Já mikið rétt loksins kemur pólitísk færsla frá mér í dag! Heppnin er með yður:
Í þessari grein er upphafssetningin svohljóðandi: Heimsvaldastefna kapítalismans er nú loksins að verða undir í umræðunni. Bendum á nokkrar villur við þessa setningu.
Í fyrsta lagi eiga heimsvaldsstefna og kapítalismi ekkert sameiginlegt. Heimsvaldsstefna þýðir yfirráð fulltrúa eins hóps af fólki (t.d. þjóð) yfir öðrum hópi fólks í skiptum fyrir engin, lítil eða takmörku réttindi síðarnefnda hópsins. Kapítalismi þýðir frjáls viðskipti frjáls fólks, óháð t.d. búsetu þess eða tegund og stærð stjórnvalda þess, í samfélagi frelsis = lögverndaðs eignarréttar, og mannréttinda = frelsis.
Það að blanda þessu tvennu saman er hið sama og að segja að sá sem blandar þessu tvennu saman sé hálfviti.
Í öðru lagi er ekki til neitt sem heitir málstaður "heimsvaldsstefnu kapítalismans" í umræðunni. Hins vegar eru til sjónarmið eins og sjónarmið Frakka, Þjóðverja, Íslendinga, Bandaríkjamanna, Breta, Svisslendinga, frjálshyggjumanna, antí-kapítalista (búsettir í frjálsum markaðssamfélögum sem gera þeim kleift að fljúga ódýrt milli funda helstu leiðtoga til að valda eignaspjöllum), og svona má lengi telja. Sjónarmið stjórnvalda Bandaríkjamanna, Breta, Dana, Íslendinga, Ástrala, Japana og fleiri gamalgróinna lýðræðisríkja er t.d. það að innrás inn í Írak hafi verið nauðsynleg af ýmsum ástæðum (t.d. einni frægri um gereyðingarvopnin). Hins vegar þar sem ekki er til neitt sem heitir "heimsvaldsstefna kapítalisma" þá er ekki til neitt sem heitir sjónarmið slíks uppspuna. Sjónarmið antí-kapítalista (lesist: antí-Bandaríkjamanna), Gaddafi, Saddam Hussein, stjórnvalda í Þýskalandi og Frakklandi og ýmissa annarra er að innrás inn í Írak hefði þurft já-stimpil frá Frökkum í Öryggisráði Sameinuðu Þjóðanna til að fá að eiga sér stað og verða "réttmæt" (nýtt hugtak í umræðunni er "réttmæt stríð" sem kaldhæðnislega er bara notað af þeim sem telja að eitt ákveðið stríð hafi ekki verið réttmæt, á meðan enginn annar vill meina að stríðið hafi mátt umflýja sem aftur væri hægt að rökstyðja sem er hins vegar ekki það sama og að segja að það hafi verið réttmætt).
Hið þriðja sem er rangt við upphafssetningu ákveðinnar greinar er að eitthvað sjónarmið sé að verða undir umfram mörg önnur og eitthvað sérstaklega mikið eða eitthvað sérstaklega mikið "nú loksins", því þótt þeir sem eru ekki ánægðir með veru Bandaríkjanna, Bretlands, Ástralíu, Danmerkur, Japan o.s.frv. inn í ákveðnu landi í Miðausturlöndum telji sig vera vinna fjöldann þá er það ekki nema ákveðið sjónarmið. Annað sjónarmið sem ívið meira fer fyrir en áður er að hryðjuverkahópar í ýmsum löndum hljóti að finna fyrir samkennd ýmissa hópa á Vesturlöndum og telji sig því áhyggjulausir geta sprengt upp og limlest fólk og treyst á að Bandaríkjamönnum verðir kennt um í ríku löndunum. Enn eitt sjónarmiðið er það að Bandaríkjamenn séu fastir í Írak þar til þeim hefur tekist að kenna þarlendum stjórnvöldum að hafa hemil á hryðjuverkahópum, eða ég hef ekki séð marga ábyrga aðila (sósíalistar á kantinum þar með undanþegnir) leggja það til að allt í einu eins og hönd væri veifað kæmist á stabílt og friðsælt ástand í Írak ef Bandaríkjamenn dræju sig nógu hratt í burtu. Hvað sem mönnum finnst um innrásin inn í Írak þá hef ég ekki séð marga setja nafn sitt við að henni sé hægt að snúa við einn tveir og þrír. Eða jú kannski með því að setja Saddam aftur við stjórn og hafa upp á Baath-flokknum hans og efnavopnateyminu.
Kannski má bæta því við að kapítalismi er í eðli sínu sú hugmyndafræði sem hvað harðast er andsnúin stríðsrekstri ríkisstjórna. Í kapítalisma deyja fyrirtæki í viðskiptastríðum. Þegar stjórnvöld slást þá sóa þau auðlindum sem kapítalisminn þarf á að halda, drepa kúnnana sem fyrirtækin þurfa á að halda og herða að samfélaginu sem hinn frjálsi markaður þarf á að halda. Í sósíalisma finnast engar málefnalegar mótsagnir við ríki í stríðshug.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment