Alveg hreint ágætur vinnudagur sem endaði á tveimur bjórum með góðum vinnufélögum. Furðulegt fannst mér að í hvert sinn sem var talað um annað en vinnuna þá fannst mér það frekar óáhugavert, en lifnaði allur við þegar vinnan kom aftur upp. Heilaþvotti er kennt um.
Stúlkan sem situr hinum megin við hilluna á bak við mig er með rödd og raddbeitingu sem kitlar mínar fínustu taugar (jákvætt). Ég set stundum á mig heyrnatól til að yfirgnæfa háværð opins vinnuumhverfisins með hressandi tónlist, en stundum til að loka rödd hennar úti því ég get ekki einbeitt mér þegar hún er að segja eitthvað.
Ætli ég muni duga til nokkurs þegar ég byrja vinnuferil minn sem verkfræðingur á Íslandi (í óákveðið fjarlægri framtíð)? Núna er ég búinn að venja mig á "ferieøl", "feriekage", "team building" og margt fleira sem allt hefur annaðhvort í för með sér kökur eða áfengi, eða hvort tveggja. Íslenska hefðin er yfirleitt sú að keyra vinnudaginn af og drífa sig á hamrandi fyllerí eftir vinnu á föstudögum. Sú aðferð virðist vera ágæt á yfirborðinu upp á framleiðni og starfsmannanýtingu, en ég held að ef maður hefur hreinan og kláran fjárhagslegan hagnað að meginmarkmiði þá stuðli mann að kökuáti og áfengisdrykkju meðal starfsmanna sinna. En þá þarf auðvitað að byrja á að eyða öllu sem heitir "tabú" í kringum áfengisdrykkju og kökuát (einkavæða ÁTVR, lækka áfengiskaupaaldurinn, smala starfsmönnum og yfirmönnum saman í drykkju reglulega, hætta auglýsingaherferðum sem ganga út á að heilsa lýðsins sé á leið til fjandans, og ýmislegt fleira). Afkomutölur íslenskra fyrirtækja krefjast þess!
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment