Saturday, February 10, 2007

Heimakvöld er svo ágætt

Dagsverkið náðist: Að sitja sem mest á rassgatinu eftir vinnu, glápa á eitthvað og gera ekki neitt. Svo vel tókst ætlunarverkið að klukkan er rokin upp í hálf þrjú að nóttu til án þess að ég tæki eftir því!

Undanfarna daga (og raunar undanfarna mánuði) hef ég fengið að stinga nefinu inn í það sem fólkið "handan Suðurgötunnar" er að fást við (félagsfræði, mannfræði, þróunarfræði osfrv). Mikilvægasta niðurstaða mín af þessu innliti er sú að ég valdi rétta hlið á Suðurgötunni til að stunda mitt háskólanám! Hin niðurstaðan er sú að á meðan fólk eyðir flest deginum sínum í að lesa fréttir, spjalla við annað fólk, kaupa í matinn, velja klæðnað og fylla á tankinn þá sitja tugir ef ekki hundruðir einstaklinga sveittir við skriftir og reyna draga girðingar á milli mismunandi einstaklinga og búa til hópa, kenningar sem þessir hópar aðhyllast og einhvers konar sögulegt samhengi sem á við hverju sinni.

Ekki að það sé eitthvað sem einkennir háskólanema og félagsvísindakennarana þeirra - við erum öll sífellt að flokka fólk í hópa og smella nöfnum á hugmyndir og hugsanir annarra (t.d. eru þeir til sem vilja bæði eiga kökuna og borða hana sem ég kalla vinstrimenn). Ég mundi samt ekki endast í hinni endalausu ringulreið sem ég fæ á tilfinninguna að félagsvísindin eru. Þar er ekkert "rétt" eða "rangt" og því aldrei neitt sem heitir niðurstaða eða rökleg útkoma staðreynda og huglægra röksemda. Örlítil tilvitnun í því samhengi (mest að gamni samt):
I do not believe it an accident that Karl Marx is considered one of the great hermeneuticians. This century has seen a series of devastating setbacks to Marxism, to its pretensions to "scientific truth," and to its theoretical propositions as well as to its empirical assertions and predictions. If Marxism has been riddled both in theory and in practice, then what can Marxian cultists fall back on? It seems to me that hermeneutics fits very well into an era that we might, following a Marxian gambit about capitalism, call "late Marxism" or marxism-in-decline. Marxism is not true and is not science, but so what? The hermeneuticians tell us that nothing is objectively true, and therefore that all views and propositions are subjective, relative to the whims and feelings of each individual. (#)
Meiri pólitík? Já hví ekki. Stúdentaráð féll í gær í hendur fylkingar sem seinast var við völd á mínum háskólaárum - Röskvu. Örstutt ferðalag á heimasíðu Röskvu leiddi samt í ljós að þótt Röskva hafi ekki verið í meirihluta í Stúdentaráði í nokkur ár núna, og hafi verið í samstarfi með Vöku á nýliðnu kjörtímabili, þá er það nú samt Röskvan sem útvegaði lóð undir stúdentagarða, hækkaði námslánin og skipulagði meðmælagönguna á haustmisserinu. Já það er nú meira hvað stjórnarandstaðan getur komið í verk! Svona eins og að tjah, vera í stjórnarandstöðu á Alþingi í nokkur ár og þegar góðæri skellur á að þakka sér fyrir það á grundvelli afreka í fjarlægri fortíð (rings a bell?). Svona er nú margt skrýtið í kýrhausnum.

Nú að ekki-pólitík!
Tvö verkefni morgundagsins:
- Klára bévítans grein sem strandaði í miðri vinnslu og nú er skilafresturinn kominn óþægilega nálægt!
- Kaupa tvo ef ekki þrjá miða á þorrablótsball Íslendingafélagsins, jafnvel fleiri ef ég man eftir því að hringja í mann eða tvo og athuga stöðuna á þeim. Íslendingar í Köben, þá sérstaklega skiptinemarnir, er ekki endilega skemmtilegasta fólk í heimi alltaf, en aðrir Íslendingar í Köben eru svo ágætir, svona yfirleitt.

Undanfarnar vikur hafa ekki verið það sem gæti kallast vinnulega þær stabílustu. Að einhverju leyti tengist það ákveðinni einhæfni í sumu af því sem ég sit fastur í en ég held að þungi ástæðunnar liggi í öðru. Málið er nefninlega að atvinnuveitandi minn er að drepast úr manneklu en hefur ekki verið nógu duglegur að leyfa starfsmönnum sínum að uppskera ávöxt erfiðisins. Hin íslenska stemming, "núna finnst mér ég eiga inni launahækkun og ætla storma inn á skrifstofu stjóra og heimta hana", er ekki ríkjandi. Einn vísar á hinn sem vísar á annan sem segir að launamál séu endurskoðuð einu sinni á ári og meira að segja kallað "lønregulering" af mörgum sem fá bara sem nemur verðbólgunni undanfarið ár og una því alveg.

Nú er ég ekki Dani og ekki búinn að danskast upp alveg ennþá en samblandið 1) mikil mannekla = enginn er rekinn, og 2) mikil mannekla en enginn er að sjá krónu aukalega á dagvinnukaupið gerir að ég er, og ég játa það, farinn að slaka meira á í vinnunni og vinnuaginn er hægt og sígandi að seitla út um gluggann. Þetta er ekki plan og ekki með vilja gert en þróun sem ég finn að á sér stað. Ég reyni að streitast á móti en sængin virðist bara verða hlýrri og hlýrri með hverjum degi sem líður, og alltaf auðveldara og auðveldara að vaka seint á virkum dögum án samviskubits.

Ég ætti kannski að hrópa á hjálp frá þér, kæri lesandi. Hjálp, hvað get ég gert!?

Nújæja hvað sem því líður er a.m.k. að líða að háttatíma. Yfir og út!

5 comments:

Anonymous said...

Skiptu um vinnu ef þú ert með minna en 32-34.000 á mánuði.

Anonymous said...

Mér finnst nú illa vegið að hagfræðingum og fleiri góðum þegar allir þeim megin Suðurgötunnar eru settir undir sama hatt.

Anonymous said...

Enda er hagfræðideildin afleit og þar finnst ekki gagnrýnin hugsun þrátt fyrir mikla leit. Talverður stigsmunur er á gæði náms í hagfræðideild og verkfræði&raunvísindadeild. Hagfræðinámið er illa samsett, þar sem nemendur læra það sama í ýmsum námskeiðum, og í sumum þeirra læra þeir ekki nokkurn vitrænan hlut.

Geir said...

Ég var nú ekki að vega að neinu held ég heldur benda á að sumt nám er ekki fyrir mig þótt ég hafi gaman af innlitinu!

Skóla-hagfræðin á svo sannarlega heima handan Suðurgötunnar í flokki hugvísinda sem engri niðurstöðu ná eða vilja ná!

Anonymous said...

Hagfræðin í HÍ þarf á mikilli hjálp að halda, það eru ekki nema nokkrir frábærir kennarar þar en margar lufsur sem þarf að losna við.

Ég hef verið með nokkrar lausnir en nú verðum við bara að sjá hvort að maður komi þeim í gegn þar sem maður er nú komin í helvítis stjórnarandstöðu!!!!