Kaupmannahöfn er að kólna. Rigning og rok er orðið að rigningu og roki og kulda. Minnir óneitanlega á Ísland og ég kann ágætlega við það. Viðbjóðslegar flugur hætta að reyna komast inn, rakastigið fellur undir 90% og ég hætti að svitna við það eitt að standa kyrr.
Haustið ber líka fleira með sér. Daði flytur bráðlega út aftur. Uppáhaldshjónin mín verða í Köben yfir helgina. Einir tónleikar komnir á blað í nóvember. LÍN rukkar mig vitlaust en ætlar að leiðrétta það. Sommarfest í vinnunni á föstudaginn næsta. Hausthefti Þjóðmála dettur bráðum inn um lúguna (vonandi með einhverjum skrifum eftir mig). Árstíðarskipti að mínum smekk!
Hvað er svo að frétta af mér? Mjög lítið. Seinasta verksmiðjuvikan mín tekur við eftir helgi og eftir það tekur hefðbundin skrifstofuborðsvinna aftur. Ég er byrjaður að venjast því ágætlega að fara sofa fyrir kl 22 og vakna kl 5 á morgnana og vera kominn heim kl 19 eða þar um bil. Hin rútínan, að fara mjög seint að sofa og vakna eins seint og ég get og vera þreyttur allan daginn, er líka ágætt en e.t.v. verri fyrir skrokkinn.
Þeir sem eiga í erfiðleikum með að skilja hitt kynið ættu að horfa á Seinfeld í gríðarlegu óhófi.
Alltaf þegar ég sé pör tala saman, t.d. útí búð, þá þakka ég fyrir að vera ekki í sambandi. Minningar af öllu tagi hellast yfir mig. "Hvað eigum við að borða í kvöld?" er spurning sem hrjáir öll pör alla daga og krefst þess að málamiðlun sé náð. "Við borðum smá rúgbrauð þegar við komum heim og svo eldum við seinna í kvöld" var setning sem þurfti í raun og veru að segja í Netto um daginn. Aldrei, aldrei aftur!
Fólki sem vegnar vel í sósíalískum löndum ber ég miklu meiri virðingu fyrir en fólki sem vegnar vel í kapítalískum löndum. Ástæðan er sú að það er miklu erfiðara að vegna vel í sósíalísku landi, og krefst gríðarlegrar útsjónarsemi og jafnvel ósvífni og yfirgangs sem er engin þörf á í kapítalískum löndum þar sem stigann upp á við er mun auðveldara að klífa með einföldum dugnaði að vopni. Ríkir Frakkar og Danir eru sennilega mun útsjónarsamari og fjölhæfari en ríkir Bandaríkjamann (og Íslendingar, ef út í það er farið). Þannig fólk hlýt ég að virða mikils.
Ekki hefur tekist alltof vel að halda konudaginn hátíðlegan í dag. Hef bara náð að þvo og taka aðeins til. Skítt með það samt. Ég náði að sofa vel og græja nokkur mál og það er mikilvægara en ryklaus hilla þegar allt kemur til alls.
Mikið er skrýtið að mig langi ekki í áfengi núna. Vonandi læknast ég af þeirri skynvillu fljótlega!
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
Lausn á paravandamálinu er sú að konan vinni öll kvöld. Þannig ræð ég alltaf hvað er í matinn... ef mig langar þá í mat.
Nú ef svo vill til að það er fríkvöld hjá konunni, þá er gott að hún sé kokkur.
Post a Comment