Monday, July 31, 2006

Já, ennþá netlaus heima

Eitt af því sem fylgir skráningum í eða úrsögnum úr einhverju í Danmörku er langur biðtími sem endar á því að maður hringir í viðeigandi fyrirtæki og fær að heyra að nú sé bara spurning um örfáa daga þar til málin græjast (hvort sem það er satt eða ekki fer svo eftir fyrirtækinu). Nú hefur þessi tími runnið upp hvað internet-veitu varðar. Á morgun verður hringt. Ég er ekki í stuði fyrir símabiðraðir í dag.

Helgin var hressandi og verður vonandi endurtekin að einhverju leyti sem fyrst (lesist: Vonandi hitti ég Ingimar fljótlega aftur yfir einum köldum eða tveimur).

Sunnudagsmynstur er að verða ansi rótgróið hjá mér: Vakna um kvöldmatarleytið, sofna ekki fyrr en seint, seint um nóttina, sofa örstutt, vera sæmilega sprækur í vinnunni framan af en vera orðinn eins og draugur seinnipartinn. Endurtaka svo leikinn á þriðjudaginn nema aðeins betur sofinn.

Pappírsvinnan er þungur baggi núna. Svo þungur að raunveruleg vinna er í raun kæfð niður. Hvorki meira né minna en þrír aðilar þurfa að lesa allar skýrslur í öllum útgáfum og á endanum (oftast eftir tvær útgáfur af hverju skjali) endanlega samþykkja skjalið. Þetta væri sosem allt í lagi ef öll þessi fyrirtæki væru ekki með FRAKKA að störfum í verkefninu.

Olíuiðnaðurinn og hið opinbera eiga margt sameiginlegt: Báðir setja sér sínar eigin vinnureglur og í báðum tilvikum fer skrifræðið mikið eftir því við hvern maður er að díla (mikið hjá Frökkum, minna hjá Bretum).

Þá sá ég það í fyrsta sinn síðan ég byrjaði á þessum vinnustað fyrir rúmlega ári síðan: Einhver annar en ég að nota MSN í vinnutíma!

Ég er 5600 dönskum krónum frá því að vera næstum því endanlega laus frá fyrrum búsetustað á Gammel Kongevej. Þetta mjakast.

Stressað kvenfólk á hjóli að tala í símann er sem betur fer sjaldgæft fyrirbæri.

Pólitísk tilvitnun dagsins til þeirra sem kenna mannkyninu um allar heimsins hörmungar: "Enn er spurt: Verður ekki gróðurhúsaáhrifum kennt um aukna tíðni fellibylja? Gray bendir á að fellibyljum hafi fjölgað á Atlantshafi undanfarin 10 ár eða svo, en á sama tíma hafi þeim fækkað annars staðar. Þetta komi ekki heim og saman við kenningarnar. Auk þess hafi fellibyljum fækkað snarlega á seinni hluta síðustu aldar, þegar útblástur gróðurhúsalofttegunda jókst." (#)

Netleysið er vel á minnst byrjað að valda því að ég er farinn að leika mér í tölvuleikjum. Ótrúlegt en satt veldur netLEYSI því að ég sóa MEIRI tíma en nokkru sinni áður.

Jæja, heim nú.

Tuesday, July 25, 2006

Þögn?

Eitthvað lítið að gerast á þessari síðu sem stafar fyrst og fremst af netleysi heima og því að vinnudagurinn er svo sturlað þéttpakkaður að hann endar ekki fyrr en hausinn er alveg dauður. Það ástand er einmitt á mér núna. Bjór, sól og Tívolí hjálpar vonandi til og svo er keppni við Ole um að mæta fyrstur á morgun. Sá sem mætir síðar gefur öl. Skilafrestur á hádegi á morgun og ekkert múður.

Ísland eftir 2,5 vikur. Rigningin má alveg vera búin þá.

Friday, July 21, 2006

Einn fyrir helgina

Færeyingurinn í deildinni er hress með eindæmum og gott að fá örlitla jarðtengingu á í formi eyjabúa á vinnustaðinn. Danir eru nefninlega svolítið mikið í skýjunum með margt.

