Monday, September 24, 2007

Síðsumarið kom loksins til Köben

Nokkrir molar frá viðburðum og viðburðaleysi seinustu daga (eða síðan þriðjudegi sleppti í seinustu viku):

Miðvikudagur
Langur vinnudagur með dagslöngum fundi með viðskiptavinum sem endaði á út-að-borða (og smá að drekka) á Brewpub. Þeir sem hafa eitthvað á móti Exxon-olíufyrirtækinu vita ekki hvað þeir eru að tala um! Þeir slá a.m.k. öllu við sem er franskt að öllu leyti!

Fimmtudagur
Þreyttur en hress í vinnunni. Snæðingur með Nýhafnarhjúum um kvöldið og nokkrir alveg mjög svo ágætir bjórar um kvöldið í félagsskap Daða. Svo sannarlega vona ég að fimmtudagshittingar verði margir í vetur!

Föstudagur
Mætti hress til vinnu og náði að vinna mér inn verðskuldað helgarfrí. Það frí hófst með út-að-drekka með nokkrum vinnufélögum og klikka slíkir hittingar aldrei. Staulaðist heim um 4-leytið.

Laugardagur
Vaknaði í seinna lagi eða kl 19:30 um kvöldið. Við tók hangs í náttbuxunum þar til ég fékk ekki leyfi til annars en fara út (kl 1:30) og drekka smá áfengi með Daða, frú og Siggu sætu. Einhver óskilgreindur hressleiki olli því að ég tók Daða með mér heim til hýsingar en hann var þó á brott þegar ég vaknaði (um þrjú-leytið). Mi casa su casa, Daði!

Sunnudagur
Þynnka og aðrar leifar helgarinnar skolað úr skrokknum með ótæpilegu magni kóka kóla og appelsínusafa. Vitaskuld ekki hægt að fara snemma að sofa en óstöðvandi gláp og þambið mikla var ágæt leið til að tryggja mér nokkuð góða upprisu á mánudagsmorgni.

Mánudagur
Langur vinnudagur og hreinlega hellings afköst þótt síðdegisheilaþurrðin hafi ekki ráðið við mestu einbeitingarverkefnin sem bíða til morguns með fyrsta kaffibollanum. Smá skutl upp í Nörrebro og svo heim og ekki annað hægt að segja en ráðgjafarþjónusta mín gangi alveg hreint ágætlega.

Vikuplanið er stutt og laggott: Þrífa Holuna þannig að hún verði gestum fær, þvo einhverjar flíkur, vinna eins og skepna og vera vel upplagður þegar móðir mín og miklir snillingar heimsækja Köben á föstudaginn, með mislangri viðveru þó.

Glæst sigurganga mín í NFL Fantasy heldur áfram sem aldrei fyrr, en þó eru ekki öll kurl komin til grafar enn í þriðju umferð.

Veðrið er með ágætum í Köben núna og síðsumarið lét þá sjá sig eftir allt saman. Ekki alveg það hlýjasta í manna minnum, en hvað er annars að marka svoleiðis?

Eitthvað fleira? Nei, ekki í bili.

Tuesday, September 18, 2007

Á hvaða tungumáli er ég að sletta?

Weekend afstaðin en um hana keypti cowboy-buxur. Ég sá fólk drekka juice í blíðunni. Mig vantaði information um veðurspánna og fór í supermarket og spurðist fyrir. Fékk transport eftir það heim, keypti hamburger á leiðinni, fór smá á internet og sofnaði yfir tv.

Giskið nú!

Haustið er komið, loksins!

Nú loksins virðist vera koma smá regla á hlutina hérna eftir handahófskennda sumarmánuði. Vinnuverkefnin raðast inn hvert af öðru, vinnudagarnir eru smátt og smátt að lengjast á ný, og var ég búinn að segja að Daði er kominn aftur út? Meira að segja komin metnaðarfull dagskrá í pólitískum skrifum sem vonandi ber ávöxt á næstu vikum og mánuðum.

Gott fólk kíkir við í Köben á næstunni. Engin önnur en móðir mín kemur fljótlega í helgarheimsókn og miklir herramenn eiga viðkomu í Köben á leið sinni suður á bóginn.

Vinnudagurinn nú þvingaður á enda því þyrstur vinnufélagi heimtar að hafa mig samferða með heim og drekka einn bjór í lestinni á leiðinni. Hvernig get ég neitað slíkri bón?

Sunday, September 16, 2007

Sælir eru þeir sem sofa út á sunnudögum

Það er gott að hafa Daða aftur í bænum.

Í gær var hádegisfótbolti sem var fylgt vel á eftir með hressandi dagdrykkju. Hausinn er því í þyngri kantinum í dag rétt eins og á föstudaginn eftir hressandi fimmtudagsdrykkju. Óhefðbundin tímabil ölvunar eru svo ágæt.

Haustferð til Leeds er hægt og rólega að taka á sig fasta mynd. Hún verður stuð!

Í allri þessari skemmtun þarf líka að muna eftir vinnu og þar lítur út fyrir áhugavert haust. Gömul verkefni klárast seint. verkefni bætast stöðugt við. Það verður lítið mál að hala inn yfirvinnutímum í bílförmum í haust! Verst hvað skatturinn er vondur við mann ef það er gert.

Enn og aftur boðar húsfélagið mitt til einhvers óþolandi auka-aðalfundar, sá þriðji í ár! Á dagskrá eru atkvæðagreiðslur um barnaleikvöll, grillaðstöðu og einhverja heildarsýnar á umhverfið hérna úti - vitaskuld teiknuð af rándýrum arkitektum og verður forljótt. Á ég að nenna þessu? Ég sé til.

Hvað um það. Í dag er sunnudagur. Sólin skín úti og því alveg spurning um að finna eitthvað skjól og lesa. Eða bara hanga inni. Það er líka svo ágætt. Taka til? Sjáum til!

Tuesday, September 11, 2007

Fjögur af fjórum!

Hver segir að langur og leiðinlegur dagur geti ekki orðið að góðu kvöldi mikillar uppskeru? Ég reyni nú yfirleitt (í seinni tíð) að forða ykkur ágætu lesendum þessarar síðu frá pólitík en að þessu sinni stenst ég ekki freistinguna.

Eftirfarandi hef ég uppfært í kvöld:
Þessa síðu.
Ósýnilegu höndina.
Moggabloggið.
Ice and fire of thoughts.

Njótið vel, sama hvað!

Reiður í dag!

Mikið rosalega er gott að vera kominn heim eftir þennan súra langa dag. Danirnir hættu ekki að fjasa, alltaf var kaffikannan tóm sama hvað ég hellti oft upp á, vinnuverkefnin kláruðust að vísu einhver en ekki það sem er hvað leiðinlegast (fara yfir margar blaðsíður af tölum sem koma úr öllum áttum), og svona má lengi telja. Vinnudagurinn endaði svo á tveggja tíma heimferð með allskyns strætóum og lestum af því einhverjum Dana datt í hug að álpast inn á teinana og aflýsa öllum lestarferðum til og frá bæjarhlutanum þar sem ég vinn.

Eina björgun mín felst í bjórnum sem ég keypti af sjoppukallinum mínum. Sá maður getur alltaf bryddað upp á nýrri sögu af heimsókn skattsins til hans. Skattayfirvöld í Danmörku eru endaþarmur gjörvallrar Norður-Evrópu og þótt víðar væri leitað! Getið þið séð fyrir ykkur léttölvaðan eftirlitsmann á miðjum aldri að athuga pappíra og strikamerki til að sjá hvort nammipokarnir í sjoppunni hafi farið í gegnum sykurskatt, virðisaukaskatt, tolla og aðrar opinberar verðhækkanir og vesen? Ég get það svo sannarlega!

En ég er nú ekki eintóm neikvæðni og súrleiki. Ég er jú kominn heim, sængurfötin eru nýþvegin og bíða átekta, kvöldöl eða tveir eru á dagskránni, úti er veður milt, ég þekki þig (líklega), nóg til af tóbaki, Daði er í Köben, á morgun er spennandi fundur (ótrúlegt en satt miðað við að það verða Danir á honum), og ég er vitrari maður og upplýstari eftir fróðlega lesningu (um einkavætt vatn í þróunarríkjum) á langri heimferðinni.

Hvað er ég þá að kvarta? Ég er hættur því hér með. Góðar stundir!

Sunday, September 09, 2007

Suðað úr svínastíunni

Sunnudagssíðdegi á helgi þar sem sólarhringnum hefur verið snúið alveg á haus. Sommerfest á föstudaginn var alveg gríðarlega hressandi svo ekki sé meira sagt og endaði niðrí bæ þar sem forstjórinn var byrjaður að kaupa Mojitos og gera grín að skegginu mínu. Yfirskegginu vitaskuld. "Værkfører-skægget" eins og ég kallaði það, eða "fabrik-skægget". Einkahúmor.

Ekki man ég alveg hvenær ég fór heim á föstudagsnóttu eða hvernig en það er allt í lagi. Laugardagur til leti og gott ef sunnudagur til leti sé ekki líka staðreynd, nývaknaður þegar kvöldið er alveg að banka upp á.

Ég hlakka mikið til að komast í vetrar-rútínuna. Verksmiðju-vikurnar eru nú að baki, Daði er fluttur í bæinn á ný, hitastigið er loksins komið niður í íslenskt hausthitastig, verkefnin í vinnunni bjóða að venju upp á takmarkalausa setu sem ég get loksins gefið mig í, og kannski einhver pólitískur þorsti kvikni á ný með lækkandi sól. Góðir tímar býst ég fastlega við!

Hausthreingerningar eru góð hugmynd sem ég þarf að skoða vel og vandlega. Nenni því samt ekki í dag!

Endar hér með ein leiðinlegasta bloggfærsla í heimi.

Tuesday, September 04, 2007

Danir eru...

Eftir því sem vikan hefur liðið hefur listinn "Danir eru..." vaxið stórkostlega í hausnum á mér. Nú þegar ég sest við skriftir er hann hins vegar að mestu leyti horfinn. Svei.

Einu mun ég samt ekki gleyma og það er morgunútvarpi danskra útvarpsstöðva. Það er ALLT alveg NÁKVÆMLEGA sama formúlan; mjög mjög mjög hressar raddir að tala saman og gantast og grínast, stundum á meðan einhver húmórísk laglína spilar í bakgrunni. Inn á milli eru stutt og LEIÐINLEG lög spiluð og það er ENGIN leið að sleppa við fréttir í dönsku útvarpi á hálfa og heila tímanum, sama á hvaða stöð er hlustað. Allar danskar útvarpsstöðvar eru FM957 með óendanlega mörgum fréttatímum!

Sem betur fer er mjög mjög sjaldgæft að ég fái vinnubílinn sem er geislaspilaralaus. Æðisgenginn hressleiki í tónlist og ekkert danskt tal gerir danska þjóðvegi að himnasælu.

Konur sem eru giftar Færeyingum og hringja í mig vita á gott fyrir gott fólk mér tengt.

Á morgun er seinasti verksmiðjudagur minn. Þetta er búið að vera ljúfur tími þrátt fyrir ruglinginn á mínum B-manneskju-svefnvenjum. Hef þó komist að því (eftir sunnudaginn) að létt bjórsötur fer ekkert illa saman við að fara snemma á fætur ef svefninn nær 5-6 tímum!

Heim vi ek!