Thursday, January 31, 2008

Monday, January 28, 2008

Saturday, January 26, 2008

Sáttur en símalaus

Mikið er alltaf gott að koma heim eftir flakk í útlöndum.

París var ljúf og ég er farinn að kunna ágætlega við þessa borg. Að þessu sinni tókst mér líka að gera eitthvað annað en sitja í leigubíl og fundi.

Mér tókst nú samt að týna farsímanum mínum í frönskum leigubíl. Vinnusíminn er því mín helsta samskiptaleið við umheiminn núna (ef MSN er undanskilið). (Fannst í hyldýpi troðinnar tölvutösku minnar.)

Ég hitti Gauta í gærkvöldi og hellti í mig áfengi með honum og fleiri góðum drengjum langt fram á nótt. Gauti svíkur aldrei í skemmtanagildi, og ungverskar stúlkur voru ekki til að eyðileggja skemmtunina!

Annars er ég hálfringlaður í hausnum eftir að hafa sofið til kl 21 í kvöld. Ætli Næturvaktin á DVD muni bæta úr því? Ég ætla prófa!

Tuesday, January 22, 2008

Puðað í París

Í þessari skrifandi stundu sit ég á hótelherbergi í París, reykjandi sígarettu og drekkandi rauðvín, nýbúinn með seinasta vinnuverkefni dagsins og hlakka til morgundagsins. Þessi vika hjá mér heitir nefnilega "fatigue camp", er hluti ef verkefni sem ég tilheyri og er einskonar tilraun með líkamlega nærveru okkar fyrirtækis og eins ágætis fyrirtækis sem heitir Acergy, og er meðal annars með starfsemi í París.

Þessi litla útlegð er alveg stórgóð og sömuleiðis fræðandi. Franskir verkfræðingar (a.m.k. þeir hjá Acergy) eru engir 35-vinnuviku kettlingar. Þeir eru miklu nær því að vera í 45-50 vinnuvikunni. Hef nú séð það með berum augum tvo daga í röð og hálfskammast mín fyrir að yfirgefa vinnustaðinn milli kl 18 og 19 vegna hungurs.

Hvað um það, ég þarf að huga að svefni. Yfir og út!

Wednesday, January 16, 2008

300%? Nei varla

Eftir að ég ákvað um daginn að ég væri alveg afskaplega lítið upptekinn maður þá finnst mér eins og ég hafi endalausan tíma þrátt fyrir að ekkert hafi í raun breyst í kringum mig frá því taldi mig vera ákaflega upptekinn mann! Er þessu að þakka hugarfarsbreytingu hjá mér eða því einfaldlega að ég er ekki mjög upptekinn maður frekar en aðrir í silalegri Danmörku, en hafði látið smitað mig af Dönum sem hafa í raun ekkert að gera, en kvarta samt alltaf yfir tímaskorti?

Ég hallast að seinni skýringunni.

Eitthvað er nú samt í gangi. Í gær vann ég í tæpa 13 tíma án þess að nokkur breyting sæist á verkefnalistanum mínum. Á föstudaginn er bjórkvöld með vinnufélögum og það er hið besta mál og rúmlega það. Í næstu viku verð ég meira og minna í París vegna vinnu. Blendnar tilfinningar til þess. Febrúar er þéttpakkaður. Eirðarleysi er a.m.k. ekki á dagskrá.

Viðurnefnum mínum í vinnunni fer fjölgandi. Um þessar mundir er ég ávarpaður með ýmsu móti, til dæmis: "Mister Præsident", "Mister Kælderpræsident", "Geyser", "Mr. Geir.", "Island", auk hinna hefðbundnu blæbrigða nafns míns, "Gjíír", "Gæjer", "Gjer", "Geijjr" (spænska útgáfan) og "Gjeer" (franska útgáfan). Ekki laust við að ég þurfi að vera á stöðugri vakt til að átta mig á því þegar á mig er yrt!

Mikið er gaman að eiga litla systur. Ég mæli með því fyrir alla!

Monday, January 14, 2008

Húrra fyrir 2008

Mikið ætlar árið 2008 að fara vel af stað.

Janúar hefur verið svo ágætur í vinnunni (ef frekar eirðarlaus vinnudagur í dag er undanskilinn). Ég hef verið útnefndur "kælderpræsident" og þar með ábyrgur fyrir því að alltaf sé til öl í kjallara vinnustaðar míns að lokinni vinnu á föstudögum. Í viku 4 verð ég í París með vinnutölvuna mína að sitja fundi og reikna þreytuþol til skiptis. Smáverkefnin keyra líka hægt og rólega. Ekkert til að kvarta yfir nema síkvabbandi Danir, venju samkvæmt.

Vökustundir helgarinnar fóru mikið til í áhorf á NFL með góðum piltum, vitaskuld alltaf með áfengi í hönd. Næstu helgar munu sömuleiðis notast í NFL áhorf sem nær hápunkti sínum sunnudagskvöldið 3. febrúar þegar engin önnur en hún systir kemur í Kaupmannahafnar-heimsókn og sjálfur meistari Hlynur. Tilhlökkun: Mikil!

Í byrjun febrúar flytur alveg hreint ágæt stúlka til Köben í nokkra mánuði til að breyta um umhverfi og vinna að lokaverkefni sínu (undir strangri handleiðslu minni). Meðaltals-myndarleiki Danmerkur hækkar töluvert sem afleiðing þess.

Arnar minn er fluttur til Litháen sem er svo gott sem "næsti bær" miðað við verð og ferðatímafjölda til og frá Köben. Hann verður heimsóttur og hann heimsækir okkur Köbenbúa og tilhlökkun vegna þess er, já mikið rétt, mikil!

Stefáni þann 14. febrúar hef ég heldur ekki gleymt. Aldeilis ekki!

Á morgun eru horfur öllu drungalegri. Fulltrúar hins franska olíufélags Total koma til Köben til að skamma okkur í NKT Flexibles fyrir að gera eitthvað annað en þeir vilja, sem er samt ekki mjög skýrt greint frá nema óbeint með því að hafna öllum okkar tillögum. Skyrtan verður tekin fram, sleipiefnið haft við hönd og síðan vonast eftir því besta en búist við því versta!

Ég fór í klippingu um helgina. Umskiptin verða skjalfest á þessum vettvangi eins fljótt og ég nenni.

Hef ég eitthvað fleira að segja? Nei, ekki í bili.

Monday, January 07, 2008

Molar í amstri dagsins

Hvernig væri nú að byrja vinnuvikuna á eins og einu mola-bloggi? Persónulega finnst mér þau svo skemmtileg (hjá mér)!

Tímabilið kl. 7-9 er það langafkastamesta hjá mér í vinnunni. Enginn Dani mættur í fjögurra manna skrifstofuna sem ég er í og heilinn að veltast um í fyrstu koffínsopum dagsins. Kjörblanda alveg hreint.

Helgin var ágæt. Föstudagurinn var hin fínasta bæjarferð með Hauki, þeirri litháensku og fleirum góðum. Uppsöfnuð þreyta gerði svo að ég svaf af mér allan laugardaginn (frá ca. kl. 6 á laugardagsmorgni til 1:30 eftir miðnætti 19 tímum síðar), missti þar með af Burkna en hann fyrirgefur það vonandi! Í gær voru rólegheit eftir ánægjulega heimsókn. Svo ágætt allt saman.

Ég var að fá að vita að ég slapp við kæru vegna skorts á líkamlegum sönnunargögnum. Sjúkk!

Í dag kemst ég aftur í félagslega einokunaraðstöðu þar sem á tímabili voru aðrir valmöguleikar. Húrra fyrir því!

Gvuði sér lof fyrir sérhæfða reikni-netþjóna!

Í dag endurnýjast hefð frá því fyrir jóla-ferðalag mitt til Íslands: Labb með ákveðnum samstarfsfélaga (Dana) út á lestarstöð, stoppað við í sjoppu á leiðinni, bjór keyptur og hann drukkinn í lestinni á leið í bæinn. Það er á svona dögum sem ég er hvað þakklátastur fyrir bílleysi mitt!

Húrra fyrir Amazon.co.uk sem sendir pantanir af stað daginn eftir pöntun! Húrra fyrir bókunum [12] sem ég var að panta (handa mér í þetta skiptið, eða a.m.k. önnur þeirra)!

Ég er orðinn þreyttur. Best að finna sér einhver rólegheit til að dunda sér við í um klukkutíma.

Yfir og út!

Thursday, January 03, 2008

Til baka í Baunalandið

Muna: Sama hversu þreytan er mikil - EKKI fara sofa klukkan 7 að kvöldi til! Það gerir það bara að verkum að ég vakna um miðja nótt, get með engu móti sofnað aftur og núna er ég að spá í að halda út þar til strætó byrjar að keyra og fara í vinnuna eldsnemma í fyrramálið.

Sama var uppi á teningnum í gær og ég var sestur á minn stað í vinnunni klukkan 7 í morgun. Var svo orðinn dauðþreyttur kl 16, fór heim, og gat ekki forðast það að sofna eldsnemma.

Kannski er ekki úr vegi að rifja upp seinustu daga. Seinasta fimmtudag (27. des.) var gríðarhressandi 'reunion' verkfræðiárgangs míns (og rúmlega það) og mikið óskaplega var það skemmtilegur hittingur. Ekki eins skemmtileg var allsherjarlokun alls í Reykjavík á slaginu 1. Hvenær á að kippa þessum asnalega opnunartíma virkra daga í lag á Íslandi?

Föstudagskvöldið var alveg hreint ljómandi sötur með Örvari, Hersteini, Sverri og fleirum sem endaði í bænum þar sem góðir menn voru komnir vel í glas og skemmtistaðurinn (sardínudósin) Ellefan notuð til lokunartíma miðbæjarins.

Laugardagurinn var dagur ónýts skrokks, pökkunar og næturvöku. Allt að því ósofinn var flugið tekið til Danmerkur seinnipart sunnudags og strax á Kastrup hitti ég Daða. Burkna & co. hitti ég síðan um kvöldið og drakk nokkra ljúfa bjóra þar til þreytan kallaði á heimför.

Áramótin á Nýhöfn voru gríðarskemmtileg. Daði er svo ágætur gestgjafi. Úlpunni minni týndi ég tímabundið en mér skilst að hún hafi skilað sér á góðan stað. Haukur og Burkni báðir fallegir venju samkvæmt. Litháensk skot gerðu góða hluti. Flugeldar voru einhverjir á kaupmennskum himni en þó ekkert í líkingu við þann reykvíska. Moose var ljómandi endastöð skemmtistaðaröltsins. Góð áramót!

Vinnuvikan fór ágætlega af stað í dag þrátt fyrir ringlaðan haus óreglulegs svefns. Ég verð hreinlega að plana eitthvað félagslega bindandi annað kvöld til að fara ekki of snemma að sofa aftur!

Næturfjas: Endir.