Í dag rignir í Kaupmannahöfn en hitinn helst alveg og niðurstaðan er hiti og bullandi raki og þar með sviti (eða rakaþétting á húð) og það er ekki alveg minn stíll.

Internetveitan mín er að sjálfsögðu búin að svíkja orð sín um að senda mér pappíra innan 8 virka daga og núna er þráðlausa netið sem ég hef sníkt mig á hætt að nást. Niðurstaðan er netleysi heima. Í sjálfu sér ágætt stöku sinnum. Fékk fyrir vikið örlítið tiltektarkast og fór í háttinn fyrir miðnætti.

Ánægjulegt að sjá að fleiri og fleiri eru byrjaðir að labba um á sokkunum á vinnustaðnum - meira að segja á milli deilda á mishreinum gólfunum. Svona er maður að setja þessum Dönum gott fordæmi. Færeyingurinn er berfættur og bætir því um betur. Spurning um að byrja labba um á nærbrókunum til að ná forskotinu aftur í heimilisleika.

Deildin mín fékk sér sumarstarfsmann til að hjakkast í einhverju ómögulegu verkefni sem fyrst og fremst tekur langan tíma en er að öðru leyti bara spurning um að geta fiktað sig áfram. Sá byrjaði svolítið þurr á manninn en ég og Ole á næsta borði erum búnir að rugla svo mikið í honum að hann er hættur að vera þurr á manninn. Hann er tyrkneskur og hefur fengið að heyra ófáa Tyrkja- og múslímabrandara og svarar um hæl með Íslendingadissi og almennri steypu, og er meira að segja farinn að stinga upp á hitting eftir vinnu ("einhvers staðar verður maður að draga mörkin" hugsa ég samt, eins og ónefndur maður af tyrkneskum uppruna fékk að heyra á ónefndum skemmtistað í Reykjavík). Kannski maður biðji Balinn um eins og eina Tyrkjaræmu sem tengist skrifstofulífinu.

Ég væri til í að vera í landi núna þar sem líter af bjór kostar 35 íslenskar krónur út úr búð. Þó ekki endilega vegna bjórverðsins.

Erfitt að losna við föstudagsfiðringinn úr sér, enda föstudagur. Stefnan er enn sem komið er að fara sofa á skynsamlegum tíma í kvöld og reyna af öllum mætti að drullast í vinnuna á morgun enda margir boltar í loftinu sem þarf að grípa. Föstudagsfiðringur farðu!

Wednesday, July 19, 2006

Langbloggari (hamborgari? hóhó)

Eitthvað verður mér lítið úr verki núorðið þegar vinnu sleppir. Bara einfalt atriði eins og að láta rýja hausinn fær að sitja á hakanum. Kalla mig góðan að hafa komið við í búð á leiðinni heim. Ég held mig vanti fríhelgi frá djammi svo það taki ekki 3 virka daga að finna fyrir innyflunum á sér eftir.

Hérna skrifar Heimdellingur um innflytjendur og "aðlögun" þeirra. Tilvitnun: "Er ekki betra að þrengja þær reglur er um veitingu íslenskt ríkisborgararétts og geta stutt vel þá einstaklinga sem fá hann, staðinn fyrir að hafa nánast óheft flæði og geta ekki liðsinnt þeim sem vilja setjast hér að með sómasamlegum hætti. Vestrænar þjóðir eru margar hverjar að drukkna í eigin ráðaleysi með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Látum hið sama ekki henda okkur." Þetta er magnað að sjá. Heimdellingur farinn að krefjast harðari innflytjendalöggjafar til að ofreyna ekki velferðarkerfið sem hann í rauninni ætti að vera leggja til að verði lagt niður eða a.m.k. skorið niður. Heimdellingur farinn að boða hertari innflytjendalöggjaf til að ógna ekki því sem hann kallar "góða opinbera þjónustu". Hvaða óhefta flæði er hann að tala um? Pólsku verkamennina sem fylla íslensk frystihús en hafa engan áhuga á að búa á hjara veraldar í lengri tíma? Nokkur hundruð manns af víetnömsku bergi brotið sem hafa rottað sig saman í nokkur fjölbýlishús á Íslandi?

Heimdallur er tapað vígi frjálshyggju á Íslandi.

Að léttara hjali: Ísland þann 11. ágúst nálgast nú óðfluga. Planið er frekar grisið enn sem komið er fyrir utan sjálfan lendingardaginn og að þann 12. ágúst verður brúðkaup frænku minnar haldið í Fljótshlíð. Vonandi fylgir því allsherjarölvun fjölskyldunnar en slíkt er óneitanlega nýlunda hvað mína ættingja varðar. Síðan er auðvitað að reyna hitta sem flesta til að fylla upp í 2 vikur af atvinnuleysi.

Neita því nú samt ekki að þörf á rúmu fríi er orðin nokkur hjá mér. Vinnulega hefur árið það sem af er verið frekar stífur pakki.

Hinir grænu, umhverfisvænu, dósasafnandi, lífrækt-ræktað kaupandi og endurnýtandi Danir eru með elsta bílaflota meðal jafningja sinna í ríkidæmi landa. Hversu gott er það fyrir andrúmsloftið? Nú eða almennt öryggi bílstjóra? Örlítil dæmisaga innblásin af ræðustíl vinstrisins: "De som lider mest under brandbeskatningen af biler, er dem som formenligt har størst behov. Eksempelvis den enlige mor til to, som med en bil kunne komme lettere til og fra arbejde og hente/bringe børnene på vejen."

Múrinn slær á létta dómsdagsstrengi í dag og heimtar Kyoto og að menn viðurkenni hörmungaráhrif mannsins á andrúmsloft Jarðar. Eftir að hafa lesið um mengandi, bílkeyrandi og lofthjúpseyðandi hegðun mannsins er alltaf gott að skvetta á sig kaldri gusu af raunsæi og halda áfram að nota vélknúin farartæki og neyta samviskulaust matvæla sem var pakkað í plast- og álumbúðir. Verðlag er besta stjórntækið fyrir auðlindanotkun, búsetuval og orkueyðslu sem hugsast getur. Ef við höfum efni á því, þá má notkun þess vera samviskulaus (meðan hún er ofbeldislaus líka).

Womble Dust kemur mér í gott skap.

Ekkert bólar á bréfi frá internetveitunni eins og við var að búast. Hvað eru núna liðnir margir virkir dagar? Örugglega fleiri en átta.

Hrós eru vanmetin. Ég ætla fara hrósa meira. Hrós dagsins fær Burkni fyrir frábærar hugmyndir um járnríkar fæðutegundir.

Hrósi þarf líka að mæta með dissi: Diss dagsins frá Frakkar, fyrir að vera franskir.

Monday, July 17, 2006

2. í þynnku

Svo sannarlega annar í þynnku hjá mér í dag. Skreið heim eftir rétt rúma 8 vinnutíma alveg eins og lúbarinn harðfiskur. Einstaklega léleg meðferð á skrokknum um helgina þar sem ég át bara tvisvar (kebab á laugardaginn og hamborgara í gær), drakk ótæpilegt magn áfengis (sem raunar byrjaði á fimmtudagskvöldið) og svaf á þveröfugum tímum sólarhringsins og lítið sem ekkert í nótt. Maður þarf að passa sig á þessum efri árum.

Ég er búinn að skipta um uppáhalds-glápa-á-samstarfs-kvenmann. Efnislítill sumarfatnaður olli því.

Vinstrimennirnir hjá Morgunblaðinu voru svo vænir að birta eftir mig grein í dag. Hver ætlar að skanna inn og senda á g-mailið mitt (sjálfhverfan sjáið til)? Fyrirfram þakkir!

Hvaða vítamínskortur veldur þreytu og syfju?

Hvað veldur því að Frakkar eru hrifnir af endurtekningum, flúri og skrauti, ákvarðanafælni og því að gera hlutina flóknari og erfiðari en þeir þyrftu annars að vera (t.d. með óendanlegu skrifræði)? Er það rauðvínið? Sósíalisminn? Sjálfselskan? Tortryggni á aðra? Mér er spurn.

Gríðarlegur vinnufriður í vinnunni í þessum sumarleyfum. Á móti kemur aðeins meira álag á mann - orðinn einn af þeim "gömlu" á vinnustaðnum (sem hefur tvöfaldast í starfsmannafjölda á tæpum 2 árum) og spurningar því tíðari en þegar fleiri "gamlir" eru á svæðinu.

Færeyingar eru svo hresst fólk.

Múrinn er orðinn langöflugasta málgagn Vinstri-grænna. Greinum um kosningasvindl vondu hægrimannanna í Afríku og Suður-Ameríku fer fækkandi á meðan greinum um ágæti VG og óágæti hinna flokkanna fer fjölgandi. Persónulega sakna ég hins fyrra forms en ef þetta virkar fyrir þá þá gott og vel. Þeir þurfa jú að finna sig á frjálsu, anarkísku ríkisafskiptalausu og óskattlögðu markaðstorgi vefritanna eins og aðrir.

Ég "eldaði" í fyrsta sinn í nýju holunni minni áðan (hef þó notað örbylgjuofninn tvisvar). Þrjár brauðsneiðar með majonesi, tómatsósu, skinku og osti í ofninn í 10 mín. Húrra fyrir mér!

Já og vaskaði upp og náði í þvottinn. Mikið er maður heimilislegur.

Hugmynd sem varðar Bláa lónið og kynæðisleika er orðin að tilhlökkunarefni sumarsins.

Mig langar í svarta vinnu (úbbs, ég meina verktakavinnu á lélegu kaupi) sem ég get unnið við að heiman með einfalda tölvu að vopni og tekur innan við 10 tíma á viku (og vel það) og greiðist frá Íslandi á íslenskan reikning. Lesendur, græja!

Sunday, July 16, 2006

Já, ég er þunnur

Sunnudagur og enn og aftur vakna ég á að nálgast kvöldmatartíma sem að þessu sinni verður tekinn út hjá Þóru eða það held ég. Erfitt að treysta á dularfulla áminningu í símanum sem var sett inn eftir einn eða tvo.

Gærkvöldið var svo ákaflega ágætt. "The J-group" er frábært gengi.

Sér einhver mótsögnina í því að vera á móti einkavæðingu Landsvirkjunar af því maður óttast skort á samkeppni á frjálsum raforkumarkaði?

Ákveðnar gerðir sumarkjóla á ákveðnum líkömum sparka alveg í mig á ákveðnum stöðum.

Fyrir 260 danskar kr á ári er ég að fá fyrsta flokks augnlæknaþjónustu og eftirlit þar sem ég sem sjúklingur/viðskiptavinur er aðalatriðið. Fyrir himinháan skatt og "ókeypis" læknisþjónustu í Danmörku get ég alveg eins gleymt því að geta talað við lækni í lengur en korter í einu og hvað þá að geta spurt hann um það sem manni liggur á hjarta. Ekki útilokað að þessi niðurstaða mín (eða framsetning hennar öllu heldur) sé lituð af stjórnmálaskoðunum, en svona er þetta samt!

Wednesday, July 12, 2006

Miðravikudagsblogg (varúð: svolítið pólitískt)

Stjóri er vissulega með hressari mönnum og tvímælalaust með hressari stjórum. Núna er hann að hvetja til föstudagshittings á Nýhöfn til að drekka bjór í fyrirhuguðum 30 stiga hitanum og stemming virðist almennt vera í góðu lagi fyrir slíkan hressleika. Ljómandi segi ég.

Ástæða bjórþorsta hans leiðir hugann hins vegar að öðru - því hversu líf einhleypa mannsins er frábært og frjálst! "Kærastan mín er ekki í bænum", er tylliástæða stjóra fyrir sötrinu (og líklega ástæða þess að hann dró mig í hamborgara og bjór á mánudagskvöldið). Hann er klárlega í góðu sambandi en svo virðist sem innilokunarkennd frátekna karlmannsins sé óvinnandi afl.

Já en sem sagt steikjandi sólin er komin aftur eftir stutt hlé.

Hvernig ætli skylduaðild að einhverju "sanni sig"? Núna hef ég fyrst og fremst skylduaðild að lífeyrissjóðum í huga en spurningin gildir annars ósköp almennt. Eru fyrirtæki með kúnna í skylduviðskiptum almennt vel rekin og þjóna hagsmunum kúnna sinna betur en önnur? Já eða nei, því annaðhvort gildir það almennt eða alls ekki. Hugtaksskrípið "þjóðhagslega hagkvæmt" er líklega eini björgunarhringur skylduaðildarmanna.

Íslenskir vinstrimenn ættu tvímælalaust að lesa dönsk og þýsk dagblöð meira til að fá innblástur. Bæði í Þýskalandi og Danmörku ræða stjórnmálamenn um - ekki reyklausar opinberar byggingar - heldur ilmefnalausar opinberar byggingar! Tölfræðin sýnir jú að um 4% einstaklinga hafa ofnæmi fyrir ilmefnum í mismiklum mæli og hví ekki að slá til og banna þau á alla línuna (með opinberar byggingar sem dæmigert upphafsskref)?

Talandi um reykbann. Fyrir nokkrum mánuðum sá ég frétt þess efnis að sveitarfélög víða í Danmörku séu nú byrjuð að heimta algjört reykleysi af starfsmönnum sínum í vinnutíma (að viðlögðum frádrætti í launum). Meðal annars var Bröndby (sveitarfélagið þar sem vinnustaður minn er staðsettur) nefnt sem dæmi um slíkt sveitarfélag. Nú er það svo að ég hef svo óteljandi oft gengið framhjá ráðhúsi sveitarfélagsins á leið til vinnu og ekki bara séð fólk þar fyrir utan reykja heldur eru a.m.k. tvö stubbahús hengd við hlið innganga hússins svona til að stubbarnir sleppi við að lenda á götunni. En kannski eru opinberir starfsmenn í Danmörku bara svo nikótínháðir og ó-efnisþenkjandi að þeir láta sig hafa það að þiggja launafrádrátt í skiptum fyrir afnot af stubbahúsum.

Pólitískur rétttrúnaður er yfirleitt bara hárfínni línu frá blákaldri lygi.

Kolbrún Halldórsdóttir er búin að selja öll rafmagnstækin sín, losa sig við bílinn og hætta við útgjaldaáætlanir fyrir ríkið sem treysta á skatttekjur frá orkufrekum íslenskum verksmiðjum og starfsmönnum þeirra. Til að kóróna afrekalistann ætlar hún, í samstarfi við aðra unnendur óbyggða, að kaupa upp stór landflæmi og stofna friðlendi í stað þess að leyfa orkufyrirtækjum að kaupa þau og byggja orkuver og reisa stíflur. Svona er að láta verkin tala en ekki orðin.

Tuesday, July 11, 2006

Skýjuð hitabylgja

Skrýtin stemming í mér þessa dagana. Ég get lítið sofið í hita og raka Kaupmannahafnar en er samt snemma á fótum og held auðveldlega út langa vinnudaga (þótt dagurinn í dag hafi verið í þyngri kantinum). Þegar heim kemur lyfti ég ekki litlaputta (bý ennþá hálfpartinn í kössum) og stend varla upp frá tölvunni.

Á morgun verður þessu ástandi snúið á haus. Snemma heim úr vinnu, prófa þvottaaðstöðuna í húsinu og tæma kassa. Ekkert múður!

Pólitísk hvatning dagsins: Verslum við fyrirtæki sem reka "sweatshops"!

Fyrirsögnin "Hinn gleymdi niðurskurður" ætti að birtast í Morgunblaðinu á næstunni. Ætli einhver annar en alnafni minn afi fái viðbrögð við henni, t.d. með reiðisímtali frá bláókunnugum manni?

Nordea er algjör þursabanki.

Á fimmtudaginn byrjar helgin með sötri á einhverri ölstofunni. Hersteinn veit líklega hvers vegna. Vonandi verður sólin komin aftur eftir gráan skýjadag í dag. Hitinn og rakinn gefur þó hvergi eftir.

Fann sæmilega kebab-holu sem selur stóran kebab á 23 danskar krónur. Hlýt samt að geta gert betur hvað staðsetningu staðar varðar. Í nýju hverfi í Köben þarf að finnast í nágrenninu: Ódýr og snyrtileg kebab-hola, sæmilegur pizzustaður, sjoppa með rúmum opnunartíma, hraðbanki, grænmetissali með ódýrt gos, og auðvitað ölstofa með ódýrum bjór. Er varla kominn með neitt á listann sem uppfyllir ströngustu kröfur en það hlýtur að koma smátt og smátt.

Af öllu sem ég fékk að kynnast í vélaverkfræðináminu þá grunaði mig aldrei að þreytuþolsreikningar og burðarþolsfræði yrðu svona rosalega stór hluti af starfi mínu. Aldrei hefði mig grunað að gríðarlegt tölvuhangs, fikt og leikaraskapur í náminu myndi skila sér jafnvel í verðmætasköpun fyrir atvinnurekanda og raunin hefur orðið (t.d. að vera sæmilega leikinn á Paint-forritið Windows-innbyggða til að búa til skýringarmyndir í skýrslur í stað þess að líma andlitið á Burkna inn á hina ýmsu líkama).

Friday, July 07, 2006

Molar

Ísskápurinn minn er e.t.v. að lenda í því sem stóð í blöðunum í dag að væri að koma fyrir marga ísskápa þessa dagana: Ekki að ráða við hitann hérna! Hvernig virkar það samt? Nær hitinn á hinum enda kælielementsins ekki að rjúka í burtu? Ég veit bara að ísskápurinn er á lægstu stillingu og ölinn er í besta falli svalur.

Hvaða kvart og kvein er þetta í fólki um banka á Íslandi? Það er jú eftir allt saman ríkið sem lánar bönkunum á 12,25% vöxtum og svo er alveg leikandi létt fyrir óánægða viðskiptavini að skipta um banka. Sjálfur var ég að skipta um banka og nýji bankinn sá um allt vesenið og pappírsvinnuna. Léttara en að eiga samskipti við sveitarfélagið, ef það er einhver viðmiðun. Hvað finnst fólki um komandi skattahækkanir til að fjármagna hugðarefni ASÍ á kostnað okkar hugðarefna?

"Mér finnst ég alltaf vera fremur öfgasinnaður frjálshyggjumaður þar til ég les efnið frá þér Geir", er skrifað á einn ágætan spjallþráð. Er hægt að venjast ofbeldi svo vel að fjarvera þess er talin vera öfgafullt ástand?

Svo virðist sem verslunarmannahelgin verði í hressari kantinum í Kaupmannahöfn. Fékk því miður skilaboð sem minnkar komandi hressleika um stærðargráður en ég held að það sé nóg eftir. Vona samt að skilaboðið snúist við.

Ég er áttavilltasti maður sem ég veit um þegar kemur að því að hafa stjórn á pappírsflóði, reikningum, yfirlitum, bréfum og samningum. Þetta er svo létt í vinnunni: Blað sem lendir á borðinu er horfið úr lífi mínu þegar það hefur verið afgreitt og flutt áfram í kerfið. Vaxandi staflar bankayfirlita og fasteignapappíra eru örlítið erfiðari viðfangs. Ég ræð samt við reikninga því þá má afgreiða í burtu í hvelli, sem er kannski það mikilvægasta.

Mjög mikilvægt að ná góðum svefni í kvöld. Mæting á Hovedbane kl 14:30 á morgun með kaldan bjór að hitta Haukinn og svo er það ferðalag til Ishøj í teiti dauðans. Ég þarf að endurvekja djammúthaldið einhvern veginn. Er lifrin orðin svo skorpin að sex tíma þamb slær mann út? Það væru sorgartíðindi.

Ásbjörg í Boston þarf að koma sér upp bloggi og/eða það sem mikilvægara er: Myndasíðu! Daði, ég býst við pressu frá þér hvað þetta varðar!

Brain Police er svo óendanlega yndisleg hljómsveit að það er engu lagi líkt. Atvinnuveitandi minn ætti að senda þeim peninga fyrir þau vinnuafköst sem tónlist þeirra leiðir af sér.

Sveiflukennt netsamband hjá mér svo ekki sé dýpra í árina tekið. Var samt að fá bréf sem segir að eftir 8 virka dagi gerist eitthvað. Þýðing frá Dana-máli yfir á mannamál: Innan 14 virkra daga hefur kannski eitthvað breyst til batnaðar.

Hagnaður af rekstri? Fyrstu reikningar benda til þess. Ánægjulegt.

Thursday, July 06, 2006

30 stiga heit færsla

Er hitabylgja?

Blogg í amstri miðviku- og fimmtudags er ljómandi útrás.

Það besta við að skipuleggja fundi og stjórna þeim er að þá get ég skipulagt knappa dagskrá, bókað fundarherbergi í alltof stuttan tíma og hreinlega neytt fólk til að halda sig við efnið.

Góða fólkið virðist laðast að Kaupmannahöfn um þessar mundir. Sumt af því er komið og farið, annað er komið en ekki enn farið (Haukur, já við laugardagskvöldinu!), sumt er rétt ókomið og þar með ekki enn farið og loks er það fólkið sem gælir við tilhugsunina að kíkja til Köben. Ákaflega ánægjulegt og lyftir minni lund í himinhæðir. Danirnir eru ágætir en lifa í öðrum heimi og því gott að fá skammt af íslenskri jarðtengingu við og við.

Dóttir stjóra stjóra myndi e.t.v. ekki steinrota mann með geislandi fegurð út á götu en hér innandyra er hún knock-out.

Glænýja loftræstingin á hæðinni er ekki að standa sig. Fjarri því.

Ákveðið sandalahljóð veit á gott útsýni í nánd (fyrir neðan axlir vel á minnst).

Stjóri er með þá stefnu að hlaða verkefnum á fólk þar til það nær, í hans eigin orðum, "smertegrænsen" (sársaukamörkum) og treystir svo á að fólk segi til og þá má minnka álagið og sjá svo til. Sniðugt, segi ég.

Djöfulsins viðbjóður er þetta kerfi sem Nordea er með á netbankanum sínum.

Fimmtudagurinn byrjar eins og hann muni verða langur og strangur og þreyttur. Úff. Niðurstöður næturkeyrslunnar í tölvunni segja það sama og hinar keyrslurnar: Hausverkur framundan.

Fréttablaðið bls 31 í dag (51 á PDF formi). Húrra fyrir því.

Textpad er undursamlegt verkfæri.

Nordea er banki dauðans.

Það þarf ekki mikið til að heilla þessa blessuðu Dani þegar kemur að fikthæfileikum í tölvu. "Afrek" dagsins: Kenna einum að setja tilvísanir í Word-skjal, kenna öðrum að fá macro í Excel til að virka og þeim þriðja að sækja gögn af FTP-server. S. Oddsson væri stoltur af mér núna ef hann væri á svæðinu. Enginn tölvuþurs ég sko.

Skrifstofugredda. Djöfull.

Létt kæruleysi í mér núna. Hugurinn er fyrir löngu kominn til Kongens Have eða Nýhafnar. Um 30 stiga hiti er að nálgast þolmörk líkama míns.

Ískælirinn á deildinni er að bjarga mannslífum. Jafnvel bókstaflega.

Jæja, nóg af fjasi. Keyrsla að nálgast það að vera tilbúin. Yfir og út.

Tuesday, July 04, 2006

Hugmyndir?

Er einhver með góðar hugmyndir um hvernig ég get krækt mér í nokkra íslenska þúsundkalla á mánuði án þess að samneyslan borði of mikið af þeim? Skrifþrekið er í einhverri ládeyðu þessar vikurnar og tilbreytingar er þörf. Ég ætti kannski að fara selja iðnaðarleyndarmál til keppninauta atvinnurekanda míns. Kannski ekki.

Ég býst ekki við neinni flóðbylgju viðbragða en MSN má gjarnan nýtast ef einhver eru.

Markmið kvöldsins: Ná að sofna til að bæta upp fyrir svefnlausa seinustu nótt og langan og þéttpakkaðan vinnudag (ekki sofandi í þessum hita og ekki bætir magaverkur úr skák).

Monday, July 03, 2006

Hitinn er kæfandi

Gærdagurinn var stuðandi. Hef samt voðalega lítið af smærri atriðum til að segja frá sökum gloppótts minnis. Ég skrópaði líka í vinnunni í dag og því fylgir samviskubit þótt stjóri hafi nú alveg fengið skilaboð um hugsanlega fjarveru mína strax í gær.

Er hægt að treysta svona tegund nettengingar? Líklega háð veðrum og vindum og bilar jafnoft og lestir danska lestarkerfisins. Eða hvað?

Bara þrír flutningskassar eftir ótæmdir (af sex). Þetta mjakast.

Hvernig í ósköpunum dettur veitufyrirtækjum í hug að maður sé heima að degi til á virkum degi? Hefði sosem verið ágæt hugmynd á mánudeginum eftir Hróaskeldu en almennt séð bara heimskulegt að reikna með.

Núna tilheyri ég hugsmunahópi sem mundi fá vænan skell á andlitið ef fasteignaskattar verða teknir út úr skattastoppi danskra yfirvalda og þeim leyft að hækka aftur sem hlutfall af fasteignaverði. Núna get ég verið á móti hækkun fasteignaskatta af tveimur ástæðum: 1) Fasteignaskattar eru eignaupptaka og þjófnaður, 2) Efnahagur minn til lengri tíma litið verður sendur á bjart bál ef þeir verða hækkaðir.

Spennandi, ha!

Saturday, July 01, 2006

Þá er maður fluttur

Já, fluttur í litlu holuna mína. Umkringdur kössum að sníkja veikt netsamband af einhverju þráðlausu neti í nágrenninu og vona það haldist eitthvað.

Seinustu tveir sólarhringar hafa farið í alveg gríðarlega úthreinsunar- og hreingerningarvinnu. Ég finn fyrir mörgum vöðvum sem ég hef ekki fundið fyrir síðan í leikfimi í menntaskóla. Ég er líka klístraður af svita (sturtan var þvegin í gær og því ekkert um að fara í sturtu eftir langan dag í gær og hvað þá í dag á skiladegi íbúðarinnar). Ég fæ því að prófa sturtuaðstöðu íbúðarholu minnar innan skamms. Gott það.

Ég sé svolítið eftir því að hafa ekki skrásett úthreinsunarferlið því ég hef aldrei lent í öðru eins. 180 fermetra íbúð sem hefur verið útleigð herbergi fyrir herbergi í a.m.k. 10 ár og margir fletir hennar höfðu greinilega ekki verið snertir síðan þeir voru settir upp eða málaðir í fornöld. Aldrei aftur!

Nýju svalirnar mínar ná sólinni frá morgni til kvölds virðist vera. Gott mál. Enn ólíft þar fyrir hita kl 19 að kveldi til.

Bjór, kæfa og jógúrt komið í ísskápinn eftir stutta búðarferð áðan. Sömuleiðis áfengið í hilluna, klósettrúlla á sínum stað og skúffurnar hans Baldurs smellpassa undir rúmið. Þetta mjakast.

Ég kann ekki að innrétta. Ég veit bara að mig vantar svefnsófa. Hitt hlýtur þá að koma náttúrulega af sjálfu sér.

Lýkur þá Innlit-útlit tímabili þessarar síðu hér með.

Hróaskelda með Hauki á morgun. Jess! Ég verð í glasi hálftíma frá því ég vakna á morgun og hananú!

Spakorð dagsins: Ef tveir valkostir standa til boða, og annar er mun flóknari, dýrari, tímafrekari og meiri erfiðleikum bundinn en hinn, þá mun kvenmaðurinn alltaf velja hann.