Wednesday, August 01, 2007

Rólegur fjörleiki

Seinustu dagar hafa verið í rólegri (óölvaðri) kantinum og það er hið besta mál. Nokkuð vel var tekið á því á vinnudjamminu á föstudaginn, og alveg hreint ljómandi laugardagur tók við með rölti út um allan bæ, kaffi- og ölsötri og flótta undan stöku rigningarsturtum. Óskadagur þunna mannsins. Ekki versnaði það um kvöldið með hitting með Daða og frú, víni, ostum og dýrum bjórum, auk hinna þyrstu Vanløse-bræðra.

Ég lærði það kvöld af yngri Vanløse-bróðurnum að ef maður svo mikið sem nefnir eitthvað sem maður hefur gert - gott eða slæmt, samviskulaust eða með samviskubiti - þá er það að "taka kredit fyrir". Athyglisverð nálgun svo ekki sé meira sagt.

Allt þetta þýddi vitaskuld að ég svaf til kl 18 á sunnudaginn, svaf 2 tíma nóttina eftir og var frekar þungur í vinnunni á mánudaginn og raunar í gær líka. Í dag var skrokkurinn hinsvegar í toppformi sem skilaði sér í 12 tíma vinnudegi, en ég hef ekki átt slíkan síðan á vormánuðum. Ekki veitti heldur af þegar hálft fyrirtækið og rúmlega það er í sumarfríi og verksmiðjan að keyra sem aldrei fyrr, auk margra verkefna. "Brandslukning" er þema vinnunnar um þessar mundir og það er hið besta mál.

Ein skemmtilegustu, ef ekki og nokkuð örugglega þau allraskemmtilegustu, hjón sem ég þekki hafa boðað komu sína til Köben í september. Skjalfest fagnaðarefni hér með.

Í gærkvöldi sá ég fótboltaleik með berum augum í fyrsta skipti í örugglega meira en áratug. Vanløse-bræður og Óli voru félagsskapurinn og leikurinn var vináttulandsleikur Brøndby og Chealse. Þetta var alveg prýðileg skemmtun, og um að gera að nýta tækifærið á meðan það er enn leyft að reykja og drekka undir berum himni í fótboltastúku og horfa á fulla Dani öskra úr sér lungun handan vallarins.

Einhver óformleg plön voru nefnd í gærkvöldi um að halda Ölympíuleika í Danmörku ÞÓTT það yrði án guðfaðirs leikanna, Hauks. Við sjáum til með hvernig það þróast, en að drekka og sprikla utandyra er alltaf góð hugmynd segi ég!

Nú þegar hafa ég og Óli ákveðið að skella okkur til Englands í vetur og heimsækja hinn mikla snilling Gauta. Alveg gríðarlega gott plan segi ég, og plan sem verður mjög ólíklega látið fjara út í tímanna rás. Ég meina, hversu oft fær hálf-giftur maður eins og Óli tækifæri til að skreppa í fyllerísferð til útlanda? Þótt það væri ekki af annarri ástæðu held ég að skreppingurinn sé algjört möst!

Sólin hefur boðað komu sína til Danmerkur um helgina með heiðskýran himinn og steikjandi hita. Svalirnar verða rýmdar af tómum áfengisílátum, og náttborðslesningin flutt út í sólina.

Daði, ég held að danskur fréttaflutningur sé jafnvel enn mótsagnakenndari en sá hjá Fox-fréttastofunni í Bandaríkjunum (eins og þú lýstir honum). Dæmisagan sem þú sagðir mér getur endurtekist daglega eftir lestur hvers einasta dagblaðs Danmerkur, daglega! Ég skal reyna vera meðvitaður um þetta fljótlega og vísa í góð dæmi.

Atlas Shrugged (varúð! spoiler!) hefur nú heilaþvegið enn eina sálina (mín er það fyrir löngu). Ljómandi gott að fá slíkt staðfest skriflega frá hinni heilaþvegnu. Ég vona bara að áhrifin endist!

Eins og sést á skrifunum í þessari færslu þá er ekkert sérstakt að "frétta" hjá mér. "Engar fréttir eru góðar fréttir" eru svo sannarlega viðeigandi orðatiltæki fyrir mig!

3 comments:

Burkni said...

Þakkir :)

Gauti said...

Mér líst vel á þetta plan ykkar Óla. Ég ætti að vera kominn í hentugri íbúð þá og getað hýst ykkur báða.

Anonymous said...

Hætta að vitna í og lesa Atlas Shrugged! Ayn Rand segir ekkert sem hefur ekki verið sagt betur, áður.

Lesa það sem meistarinn sjálfur skrifaði, Nietzsche!

Hversu oft þarf ég að segja þetta?