Wednesday, June 27, 2007

Ísland nálgast

Ísland er núna rétt handan við hornið. Bara einn vinnudagur, öl með Hauki annað kvöld og pakka niður og ég er rokinn af stað með morgunflugi á fimmtudegi. Tímabil Íslandsdvalar: Fimmtudagsmorguninn 28. júní til mánudagskvöldið 10. júlí.

Gaui og frú munu nýta íbúð mína sem "base camp" á Hróaskelduflakki sínu og þar með er ókeypis þjófavörn tryggð. Ég hef enga trú á öðru en að þau skili Holunni af sér í betra ásigkomulagi en þau taka við henni! Hún er svolítið sjúskuð eftir hasar helgarinnar og ég hef enga þolinmæði fyrir þrif á meðan svo margt annað þarf að klárast. Skjalfest hér með!

Svo virðist sem klósettið mitt hafi "læknað sig" (eða næstum því) eftir iðnaðarmannatilþrif helgarinnar á því. Ég kann vel að meta sjálflæknandi hluti. Ef nú bara tölvan mín tæki upp á því sama, því ég sé fram á þurfa harka í tölvufyrirseljanda mínum að lokinni Íslandsdvöl.

Í dag var launahækkunardagur í vinnunni. Í dönsku skattkerfi þýðir það ekki (mikið) meira útborgað, en lítur betur út á launaseðlinum að sjá aðeins hærri upphæð fyrir skatt (og "arbejdsmarkedsbidrag" og ég veit ekki hvað dregst af manni fyrir útborgun).

Danskir unglingar voru nú margir hverjir að sleppa út úr skólakerfinu danska með stúdentahúfu á hausnum. Nágranninn í íbúðinni beint undir minni er greinilega að fagna því ákaflega með vinum sínum. Gott að sofna við tónlist. Reyndar mundi ég sofna við hvað sem er núna, léttur í hausnum sem ég er eftir 18 tíma vöku undir töluverðu álagi.

Hausinn tæmdist rétt í þessu og því vissara að hætta skrifum! Vakna eftir 5,5 klst. Harka er því vel þegin!

Monday, June 25, 2007

Mikil átök að baki!

Með skjálfandi hendur (sennilega vegna afeitrunarbaráttu líkamans) ætla ég að reyna koma niður helstu punktum helgarinnar og bæti sennilega við listann eftir því sem fleira rifjast upp.
- Penge for øl
- Týnast í hverfinu mínu
- Amager strand
- Reyna ná í Tobba
- Fríkort í dauðaspaðann (sem aldrei nýttust)
- Prumpa á Hjalta
- Móbíja Gauta
- Sofna í stigagangi
- Reyna sofna út á götu - ítrekað!
- Sofna á heimleiðinni og Hjalti fyrstur heim
- Rúnkbann og mikil gredda
- Gauti að laga klósett er ekki góð hugmynd
- Haugarnir haugast
- Sídeyjandi tölva
- Ósk elskan, vinsæl af ferðamönnunum
- Drekka öll kvöld og alla helgardaga (allan daginn) frá miðvikudagskvöldi
- "Ég er til í þetta!"
- Enginn Dauðaspaði með Hauki! (fastur í Ishøj)

Sjáum svo til með fleiri minningarbrot. Mér finnst eins og gullmolarnir hafi fæðst á hverjum klukkutíma og því erfitt að henda reiður á öllu!

Ég þakka mínum frábæru vinum fyrir frábæra helgi! Megi örlögin leyfa að hún verði einhvern tímann á einhvern hátt endurtekin!

Tuesday, June 19, 2007

Dauðaspaðahelgin mikla

Ég hef ákveðið að helgin sem nú er handan við hornið fái nafnið "Dauðaspaðahelgin mikla". Ég mun svo athuga það eftir helgi hvort nafnið sé viðeigandi, en geri fastlega ráð fyrir að svo verði!

Hjalti, Gauti, Haukur, Raggaló og líklega Óli (ef hann fær útivistarleyfi) eru öll skráð til leiks í Köbendjamm um helgina og því næstum því eins og skiptinemaárið mitt í Baunaveldi fái örlitla endurkomu. Ég sé bara ekki hvernig þetta getur orðið annað en ofsi! (sjöníuþrettán)

Gallinn við helgar af þessu tagi - eins og sú þarseinasta óneitanlega var - er sá að ég get ekki sýnt neinum mjög margar myndir frá þeim. Galli eða kostur? Dæmi hver fyrir sig!

Hef það ekki lengra í bili. Lesþyrstir kíkja við á moggabloggið eða ÓH. Óvíst um tíðni bloggfærslna frá mér þar til á sunnudagskvöld og þá bara ef heilsan leyfir!

Saturday, June 16, 2007

22

Litla systir átti 22 ára afmæli í gær. Hún er e.t.v. hætt að vera svo "lítil" lengur þótt ég muni seint hætta að meðhöndla hana eins og litlu litlu systur mína sem ég vil að fái allt sem hún biður um, hvort sem hún þarf á því að halda eða ekki, og hvort sem það er hollt og gott fyrir hana eða ekki.

Núna held ég að líkaminn sé að nálgast það að vera búinn að skola seinustu eiturefnunum úr líkamanum eftir seinustu helgi. Hægðirnar eru góðar og nokkrir vinnudagar komu hausnum í lag.

Djammleysi um þessa helgi er kærkomið en djamm með Hauki um næstu helgi verður það líka!

Haukur, það tekur u.þ.b. 20-30 sekúndur að hlaupa nakinn í kringum bygginguna mína. Hef ekki tekið tímann á því á manneskju í klæðum.

Köben tók sig til í dag og hellti roki og rigningu yfir íbúa sína. Veðurspá vikunnar virðist benda til svipaðs ástands í a.m.k. nokkra daga fram í tímann ef marka má danska veðurfræðinga sem eru e.t.v. þeir verstu í heimi miðað við fyrirsjáanleika lægða sem koma úr mikilli fjarlægð úr Vestur-Atlantshafi! Af hverju þarf ég t.d. að fara á veðursíðu mbl.is til að fá upp hæða- og lægðakort af Evrópu og spá sjálfur fyrir um líkur á úrkomu næstu daga? Það eina sem Daninn býður upp á er heilalausa líkindafræði sem er jafnlíkleg til að vera röng og hún er að vera rétt!

Svo ég haldi áfram að tala eins og veðurfræðingur þá sýnist mér að hæðin sem heldur rigningarlægðunum frá Íslandi sé að beina rigningarlægðum yfir Danmörku. Íslendingar, viljið þið ekki aflýsa hæðinni ykkar svo ég fái 35 stiga hitann og heiðskýran himininn aftur til Köben?!

Sennilega er ástæðan fyrir rigningu í Köben samt einfaldari en eitthvað með hæðir og lægðir. Kannski er hún fjarveru tveggja stúlkna frá Köben að kenna. Megi þær snúa aftur hið fyrsta!

Ég er kominn með slitsár eftir of mikla hægrihandarvinnu upp á síðkastið.

Það að einhver telji mig "vita ótrúlega lítið og misskilja flest" kemur sem betur fer ekki í veg fyrir að ég tjái mig (að mínu mati). Ef svipað álit mitt á öðrum mundi halda öðrum frá því að tjá sig þá væri lítið að gerast í dægurmálaumræðunni!

Væri of gróft af mér að láta fólk skrifa undir samning þess efnis að ef því er boðið í partý heima hjá mér - og mætir - þá lofar það að biðja ekki um bann við reykingum í heimahúsum næsta virka dag, t.d. sökum reykingalyktar í fötum og hári?

Sveigjanleiki vinnustaðar míns er alveg ljómandi. Á morgun stefni ég til dæmis á nokkra tíma á vinnustaðnum í skiptum fyrir nokkra tíma utan hans á skrifstofutíma í vikunni. Sveigjanleiki á vinnustað verður seint metinn til fjár (þótt auðvitað sé hann það þegar allt kemur til alls). Það eina sem ég bið um frá þeim sem hyggjast nýta vinnustaðar-sveigjanleika minn er fyrirvari og smá heppni með tegund verkefna og fundaálags á vinnustað mínum.

Ég sendi persónulegt sendibréf með gamla góða póstinum í dag. Það var skrýtin nostalgíu-tilfinning sem blandaðist örlítilli óvissu um hvort bréfið nái í gegnum hið danska póstkerfi eða ekki. Sjáum hvað setur.

Wednesday, June 13, 2007

Bræðingur úr Baunaveldi

Köben ætlar ekki að kólna mikið þótt skýin hafi mætt aftur eftir langt hlé. Hér er bullandi heitt og rakinn gríðarlegur. "Slæma" veðurspáin rætist e.t.v. á morgun, en kannski ekki. Óvissan er gríðarleg!

Sumir eru samt ekki jafnóvissir um áreiðanleika veðurspáa ef marka má ýmsar athugasemdir við sumar færslur á moggablogginu mínu. Kannski er heimurinn einfaldari ef "sérfræðingarnir" hafa bara rétt fyrir sér og þannig er það.

Fólk sem svarar tölvupósti á vinnunetfanginu kl 22 að kveldi til fær plús í minn kladda. Núna get ég skellt mér beint í eitthvað í fyrramálið sem hefði annars þurft að bíða eitthvað eftir.

Vinnan hefur samt ekki verið söm við sig í marga daga núna. Ég náði þó löngum degi í dag og grynnkaði aðeins á verkefnalistanum eins og hann leit út í morgun. Í lok vinnudags var listinn samt orðinn lengri. Er fjarvera frá vinnustað góð leið til að "klára" sitt?

Drottningarnar mínar eru svo ágætar að það er engu lagi líkt.

Í dag og í gær eru Danir að sanna að þeir eru e.t.v. ágætir í að hrinda af stað stórum opinberum verkefnum, byggja þau í nýjasta hönnunarstíl og ráða til sín sérfræðinga til að búa til það fullkomnasta sem völ er á - en svo tekur það við að reka kvikindið og þá klúðrar Daninn því alveg. Um er að ræða metro-kerfi Köben sem sýnir á sér allar myndir t.d. hins danska heilbrigðiskerfis (biðraðir, plástralausnir, örtröð, ruglingur). Seinasta vígi hinna dönsku almenningssamganga fallið? Vonum ekki, því ekki nenni ég að reka bíl!

Ég er að mýkjast með aldrinum hef ég tekið eftir. Ég er farinn að skilja kvenfólk meira en ekkert, skipti mér af og leysi vandamál sem koma mér ekkert við þannig séð og segi "sei sei" í staðinn fyrir "svei!" þegar fólk í kringum mig, t.d. á danskri lestarstöð, kann engan veginn að bregðast við breytilegum aðstæðum með breytilegri hegðun. Einnig er ég hættur að verða sá ölvaðasti í partýjum og byrjaður að passa upp á þá sem eru orðnir ofurölvi. Eru þetta tákn um að aldurinn sé farinn að segja til sín?

Næstu vikur verða góðar vikur. Ég sé bara ekki hvernig annað geti orðið raunin! (sjöníþrettán!)

Monday, June 11, 2007

Þetta var helgin sem skilgreinir góða helgi!

Mikið afskaplega var helgin góð! Svo góð að aðrar helgar munu þurfa verða ansi góðar til að komast nálægt þessari í hressleika og skemmtun! Stikkorðin vantar ekki, og þau verða á punktaformi að þessu sinni:
- "High five, great success!"
- "Takk skal du har"
- ÁK vinnur á Reef'n'beef
- Íbúðin mín getur borið 12+ manna partý, jafnvel þótt tveir íturvaxnir menn séu meðal gesta
- Dauðaspaði dauðans! Þyrlan, saltvatnsþakinn líkami, nektarhlaup, standa á höndum nakinn, osfrv osfrv
- "Þú ert svo feitur að hlutir draaagast að þér..."
- "Þú ert svo feitur að..."
- "Það er eins og ég sé innfæddur!"
- "Skál fyrir heimilisofbeldi!"
- PG, en samt ekki
- "Ég er búinn að borga borðið..."
- Óvæntasta heimsókn ævi minnar
- Stanslaus bjórinntaka á miðvikudags-, fimmtudags-, og föstudagskvöldi, laugardegi og laugardagskvöldi og sunnudegi og sunnudagskvöldi er ávísun á þunnan mánudag
- Klipping og víndrykkja fara vel saman
- "Er það ekki leigubíll?"

Fleira man ég ekki í fljótu bragði, en tel mig samt muna eftir allri helginni (færslan gæti því lent í hlaupandi uppfærslu eftir því sem minningarbrotin rifjast upp).

Ég þakka öllum sem að komu að þessari helgi kærlega fyrir mig! Svona pakki verður seint endurtekinn, en um að gera að reyna stefna að því samt!

Ábending til ferðalanga



Ég fagna hreinlega slæmri veðurspá í Danmörku. Þessi hiti og raki meginlandsloftslagsins er ekki fyrir íslenskan skrokk að þola (bjórlaus).

Friday, June 08, 2007

Thursday, June 07, 2007

Heitt!

Danska sumarið virðist vera búið að festa sig í sessi og hætt að skipta á milli hitavikna og rigningarvikna. Núna er 25+ stiga hiti alla daga og gríðarlegur raki. Tvennt gerist í svona veðurfari:
- Ég hitna og svitna.
- Ég vil helst ekki gera annað en sitja úti og drekka bjór, að nóttu sem degi.
Hið fyrra gerir að hið síðara krefst næstum því engra klósettferða sem er kostur. Ókosturinn er sá að föt og sokkar er fljótt að blotna í gegn. Ég met kostina meira en ég met ókostina lítils.

Helgin lítur út fyrir að ætla verða einhvers konar ofsi. Hlynur er í bænum, Óli er að verða frískur aftur eftir veikindi, Ingi kemur frá Fjóni (og gistir á Hótel Geir) og Danni kemur frá Jótlandi á morgun. Ef þetta er ekki svínarí-uppskrift dauðans þá veit ég ekki hvað það er!

Vinnudagana hef ég eins stutta og ég kemst upp með. Til hvers að mæta snemma og fara seint þegar ég get drukkið bjór með Hlyni á kvöldin, mætt seint og farið snemma?

Ónefndur en fagur fugl hvíslar því að mér að ég eigi að flytja til Íslands aftur. Ég skal hugsa málið þegar danska haustið kemur (köllum þann dag bara 15. ágúst) en ekki mínútu fyrr! Hátt áfengis- og tóbaksverð, vont veður og nýjasta nýtt: Skertur einkaeignarréttur veitingahúsa- og skemmtistaðaeigenda! Vinir og vandamenn þurfa að vera ansi skemmtilegir til að vega upp á móti þessu! (Að vísu eru þeir það, en það er önnur saga og lengra mál.)

Mjög svo ágætur félagi minn og frú hafa boðist til að passa upp á íbúðarholuna mína á meðan ég verð á Íslandi (28.júní-10.júlí). Að sjálfsögðu ekki hrein greiðasemi (miklu frekar frjáls viðskipti - allir græða!) en vel þegið og gott mál. Þjófótt pakk má gjarnan halda sig fjarri mínu heimili!

Þetta með að vera "pró aktive" á vinnustað er ekki alltaf jafnóþakklátt framtak.

Í einu dagblaðanna í dag var sögð saga manns sem þurfti að bíða í 7 klukkustundir eftir lækni á danskri neyðarmóttöku með tognaðan fót og hugsanlega slitin liðbönd. Note to self: Nota einkaspítalafídusinn í vinnustaðarheilbrigðistryggingunni ef EITTHVAÐ kemur upp á.

Ég fór í örlítinn bolakaupaleiðangur í dag og lenti í búð sem seldi mikið úrval bola með kommúnískum slagorðum og táknum en ekki einn einasta sem tengdist kapítalisma og frjálsu fyrirkomulagi samfélagsins. Kapítalismi og frjáls markaður getur verið einkennilegur stundum. Hvað kemur næst? Uppboð á hlutabréfum í danska kommúnistaflokknum?

Ég var víst búinn að lofa að blogga um Anítu og Sif. Hér með er það afgreitt.

Hersteini þakka ég pungsvitasamúðarkveðjuna. Ekki veitti af henni!

Sunday, June 03, 2007

Þjófótta pakk!

Fólk sem virðir ekki eignarréttinn fer alveg óstjórnlega í taugarnar á mér! Ég er ekki bara að tala um þá sem setja lög sem takmarka eignarréttinn heldur þá sem beinlínis stela (ólöglega) eigum og hlutum annarra!

Á seinustu 8 dögum hef ég nú orðið vitni að eða veit um eftirfarandi:
- Tösku rænt af félaga mínum meðan hann sat með mér og nokkrum öðrum á bekk í almenningsgarði (grunuð er konan sem var að safna flöskum enda ekki margt annað fólk á stjá í okkar umhverfi)
- Bankakortum og síma rænt úr tösku samstarfskonu minnar á vinnudjammi á föstudaginn á meðan hún skrapp í stutta stund frá og á meðan stór hópur okkar fólks sat á borðinu við hliðina (grunaðir eru þrír menn sem einhver þóttist hafa séð til í nágrenni okkar)
- Litla systir rænd af tösku sinni á Sólon "skítastað" á Íslandi

Sjálfur tek ég aldrei meira en bankakort, lykla og strætókort með þegar einhver hætta er á örlitlu rænu- eða athyglisleysi en það er ofsóknaræði sem ég óska engum að hafa.

Hvað er lögreglan að gera á meðan öll þess rán fara fram? Hún er að eltast við fólk með nokkur grömm af vímuefnum í vasanum, passa upp á að fólk kveiki sér ekki í sígarettu á vitlausum stöðum (nú, ásamt dyravörðum og barþjónum skemmtistaða), lesa blaðagreinar til að athuga hvort einhver sé að skrifa jákvætt um tóbaksneyslu, ráðast inn á vinnustaði til að lesa tölvupósta stjórnenda til að sjá hvort þeir séu að stunda samráð við aðra stjórnendur, athuga hvort fólk hafi beltin spennt, byrjar bráðum að reikna út hlutfall kynfæra í stjórnum fyrirtækja sem bjóða upp á þægileg skrifstofustörf, og svona má lengi telja.

Á sama tíma treystir fólk á lögregluna til að koma í veg fyrir þjófnaði og ofbeldisglæpi. Það traust má rýra með hverjum þeim ofbeldislausa "glæp" sem lögreglunni er sagt að hafa afskipti af.

Urgh og svei og þótt ég óski engum þess að taka upp ofsóknaræði mitt þá vona ég samt að flestir finni það með sjálfum sér að taka það upp!

