Tuesday, March 27, 2007

Heitt!

Glampandi sól og mikill hiti í Danmörku þessa dagana og sem afleiðing þess er fólk almennt í alveg blússandi sumarskapi, syngjandi á göngunum og tala um hvenær eigi að fara á Nýhöfn og fá sér einn kaldan. Ég vona að veðrið haldi eitthvað en oft er erfitt að gera ráð fyrir því á dönskum vortíma. Páskahret, einhver?

Gleymdi alveg um daginn en ætlaði alltaf að benda á þessa ritstjórnargrein í Mogganum, en þar á bæ virðast menn vera vakna upp við þann vonda draum að VG geti í raun orðið áhrifaríkur flokkur í ríkisstjórn að loknum kosningum!

Vinnudagurinn í dag og í gær hafa farið í að ryðja frá óteljandi smáverkefnum. Núna get ég loksins látið braka í hnúfum og skellt mér í stóru skýrslurnar.

Nú er búið að ákveða að ég verði að fá ferðatölvu. Stjórinn minn veit alveg hvað það þýðir (a.m.k. í mínu tilviki): Skilin á milli einka- og vinnulífs hverfa endanlega, og nokkrir vinnutímar í "sjálfboðavinnu" (ógreiddir tímar) detta inn í hverjum mánuði.

Nýjasti stjórnmálaflokkur Danmerkur: Rygerpartiet, eða Reykingaflokkurinn. Markmið: Að berjast gegn öllum árásum hins opinbera á einkalíf einstaklinga (þar á meðal lögum sem skerða einkaeignarréttinn í nafni tóbaksvarna). Kannski ég gerist meðlimur!

Ætli einhvern tímann muni takast að setja lög (á Íslandi) sem banna eigendum fyrirtækja að reka þau eftir sínu eigin höfði (t.d. með því að ráða óhæfa karlmenn og borga þeim fúlgur fjár)? Hérna virðist hugsunarhátturinn a.m.k. vera sá að sumir atvinnurekendur séu að skjóta sjálfa sig í fótinn í ráðningum sínum: "Þótt mikið hafi miðað til framfara síðustu tvær aldir gæti þó hugsast að enn gangi fólk um með dálítið safn af ranghugmyndum sem hamla því að það taki ákvarðanir með hámarkshagkvæmni, til dæmis þegar kemur að því að ráða starfsmenn." En hvað með það? Er ekki leyfilegt að ráða óhæfa starfsmenn og byggja ráðninguna á ranghugmyndum og fordómum? Svo virðist ekki vera. Gvuð forði okkur frá pistlahöfundum sem telja sig vera hæfustu atvinnurekendur landsins, en hafa bara ekki enn náð svo langt að komast í stól atvinnurekanda!

Jæja núna er ég búinn að espa mig of mikið upp. Út í sólina, já takk!

No comments: