Tuesday, September 11, 2007

Reiður í dag!

Mikið rosalega er gott að vera kominn heim eftir þennan súra langa dag. Danirnir hættu ekki að fjasa, alltaf var kaffikannan tóm sama hvað ég hellti oft upp á, vinnuverkefnin kláruðust að vísu einhver en ekki það sem er hvað leiðinlegast (fara yfir margar blaðsíður af tölum sem koma úr öllum áttum), og svona má lengi telja. Vinnudagurinn endaði svo á tveggja tíma heimferð með allskyns strætóum og lestum af því einhverjum Dana datt í hug að álpast inn á teinana og aflýsa öllum lestarferðum til og frá bæjarhlutanum þar sem ég vinn.

Eina björgun mín felst í bjórnum sem ég keypti af sjoppukallinum mínum. Sá maður getur alltaf bryddað upp á nýrri sögu af heimsókn skattsins til hans. Skattayfirvöld í Danmörku eru endaþarmur gjörvallrar Norður-Evrópu og þótt víðar væri leitað! Getið þið séð fyrir ykkur léttölvaðan eftirlitsmann á miðjum aldri að athuga pappíra og strikamerki til að sjá hvort nammipokarnir í sjoppunni hafi farið í gegnum sykurskatt, virðisaukaskatt, tolla og aðrar opinberar verðhækkanir og vesen? Ég get það svo sannarlega!

En ég er nú ekki eintóm neikvæðni og súrleiki. Ég er jú kominn heim, sængurfötin eru nýþvegin og bíða átekta, kvöldöl eða tveir eru á dagskránni, úti er veður milt, ég þekki þig (líklega), nóg til af tóbaki, Daði er í Köben, á morgun er spennandi fundur (ótrúlegt en satt miðað við að það verða Danir á honum), og ég er vitrari maður og upplýstari eftir fróðlega lesningu (um einkavætt vatn í þróunarríkjum) á langri heimferðinni.

Hvað er ég þá að kvarta? Ég er hættur því hér með. Góðar stundir!

No comments: