Tuesday, July 11, 2006

Skýjuð hitabylgja

Skrýtin stemming í mér þessa dagana. Ég get lítið sofið í hita og raka Kaupmannahafnar en er samt snemma á fótum og held auðveldlega út langa vinnudaga (þótt dagurinn í dag hafi verið í þyngri kantinum). Þegar heim kemur lyfti ég ekki litlaputta (bý ennþá hálfpartinn í kössum) og stend varla upp frá tölvunni.

Á morgun verður þessu ástandi snúið á haus. Snemma heim úr vinnu, prófa þvottaaðstöðuna í húsinu og tæma kassa. Ekkert múður!

Pólitísk hvatning dagsins: Verslum við fyrirtæki sem reka "sweatshops"!

Fyrirsögnin "Hinn gleymdi niðurskurður" ætti að birtast í Morgunblaðinu á næstunni. Ætli einhver annar en alnafni minn afi fái viðbrögð við henni, t.d. með reiðisímtali frá bláókunnugum manni?

Nordea er algjör þursabanki.

Á fimmtudaginn byrjar helgin með sötri á einhverri ölstofunni. Hersteinn veit líklega hvers vegna. Vonandi verður sólin komin aftur eftir gráan skýjadag í dag. Hitinn og rakinn gefur þó hvergi eftir.

Fann sæmilega kebab-holu sem selur stóran kebab á 23 danskar krónur. Hlýt samt að geta gert betur hvað staðsetningu staðar varðar. Í nýju hverfi í Köben þarf að finnast í nágrenninu: Ódýr og snyrtileg kebab-hola, sæmilegur pizzustaður, sjoppa með rúmum opnunartíma, hraðbanki, grænmetissali með ódýrt gos, og auðvitað ölstofa með ódýrum bjór. Er varla kominn með neitt á listann sem uppfyllir ströngustu kröfur en það hlýtur að koma smátt og smátt.

Af öllu sem ég fékk að kynnast í vélaverkfræðináminu þá grunaði mig aldrei að þreytuþolsreikningar og burðarþolsfræði yrðu svona rosalega stór hluti af starfi mínu. Aldrei hefði mig grunað að gríðarlegt tölvuhangs, fikt og leikaraskapur í náminu myndi skila sér jafnvel í verðmætasköpun fyrir atvinnurekanda og raunin hefur orðið (t.d. að vera sæmilega leikinn á Paint-forritið Windows-innbyggða til að búa til skýringarmyndir í skýrslur í stað þess að líma andlitið á Burkna inn á hina ýmsu líkama).

3 comments:

Burkni said...

Öhm ... bara verði þér að góðu, fyrir hvatninguna ... eða eitthvað!

Anonymous said...

Ómæld ánægja sem það veitti okkur hinum og þá iðulega á ögurstundu...

Geirag skora á þig að grafa upp eina góða slíka mynd af BuH og birta hér!

kv.
Halli

Geir said...

Góð hugmynd!