Eitthvað innblástursleysi að hrjá mig á þessari síðu þessar vikurnar en ég geri tilraun til að blaðra út í eitt og vona að eitthvað læsilegt komi út úr því.
Vinnan er gríðarhressandi þessa dagana og í sjálfu sér engin sérstök ástæða fyrir því. Verkefni sem hafa hangið yfir mér í marga mánuði virðast vera nálgast endalok sín, julefrokost í næstu viku hefur kynt í góðri stemmingu meðal samtarfsfólksins og veðrið er ánægjulega laust við rigningu og rok (en ekki alveg við kulda). Þegar allt þetta kemur saman er góður andi í liðinu.
Glitnir er einhvers konar fávitabanki að mér finnst. Ég mun a.m.k. ekki þora í viðskipti við þá. Þá er það skjalfest. (Ég segi þetta þrátt fyrir að ákveðnar auglýsingar frá Glitni herja nú á landsmenn, en ekki vegna þess!)
Endurupptaka á greinaskriftum hefur lengi verið á döfinni en ég virðist eiga voðalega erfitt með að komast í gang eftir margra mánaða hlé (að örfáum smápistlum undanskildum). Mörg uppköst hafa fæðst en ekkert náð að komast alla leið í þónokkurn tíma. Kannski er ástæðan sú að margir virðast vera tilbúnir að ræða við mig beint um það sem ég fylli venjulega greinar af (sem er tiltölulega nýtt) og þannig fjarlægt þorsta minn til að predika fagnaðarerindi mitt meðal ókunnugra. Skrýtið að mér finnst og ekki eitthvað sem ég hefði búist við. Kannski vantar mig bara sjálfboðaliða úr rauða hernum (í alhæfingarskilningi mínum á þeim her) til að lesa yfir það sem ég er að berja saman og reyna drepa skriftir mínar áður en þær fæðast á prenti. Hver er til? Af nægu er að taka!
Framundan er gríðarhressandi helgi. Strætófyrirsæta Íslands og frú koma til Köben og á döfinni er almennt svínarí, Tívolí, glögg og enn meira svínarí. Barbarnir eru vonandi hressir líka og ákveðinn Óskarsson lætur vonandi sjá sig. Ég get ekki annað en hlakkað til!
Óáhugaverð staðreynd dagsins um sjálfan mig: Á morgun verða föt þvegin!
Djöfull get ég stundum hljómað málhaltur í dönsku ritmáli. Sem betur fer er mér alveg nákvæmlega sama hvað Baunum finnst um mína perka-íslensku. Annars mundi ég ekki skrifa orð á hrognamálinu þeirra.
Mmmmmmmmmm.... Jenna Jameson.
Second Life er alveg magnað kvikindi (að ég held). Ég hef ekki prófað það (ennþá) en lesið örfréttir um það sem birtast í einu dagblaða Kaupmannahafnar. Ein þeirra segir meðal annars frá tilraun sem varð gerð til að leggja skatt á "íbúa" þessa heims, sem aftur var mætt með harðri mótspyrnu og endaði með því að engin skattlagning tókst. Félagsfræðileg tilraun á heimsmælikvarða! Sennilega fyrsta skattauppreisn Vesturlandabúa síðan þeir voru skildir eftir í húsarústunum eftir stærstu styrjöld ríkisstjórna heimsins fyrr og síðar, Seinni heimstyrjöldina. Ég ætla skrá mig og prófa. Núna.
Úff meira vesenið að skrá sig í þetta en hafðist. Efast samt um að ég endist við að spila þetta. Það, eða ég verð forfallinn fíkill. Svoleiðis er það yfirleitt með mig. Væri samt til í eina skattauppreisn eða svo.
Ákveðinn vinnuþjarkur kemur mér til hugar núna. Gangi þér vel að berjast og þetta reddast! Við vitum það alveg.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
Ég prófaði þetta fyrir einhverjum mánuðum. Þetta var bara svo djöfulli þungt í keyrslu að ég gafst upp.
Post a Comment