Hin mikla svefnhelgi

Fyrir sjálfan mig fyrst og fremst skjalfestist hér með svefn minn um þessa helgi:
Sofnaði um 4-leytið á aðfararnótt laugardags. Vaknaði kl 15 á laugardaginn. Var sofnaður aftur um kl 18-19 yfir mynd í tölvunni. Rumskaði um miðnætti og skreið upp í rúm. Vaknaði núna kl 11:30 á sunnudegi. Ég hef því sofið í um 30-32 tíma af seinustu 36 tímum eða svo ef ringlaður hausinn er að leggja rétt saman.

Vinnudjammið á föstudaginn var athyglisvert svo ekki sé meira sagt. Drottningar sem krydda tilveru allra í kringum sig stóðu sig eins og hetjur. Rænt úr veski vinnuvinkonu. Króatíski samstarfsmaðurinn sýndi dimmar hliðar á sér. Ole varð öfurölvi og hætti að taka eftir því þegar var komið að honum að borga, líka þegar hann var minntur á það. Smá haugsástand þar sem fór í taugarnar á mér og endaði kvöldið hjá mér fyrr en ella. Uppáhald allra karlmanna á vinnustaðnum játaði svolítið fyrir mér sem verður athyglisvert að spila úr. Í það heila athyglisvert og skemmtilegt kvöld þar sem sumir brenndu fleiri brýr en aðrir, og ég var merkilegt nokk og að mörgu leyti óviljandi að byggja brýr á fullu.

Ég hef lýst því yfir á vinnustaðnum að ég ætli ekki að halda frí á þriðjudaginn þegar Danir gera það í tilefni af þjóðhátíðardegi sínum ("Grundlovsdag" - stjórnarskrárdagur). Því miður hafði ég lýst þessu yfir áður en ég komst að því að þjóðhátíðardagur Íslendinga lendir á sunnudegi í ár og því lítið upp úr því að hafa að vera fjarri vinnu þann dag í staðinn. Skaut ég mig í fótinn eða var yfirlýsingin þess virði til að sýna að ég er Íslendingur sem ætla ekki að fagna neinum Baunadegi hátíðlega með því að sofa út?

Þeir sem hafa áhuga á að útvíkka skilning sinn (eða skort þar á) á hugtakinu "réttur" (rights) ættu e.t.v. að hugleiða að lesa greinin "Mannréttindi eru eignarréttindi" (að vísu á ensku) og vera svo í sambandi við mig persónulega ef einhverjar hugleiðingar spretta upp í kjölfarið (t.d. via mail eða msn).

Sunnudagur er nýr og verður hugsanlega nýttur í eitthvað. Kannski ekki. Látum oss sjá.

Friday, June 01, 2007

Hressandi vika

Þetta er búin að vera hressandi vika. Lítill svefn í léttu ölvunarástandi nánast allar nætur í bland við þétta vinnudaga með ágætri stemmingu er góð blanda sem mælt er með. Að vísu lengist listinn yfir vanrækt verkefni alltaf þegar kvöldin eru nýtt utan "vinnu"aðstöðunnar heima á kvöldin en því má alltaf redda.

Ráðgjafastarfið er ágætt starf. Gæluverkefnið gengur vel og reddingar og lausnir virðast alltaf liggja á lausu þegar spurt er eftir þeim.

Á morgun ætla vinnufélagar að hittast á einhverri knæpunni í Köben og drekka sig fulla saman. Ég þarf að finna undankomuleið ef dramatík seinasta vinnuhópdjamms lítur út fyrir að ætla endurtaka sig en áhyggjur mínar eru þó litlar sem engar.

Veðrið helst nú gott í langan tíma í einu sem er í góðu lagi. Þetta með mikinn hita og mikinn raka er samt ekkert að fara betur í mig nú en áður.

Hef það ekki lengra í bili. Látið mig vita þegar hið frjálsa og óháða vefrit Múrinn hrósar einræðisherra Venezúela fyrir að fækka leiðum til að gagnrýna sig, drekkið nóg af bjór og munið að á Íslandi lifa bæði menn og konur lengur en í Danmörku. Er það ekki ástæða til að brosa?