Monday, March 26, 2007

Svíþjóð 2007 annáll

Fyrir sjálfan mig og til að varðveita minningar ætla ég núna að rita niður nokkur orð um helgina mína í Svíþjóð með verkfræðingum vinnustaðar míns (rúmlega 50 stykki af verkfræðingum án eftirlits í langtíburtu að fikta við áfengi og áhættuíþrótt - hvernig getur svoleiðis upplifun verið leiðinleg?).

Ferðin hófst beint eftir vinnu (hvað mig varðar) á fimmtudagskvöldið. Áfengi var strax komið í hendur nærri allra í rútunni góðu og fólk byrjaði fyrst að dotta um 2-leytið um nóttina. Rútan mætir á svæðið um 8-leytið morguninn eftir og strax borðað og skipt um föt og náð í skíði og dagurinn var hinn ágætasti. Ég var fljótur að rifja upp það litla sem ég kann á skíðum eftir 15 ára fjarveru frá þeim beinbrjótum. Um kvöldið var vinnukvöld, þó með ákveðnum galsa og léttri ölvun, en einhverju tókst nú samt að koma í verk þótt ég hafi óumflýjanlega verið með Dönum í vinnuhóp.

Snemma í háttinn og tiltölulega snemma á fætur (8:30) og vinna fram á hádegi og skíðað/drukkið fram á kvöld. Um það leyti var ég orðinn ansi veikburða í hnjám og skrokki öllum. Mikil áfengisneysla um kvöldið af minni hálfu og nær allra annarra var samt fljót að lækna öll eymsli. Sofnað um 5:30 leytið þá nótt.

Vaknaði svo 9-leytið (vegna hópmyndatöku sem ég og um 10 aðrir misstu af þrátt fyrir allt), sleppti skíðunum þennan seinasta dag enda höfðu alltof spenntir skíðaskór og röng skíðabeiting gert það að verkum að ég var allur uppétinn á kálfum og fæti og er enn með sár til merkis um það. Sötur allan daginn, tekið harðar á því um kvöldið og þegar rútan fór af stað á laugardagskvöldinu var ölvun orðin nokkur. Kynningar á verkefnavinnu helgarinnar um kvöldið höfðu tekist ágætlega og menn þóttust hafa skilað af sér góðri vinnu og góðri skemmtun án þess að annað eyðilagði hitt. Ég er ekki endilega sammála (hvað marga varðar) en það gildir einu. Bætti það upp í dag fyrir hönd míns hóps.

Næturrútan heim á aðfararnótt sunnudags var róleg því menn voru almennt rotaðir af þreytu og sváfu (vel) þrátt fyrir erfið skilyrði. Mættir til Köben á hádegi í gær (sunnudag) og flestir fegnir því. Ágæt mæting í vinnuna í dag þrátt fyrir allt.

Endir.

No comments: