Wednesday, July 12, 2006

Miðravikudagsblogg (varúð: svolítið pólitískt)

Stjóri er vissulega með hressari mönnum og tvímælalaust með hressari stjórum. Núna er hann að hvetja til föstudagshittings á Nýhöfn til að drekka bjór í fyrirhuguðum 30 stiga hitanum og stemming virðist almennt vera í góðu lagi fyrir slíkan hressleika. Ljómandi segi ég.

Ástæða bjórþorsta hans leiðir hugann hins vegar að öðru - því hversu líf einhleypa mannsins er frábært og frjálst! "Kærastan mín er ekki í bænum", er tylliástæða stjóra fyrir sötrinu (og líklega ástæða þess að hann dró mig í hamborgara og bjór á mánudagskvöldið). Hann er klárlega í góðu sambandi en svo virðist sem innilokunarkennd frátekna karlmannsins sé óvinnandi afl.

Já en sem sagt steikjandi sólin er komin aftur eftir stutt hlé.

Hvernig ætli skylduaðild að einhverju "sanni sig"? Núna hef ég fyrst og fremst skylduaðild að lífeyrissjóðum í huga en spurningin gildir annars ósköp almennt. Eru fyrirtæki með kúnna í skylduviðskiptum almennt vel rekin og þjóna hagsmunum kúnna sinna betur en önnur? Já eða nei, því annaðhvort gildir það almennt eða alls ekki. Hugtaksskrípið "þjóðhagslega hagkvæmt" er líklega eini björgunarhringur skylduaðildarmanna.

Íslenskir vinstrimenn ættu tvímælalaust að lesa dönsk og þýsk dagblöð meira til að fá innblástur. Bæði í Þýskalandi og Danmörku ræða stjórnmálamenn um - ekki reyklausar opinberar byggingar - heldur ilmefnalausar opinberar byggingar! Tölfræðin sýnir jú að um 4% einstaklinga hafa ofnæmi fyrir ilmefnum í mismiklum mæli og hví ekki að slá til og banna þau á alla línuna (með opinberar byggingar sem dæmigert upphafsskref)?

Talandi um reykbann. Fyrir nokkrum mánuðum sá ég frétt þess efnis að sveitarfélög víða í Danmörku séu nú byrjuð að heimta algjört reykleysi af starfsmönnum sínum í vinnutíma (að viðlögðum frádrætti í launum). Meðal annars var Bröndby (sveitarfélagið þar sem vinnustaður minn er staðsettur) nefnt sem dæmi um slíkt sveitarfélag. Nú er það svo að ég hef svo óteljandi oft gengið framhjá ráðhúsi sveitarfélagsins á leið til vinnu og ekki bara séð fólk þar fyrir utan reykja heldur eru a.m.k. tvö stubbahús hengd við hlið innganga hússins svona til að stubbarnir sleppi við að lenda á götunni. En kannski eru opinberir starfsmenn í Danmörku bara svo nikótínháðir og ó-efnisþenkjandi að þeir láta sig hafa það að þiggja launafrádrátt í skiptum fyrir afnot af stubbahúsum.

Pólitískur rétttrúnaður er yfirleitt bara hárfínni línu frá blákaldri lygi.

Kolbrún Halldórsdóttir er búin að selja öll rafmagnstækin sín, losa sig við bílinn og hætta við útgjaldaáætlanir fyrir ríkið sem treysta á skatttekjur frá orkufrekum íslenskum verksmiðjum og starfsmönnum þeirra. Til að kóróna afrekalistann ætlar hún, í samstarfi við aðra unnendur óbyggða, að kaupa upp stór landflæmi og stofna friðlendi í stað þess að leyfa orkufyrirtækjum að kaupa þau og byggja orkuver og reisa stíflur. Svona er að láta verkin tala en ekki orðin.

2 comments:

Anonymous said...

Já þetta er gott hjá gömlu. Hún er þá loksins farin að ná áttum og vera samkvæm sjálfri sér. Eitt sinn átti hún ekkert mótsvar þegar ágætur sjálfstæðismaður spurði hana hvort að við byggjum ekki á sömu jörð og fólk í Suður Afríku (umræðuefnið var virkjanir). Kolabruni þar skipti hana litlu máli......

Geir said...

Kolbrún er almennt ekki með fæturnar á jörðinni frökenin. Henni langar bara að ná tökum á samfélaginu og fer leið Græningjans að því takmarki.