Thursday, January 04, 2007

Danmark Survivor Guide

Nokkrum sinnum hef ég verið spurður að því hvernig stuttbuxnastrákur eins og ég get búið í "sósíalísku" landi eins og Danmörku, með háum sköttum og miklu skrifræði. Spurningin er vandasöm því Danmörk er ekki eins sósíalísk og margir halda, til dæmis miðað við Ísland, en auðvitað eru skattar háir og lestarkerfið ónýtt og það allt. Ég ætla samt að reyna svara spurningunni með örlítilli upptalningu. Tónninn er súr og bitur en það er bara til að ná fram ákveðinni stemmingu.

Danir eru einfeldingar: Danir hafa mikið álit á sjálfum sér, telja sig vera með besta velferðarkerfið, öflugasta atvinnulífið, liprustu almenningssamgöngurnar, góða spítala og skóla, fallegasta miðbæinn, bestu kaffihúsin, fallegt tungumál, gjafmildustu þróunaraðstoðina, bestu orkumálastefnuna og svona má lengi telja. Ekkert af þessu er satt, en að Daninn trúi því lýsir honum svolítið. Danir eru einfeldingar. Með því að hafa það stanslaust í huga (sérstaklega þegar dagblöðin eru lesin) er hægt að umbera hina dönsku þjóð, jafnvel hlægja að henni.

Danir vilja gleyma hversdagsamstrinu: Dananum finnst almennt svo leiðinlegt að vinna og sinna hinu daglega hversdagslífi að hann vill helst aldrei vera án aðgengis að áfengi og tóbaki til að brjóta upp líf sitt. Fyrir Íslendinginn mig kemur þetta fram í ódýrara áfengi (að jafnaði þriðjungur íslensks verðlags) og tóbaki (um helmingsverð m.v. Ísland) sem er mjög jákvætt fyrir Íslending eins og mig. Við vitum jú öll að fyrir Íslendinginn er bara tvennt að sækja í Danmörku: Barnabætur og ódýrara áfengi.

Dönum leiðist útlendingar: Þótt atvinnuleysi sé lítið í Danmörku núna, og uppgangur í hagkerfinu mikill, þá gleyma Danir seint stjórnarárum vinstrimanna þar sem hvert starf skipti máli og góðæri voru skammtímauppsveiflur á langri niðursveiflu. Þeir líta á útlendinga sem aðskotadýr sem vilja "stela" störfum, og þurfa sífellt að minna sig á að það er nóg af störfum í Danmörku núna, jafnvel meira en Danir geta séð um einir. Þeir minna mig oft á að ég er ekki Dani, og ég svara í sömu mynt og minni á að þeir eru ekki Íslendingar. Svoleiðis svar virkar fínt á Danann því þá veit hann að mér gæti ekki verið meira sama, og virkar á mig til að minna mig á uppruna minn því annars er hættan sú að ég danskist of mikið upp og geri mig þar með óalandi á íslenskum vinnumarkaði í framtíðinni.

Danmörk er stutt frá Íslandi: Ágæt leið til að tolla í Danmörku til lengri tíma er að rifja upp að það er stutt til Íslands þar sem starf í banka eða á verkfræðistofu bíður manns (sic). Þar með hverfur öll innilokunarkennd og hugsun um að maður sé "fastur" í útlandi. Danmörk er líka stutt frá meginlandinu ef svo færi að atvinnuleysi dytti niður fyrir 15% hjá ungu fólki einn daginn, en ég geri nú ekki ráð fyrir því á minni lífstíð.

Danmörk er fjölmennari en Ísland: Einn stærsti kostur Danmörku fyrir mig er sá að Danmörk er fjölmennara land en Ísland og mun auðveldara að hverfa í fjöldann (þetta gildir auðvitað um næstum því öll lönd í heimi). Á Íslandi þarf ekki annað en að reka við á skemmtistað og alþjóð veit, og í litlu landi er alveg hræðilega auðvelt að verða "þekktur" fyrir eitthvað, og lenda þar með á milli tannanna hjá fólki. Í Danmörku er hægt að komast upp með miklu meira en á Íslandi, og Íslendingar virðast almennt meðvitaðir um að það sem gerist í útlandinu helst í útlandinu. Margar af mínum bestu minningum frá Danmörku eru verndaðar af þeim þagnareið!

Lýkur þar með minni upptalningu. Ég vona að ég hafi náð að halda tóninum súrum og bitrum!

7 comments:

Anonymous said...

Ekki gleyma að það sést stundum til sólar í Danaveldi.


Hvað segir þú eru barnabætur betri í dk en hér?

Anonymous said...

Úff það var nú einn á eldhúsinu mínu í DTU sem vildi meina að Íslendingar væru "halvdansk"...

Þeim sama fannst það ekki fyndið þegar ég bað hann um að reikna dæmið aftur miðað við að danir væru "halvtysk".

Anonymous said...

Það er líka hægt að fá SU í danaveldi, sumir koma hingað til að sækja það.

Tilboðið mitt stendur ennþá að þú getir sleppt millimanninum og látið mig bara beint fá skattana þína.

Geir said...

Daði, please subscribe me to your newsletter. Ef við getum sannfært danska ríkið um beingreiðslu skatta til þín þá er ég til í þetta.

Haukur, sennilega já en ég er ekki alveg viss. Sumt sem maður heyrir reynist vera goðsögn þegar á hólminn er komið.

Hersteinn, Danir vilja ekki láta bendla sig við aðrar þjóðir. Þeim finnst til dæmis ekkert fyndið þegar ég uppnefni danska hreiminn franskan.

Anonymous said...

"telja sig vera með besta velferðarkerfið, öflugasta atvinnulífið, liprustu almenningssamgöngurnar, góða spítala og skóla, fallegasta miðbæinn, bestu kaffihúsin, fallegt tungumál, gjafmildustu þróunaraðstoðina, bestu orkumálastefnuna og svona má lengi telja"

Ég hef aldrei svo ég muni lesið neitt í blöðunum sem gefur þetta til kynna.

Btw. Hvaða land hefur betra velferðarkerfi en Danmörk að þínu viti?

Anonymous said...

Ef horft er á andhverfu þessarar upptalningar; þá gæti ég ekki verið meira sammála því að Íslendingar eru of fáir.

Það er helsti galli landsins.

Þrándur.

Anonymous said...

Hjartanlega sammála þér Geir. Hef búið hér í DK (Köben) nú í tæpt ár, greiði stórkostlega háa skatta og fæ ekkert tilbaka....gerir bara ráð fyrir bakreikningi frá skattinum. Danir trúa ekki á frjálsan markað og vilja helst vera komnir heim til sín kl. 16 á hverjum virkum degi til að bora í nefið á sér, en sósíalisminn hefur jú alið þá upp við það!