Thursday, June 07, 2007

Heitt!

Danska sumarið virðist vera búið að festa sig í sessi og hætt að skipta á milli hitavikna og rigningarvikna. Núna er 25+ stiga hiti alla daga og gríðarlegur raki. Tvennt gerist í svona veðurfari:
- Ég hitna og svitna.
- Ég vil helst ekki gera annað en sitja úti og drekka bjór, að nóttu sem degi.
Hið fyrra gerir að hið síðara krefst næstum því engra klósettferða sem er kostur. Ókosturinn er sá að föt og sokkar er fljótt að blotna í gegn. Ég met kostina meira en ég met ókostina lítils.

Helgin lítur út fyrir að ætla verða einhvers konar ofsi. Hlynur er í bænum, Óli er að verða frískur aftur eftir veikindi, Ingi kemur frá Fjóni (og gistir á Hótel Geir) og Danni kemur frá Jótlandi á morgun. Ef þetta er ekki svínarí-uppskrift dauðans þá veit ég ekki hvað það er!

Vinnudagana hef ég eins stutta og ég kemst upp með. Til hvers að mæta snemma og fara seint þegar ég get drukkið bjór með Hlyni á kvöldin, mætt seint og farið snemma?

Ónefndur en fagur fugl hvíslar því að mér að ég eigi að flytja til Íslands aftur. Ég skal hugsa málið þegar danska haustið kemur (köllum þann dag bara 15. ágúst) en ekki mínútu fyrr! Hátt áfengis- og tóbaksverð, vont veður og nýjasta nýtt: Skertur einkaeignarréttur veitingahúsa- og skemmtistaðaeigenda! Vinir og vandamenn þurfa að vera ansi skemmtilegir til að vega upp á móti þessu! (Að vísu eru þeir það, en það er önnur saga og lengra mál.)

Mjög svo ágætur félagi minn og frú hafa boðist til að passa upp á íbúðarholuna mína á meðan ég verð á Íslandi (28.júní-10.júlí). Að sjálfsögðu ekki hrein greiðasemi (miklu frekar frjáls viðskipti - allir græða!) en vel þegið og gott mál. Þjófótt pakk má gjarnan halda sig fjarri mínu heimili!

Þetta með að vera "pró aktive" á vinnustað er ekki alltaf jafnóþakklátt framtak.

Í einu dagblaðanna í dag var sögð saga manns sem þurfti að bíða í 7 klukkustundir eftir lækni á danskri neyðarmóttöku með tognaðan fót og hugsanlega slitin liðbönd. Note to self: Nota einkaspítalafídusinn í vinnustaðarheilbrigðistryggingunni ef EITTHVAÐ kemur upp á.

Ég fór í örlítinn bolakaupaleiðangur í dag og lenti í búð sem seldi mikið úrval bola með kommúnískum slagorðum og táknum en ekki einn einasta sem tengdist kapítalisma og frjálsu fyrirkomulagi samfélagsins. Kapítalismi og frjáls markaður getur verið einkennilegur stundum. Hvað kemur næst? Uppboð á hlutabréfum í danska kommúnistaflokknum?

Ég var víst búinn að lofa að blogga um Anítu og Sif. Hér með er það afgreitt.

Hersteini þakka ég pungsvitasamúðarkveðjuna. Ekki veitti af henni!

2 comments:

Anonymous said...

Þú ættir að gerast kommúnisti. Það fer þér miklu betur.

Geir said...

Væri fín afsökun til að auðvelda bolaaðgengi og fá leyfi til að ganga um í hermannabúning. Annars nei takk!