Þá held ég loksins að hálsbólgu-slím-ógeðið sé svo gott sem horfið úr líkamanum. Einstaka hósti er orðinn slímlaus og langur vinnudagur var líkamlega auðveldur. Gott mál og ekki seinna vænna því helgin er handan við hornið og einhverjar flökkukindur verða á ferðinni auk þess sem innfæddir (Íslendingar) verða sumir hverjir hressir. Gott mál í alla staði. Sakna þó skráningu Örvars á Hótel Geir og vona að hún sé enn á döfinni!
Sjoppumaðurinn minn var að segja mér það áðan að með áframhaldandi getuleysi lögreglu til að stöðva innbrot og áframhaldandi ofsóknum skattayfirvalda þá geti hann varla haldið áfram að reka fyrirtækið sitt og neyðist til að loka. Mikil sorgartíðindi ef svo fer. Ég er farinn að skilja ágætlega hvernig Danir komast hjá því að mælast gjörspilltir í öllum alþjóðlegum mælingum. Ástæðan er sú að hérna mega opinberir embættismenn gera hvað sem þeir vilja - löglega og á fullum og eflaust ágætum launum!
Ef það verður sett í íslenska stjórnarskrá að "íslenska er þjóðartunga Íslands" þá mun ég aldrei framar mæla íslenskt orð á íslenskri grund! Vitaskuld ýki ég núna og veit satt að segja ekki hvernig ég ætti að brjóta á því ákvæði en eitthvað hlýt ég samt að gera ef af verður. Hver segir svo að Íslendingar séu umburðarlyndir englar sem umbera allt og alla? Ekki er ég það og játa það fullum fetum. Margir segja það samt en vilja engu að síður teikna sviðshöfuð á forsíðu stjórnarskrár-plaggsins til að minna á gamla tíð þegar internetið hét alnetið og menn keyrðu um á sjálfrennireiðum. Þeir um það!
Á morgun neyðist ég til að taka stuttan og venjulegan vinnudag. Ástæðan er ekki flóknari en sú að ég þarf að treysta á einn Dana til að fylgja mér að í núverandi verkefnum og þar að auki Dana sem á krakka svo viðkomandi nær varla 6 tíma vinnudegi og eyðir helmingnum af honum í blaður um allt og ekkert við hvern einasta einstakling sem yrðir á hann. Stuttur vinnudagur verður það víst að vera.
Núna er það hins vegar svefninn. Eða bráðum. Yfir og út!
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment