Friday, July 29, 2005

Kannski ekki

Þá er loksins kominn föstudagur. Loksins? Vikan hefur beinlínis horfið.

Ímeil frá stjóranum í gær sagði:
Ifølge dit [...]program og almindelig gængs praksis skal vi holde en 3 måneders samtale 14 dage før prøvetidens ophør, så vi kan nå at fyre dig mens stadig er billigt.
Sem betur fer kom öllu meira hughreystandi texti í næstu línu og uppsagnaróttinn því ósköp lítill núna.

Mér sýnist strandferðir í Ítalíu vera orðnar með öllu ómögulegar núna sökum pempíuháttar og reglugerðafargans. Hvað varðar mig um það sosem? Ef mér dytti í hug að ferðast til að liggja í sólbaði þá held ég það yrði til Króatíu.

Ætli sé hægt að búa til .bat-skrá fyrir Win XP sem varpar ákveðinni möppu á ákveðnu drifi yfir í ákveðið drif með tiltekið nafn (t.d. að 'C:\Rassamyndir\Closeups' varpist yfir í 'R:\')? Þessu væri gaman að komast að. Eru engir alvörunördar að lesa?

Thursday, July 28, 2005

HREIN pólitísk og kaldhæðin færsla!

Varúð! Pólitík!

Hvernig fær maður fólk til að sóða ekki út götur og almenningsgarða og nota ruslatunnur og ganga vel um? Mismunandi fólk bregst við mismunandi skilaboðum og því þarf tvenns konar skilti til að tryggja góða umgengni.

Til frjálshyggjumannsins: Sýndu eigum annarra sömu virðingu og þínir vinir sýna þinni eign þegar þeir koma í heimsókn á þitt heimili.

Til sósíalistans: Gakktu um eins og þú gengur um heima hjá vini þínum þegar mamma hans stendur yfir þér tilbúin að refsa fyrir sóðalega umgengni.

Þessi tvískipting ætti að skila sér í tandurhreinum götum og miklum sparnaði í gatnahreinsun og viðhaldi. Allir ánægðir ekki satt?

Wednesday, July 27, 2005

Molar 2b

Framhald af sögunni í færslunni Molar 2 og óskiljanlegt nema sú færsla hafi verið lesin:

Ég fór í bankann og þeir sögðust ætla gera upp síðustu rukkun án þess að ég þyrfti að greiða fyrir það eða spá meira í málinu. Næsta dag sé ég að upphæðin hafði samt sem áður verið dregin af reikningi mínum! Ég hringdi alveg snældubrjálaður en þá var búið að loka og símabankakellingin gat ekkert gert.

Næsta dag sá ég svo að peningurinn hafði aftur verið lagður inn á mig og nú vona ég að allt þetta mál sé frá.

The end.

Íslandsferð 18.-23. ágúst

Mörg púsl hafa nú raðast saman og myndin er orðin skýr núna: Ég skrepp til Íslands 18.-23. ágúst (fim.kvöld-þriðjudagseftirmiðdegi). Nú er bara að byrja pakka! ..ehhhh.

Nú haltra ég eins og skökk hóra. Gengur maður ekki svoleiðis af sér hreinlega?

Tuesday, July 26, 2005

Haltur en sáttur

Fótbolti er hættuleg íþrótt, en skemmtileg (minnir á reykingar ef út í það er farið). Nú haltra ég.

Á morgun verð ég með kreditkortið við hönd í vinnunni og mig grunar að Icelandair muni vinna slaginn við Iceland Express. Meira síðar.

Alþjóðleg ráðstefna á Íslandi og engir aukvisar sem hana mun sækja.

Monday, July 25, 2005

Molar x

Aldrei þessu vant tiltölulega úthvíldur og óveikur eftir helgi. Það er nú gott. Nú er mætingarprósenta aftur komin yfir 50% í minni deild, jafnvel 60%, sem þýðir öðruvísi hannað álag í ögn fjörugra umhverfi.

Já þessi Íslandsferð þarf að komast á blað í vikunni og það af hreinum tímapressuástæðum þar sem yfirmaðurinn fer í frí í lok vikunnar og ágústmánuður nálgast óðfluga. Ég læt auðvitað vita á öllum vígstöðvum þegar eitthvað ákveðst.

Friday, July 22, 2005

Molar 3

Sólin er komin aftur. Gott. Sukk planað í kvöld. Gott. Vinnuálagið orðið yfirstíganlegt aftur. Gott. Hálsbólga og kvef svo gott sem á brott. Gott.

Óneitanlega grípandi titill á bloggi: Redneck Feminist: A Free Market Feminist Blog.

Svo virðist sem áðurnefnd Fréttablaðs-grein hafi ekki verið svo galin eftir allt saman. Þó þykist ég vita að ekki séu allir sammála öllu sem ég sagði. Ég tek báðum höndum við allri gagnrýni frá öllum sjónarhornum. Sími (hringja eða SMS), MSN, bréfpóstur, tölvupóstur, hittingur, comment á þessu bloggi, færsla á öðru bloggi eða hvað sem er má notast til að koma skilaboðum áleiðis!

Jahérna mikið andskoti eru margar leiðir til að ná í mann. Hvað næst? Hugskeyti?

Vissu allir að Danmörku "sár"vantar verkfræðinga? Ég segi ekki hvaða verkfræðinga sem er, en a.m.k. þær tegundir verkfræðinga sem Íslendingar eiga mest af: Vélaverkfræði, byggingaverkfræði og rafmagnsverkfræði. Danir eru allir að læra hugvísindi og því enginn eftir sem vill læra reikna. Þar að auki kemur til skattkerfi sem fælir allt menntað fólk úr landinu (þ.e. þá með menntun sem einhver getur notað).

Thursday, July 21, 2005

Molar 2

Ég er búinn að finna hinn fullkomna eilífðartitil á allar færslur: "Molar XX" þar sem XX er auðvitað ekkert annað en hlaupandi tala. Molar 2 hefjast þá nú.

Hér kemur lítil saga sem krefst svolítillar athygli en er að mínu mati gríðarlega áhugaverð (og meira að segja ópólitísk með öllu!):

Þegar ég var í Danmörku haustið 2002 að hefja vetur sem skiptinemi í DTU þá keypti ég mér síma hjá fyrirtækinu Telia. Ég skrifaði undir einhvern samning og fékk símann á vægu verði.

Skömmu síðar flutti ég, skipti um sveitafélag og hætti að fá símreikninga (sá eini sem ég hafði fengið týndist og greiddist því ekki). Þessu var ég lítið að spá í og tíminn leið og aldrei kom neitt frá fyrirtækinu. Ég vissi að ég kæmist varla upp með að vera í áskrift hjá símfyrirtæki án þess að þurfa borga, en reyndar látið aflæsa símanum og skipt um símfyrirtæki og því var sosem ekki um neina vaxandi notendaskuld að ræða.

Þegar ég flutti aftur til Danmerkur síðasta haust sendi ég ímeil á Telia og spurði hvort ég skuldaði þeim ekki einhvern pening. Ég fékk ekkert nema sjálfvirkt svar og þar við sat.

Í febrúar/mars á þessu ári fékk ég bréf frá innheimtufyrirtæki. Í því stóð að ég skuldaði Telia peninga (auk einhverra vaxta og innheimtukostnaðar) og að þar sem fyrri tilraunir til að hafa samband við mig höfðu ekki borið árangur væri nú búið að hækka skuldina um einhverjar krónur.

Ég hringdi og sagðist aldrei hafa heyrt frá innheimtufyrirtækinu varðandi þessa skuld og bað um að síðasta hækkun á skuldinni yrði dregin til baka og skuldin færð að upphæðinni sem hún var í þegar ég hafði samband við Telia síðasta haust. Ég var beðinn um að senda inn skriflega kæru sem ég og gerði.

