Innblásinn af rassskelli ætla ég að nefna dæmi um eitthvað sem mér þykir mikið þarfaþing að verði framkvæmt, og gera mitt besta til að útskýra það án þess að setjast í stól þingmanns sem þykist vita hvað er öllum fyrir bestu. Hendi þessu út og sé hvað gerist...
Núllun skatta á fyrirtæki og fjármagn
Um áramótin lækka skattar á vinnulaun á Íslandi, og persónuafslátturinn hækkar. Þetta kemur öllum launþegum til góða og er bara hið besta mál. En af tvennu illu, skattur á hagnað fyrirtækja og skattur á launatekjur einstaklinga, er mikilvægara að hið fyrrnefnda víki, nefninlega skattarnir á hagnað fyrirtækja og um leið á fjármagnstekjur af öllu tagi.
Ástæðurnar eru margar. Skattar á fyrirtæki og fjármagnstekjur er fé sem er dregið út úr þeim hluta hagkerfisins sem byggir upp fyrirtæki og gefur öðrum færi á að auka við sig hlutafé og byggja sig þannig upp. Fjárfestar, kapítalistarnir, eru þeir sem hafa sparifé til ráðstöfunar, og þeir vilja ávaxta það. Með því að skattleggja fjármuni þeirra, kapítalið, og hagnaðinn sem má vænta af fjárfestingum þeirra, er hætt við því að færri leggi út í að fjárfesta - færri vilja leggja fjármuni sína undir þegar skatturinn er hærri. Hið sama má segja um húsnæðisverð - það lækkar þegar eignaskattar eru orðnir hluti af fjárhagsáætluninni. Markaðurinn gefur eftir þegar ríkið sækir fram. Þetta gildir almennt.
Skattar á hagnað fyrirtækja og fjármagnstekjur hafa með öðrum orðum þau áhrif að fé leitar síður inn á markaðinn, rennur síður í hlutafé í fyrirtækjum og síður í sparnað almennt. Það sem gerist er að fé leitar í skjól, fjárfestar reyna að verja fjármuni sína gegn skattlagningu. Sumir flytja það til útlanda, aðrir binda það í verðtryggð spariskirteini og hjálpa þannig ríkinu við að auka ráðstöfunarfé sitt og byggja enn eina brúna eða bora enn eitt gatið í fjallið eða dæla því í þær botnlausu hítir sem ríkisreksturinn heldur utan um, heilbrigðiskerfið þar fremst í flokki.
Skattar á fjármagnstekjur valda því með öðrum orðum að fé sem alla jafna myndi leita til fyrirtækja í formi hlutafjár minnkar, og það dregur úr þrótti markaðarins. Sprotafyrirtæki líða fyrst allra - þau reyna að draga til sín áhættufjárfesta sem vænta mikils ágóða í skiptum fyrir mikla áhættu. Stöndug fyrirtæki sem vilja í útrás og uppbyggingu þurfa að sætta sig við minna aðgengi hlutafjár sökum tregðu fjárfesta. Fyrirtæki reyna líka sjálf að minnka skattgreiðslur sínar með því að auka kostnað og þannig minnka hagnað - skjóta sig í fótinn með því að minnka fýsileika sinn sem fjárfestingar í augum fjárfesta, en reyna þó að skila hagnaði í samræmi við það sem það borgar sig miðað við kostnaðinn vegna skattgreiðsla af honum.
Skattar á fjármagnstekjur hafa líka skaðleg áhrif á hinn almenna launþega sem vill leggja fyrir. Ríkið býður núna upp á að leggja aukalega fyrir í séreignarlífeyrissjóð og draga framlagið frá skattstofni. Að leggja meira fyrir í lífeyrissjóð er samt bara ein leið af mörgum til að leggja fyrir, og með því að veita skattahlunnindi fyrir því en ekki öðru er orðin til neyslustýring - tilbúin leið til að laða fólk í sparnað. Þar að auki gefur þetta lífeyrissjóðum óþarflega mikið vald sökum þess hve mikið fé þeir fá í sjóði sína (því svo margir eru að reyna forðast skattlagningu á sparnað sinn). Í stað þess að einstaklingar fjárfesti í fyrirtækjum og geri kröfu um arðgreiðslur þá er þetta vald sett í hendur örfárra stórra lífeyrissjóða sem þannig verða stórir spilarar á hlutabréfamarkaði á meðan einstaklingar sitja heima og vona að sjóðirnir taki réttar ákvarðanir fyrir sína hönd. Ríki í ríkinu ef svo má segja. Ekki bætir úr skák að bankar hafa oft fjárfestingar lífeyrissjóða á sinni könnu og þannig eru orðin til hagsmunatengsl sem eru ekki endilega alltaf í hag lífeyrisþega.
Af þessum ástæðum og fleirum finnst mér ljóst að skattar á fjármagnstekjur og hagnað fyrirtækja séu lítið annað en neyslustýring sem letur fyrirtæki til að skila hagnaði, minnkar vald einstaklingsins á hlutabréfamarkaði, eykur vald lífeyrissjóða og banka, dregur úr fjárfestingum, veldur því að fjárfestar fjárfesti minna og skjóti fé sínu frekar undan skattayfirvöldum í staðinn, dregur úr möguleikum fyrirtækja til að afla sér hlutafjár, minnkar möguleika nýrra fyrirtækja á að laða til sín áhættufjármagn, minnkar samkeppni um fjármagn og þar með samkeppnina um að ávaxta það sem best, gerir stjórnmálamenn óþarflega stóra leikmenn á markaði því þeir eru jú þeir sem fá skattana til ráðstöfunar í samkeppnislausan ríkisreksturinn, minnkar vægi einstaklingsins á markaði og vald hans yfir eigin sparnaði og dregur úr hvata hans til að spara og fjárfesta, og síðast en ekki síst: Dregur úr þrótti hins frjálsa markaðar til að skapa auð, störf og bæta framlegð, og ver fyrirtæki fyrir því að þurfa berjast um takmarkað vinnuafl, og þar með hægir á hækkun launa sem annars myndi fylgja aukinni samkeppni um starfsfólk.
Það er seinasti punkturinn sem er sá mikilvægasti. Skattar á fjármagn og hagnað fyrirtækja veldur því að tækifærin sem við einstaklingarnir höfum til að láta fyrirtæki slást um okkur með hærri launum, bættum aðbúnaði og betri vinnu eru færri en ella. Með því að afnema skatta á fjármagn og hagnað fyrirtækja er verið að gera okkur einstaklingana verðmætari, og það hlýtur að vera eitthvað til að stefna að.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
2 comments:
Afköst þín í skrifum eru með eindæmum og himnasæla fyrir fróðleiksþyrstan wannabefrjálshyggjumann eins og mig.
Frjálshyggja er ekki fróðleikur heldur réttlætistilfinning sem þarf að krydda með fróðleik til að komast að í umræðunni.
Ég þakka samt fögur orð.
Post a Comment