vondu skapi. Síður en svo. Hins vegar fór dagurinn í vinnunni svolítið í taugarnar á mér. Þolinmæði dagsins er uppurin eftir eilífar og endalausar þreytandi spurningar ónefnds vinnufélaga míns í dag og því ekki þér, minn kæri lesandi, að kenna.
Súrleikann þarf ég bara að sofa úr mér, og það tekur bráðum við!
Góðar stundir!
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
Við erum að tala um snjóbyl á Miðnesheiðinni - SJÆS. Góðar fréttir eru þó að geitungarnir voru að vakna úr dvala og drepast væntanlega úr kulda í þessu kasti sem gengur yfir landið.
Post a Comment