Um 2 vikum seinna fékk ég annan reikning þar sem sagði að kæra mín hefði verið tekin til meðhöndlunar og ég beðinn um að borga meðfylgjandi gíróseðil sem var upp á sömu upphæð og áður. Ég hringdi aftur í innheimtufyrirtækið og þeir sögðu mér þá að ég hefði engan nýjan reikning fengið og að kæran mín væri ennþá til meðhöndlunar! Ég var hreinlega beðinn um að henda þessum síðasta reikning!

Auðvitað gerði ég það ekki en beið þolinmóður eftir að kæran væri frágengin. Þegar margar vikur voru svo liðnar, nánar tiltekið í lok maí, þá hætti mér að lítast á blikuna og hringdi enn einu sinni í innheimtufyrirtækið. Þar á bæ kannast menn ekki við að hafa fengið neina kæru og ég var beðinn um að senda eina inn! Ég gerði það og loks um miðjan júní fékk ég reikning og bréf sem sagði að kröfur mínar hefðu verið samþykktar og ég þyrfti bara að greiða upphaflega skuld plús 300 danskar krónur í einhvern kostnað.

Þennan reikning greiddi ég í banka og hafði á tilfinningunni að ég þyrfti að passa mjög vel upp á kvittunina. Það var góð hugmynd. Í byrjun þessa mánaðar fæ ég bréf frá RKI sem er fyrirtæki sem heldur utan um lélega borgara og eilífðarskuldara og er í raun svarti listinn hér í Danmörku. Þeir segja að innheimtufyrirtækið títtnefnda hafi nú skráð mig á lista þeirra af því ég hafði ekki borgað mínar skuldir hjá því!

Þetta passaði auðvitað ekki. Langur tími hafði liðið frá því ég greiddi skuld mína og þar til ég var settur á svarta listann. Ég hringdi því í innheimtufyrirtækið og sagðist hafa greitt mína skuld. Þeir kannast ekki við að hafa fengið neinn pening frá mér. Ég bauðst til að senda þeim afrit af kvittuninni sem ég gerði. Bréf kemur skömmu síðar, og auðvitað nýr og hærri reikningur með, og ég beðinn um að tala við bankann um og athuga hvert þeir höfðu lagt peninginn inn. Bankinn hafði vissulega dregið nákvæmlega rétta upphæð (+gebyr) af reikning mínum en sá peningur virðist hafa horfið.

Ég hringdi í bankann minn og segi þeim alla sólarsöguna. Þeir leita í sínum hirslum og finna ekkert. Ég þarf því núna að fara í bankann með kvittunina svo bankinn geti millifært peninga aftur.

...og það er nokkurn veginn það sem ég þarf að gera í dag!

Wednesday, July 20, 2005

Molar

Mikið er ég ánægður með Egil Helgason að þora að segja styggðaryrði um Bandaríkjahatandi vinstriklíkuna á Íslandi og í Evrópu og efast um að öll heimsins vandræði með hryðjuverkamenn séu lýðræðislega kjörnum stjórnmálamönnum í enskumælandi löndum að kenna. Svona lagað má alls ekki segja í Danmörku án þess að uppskera flóðbylgju blaðagreina og lesendabréfa frá reiðum antí-Bandaríkjamönnum.

Nú jæja lesendur Fréttablaðisins í dag (pdf) hafa væntanlega rekist á andlitið á mér á forsíðunni og einhver skrif á síðu 16. Hver veit nema framhald verði á?

Loksins náði ég að setja upp hillur og taka til í herberginu mínu í gær eftir flutninga um mánaðarmótin síðustu. Kannski kofafyllerí verði vænlegur kostur fljótlega.

Tuesday, July 19, 2005

Regn.. almennilegt regn!

Og þá kom úrhellið í Danmörku og því er spáð út vikuna. Auðvitað er hressandi að fá smá vatn af himnum en fyrr má nú vera - heil vika? Já þegar sólin skín þá skín hún og þegar rignir þá rignir (þó auðvitað aldrei á íslenskan mælikvarða).

Er ég geðveikur að draga morgunnetrápið frá líkamlegum mætingartíma mínum? Sumsé, mætti 7:30, netráp til 8:00, og svo byrja ég ekki að telja vinnutímana fyrr en þá. Ég held nú að það sé óþarfi en... það er eitthvað en... við þetta.

Ég vissi að hlutfallið væri hátt en jahérnahér.. 61% allra fullorðinna Dana eru háðir opinberri framfærslu! Nú veit ég ekki alveg hvort þetta þýði fullkomlega háðir eða eitthvað minna enda ólesinn enn sem komið er, en ef þetta er "öryggisnetið" sem er barist fyrir þegar reynt er að réttlæta blóðuga skattbyrðina þá er ég hræddur um að öryggisnetið sé orðinn köngulóarvefur sem enginn losnar úr. (Úbbs gleymdi að segja varúð pólitík! en ójæææja!)

Já svona úr því ég er á pólitísku línunni: Svarið er nei, opinberir styrkir skapa ekki störf heldur eyða þeim úr þeim hluta atvinnulífsins sem greiðir skatta og flytja yfir í þann hluta sem þiggur skatta (mínus væg þóknun til handa ríkinu). Vonandi er þá sú mýta úr sögunni.


Monday, July 18, 2005

Sjúkt

Hressandi helgi lokið og margt sem ég ætti að muna sem ég man ekki, sumt sem ég man sem ég vildi síður muna og eitthvað man ég sem ég vil muna. Hor og kvef á föstudaginn er nú orðið að hori og hálsbólgu og mikið er nú óþægilegt að sitja hér í vinnunni og reyna ræskja sig sem hljóðlegast en svona verður það bara að vera í bili.

Núna loksins er komin vika sem er ekki skipulögð út í ystu æsar. Kannski ég geti loksins sett upp hillur, greitt skuldir, farið snemma að sofa, sagt upp korti, sótt um kort, pantað flug og svona eitt og annað sem ég hef látið sitja á hakanum undanfarið.

Friday, July 15, 2005

Rigning loksins

Fyrsta rigning vikunnar er staðreynd og sú önnur á síðustu þremur vikum eða svo. Þetta er bara ágætt. Rigningin klárast vonandi í dag og þá verður góð stemming þegar maður kveður Herstein með ofurölvun um helgina.

Aages Pizza virðist vera hressandi staður með hressandi sögu.

Nú er að byrja huga að því að koma sér í gang með að hugleiða Íslandsferð í ágúst. Líklega verður bara um langa helgi að ræða, kannski fim.kvöld-mán.kvöld, en það ætti nú að duga í bili. Löng jól með áramótum og tilheyrandi verða frekar látin éta upp frídagana mína í ár.

Thursday, July 14, 2005

Slangurfjandi

Sum orð í dönskunni geta alveg sest föst í hausnum á manni. Orðið "lige" er t.d. í munni Dana í öðru hverju orði. Maður er "lige på vej", "skal lige har den her", "tisser lige", "lige ved hjørnet og så lige ud", "henter lige en til", "gør det lige" og svona má áfram telja. Þetta er orð margra merkinga.

Annað gott orð er að "overskue noget" og nýtist við fjölda tækifæra þegar eitthvað er þannig að það sér ekki alveg fyrir endann á því eða er ekki alveg yfirstíganlegt við fyrstu athugun.

Blótsyrðin koma af sjálfu sér og ég ætla láta þau eiga sig.

Eitthvað fannst mér listinn vera miklu lengri en nú man ég ekkert. Slangrið kemur samt og skiptir jafnvel út íslenskum orðum. Heilaþvotturinn er hafinn í landi Bauna.

