Einhvern tímann sagði ég að það væri svo ágætt að búa ekki á Íslandi því þá losnar maður alveg við þorpsbúaháttinn í kringum sig, þar sem allir vita allt um alla og vilja ólmir deila því með öllum og allir vilja hlusta. Annar kostur er síðan sá að ég get skrifað um alla í kringum mig á þessari síðu og verið ansi hreinskilinn án þess að eiga á hættu að lenda í "hr. A og hr. B"-aðstæðum.
Ókosturinn er auðvitað sá að baktal og slúður eru einfaldlega skuggahliðar vinskaps, og þótt ekki vanti félagsskapinn í Danmörku þá vantar óneitanlega vinina. Hins vegar er ekkert varanlegt. Tveggja ára planið segir að ég ætli að sjá til hvað ég geri og hvar og til lengri tíma litið er engu að kvíða.
En hvað með að skrifa þá örlítið um Dani hér og nú? Ekki af því ég hef eitthvað merkilegt að skrifa, heldur af því tilhugsunin um að Daninn geti ekki lesið skrifin er svo fyndin.
Sambýlingar mínir eru:
Tara og Bodil frá Noregi, Christina frá Svíþjóð, Tine frá Danmörku og eini karlkynssambýlingurinn, Jon frá Danmörku. Jon er heima í ca. 2*2 klst á viku (býr annars hjá kærustunni sinni) svo ég er eiginlega eini haninn í kofanum. Bodil er dugleg að þrífa hitt og þetta, taka til og kaupa það sem vantar í búið. Tara er sú hressasta og það er alveg nóg. Christina er róleg en undir niðri blundar húmoristinn. Hún er reyndar grænmetisæta sem þýðir jóga-tónlist, skrýtnar sérvenjur og ónýtt mataræði, en er fyrirgefið því hún er leiklistarnemi. Tine er sú elsta í íbúðinni, einhvers konar forritari, með tæknileg atriði hvað varðar samskipti við eiganda íbúðarinnar á hreinu og mikla reynslu af því að búa með öðru fólki og vita hvað þarf að skipuleggja og hvað þarf að hafa skriflegt.
Þá vitiði það. Innflutningspartý er áætlað 16. september. Þeir koma sem vilja.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment