Wednesday, May 24, 2006

Milli svefns og vöku

Af hverju eyða margir hreinræktaðir vinstrimenn svona miklu púðri í að kalla sig ópólitíska og óflokkanlega í pólitík? Þetta gildir að vísu um einhverja hægrimenn líka en er engu lagi líkt á sama plani meðal þeirra.

Mikil keyrsla þessa dagana. Tveir vinnudagar gufuðu upp á námskeiði, samviskan segir mér að mæta til vinnu á morgun en jafnframt að sötra bjór með Óla í kvöld, veðrið er allt að koma til sem leiðir oftar en ekki til blautra helga, á sunnudaginn er fiskitúr með vinnufélögum og í dag er barátta við létta þynnku og þónokkra þreytu eftir bjór og mat með vinnufélögum á kostnað vinnunnar í gærkvöldi.

Eftir rúman klukkutíma ætla ég að skoða íbúð. Ég á erfitt með að venjast tilhugsuninni um að kaupa rúma 25 fermetra á næstum milljón danskar en kannski hún komi þegar ég sé að ekkert annað er mögulegt. Mottóið: Staðsetning framar fermetrafjölda!

Kosningar nálgast á Íslandi og spennan er mikil í Reykjavík: Mun útsvarið hækka mikið á næstu árum, eða stjarnfræðilega mikið? Ég fylgist spenntur með!

Mér virðist ekki ætla ganga vel að hjól-væða mig, og virðist eiga fá að blæða vel fyrir þá viðleitni mína að vilja spara tíma og fé með hjólnotkun í stað labb-strætó-lest-strætó-labb. Eins og mér finnst gaman að hjóla þá finnst mér hjólreiðar hata mig furðumikið.

Yfirmaður minn er snillingur. Lokasvar.

Eftir örfáa daga skipti ég vonandi um hlutverk við doktorinn. Líkaminn er a.m.k. þannig stemmdur núna, og hugurinn er sammála.

1 comment:

Anonymous said...

Dr. Geir - ánægjuleg skipti!!!