Wednesday, July 13, 2005

Hasar og fleira

Óneitanlega mikill hasar í gangi núna þegar 2,2 milljónir danskra króna standa eða falla með vinnu næstu tveggja sólarhringa eða svo. Sem betur fer kann ég ekkert, veit ekkert, skil ekkert og ákveð ekkert, og mitt framlag felst í að sitja hér við tölvuna og gera það sem mér er sagt. Hentar mér ágætlega í dag.

Ég má til með að lýsa yfir ánægju minni með að hafa keyrt bíl í dag.

Stundum skil ég ekki af hverju allir eru ekki sammála mér um allt sem mér finnst. Tökum dæmi: Engin eiturlyf eiga að vera ólögleg. Bæði er óréttmætanlegt að skipa fullorðnu fólki fyrir um hvað það má setja inn í líkama sinn, og hitt að bönn á efnum leiða til þess að þau verða enn hættulegri en ella fyrir þá sem á annað borð lenda í duglegum sölumönnum þeirra.

Jæja nú tekur gamall ítrunarfílingur við. Ég ætla taka "hersteininn" á þetta og setja margar tölvur á langar keyrslur sem líklega munu leiða lítið af sér.

Tilvitnun dagsins

"Ég mæti aldrei í tíma. Þannig að það kostar mig 45000 kr að fá að pissa í lögbergi og mæta í próf." -Snillingur

Tuesday, July 12, 2005

Svimi er hressandi

Það er meira hvað svimandi þreyta getur verið hressandi. Mér líður eins og ég sé á einhverju dópi - sljór, í góðu skapi og pakkfullur af koffíni. Kannski ég sofi lengur næstu nætur en fyrri nætur. Þó ekki...

Nú er vinnan heldur betur komin á fullt eða að komast á fullt. Nú stefnir í yfirvinnu og læti. Ég hafði verið varaður við en ég hélt að þetta væru bara sögusagnir. Svo reynist ekki vera. Puð er stuð.. vonandi!

Íslendingar í Kaupmannahöfn vita annaðhvort ekki hvar neitt er utan miðbæjarins eða eru með öll heitustu kaffihúsin á hreinu. Ýki ég?

Monday, July 11, 2005

Grunur

Mig grunar að kvenfólk í Danmörku sé um tugnum léttara að meðaltali en kvenfólk á Íslandi. Getur einhver grafið upp tölfræði sem sýnir fram á það eða afsannar? Öll þessi léttmjólk hlýtur að vera. Öll þessi hjól kannski.

30 stiga hiti er eiginlega orðið svo mikið að maður flýr inn en ekki út. Sniðgut. Ströndin um næstu helgi, já!

Ég held ég hafi ekki þurft að nota vasareikni svona mikið á ævinni síðan hið herrans ár 2001. Ekki spurja hvernig ég veit það.

Atvinnuveitandi minn býr við ákveðinn starfsmannaskort, eða jafnvel mikinn skort af því tagi. Yfirmaður minn segir að það sé svo erfitt að finna fólk. Gott vélaverkfræði- og tæknimenntað fólk er víst erfitt að "få fat i". Kannski er bara svona erfitt að ná í fitu í svona grönnu landi (djö... er ég fyndinn!)! Skrýtið er nú samt að heyra að hér í landi sé skortur á verkfræðimenntuðum hausum miðað við tröllasögur íslenskra verkfræðinema og þess að það tók mig litla 8 mánuði af klósetthreinsun og póstútburði að fá mína vinnu.

Varúð! Semípólitískur texti!
Danir hafa að stóru leyti látið rækta úr sér alla sjálfsbjargarviðleitni. Landið þeirra er á leiðinni á hvimandi kúpuna, milljón manns í 5 milljón manna ríki eru á einn eða annan hátt á framfærslu án framlags, engin leið ætlar að reynast að frelsa eitthvað af ríkisrekstrinum undan ríkinu, þeir best menntuðu og klárustu eru fyrir löngu flúnir til Bretlands og Bandaríkjanna, og unglingur sem elst upp í Danmörku lærir að heimta og heimta meira og helst örlítið meira í skiptum fyrir lítið eða jafnvel ekkert og telja slíka hegðun tengjast mannréttinda- og kjarabaráttu. Viðbjóður.

Þetta gengur ekki. Nú fer ég að kaupa frjálshyggjuboli á netinu! ...eða fljótlega allavega.

Ólíkt

Munurinn á því að rölta um bæinn með mömmu sinni annars vegar og kærustunni hins vegar er sá að sú fyrri vill stanslaust vera gefa manni pening á meðan hin síðari er stanslaust að biðja um pening. Dagur með báðum saman skilur mann því eftir nokkurn veginn á núllinu.

Øl øl og meira øl

Mikið afskaplega reynir á lifrina að hafa múttu og vinkonu í bænum. Magnið af áfengi sem kemst ofan í skrokka þeirra er ótæpilegt og ef nokkrir höfðingjar eru undanskildir þá eru fáar manneskjur sem byrja fyrr á daginn að drekka. Ekkert nema XL-bjórar og veitingastaðamatur.

Hersteinn kveður nú bráðum Danmörku og heilsar Íslandi. Ætli annað kveðjudjamm verði ekki að taka um næstu helgi. Vonandi heldur melurinn kveðjupartý!

Fleira er ekki í fréttum.

Friday, July 08, 2005

Í dag

Í dag er heitt... HEITT!

Mamma er lent og helgin mun litast af því.

Staðreynd um Dani: Danir ræða vandamálin, og helst í þaula. Hins vegar leysa þeir ekki vandamálin. Það er önnur saga.

Thursday, July 07, 2005

Argh

Mathcad er VERSTA forrit í heimi!

Hvernig stendur á því hvað Danir geta stundum verið sjálfumglaðir? Þeir geta líka verið hressir og ljúfir samt. Þetta yfirgengilega þvera pakk sem skrifar í blöðin er eitthvað allt annað en það sem maður mætir á götum, vinnur með eða fær sér í glas með.

Danskt kvenfólk er yfirleitt orðum aukið í útlitslegu ágæti. Þó kom mér á óvart hvað Aðallestarstöðin er með gott úrval fyrir utan viðbjóðslegar verslunarmiðstöðvar auðvitað, og mjög ákveðin svæði á djamminu.

Nú er Sanne án atvinnu en gjörþekkir kerfið og fann leið til að sækja væna fúlgu af mínum skattpeningum, sem ég hefði nú alveg geta látið hana fá milliliðalaust ef ekki væri fyrir skort á valfrelsi. Hins vegar þykir eitthvað meira virðingarvert að þiggja frá þeim sem rænir en þiggja frá þeim sem þénar. "Væriru til í að lána mér pening á meðan ég er svona á milli starfa?" er jú algjör skömm í helvíti miðað við "Plíííííís fröken félagsmálaráðgjafi ég er búinn að skaffa þetta plagg og þetta plagg og þetta plagg og læknisvottorð og sakarvottorð og fylla út eyðublað 1X3g.03 og 300.03 og fara í kollhnís og lifa á maísbaunum í mánuð og með vottorð frá næringarráðgjafa um að sé rétt og plííííííís má ég fá ávísun sem ég þarf ekki að borga til baka því ég þarf ekki að vinna á meðan þú gefur mér pening plííííííís!!"

Er furða að þetta land var alveg að fara til fjandans áður en síðasta ríkisstjórn tók við, og er nú að fara í fjandans þrátt fyrir það. Danmörk er enginn framtíðarstaður fyrir mig, ónei.

Hverjum að kenna?

Þá gerðist það - hryðjuverkaárás á London - og nú er að bíða rólegur eftir því að vinstriliðið hendi út samsæriskenningum sínum sem munu að miklu leyti snúast um hvað Bandaríkjamenn hafa gert mikið rangt, hvað Bretar eru miklir taglhnýtingar þeirra og hvernig heimurinn yrði allur miklu betri ef góðu gæjarnir leggðu niður vopnin og gæfu eftir öllum kröfum ofsatrúarmanna og brjálæðinga sem sjálfir væru gráir fyrir járnum.

Mikið er samt leiðinlegt þegar svona árásir eru gerðar. Mikið afskaplega. Vonandi nást fíflin sem í hlut eiga og vonandi fá þau ekki ókeypis far til lúxushótelsins í Gvantanamóflóa í karabíska hafinu, sem ótrúlegt er satt er nefndur sem dæmi um slæman stað þegar ég efast um að innfæddir á Kúbu hafi það betra.

Wednesday, July 06, 2005

*Smack*

Ég fæ næstum því í'ann þegar Vefþjóðviljinn er að tæta í sig fréttamenn sem búa til æsifrétt úr engri frétt. Antí-Bandaríkjaáróðurinn í Evrópu er orðinn að einhverju furðuverki. Hver skilur þessa vitleysu?

Enn er ég aumur í öxlum og baki eftir helgina, og enn er ég hás, en ég er að verða tilbúinn í heimsókn frá múttu á morgun. Síðan er eitthvað með hitaköst sem ég fæ við og við, þó meira í gær en í dag. Þynnkuleifar eða danskt loftslag?

Veit einhver um góða og stabíla netútvarpsstöð? You know what I like...





Tuesday, July 05, 2005

Loksins pólitík!

Já mikið rétt loksins kemur pólitísk færsla frá mér í dag! Heppnin er með yður:

Í þessari grein er upphafssetningin svohljóðandi: Heimsvaldastefna kapítalismans er nú loksins að verða undir í umræðunni. Bendum á nokkrar villur við þessa setningu.

Í fyrsta lagi eiga heimsvaldsstefna og kapítalismi ekkert sameiginlegt. Heimsvaldsstefna þýðir yfirráð fulltrúa eins hóps af fólki (t.d. þjóð) yfir öðrum hópi fólks í skiptum fyrir engin, lítil eða takmörku réttindi síðarnefnda hópsins. Kapítalismi þýðir frjáls viðskipti frjáls fólks, óháð t.d. búsetu þess eða tegund og stærð stjórnvalda þess, í samfélagi frelsis = lögverndaðs eignarréttar, og mannréttinda = frelsis.

Það að blanda þessu tvennu saman er hið sama og að segja að sá sem blandar þessu tvennu saman sé hálfviti.

Í öðru lagi er ekki til neitt sem heitir málstaður "heimsvaldsstefnu kapítalismans" í umræðunni. Hins vegar eru til sjónarmið eins og sjónarmið Frakka, Þjóðverja, Íslendinga, Bandaríkjamanna, Breta, Svisslendinga, frjálshyggjumanna, antí-kapítalista (búsettir í frjálsum markaðssamfélögum sem gera þeim kleift að fljúga ódýrt milli funda helstu leiðtoga til að valda eignaspjöllum), og svona má lengi telja. Sjónarmið stjórnvalda Bandaríkjamanna, Breta, Dana, Íslendinga, Ástrala, Japana og fleiri gamalgróinna lýðræðisríkja er t.d. það að innrás inn í Írak hafi verið nauðsynleg af ýmsum ástæðum (t.d. einni frægri um gereyðingarvopnin). Hins vegar þar sem ekki er til neitt sem heitir "heimsvaldsstefna kapítalisma" þá er ekki til neitt sem heitir sjónarmið slíks uppspuna. Sjónarmið antí-kapítalista (lesist: antí-Bandaríkjamanna), Gaddafi, Saddam Hussein, stjórnvalda í Þýskalandi og Frakklandi og ýmissa annarra er að innrás inn í Írak hefði þurft já-stimpil frá Frökkum í Öryggisráði Sameinuðu Þjóðanna til að fá að eiga sér stað og verða "réttmæt" (nýtt hugtak í umræðunni er "réttmæt stríð" sem kaldhæðnislega er bara notað af þeim sem telja að eitt ákveðið stríð hafi ekki verið réttmæt, á meðan enginn annar vill meina að stríðið hafi mátt umflýja sem aftur væri hægt að rökstyðja sem er hins vegar ekki það sama og að segja að það hafi verið réttmætt).

Hið þriðja sem er rangt við upphafssetningu ákveðinnar greinar er að eitthvað sjónarmið sé að verða undir umfram mörg önnur og eitthvað sérstaklega mikið eða eitthvað sérstaklega mikið "nú loksins", því þótt þeir sem eru ekki ánægðir með veru Bandaríkjanna, Bretlands, Ástralíu, Danmerkur, Japan o.s.frv. inn í ákveðnu landi í Miðausturlöndum telji sig vera vinna fjöldann þá er það ekki nema ákveðið sjónarmið. Annað sjónarmið sem ívið meira fer fyrir en áður er að hryðjuverkahópar í ýmsum löndum hljóti að finna fyrir samkennd ýmissa hópa á Vesturlöndum og telji sig því áhyggjulausir geta sprengt upp og limlest fólk og treyst á að Bandaríkjamönnum verðir kennt um í ríku löndunum. Enn eitt sjónarmiðið er það að Bandaríkjamenn séu fastir í Írak þar til þeim hefur tekist að kenna þarlendum stjórnvöldum að hafa hemil á hryðjuverkahópum, eða ég hef ekki séð marga ábyrga aðila (sósíalistar á kantinum þar með undanþegnir) leggja það til að allt í einu eins og hönd væri veifað kæmist á stabílt og friðsælt ástand í Írak ef Bandaríkjamenn dræju sig nógu hratt í burtu. Hvað sem mönnum finnst um innrásin inn í Írak þá hef ég ekki séð marga setja nafn sitt við að henni sé hægt að snúa við einn tveir og þrír. Eða jú kannski með því að setja Saddam aftur við stjórn og hafa upp á Baath-flokknum hans og efnavopnateyminu.

Kannski má bæta því við að kapítalismi er í eðli sínu sú hugmyndafræði sem hvað harðast er andsnúin stríðsrekstri ríkisstjórna. Í kapítalisma deyja fyrirtæki í viðskiptastríðum. Þegar stjórnvöld slást þá sóa þau auðlindum sem kapítalisminn þarf á að halda, drepa kúnnana sem fyrirtækin þurfa á að halda og herða að samfélaginu sem hinn frjálsi markaður þarf á að halda. Í sósíalisma finnast engar málefnalegar mótsagnir við ríki í stríðshug.

Stutta Hróaskeldusaga Geirs

Þá er mjög langri, mjög skemmtilegri en einnig mjög erfiðri helgi lokið og ég mættur til vinnu eftir væna þynnku í gær og einhverjar leifar hennar í dag. Eitthvað hefur reynst flókið mál að púsla saman vinnu, félögum í heimsókn, systur í heimsókn, kærustumálum, flutningum á tveimur vígstöðvum í alls þremur lotum og lyklaleysi sem enn er viðvarandi, og að sjálfsögðu hefur eitthvað gefið eftir eins og að koma dóti til Íslands, hanga örlítið í bænum með sjaldséðu fólki, minn eigin líkami og vinnudagurinn í gær, en á heildina litið löng, góð og erfið en hressandi helgi. [Nú byrjar sjálfsævisagan:] Ég svaf á berri jörð, í tjaldi, á gólfi, í sófa og í rúmi yfir síðuru fjórar nætur. Ég át einu sinni á dag í þrjá daga og skeit svo fyrir þrjá daga á fjórða degi. Ég móðgaði einhverja en skemmti samt flestum og var móðgaður af einhverjum en skemmt af flestum. Fjárhagnum var rústað í smá tíma eins og útihátíðir virðasta hafa í för með sér en það er líka þeim mun gaman að þéna þegar málstaðurinn er góður.

Niðurstaðan er skrokkur sem er meira dauður en lifandi en haus fullur af nýjum og hressandi "minningum". Takk fyrir mig!