Ég er búinn að finna hinn fullkomna eilífðartitil á allar færslur: "Molar XX" þar sem XX er auðvitað ekkert annað en hlaupandi tala. Molar 2 hefjast þá nú.
Hér kemur lítil saga sem krefst svolítillar athygli en er að mínu mati gríðarlega áhugaverð (og meira að segja ópólitísk með öllu!):
Þegar ég var í Danmörku haustið 2002 að hefja vetur sem skiptinemi í DTU þá keypti ég mér síma hjá fyrirtækinu Telia. Ég skrifaði undir einhvern samning og fékk símann á vægu verði.
Skömmu síðar flutti ég, skipti um sveitafélag og hætti að fá símreikninga (sá eini sem ég hafði fengið týndist og greiddist því ekki). Þessu var ég lítið að spá í og tíminn leið og aldrei kom neitt frá fyrirtækinu. Ég vissi að ég kæmist varla upp með að vera í áskrift hjá símfyrirtæki án þess að þurfa borga, en reyndar látið aflæsa símanum og skipt um símfyrirtæki og því var sosem ekki um neina vaxandi notendaskuld að ræða.
Þegar ég flutti aftur til Danmerkur síðasta haust sendi ég ímeil á Telia og spurði hvort ég skuldaði þeim ekki einhvern pening. Ég fékk ekkert nema sjálfvirkt svar og þar við sat.
Í febrúar/mars á þessu ári fékk ég bréf frá innheimtufyrirtæki. Í því stóð að ég skuldaði Telia peninga (auk einhverra vaxta og innheimtukostnaðar) og að þar sem
fyrri tilraunir til að hafa samband við mig höfðu ekki borið árangur væri nú búið að hækka skuldina um einhverjar krónur.
Ég hringdi og sagðist aldrei hafa heyrt frá innheimtufyrirtækinu varðandi þessa skuld og bað um að síðasta hækkun á skuldinni yrði dregin til baka og skuldin færð að upphæðinni sem hún var í þegar ég hafði samband við Telia síðasta haust. Ég var beðinn um að senda inn skriflega kæru sem ég og gerði.
Um 2 vikum seinna fékk ég annan reikning þar sem sagði að kæra mín hefði verið tekin til meðhöndlunar og ég beðinn um að borga meðfylgjandi gíróseðil sem var upp á sömu upphæð og áður. Ég hringdi aftur í innheimtufyrirtækið og þeir sögðu mér þá að ég hefði engan nýjan reikning fengið og að kæran mín væri ennþá til meðhöndlunar! Ég var hreinlega beðinn um að henda þessum síðasta reikning!
Auðvitað gerði ég það ekki en beið þolinmóður eftir að kæran væri frágengin. Þegar margar vikur voru svo liðnar, nánar tiltekið í lok maí, þá hætti mér að lítast á blikuna og hringdi enn einu sinni í innheimtufyrirtækið. Þar á bæ kannast menn ekki við að hafa fengið neina kæru og ég var beðinn um að senda eina inn! Ég gerði það og loks um miðjan júní fékk ég reikning og bréf sem sagði að kröfur mínar hefðu verið samþykktar og ég þyrfti bara að greiða upphaflega skuld plús 300 danskar krónur í einhvern kostnað.
Þennan reikning greiddi ég í banka og hafði á tilfinningunni að ég þyrfti að passa mjög vel upp á kvittunina. Það var góð hugmynd. Í byrjun þessa mánaðar fæ ég bréf frá RKI sem er fyrirtæki sem heldur utan um lélega borgara og eilífðarskuldara og er í raun svarti listinn hér í Danmörku. Þeir segja að innheimtufyrirtækið títtnefnda hafi nú skráð mig á lista þeirra af því ég hafði ekki borgað mínar skuldir hjá því!
Þetta passaði auðvitað ekki. Langur tími hafði liðið frá því ég greiddi skuld mína og þar til ég var settur á svarta listann. Ég hringdi því í innheimtufyrirtækið og sagðist hafa greitt mína skuld. Þeir kannast ekki við að hafa fengið neinn pening frá mér. Ég bauðst til að senda þeim afrit af kvittuninni sem ég gerði. Bréf kemur skömmu síðar, og auðvitað nýr og hærri reikningur með, og ég beðinn um að tala við bankann um og athuga hvert þeir höfðu lagt peninginn inn. Bankinn hafði vissulega dregið nákvæmlega rétta upphæð (+gebyr) af reikning mínum en sá peningur virðist hafa horfið.
Ég hringdi í bankann minn og segi þeim alla sólarsöguna. Þeir leita í sínum hirslum og finna ekkert. Ég þarf því núna að fara í bankann með kvittunina svo bankinn geti millifært peninga aftur.
...og það er nokkurn veginn það sem ég þarf að gera í dag!