Thursday, August 11, 2005

Vinnumórall

Þótt ég vinni fyrir fyrirtæki þar sem álagið er oftar en ekki takmarkalaust og margir eru undir miklu stressi finnst mér furðulegt hvernig sumir hérna komast upp með að vinna. Vinnuskyldan á að vera að meðaltali 37 tímar á viku. Þetta þýðir að maður getur unnið 35 tíma eina viku gegn því að vinna 39 aðra viku, og jafnvel haldið stuttri vinnuviku í langan tíma gegn því að halda vinnuvikunum löngum einhvern annan tíma. Enginn spáir neitt sérstaklega í því en mönnum er treyst til að virða kerfið.

Í minni deild eru a.m.k. tveir einstaklingar sem eru órafjarri þessu meðaltali, og þetta eru þeir einstaklingar sem eru að farast úr alls konar sjúkdómum vegna álags og virðast þurfa heimsækja lækni aðra hverja viku milli þess sem heilu pilluboxin eru gleypt út á lyfseðil. Annar þessara einstaklinga er reyndar óendanlega vinnusamur þegar viðkomandi er í vinnu, og ég sé að sá er ekki að slóra eða gera neitt viljandi til að losna við vinnu. Hinn einstaklingurinn er hins vegar skínandi dæmi um einhvern sem ætti að fá svolítið tiltal. Sá virðist alltaf vera í skínandi góðu skapi og ekki hafa neitt að klaga en þegar maður spyr hvernig gangi nú að höndla álagið og hvort ekki sé allt í lagi þá byrja harmkvælin og stoppa ekki. Ég er löngu hættur að spurja viðkomandi um líðan.

Rétt í þessu var þessi einstaklingur að fara heim, eftir 6 tíma vinnudag (5,5 tíma vinnutíma). Hann er nýkominn úr 3ja vikna fríi, var hjá lækni á fyrsta vinnudegi eftir frí og virðist ennþá eiga jafnbágt þegar einhver spyr hann um líðan, en virðist hafa það þrusugott ef enginn spyr.

Nú er ég annaðhvort kaldur og ótillitssamur hrokagikkur sem get ekki sett mig í stöðu þess sem er allt í lagi með nema þegar spurt er um líðan, eða einfaldlega einhver sem hef hitt naglann á höfuðið þótt ekki megi segja frá því. Ég veit hins vegar að ég mundi ekki ráða þennan mann í vinnu sem þessa. Kannski verkefnavinna að heiman henti þessum einstakling betur, eða tímakaup svo viðkomandi finnist hann þurfa leggja sitt af mörkum. Meðaltalsvinnuskyldan og föst mánaðarlaun eru hins vegar "free ride" fyrir þennan starfsmann, og mórall viðkomandi virðist vera sá að það sé í fínu lagi.

No comments: