Sunday, April 30, 2006

Einn fyrir háttinn

Við [í Vinstri-grænum] erum ekki tilbúin til að styðja stórfelldar landslagsbreytingar í þágu nýrra virkjana, einkum og sér í lagi þegar haft er í huga að við erum rík þjóð og getum vel þrifist án þessara virkjana. (#)
Eru Vinstri-grænir þá tilbúnir að berjast fyrir því sem eykur auð Íslendinga án þess að það krefjist iðnaðar og virkjana sem framleiða orku fyrir hann? Til dæmis einkavæða fyrirtæki, lækka skatta, rýmka reglugerðir, minnka opinber afskipti af efnahagslífinu, afnema landbúnaðarstyrki og fjarlægja tolla og aðrar viðskiptahindranir?

Það yrði nú aldeilis saga til næsta bæjar, en líklega saga sem verður seint sögð.

Sunnudagstilvitnunin

Á Vesturlöndum hefur samfélagsþróun undanfarinna alda verið í átt að minni stéttaskiptingu og meira jafnrétti. Þessi þróun hefur að einhverju leyti verið knúin áfram af samkeppni í efnahagslífinu. Kerfisbundið misrétti, kynja, kynþátta eða stétta kemur ekki aðeins í veg fyrir að allir séu metnir að verðleikum. Það kemur líka í veg fyrir að hæfileikar allra nýtist og er því óhagkvæmt, dregur úr samkeppnishæfni og hagvexti.
Atli Harðarson er alltaf sprækur.

Saturday, April 29, 2006

Leti á laugardegi

Ég þakka góðum drengjum fyrir gott gærkvöld. Átti samt erfitt með að halda út. Kannski maður þurfi að sofa meira á virkum dögum til að eiga eitthvað inni þegar maður loksins sleppir sér út á lífið á föstudögum? Fagn dagsins er frestun Svenna á lokaverkefnissmíði. Næsti vetur lítur mun betur út fyrir vikið.

Hér er alveg stórgóð grein um hægri-vinstri í almennum skilningi. Sniðug athugasemd:
Í orðabók vinstrimanna er jafnvel til orðasambandið „vannýttir tekjustofnar“, þ.e. opinbert fé sem stjórnmálamönnum eða embættismönnum hefur ekki tekizt að eyða þrátt fyrir oftar en ekki mikla hæfileika á því sviði. Við slíkar aðstæður dettur vinstrimönnum allajafna ekki í hug að tilefni sé til að verja þessum fjármunum til þess að lækka álögur á almenning heldur þarf þess í stað að finna eitthvað til að eyða þeim í og oftar en ekki reynist það litlum erfiðleikum bundið.
Danska ríkið þjáist einmitt af miklu magni af vannýttum tekjustofnum. Danskir stjórnmálamenn stofna opinberu sjóðina hraðar en þeir ná að eyða þeim og skammast sín ekkert fyrir það.

DV komið niður í eitt blað á viku? Sussumsvei. Þarf maður að beina kröftum sínum og vikulegu tuði annað?

Rigning í Kaupmannahöfn slær óneitanlega á löngunina til að fara niðrá Nýhöfn og sötra bjór.

Note to self: Þýða innihald þessara skrifa, bæta við og breyta og senda á Þjóðmál. Gæti verið stuð.

Thursday, April 27, 2006

Helgin nálgast

Strax kominn fimmtudagur? Gvuð hjálpi mér. Kostur: Helgin nálgast. Ókostur: Helgin nálgast!

Á næstunni munu "medarbejderudvikling samtale" af stað (viðtöl við hvern og einn starfsmann þar sem framinn, framþróun, vonir og væntingar í starfi eru rædd). Fyrir undraverða tilviljun er nýbúið að dreifa mackintosh-dósum út um allar trissur sem leiðir til stanslauss nammiáts. Samsæriskenningin er auðvitað sú að 10 dósir af sælgæti kosti minna en launahækkanir á línuna, og súkkulaði gerir mann óneitanlega örlítið glaðari.

Tuesday, April 25, 2006

Þreyta á þriðjudegi

Þreyttur í dag en óvenjusprækur samt. 1500 orð í tveimur greinum að verða tilbúin til sendingar í íslenskan prentmiðil, vinnan að taka flugið og næstu 2 mánuðir bókaðir þar, partý hjá Óla á föstudaginn vekur tilhlökkun og sólin byrjuð að verma borgina eftir "langan" vetur. Núna vantar bara hjólið og ferð á Nýhöfn um helgina.

Núna er ég búinn að eiga símann minn í rúmlega ár, ca 14 mánuði, sem þýðir að hann mun fljótlega tapast í gólfið og eyðileggjast, týnast á djamminu eða verða stolið (þótt ég sjái enga sjónræna ástæðu á símanum til þess). Núna er ég því farinn að kíkja eftir nýjum síma og að þessu sinni langar mig í myndavélasíma (ég og myndavélablogg verður hressandi blanda). Ég vil samt ekki eyða miklum pening í kvikindið enda er líftími síma hjá mér í styttra lagi. Hugmyndir?

Getraun dagsins: Hvað mælti eftirfarandi orð (í lauslegri þýðingu minni) og hvar?
Engar af okkur fara í iðnaðinn fyrir tilviljun. Með þessu meina ég að við fundum allar kynlíf áður en við fundum klám - og það var eitthvað sem við nutum vel, meira en hin venjulega kona. [...] Og ég get bara talað fyrir sjálfa mig en hver einasta stuna er 100% ekta.
Sum tímarit á maður bara að kaupa og senda á femínistasamtök í góðgerðarskyni.

Myndasíður kvenfólks eru hressandi. Eðlilega skiptast þær í tvennt:
- Myndasíður mynda(r?)legs kvenfólks
- Myndasíður ómyndalegs kvenfólks
Svo virðist sem þessar myndasíður séu sjálf-reglandi - myndalegu stelpurnar taka mikið af sjálfsmyndum (oft í félagsskap einhverrar annarrar manneskju) sem gerir myndasíðurnar skemmtilegri áhorfs, en þær ómyndalegu eru sparsamari á sjálfsmyndirnar og þar með eykst hlutfall myndalegs fólks á myndunum. Þetta er að vísu ekkert sem ég hef skoðað skipulega. Meira svona tilfinning. Er þetta alrangt? Hvað segir kvenfólkið um myndasíður stráka?

Sunday, April 23, 2006

Næturblogg í afeitrun

Afeitrun er lykilorð kvöldsins. Hanga með stelpu, fara í bíó og hanga á netinu eru allt friðsamlegar og saklausar aðgerðir sem á einhvern hátt koma að einhverju leyti í staðinn fyrir ofurölvun með strákunum. Þó ekki. Samt nauðsynlegt að afeitra eftir átök síðustu daga.

Hressandi skype með hressandi bróður er hressandi.

Á ég að þora senda eftirfarandi setningu í prentun hjá Fréttablaðinu? "Lausnin á vandamálum ríksrekstursins er einföld en ef til vill eilítið róttæk. Hún er sú að einkavæða allar stofnanir og fyrirtæki ríkisins." Þetta er ekki ósatt, en hættan er auðvitað sú að ef maður mjakar ekki boðskapnum nægilega mjúklega inn þá verði honum hafnað. Pólitískt réttara væri að segja: "Ríkisreksturinn hefur ýmsa vankanta sem þarf að sníða af með umbótum og lagasetningu sem tekur mið af hagsmunum skjólstæðinga ríkisins - hinum íslensku borgurum sem treysta á ríkið til að fæða sig og klæða frá fæðingu til dauðadags." Pólitískt rétt er hins vegar ósatt. Líkið er engu meira lifandi með plástur en ef það væri án hans.

En nú tekur við áhorf á eitt af meistarastykkjum kvikmyndasögunnar - Barb Wire.

Friday, April 21, 2006

Vinnublogg á föstudegi

Alveg hreint ágætur vinnudagur sem endaði á tveimur bjórum með góðum vinnufélögum. Furðulegt fannst mér að í hvert sinn sem var talað um annað en vinnuna þá fannst mér það frekar óáhugavert, en lifnaði allur við þegar vinnan kom aftur upp. Heilaþvotti er kennt um.

Stúlkan sem situr hinum megin við hilluna á bak við mig er með rödd og raddbeitingu sem kitlar mínar fínustu taugar (jákvætt). Ég set stundum á mig heyrnatól til að yfirgnæfa háværð opins vinnuumhverfisins með hressandi tónlist, en stundum til að loka rödd hennar úti því ég get ekki einbeitt mér þegar hún er að segja eitthvað.

Ætli ég muni duga til nokkurs þegar ég byrja vinnuferil minn sem verkfræðingur á Íslandi (í óákveðið fjarlægri framtíð)? Núna er ég búinn að venja mig á "ferieøl", "feriekage", "team building" og margt fleira sem allt hefur annaðhvort í för með sér kökur eða áfengi, eða hvort tveggja. Íslenska hefðin er yfirleitt sú að keyra vinnudaginn af og drífa sig á hamrandi fyllerí eftir vinnu á föstudögum. Sú aðferð virðist vera ágæt á yfirborðinu upp á framleiðni og starfsmannanýtingu, en ég held að ef maður hefur hreinan og kláran fjárhagslegan hagnað að meginmarkmiði þá stuðli mann að kökuáti og áfengisdrykkju meðal starfsmanna sinna. En þá þarf auðvitað að byrja á að eyða öllu sem heitir "tabú" í kringum áfengisdrykkju og kökuát (einkavæða ÁTVR, lækka áfengiskaupaaldurinn, smala starfsmönnum og yfirmönnum saman í drykkju reglulega, hætta auglýsingaherferðum sem ganga út á að heilsa lýðsins sé á leið til fjandans, og ýmislegt fleira). Afkomutölur íslenskra fyrirtækja krefjast þess!

Thursday, April 20, 2006

Loksins að braggast

Dagur 3 í þynnku en loksins er ég byrjaður að braggast. Matarlystin komin, klósettferðirnar aftur orðnar reglulegar, kaffiþamb komið á fullan skrið, og tilhugsunin um áfengi hætt að valda mér klígju. Enda ekki seinna vænna enda kemur Arnarinn í bæinn annað kvöld og fer á laugardaginn og þarna á milli finnst örugglega tími til að fá sér einn eða tvo. En þar á eftir er það sótthreinsun, afeitrun, sundurklipping bankakortsins og bindindi þar til annað kemur í ljós.

Eilíflegar bilanir og vesen er búið að ríkja í íbúð "minni" á Gammel Kongevej seinustu vikur. Fyrst slátraði hreingerning öðrum ísskáp okkar og svo slátraði rafmagnskerfið þvottavélinni og sú slátrun hefur verið bæði fyrirhafnarsöm og tekið á taugar og þolinmæði. Kannski, já kannski sér nú bráðum fyrir endann á því!

Kvikmyndin Barbarella er afskaplega góð afþreying. Fyrir stráka.

Picture-quiz Dauðaspaðans er sömuleiðis góð afþreying. Fyrir alla. Babe-síðurnar einnig. Kíkið á hvort tveggja.. núna!

Skype og netvædd móðir eru hressandi Íslandstenging fyrir útlendings-Dana eins og mig.

Eiríkur Bergmann, aðdáandi Evrópusambandsins #1 sama hvað gengur og gerist, veit ekkert um dönsk stjórnmál. Það sést þegar hann skrifar um dönsk stjórnmál.

Fasteignamarkaður Kaupmannahafnar er ekkert lamb að leika sér við. Þetta var fróðleiksmoli dagsins.

Tuesday, April 18, 2006

Páskar 2006

Þá er maður aftur kominn í þynnkufötin og orðinn nokkuð skemmdur eftir eðaldaga með miklu eðalfólki. Sukk og svínarí frá miðvikudegi til þriðjudags tekur á. Ég veit ekki einu sinni hvað stendur upp úr og ég tek þetta í stikkorðabloggi:

Mötuneytið - ótæpilegt áfengismagn - Óðinsvé - PG & FH - Austurgata - splæsa - húsið hans Inga - ofurþynnka Ásgeirs - Coupling - bóner í bakið.

Líkaminn neitar að skrifa meira í bili og hugurinn er sammála.

Wednesday, April 12, 2006

Arnarinn kemur!

Þá eru nákvæmlega 6 klst þar til flugvél lendir á Kastrup með tvo mikla höfðingja innanborðs. Næstu dagar verða tvímælalaust mjög litaðir af því. Jafnvel svo litaðir að ég mun eiga erfitt með að lýsa þeim eftir á. Ölvun er á dagskránni og jafnvel eitthvað örlítið ferðalag til fjarlægrar eyju (Fjónar).

Eitthvað andleysi í vinnunni núna eftir hasar framan af degi. Ég er líklega kominn í frí núna, andlega!

Monday, April 10, 2006

Jahérna

Eins og allir sem þekkja mig vita þá les ég varla annað en eitthvað sem tengist stjórnmálum, skrifa varla um annað en stjórnmál (fyrir utan einstaka færslur á þessa síðu), hugsa varla um annað nema rétt á meðan ég er í vinnunni (varla það) eða er í hressandi samræðum við góða vini, og hugsa varla um annað en hvernig á að frelsa heiminn.

Ég var samt að ná ákveðnum hápunkti (lágpunkti?) í þessari fullkomnu andsetu minni. Á bloggsíðu ungfrú heims segir, í góðu glensi:

En ef maður hlýðir ekki skipunum frá sýslumanninum sjálfum.. hverjum þá..? (#)

Góð spurning. Fyrr í dag las ég eftirfarandi orð á gjörólíkum vettvangi (vitaskuld á reikning atvinnuveitandans), í lauslegri þýðingu minni:

Og þó, það sem gagnrýnendur ríkisvaldsins meina er að öllum lögum, meira að segja þeim sem virðast varla vera meira en leiðbeiningar og aðstoð, þarf að framfylgja með valdi. Þau standa fyrir að annaðhvort að hlýða eða missa allt frelsi. (#)

Þar með er búið að tengja hina ágætu fegurðardrottningu Íslands við ofur-stuttbuxna-anarkista-frjálshyggju-ofstækismennina sem skrifa á Mises.org. Hápunkti pólitísks ofstækis míns náð - enn sem komið er!

Sunday, April 09, 2006

Óhlaðin batterí

Í dag má segja að batteríin séu alveg sæmilega óhlaðin enda búið að leggja mikið á skrokkinn yfir helgina hvað svefn og ýmsa neyslu varðar. Hvernig hleður maður batterí? Ruslfæði, gos og gláp á eitthvað heiladautt? Nú eða hrista af mér slenið hvað hreingerningar á þessu heimili varðar. Eða bara sofa meira? Vandasamt val hér á ferð.

Þessi færsla fjallar ekki um neitt og ég ætla ekki að breyta því.

Thursday, April 06, 2006

Trúnó

Þessi færsla er örlítil trúnaðarfærsla sem e.t.v. er afleiðing örlítillar páskabjórsdrykkju en ég ætla að láta hana flakka án þess að lofa eilífri viðveru hennar á opinberum vettvangi (eða óopinberum). Mamma, ekki lesa þetta of hátíðlega!

Ég ákvað fyrir nokkrum mánuðum að ég ætli að verða einstæður faðir. Ég vil ekki búa með kvenmanni. Ég vil hins vegar vera pabbi. Nú hef ég fengið óformlegt vilyrði fyrir leigu-legi sem mun útvega barnið. Gallinn er sá að leigu-legið krefst 50% forræðis, en kosturinn er góður þrátt fyrir það.

Hins vegar þykist ég líka vera búinn að finna konuna. Þetta er a.m.k. kvenmaður sem gerir allt þetta tilfinningalega fyrir mig, og gott ef eitthvað af því er ekki gagnkvæmt. Á persónulegu nótunum sæi ég sambúðar- og barnapakkann ekki neikvætt fyrir mér í tilviki þessa kvenmanns (sem líklega yrði þá líka lífmóðir barnsins). Á ópersónulegu nótunum erum við samt að tala um kvenmann, og sambúð með kvenmanni er óhugsandi, eða a.m.k. á meðan ég bý ennþá yfir þeim fordóm (og hví ætti það að breytast?).

Ef það er til eitthvað sem heitir voðalega nútímalegt lífsmunstur í voðalega nútímalegu og frjálslegu og óhefluðu samfélagi þá hlýtur blanda af því að vita af konunni og vita af draumnum um einstætt faðernið að flokkast undir eitthvað slíkt. Þessu fylgir enginn hausverkur hjá mér núnu. Ég hef ekki nokkrar áhyggjur af neinu í "fullorðinis"-deildinni (börn, sambúð og það allt), og það ætlar seint að breytast. En eins og ég sé hlutina fyrir mér í dag þá á ég erfitt með að láta þetta tvennt hanga saman.

Maður sér bara til, sér hvað gerist, gerir viðeigandi ráðstafnir og tekur því sem upp kemur. Er það ekki bara?

Wednesday, April 05, 2006

Semíslappleikinn

Það var mikið að maður náði helgarslappleikanum úr sér. Gríðarlega ofsaleg drykkja og mikill umgangur með góðu fólki tekur á. En núna loksins getur maður byrjað að fóðra dagblöð með lesefni og sötra öl.

Húsvarðarstarfið er tímafrekt þessa dagana. Rafmagnið fór í rugl um daginn og drap þvottavélina okkar. Símtöl við leigjanda, borgun reikninga og rukkun leigu hafa tekinn sinn toll umfram hið venjulega. En þetta er nú ágætt þegar maður er á leið upp í sófa og horfa á mynd með einni norskri og einni sænskri.

Á morgun eftir hádegi tekur hlutverkið "fulltrúi fyrirtækis míns" við. Sem betur fer slepp ég við skyrtu og bindi. Bara jakki með fyrirtækjalógóinu og örlítill sölumannsstíll á manni og þá er hlutverkinu sinnt.

En þær skandinavísku bíða víst. Verst að maður fær ekkert að r*** þessu...

Monday, April 03, 2006

Helgarsprokið

Helgarferðin til Íslands var þéttur, hressandi og skemmtilegur pakki sem verður fyrst og fremst afgreiddur með stikkorðategundinni enda margt að muna en lítil þolinmæði til að skrifa:

Klúbbur 110 - Gautateiti - bær - vakna hjá Gauta - blundur - Arnar (færð skyrtuna og beltið aftur þegar þú ert í DK) - Burkni og snilldarbrúðkaup - drekka, borða, drekka meira - bær - Þóra - drekka meira - vakna hjá Hersteini - Ómar og gjafakaup og ferming og Jói frændi - ónýtur í maganum - sofa í 3 tíma - og ég er ennþá ónýtur í maganum. Hvað var í þessum fermingarkökum eiginlega?

Ég náði ekki að hitta alla, og ég náði ekki að hitta marga aðra nógu oft né nógu lengi. Þetta fylgir svona helgum samt, og maður getur bara vonað að úr öllu rætist með hækkandi sól.

Vorferðalöngum er bent á að Kaupmannahöfn er óðum að hlýna