Wednesday, June 27, 2007

Ísland nálgast

Ísland er núna rétt handan við hornið. Bara einn vinnudagur, öl með Hauki annað kvöld og pakka niður og ég er rokinn af stað með morgunflugi á fimmtudegi. Tímabil Íslandsdvalar: Fimmtudagsmorguninn 28. júní til mánudagskvöldið 10. júlí.

Gaui og frú munu nýta íbúð mína sem "base camp" á Hróaskelduflakki sínu og þar með er ókeypis þjófavörn tryggð. Ég hef enga trú á öðru en að þau skili Holunni af sér í betra ásigkomulagi en þau taka við henni! Hún er svolítið sjúskuð eftir hasar helgarinnar og ég hef enga þolinmæði fyrir þrif á meðan svo margt annað þarf að klárast. Skjalfest hér með!

Svo virðist sem klósettið mitt hafi "læknað sig" (eða næstum því) eftir iðnaðarmannatilþrif helgarinnar á því. Ég kann vel að meta sjálflæknandi hluti. Ef nú bara tölvan mín tæki upp á því sama, því ég sé fram á þurfa harka í tölvufyrirseljanda mínum að lokinni Íslandsdvöl.

Í dag var launahækkunardagur í vinnunni. Í dönsku skattkerfi þýðir það ekki (mikið) meira útborgað, en lítur betur út á launaseðlinum að sjá aðeins hærri upphæð fyrir skatt (og "arbejdsmarkedsbidrag" og ég veit ekki hvað dregst af manni fyrir útborgun).

Danskir unglingar voru nú margir hverjir að sleppa út úr skólakerfinu danska með stúdentahúfu á hausnum. Nágranninn í íbúðinni beint undir minni er greinilega að fagna því ákaflega með vinum sínum. Gott að sofna við tónlist. Reyndar mundi ég sofna við hvað sem er núna, léttur í hausnum sem ég er eftir 18 tíma vöku undir töluverðu álagi.

Hausinn tæmdist rétt í þessu og því vissara að hætta skrifum! Vakna eftir 5,5 klst. Harka er því vel þegin!

1 comment:

Anonymous said...

Gott að eiga sjálflæknandi klósett þegar sjálfskipaðir iðnaðarmenn skila ekki betra verki en raun bar vitni.
-iðnaðarmaðurinn