Færeyingurinn í deildinni er hress með eindæmum og gott að fá örlitla jarðtengingu á í formi eyjabúa á vinnustaðinn. Danir eru nefninlega svolítið mikið í skýjunum með margt.
Í dag rignir í Kaupmannahöfn en hitinn helst alveg og niðurstaðan er hiti og bullandi raki og þar með sviti (eða rakaþétting á húð) og það er ekki alveg minn stíll.
Internetveitan mín er að sjálfsögðu búin að svíkja orð sín um að senda mér pappíra innan 8 virka daga og núna er þráðlausa netið sem ég hef sníkt mig á hætt að nást. Niðurstaðan er netleysi heima. Í sjálfu sér ágætt stöku sinnum. Fékk fyrir vikið örlítið tiltektarkast og fór í háttinn fyrir miðnætti.
Ánægjulegt að sjá að fleiri og fleiri eru byrjaðir að labba um á sokkunum á vinnustaðnum - meira að segja á milli deilda á mishreinum gólfunum. Svona er maður að setja þessum Dönum gott fordæmi. Færeyingurinn er berfættur og bætir því um betur. Spurning um að byrja labba um á nærbrókunum til að ná forskotinu aftur í heimilisleika.
Deildin mín fékk sér sumarstarfsmann til að hjakkast í einhverju ómögulegu verkefni sem fyrst og fremst tekur langan tíma en er að öðru leyti bara spurning um að geta fiktað sig áfram. Sá byrjaði svolítið þurr á manninn en ég og Ole á næsta borði erum búnir að rugla svo mikið í honum að hann er hættur að vera þurr á manninn. Hann er tyrkneskur og hefur fengið að heyra ófáa Tyrkja- og múslímabrandara og svarar um hæl með Íslendingadissi og almennri steypu, og er meira að segja farinn að stinga upp á hitting eftir vinnu ("einhvers staðar verður maður að draga mörkin" hugsa ég samt, eins og ónefndur maður af tyrkneskum uppruna fékk að heyra á ónefndum skemmtistað í Reykjavík). Kannski maður biðji Balinn um eins og eina Tyrkjaræmu sem tengist skrifstofulífinu.
Ég væri til í að vera í landi núna þar sem líter af bjór kostar 35 íslenskar krónur út úr búð. Þó ekki endilega vegna bjórverðsins.
Erfitt að losna við föstudagsfiðringinn úr sér, enda föstudagur. Stefnan er enn sem komið er að fara sofa á skynsamlegum tíma í kvöld og reyna af öllum mætti að drullast í vinnuna á morgun enda margir boltar í loftinu sem þarf að grípa. Föstudagsfiðringur farðu!
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment