Wednesday, March 21, 2007

Svíþjóð kallar

Svo virðist sem mér sé ekki ætlað að heimsækja Norðurlöndin utan Danmerkur nema í gegnum vinnuna. Tvær Noregsferðir og báðar vinnutengdar. Á morgun er haldið til Svíþjóðar á vegum vinnunnar. Ætli bjórverðsgradíantinn sé ekki-Danmörk Norðurlöndum svo óhagstæður að ég leita einfaldlega í átt frá honum? Finnland er stóra spurningamerkið í þeirri spurningu.

En hvað um það - Svíþjóð á morgun og ég verð því netlaus þar til á sunnudaginn. Síminn minn verður varla í gangi. Kannski ég hafi vinnusímann í viðbragðsstöðu. Hver veit (hvað? númerið?).

Annars er synd og skömm að sjá á eftir þessari vinnuviku sem hefur gengið svo vel. Sálfræðileg ástæða gæti verið sú að ég vissi að hún yrði skert af utanaðkomandi ástæðum. Ég get hreinlega ekki unnið fulla vinnuviku - kannski vinn ég þá betur á meðan ég get? Nú eða að í allan gærdag og stóran hluta dagsins í dag var lítið verið að trufla mig. Danir eiga það til að reyna fá mann til að spjalla um allt en aðallega ekkert, án fyrirvara og hvenær sem er, en hafa lítið gert það í dag og í gær. Vinnuvikan (þessir tveir dagar) hefur a.m.k. verið með ágætum.

Talandi um vinnu þá er búið að vera óvenjumikið um það upp á síðkastið að mér sé att út í allskyns verkefnisstjórastöður. Er Daninn að fatta að með því að láta mig stjórna einhverju þá þagga ég ókurteisislega niður í óþarfa spjalli og afslappelsi á fundum sem eiga að taka enda? Þetta hljómar eins og gríðarlegt sjálfshól í eyrum Íslendings, en í Danmörku er ég ókurteis og stressandi, og stjórinn minn er einn af fáum innfæddum sem virðist kunna meta þann eiginleika.

Hvað um það, netleysi fram á sunnudag er hér með skjalfest. Góðar stundir!

6 comments:

Anonymous said...

Hvernig líst þér á heimsókn 11-18 apríl?

-Hawk- said...

Dagur án bloggfærslu frá Geir er eins og dagur án sólar. Já svona svipað bara eins og að búa á Íslandi.

Anonymous said...

Við verðum bara að halda þessu bloggi uppi Haukur minn, gætum rifjað upp gömul og góð Grensás-ævintýri, hehe!

-Hawk- said...

Er þetta Fjóla FJÓLA???

Anonymous said...

Já vissir þú það ekki, hehe!

Geir said...

Fjóla: Vel!

Fjóla og Haukur: Þið eruð nú meiri labbakútarnir!