Þessi vika er búin að vera fjölbreytt og að mörgu leyti undarleg. Heimsókn á mánudegi, bjórsötur, sól og vottur af þynnku og því að mæta aðeins of seint í vinnuna var ljómandi byrjun. Brennandi steikjandi heit sól og gríðarlegur raki í loftinu, auk vinsælda íbúðar minnar hjá stingandi kvikindum á nóttunni - allt hefur þetta haldið mér sæmilega svefnlausum og ekki alltof virkum það sem af er vikunnar.
Vinnan er líka í sérstökum gír. Ég þarf helst að vera búinn með stóran hluta af pappírsvinnuverkefnum mínum (skýrslur og annað eins) áður en mínar fjórar vinnuvikur í verksmiðjunni byrja á mánudaginn. Pappírsvinnan samanstendur aðallega af uppfærslum og því að svara athugasemdum viðskiptavinna og því hvorki mjög krefjandi né spennandi. Þarf samt að ljúka af og loka.
Til að kóróna allt þá kom það í ljós í dag að ég er EKKI á leið til Parísar á mánudaginn þrátt fyrir allt. Frakkarnir voru ekki tilbúnir fyrir áætlaðan fund og voru ekkert að hafa alltof hátt um það fyrr en í dag. Nú er alveg óvíst um hvort það er ég sem verð sendur af stað eða einhver annar. "Fleksibel arbejdsdag" hefur aldrei átt betur við!
Svefnleysi og óörvandi verkefni, steikjandi sól og stingandi kvikindi, og fundur í Frakklandi sem fellur niður. Sérstök vika.
Á móti kemur að ég hlakka mikið til næstu vinnuviku. Húrra fyrir verksmiðjunni!
Mig vantar öflugri vekjaraklukku - helst einhverja sem rafmagnsljóstrar mann á fætur! Hvar fæst svoleiðis?
Alltaf gaman að lesa um Ísland í erlendum blöðum. Alveg sérstaklega gaman þegar skrifin fjalla um hvað Danir eru ömurlegir miðað við Íslendinga! "... Island slår ... Danmark."
Eftirfarandi er alveg dæmigerð dansk-enska (denska?): "As there has not been performed a [...] at this stage ..." Rétt orðaröð sem lætur útsent efni líta fagmannlega út, það er bara pjatt!
Núna þarf tölvudeildin að gera eitthvað við netþjónana svo ég neyðist einfaldlega til að hætta vinnu í dag. Ójæja, yfir og út!
Uppfært: Ég er á leið til Parísar eftir allt saman, bara á fimmtudag-föstudag næstu viku í stað upphaflega áætlaðs mánudags-þriðjudags. Ljóóóómandi.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment