Wednesday, November 30, 2005

Skrýmslin fóðruð

Þá hafa skrýmslin tvö sem nærast að hluta til á mér, Fréttablaðið og DV, bæði verið fóðruð. DV birtir væntanlega á föstudaginn en Fréttablaðið eftir geðþótta.

Í öðrum fréttum er það helst að rör dagsins féll saman við 89 bar sem er töluvert betra en þau 59 bar sem spáð var og stóðst því prófraun sína, British Petroleum til mikillar ánægju og NKTF til ákveðins en viðbúins léttis.

Gróðurhúsaáhrifin drepa.... ekki?



(#)

Tuesday, November 29, 2005

Teiti

Lítil SMS-lota hefur verið tekin til að boða teiti á föstudaginn. Þeir sem fengu ekki SMS en finnst þeir hefðu átt að fá SMS eru hvort eð er að lesa þessi skrif, og ég sparaði mér því SMS'ið til viðkomandi.

Sveskja

Ég held að mánuður minn sem starfsmaður á hjúkrunarheimili hafi bundið enda á sveskjuborðandi daga mína.

Monday, November 28, 2005

Teiti eða ekki

Stóra spurningin: Á ég að halda einhvers konar teiti á föstudagskvöldið? Tilefnin eru nokkur og misveigamikil. Hið sísta er afmælisdagur minn næsta sunnudag. Hið stærsta er Kaupmannaheimsókn mikilla höfðingja. Ég þarf að fara ákveða mig fljótlega.

Nú veit ég að afmælistal á það til að vekja upp gjafakaupahugsanir hjá hinum og þessum. Allar ódrekkanlegar afmælisgjafir eru fyrirfram afþakkaðar, nema þær séu þeim mun fyndnari og ónothæfari.

Í dag er einn af þessum dögum þar sem ég dreg miskunnarlaust af mér tvo viðverutíma í vinnunni þegar ég skrifa niður tímana mína á eyðublað vinnuveitandans. Slíkur er hægagangurinn á manni núna. Ég og ræstingarfólkið munum bráðum hafa eytt meiri tíma saman á skrifstofunni en ég og margur fastur dagvinnustarfsmaðurinn hérna.

Ekki tókst mér að beita mínum gríðarlegu áhrifum innan hins ágæta félags Frjálshyggjufélagsins til að fá Jólahvaðinu frestað um 1-2 daga. Þetta er náttúrulega bara hneyksli.

Núna er ég með gríðarmikinn lubba á höfðinu sem er haldið í skefjum með harkalegustu aðferðum sterkustu hármótunarefnanna. Niðurstaðan er nokkuð sem má kalla dópistalúkkið (Tommy Lee gefur tóninn). Dópistalúkkið hefur sína kosti, t.d. þann að maður lítur út eins og dópisti, en ókostir eru líka margir. Sturtan tekur lengri tíma, þurrkun eftir sturtu tekur lengri tíma, sekúndur fara í að ýta hárinu niður (eða upp eða aftur á bak eða til hliðar, allt eftir skapi) og þar að auki felst kostnaður í þessu. Sumsé, tímasóun og peningasóun. Á móti kemur að ég lít út eins og dópisti. Erfitt val.

Hvað um það. Hvað þarf maður eins og ég á að halda í ferðatölvu, og kannski það sem mikilvægara er, hverju þarf ég ekki á að halda? Ég spila ekki tölvuleiki, sörfa töluvert, finnst gaman að eiga mikið af tónlist, vil geta brennt á disk, þætti allt í lagi að geta reiknað eitthvað í hófi inn á milli og nenni ekki að fara með tölvu í viðgerð með reglulegu millibili.

Mánudagsmæðan

Þynnkulaus mánudagur eftir ölvunarlausa (þó ekki áfengislausa) helgi. Ágæt tilbreyting sem ég þarf samt að venja mig af enda þétt drykkjuáætlun framundan sem byrjar á föstudaginn og nær líklega hápunkti í "julefrokost" 16. des. með vinnunni ("ókeypis" áfengi í 6 klukkutíma já takk).

Þessi maður fær hér með stórt hrós fyrir að vera alltaf, og ég meina alltaf til í sötur og hressleika.

Í gær tók ég örlítið til í herberginu mínu. Eins og önnur stórtíðindi í lífi mínu hefur það hér með verið skjalfest á þessari síðu.

Fréttablaðið kallar á grein og ég ætla ekki að skrifa um ónefndan mann sem gerði ónefnanlega hluti. Er virkilega ekkert annað sem brennur á mönnum? Ef ég tek upp danska samfélagsumræðu þá fjallar hún um innflytjendur, "social arv", peningaskort í hinum ýmsu geirum ríkisrekstursins og lélegt lestarkerfi, eða í stuttu máli um áhrif sósíalismans á land sem kýs sósíalisma yfir sig aftur og aftur samhliða því að hegða sér eins og kapítalistar í hinu daglega lífi.

Friday, November 25, 2005

Hugsað upphátt

Hvernig stendur á því að Danir, sem segja "þetta er bara vinnan" og "ekkert stress" og eru lengur í allskyns fríum en ég get talið upp, eru að farast úr stressi og brotna niður af vinnuálagi hægri og vinstri, á meðan Íslendingar vinna dag og nótt og fara varla í frí virka miklu sáttari við lífsbaráttuna og veruleikann?

Eftir margra mánaða rannsóknir get ég nú lýst því hvað draumastarf Danans er: Í fyrsta lagi má vinnuvikan ekki vera lengri en 37 tímar og aldrei þannig að yfirvinna eigi á hættu að verða möguleg, borguð eða ekki. Í öðru lagi verða að vera mikil mannleg samskipti - helst við ókunnuga Dani sem eiga leið framhjá. Í þriðja lagi má ekki vera álag á vinnustaðnum. Allt verður að mega taka sinn tíma. Í fjórða lagi skemmir ekki ef einhver einkennisbúningur eða vinnuföt tilheyri starfinu. Í fimmta lagi verða löng og mörg frí að verða möguleg án þess að vinnunni sé ögrað á nokkurn hátt (t.d. með því að það þurfi að vinna örlítið af sér fyrir fríið).

Hvaða störf passa svo við þetta? Tvö dæmi: Strætóbílstjóri (þótt sú starfsgrein sé nú komin í hendur innflytjenda og kvenna), og bæjarstarfsmaður í þrifum.

En að öðru:

Nú þarf ég fljótlega að ákveða hvort ég vilji skreppa upp í verksmiðju atvinnuveitanda míns í fyrramálið og fylgjast með röri springa undan þrýstingi. Ég þarf þess ekki en það væri tvímælalaust spennandi að sjá hvað verkfræðin og raunveruleikinn ná vel saman eftir margra mánaða vinnu.

Hvað er heitasta umræðuefnið í dag í íslensku dægurmálaþrasi?

Amen to that!

Skynsöm rödd:
Staðreyndin er sú að umræðan litast af vandamálunum, sem eru yfirleitt freistandi fréttamatur. Nóg er af frásögnum af ógæfu þjóðfélagshópa í köldu markaðshagkerfinu og því þegar stjórnmálamenn ylja með skammgóðum skyndilausnum. Minna er sagt frá hversdagslífi þorra venjulegs fólks sem gengur alla jafna vel.

Ef til vill skýrir allt þetta hversu furðulega auðvelt hefur reynst að selja þá hugmynd hér á landi að fátækt hafi verið að aukast. Að misskipting og ójöfnuður dafni á Íslandi í krafti hnattvæðingar frjálsra viðskipta. Vandaðar rannsóknir á áhrifum efnahagslegs frelsis á lífskjör ólíkra tekjuhópa meðal þjóða heims benda til annarrar niðurstöðu.
Mikið er hressandi að lesa svona skrif annarstaðar en á þeim fáu, frjálslyndu vefritum sem annars birta svona skrif.

Thursday, November 24, 2005

Tilvitnun dagsins

Yfirmaður minn á tilvitnun dagsins: "Þessi félagi minn er aaalgjörlega ófær um að taka ákvarðanir, en hann vinnur jú líka hjá hinu opinbera."

Ringlaður

Loksins er Daði á leið frá Danmörku aftur. Ég er orðinn drulluþreyttur á allri þessari virkradagadrykkju með vinnu daginn eftir, og ég fékk aldrei helgarþynnkuna almennilega í burtu og finn svolítið fyrir því ennþá.

Fótbolti er ótrúlega skemmtileg afþreying ef maður þekkir a.m.k. tvo leikmenn á vellinum og/eða nafnið á öðru fótboltaliðinu, og er að drekka bjór.

Herbergi losnar í íbúðinni sem ég bý í þann 1. janúar. 2700 d.kr. á mánuði, allt innifalið, depositum 5600 dkk og einhverjir örfáir hundraðkallar í tryggingu sem dugir til 1. apríl og nær yfir alla lausamuni. Sambýlingar eru ég, dönsk stelpa, tvær norskar stelpur og ein sænsk (sem þó gæti verið á útleið líka).

Ef þú ert þrifaleg, fjársterk, myndarleg stúlka á aldrinum 20-30 ára (og helst ekki íslensk) þá skaltu alveg endilega hafa samband.

Kostnaður

Spurning dagsins: Hvaða alþjóðlega stjórnvaldsaðgerð mun kosta svo mikið að:
Loka þarf 3.700 sjúkrahúsum í Evrópu og Bandaríkjunum, eða
20.000 milljónir manna í Evrópu missa sitt félagslega húsnæði, eða
6 milljón tónlistarhús verða seld til auðhringa eða notuð til lágmenningarathafna.

Getiði nú!

Wednesday, November 23, 2005

Húrra fyrir Chavez!

Einræðisherrann Chavez er með eindæmum gjafmildur á eignir kúgaðra þegna sinna og Vesturlandabúar eru alveg dolfallnir yfir því hvernig hann getur bæði svelt undirsáta sína og notið hylli þeirra. Draumur hvers sósíaldemókrata.

Sem betur fer er hrekkjavaka bönnuð í landi Chavez enda amerískur heilaþvottur það.

Innherjinn

Hlutabréf í KB banka munu bráðum verða gríðarlega verðmæt miðað við hlutabréf annarra banka á Íslandi.

Tuesday, November 22, 2005

Vafasamt

Á mínum vinnustað er 37 tíma vinnuvika þar sem hálftímalangur matartími er ekki innifalinn. Þetta þýðir í stuttu máli að á mánudegi til fimmtudags gæti venjuleg viðvera verið frá ca kl 8 til ca kl 16, sem er nákvæmlega viðvera mín í dag í þessum skrifuðu orðum, og viðvera frá kl 8 til kl 15:30 á föstudögum.

Ég get því farið heim núna með góðri samvisku.

Dag eftir dag mæta ónefndir samstarfsmenn um kl 8-8:30 á morgnana og er farnir heim í seinasta lagi kl 16 og oft mjög fljótlega eftir kl 15. Án þess að hafa fylgst mjög nákvæmlega með því þá sé ég ekki betur en að viðvera þeirra sé í kringum 37 tímar á viku að matartímanum inniföldum.

Nú er mér í sjálfu sér alveg drullusama. Hlutverk yfirmanns er að fylgjast með svona löguðu, en ekki mín. Þó get ég illa varist því að líða eins og verið sé að svindla svolítið á mér af því ég veit að launakjör á þessum vinnustað fara afskaplega lítið eftir svita og tárum og meira eftir líkamlegri viðveru. Á móti kemur að ég er ekki að vinna hérna til að safna tímum heldur til að öðlast reynslu og prófa eitthvað nýtt eins oft og ég get. Á hinn bóginn eyði ég töluverðum tíma í vinnunni sem ég gæti verið nota til að hanga heima eða á kaffihúsi eða hvað það nú er sem fólk með líf gerir á virkum dögum.

Niðurstaða: Engin.
Aðgerð tekin í framhaldinu: Engin alveg á núinu.

Hækkun á yfirborði sjávar

Mun yfirborð sjávar drekkja borgum ef hitastig Jarðar hækkar? "The only other masses of ice on the planet that can contribute to sea level rise are the non-polar glaciers, but they are very few and far between. The biggest is the Himalayan ice cap, but it's so high that a substantial portion will always remain. Most of the rest are teeny objects tucked away in high elevation nooks and crannies, like our Glacier National Park."

Monday, November 21, 2005

Atvinnuleysi

Atvinnuleysi í Svíþjóð:
Það er okkur er sagt: 5.4%
Í raun: 10.3% (#)
Enn ein lygin slegin utan undir í dag. Ekkert að þakka.

Meira um Kyoto

"Cost estimates for the first round of Kyoto, from now till 2012, are of the order of €500-billion to €1 trillion. The proponents of Kyoto have calculated (but never published) that this will result in a net cooling of less than 0.02 (two hundredths!) degrees Celsius in 2050. This is undetectable even with the most accurate thermometers of today. Moreover, the yearly fluctuations of temperatures are a multiple of this figure." (#)

Úff

Ég held að eitthvað hafi líkamlega dáið í mér um helgina. Um einhverjar ástæður þess má lesa hér.

Thursday, November 17, 2005

Spádómur

Hér er sagt frá því að CIA telji að fjöldamorðinginn og kúgarinn Castro sé kominn með Parkison-veiki. Þetta sé niðurstaða njósna. Einnig er sagt að veikin sé ekki orðin það skæð að hún sé sjáanleg ennþá.

Núna tekur maður þessu mátulega alvarlega þar til frekari staðfestingar berast. Hins vegar þarf enginn að velkjast í vafa um að á næstu dögum munu vinstrivefritin hrópa og gala yfir þessum tíðindum og telja þau vera samsæriskenningu bandarísku ríkisstjórnarinnar sem miði að því að grafa undan ógnarstjórn Castro á eyjunni fyrrum-paradís. Vinstrimenn munu spurja, með örlítið geðþekkara orðalagi: "Og hvaða máli skiptir það þótt einn mesti ógnvaldur nútímans sé byrjaður að finna fyrir ellimerkjum? Er ekki mikilvægt að halda heilu landi í gíslingu fátæktar og hungurs til að sósíalistar hafi eitthvað land til að fara til í pílagrímsferð?"

En bíðum og sjáum hvað setur...

Wednesday, November 16, 2005

Kyoto 2010

Áætluð áhrif Kyoto-samkomulagsins á orkuverð, þjóðarframleiðslu og fjölda starfa árið 2010 fyrir þrjú hagkerfi í Evrópu (#):

Tuesday, November 15, 2005

Rugldagur

Sumir dagar eru einfaldlega dæmdir til dauða frá fyrstu mínútu. Gott og vel að hafa komist snemma á fætur og fundið morgunhana til að keppa við í að mæta sem fyrst (þó aðallega við sjálfan mig). Allt annað hefur hins vegar verið á frekar þreyttum og pirruðum nótum. En ekkert við því að gera. Núna eru næstum allir farnir heim og loksins kominn vinnufriður á vinnustaðnum.

Daði kemur á fimmtudaginn og lifrin er strax byrjuð að búa til afsakanir vegna fyrirhugsaðs verkfalls síns vegna óhóflegs yfirvinnuálags um næstu helgi.

Er skrýtið að finnast gaman að besserwissa um t.d. menntaskólastærðfræði, Matlab eða ritgerðasmíð?

DJÖFULL

Pirringur er að byggjast upp á gríðarhraða núna, svo miklum að ég er byrjaður að gnísta tönnum og blóta upphátt við hvert áreiti.

Hvað er til ráða?

Óvæntur morgunhani

Ég er fordómafull karlremba og viðurkenni að ég á erfitt með að ímynda mér að myndarlegt kvenfólk fari snemma á fætur. Þetta er auðvelt að útskýra: Í verkfræðiheiminum er kvenfólk í minnihluta og því er ég vanur að sjá sauðhærða og ofvirka kaffisjúklinga snemma á morgnana, en ekki kvenfólk, og þá bæði á vinnustað og í skóla.

Nú spratt hins vegar óvæntur morgunhani upp á yfirborðið sem ég get notað til að hvetja mig til að drullast fyrr á fætur og vera sestur fyrr við skrifborðið á morgnana. Húrra fyrir því.

Monday, November 14, 2005

Jyllands-Posten...

er svo gott blað.

Atvinnulaus vélaverkfræðingur í Danmörku?

Design Ingeniør Pipe Design eða, með öðrum orðum: Fá borgað fyrir að vinna í umhverfi sem líkist vinnuumhverfi VR2 á fleiri en einn máta (segi ég).

Smettið í fullri stærð

Að vissu leyti fallega gert hjá ritstjórn visir.isbirta síðustu grein mína á skoðanaskiptasíðunni þeirra, en af hverju er myndin höfð í 260x290 punkta stærð?!

En þarna er djöfullinn nú samt fyrir þá sem misstu af pappírsútgáfu Fréttablaðsins á laugardaginn.

Á morgun er kosið til sveitastjórna (kommune) og landshlutastjórna (region) í Danmörku og ég er með kosningarétt. Heilsíðuauglýsingar frá vinstrisinnuðum stéttafélögum hafa birst í öllum blöðum síðustu vikur, þar sem ánauðugir meðlimir stéttafélaganna greiða fyrir kosningabaráttu í þágu ríkisstyrktra sósíalistanna. Er frelsið ekki yndislegt?

Friday, November 11, 2005

Fréttablaðið og DV

Í dag getur fólk valið á milli þess að lesa DV fyrir 200 orð eða Fréttablaðið fyrir um 629 orð (mínus það seinasta sem klipptist sýnilega í burtu). Eru þá ekki allir hressir?

Thursday, November 10, 2005

Hugsað upphátt

Ætli MSN-tengiliðalistinn sé lýsandi fyrir þann hóp vina og kunningja sem maður á? Ef svo er þá er ég ánægður maður. Auðvitað vantar nokkra stórleikara í lífi manns, og inn á milli eru nöfn sem hringja ósköp fáum bjöllum hjá mér eða villtust inn á listann af einhverri afmarkaðri ástæðu sem fyrir löngu er runnin út í sandinn í dag, en á heildina litið er hópurinn eitthvað sem maður getur kallað vini eða kunningja, með eða án skyldleika, og mér finnst það gríðarlega ánægjulegt.

Hann pabbi minn, sem er ennþá að reyna ala mig upp, sagði mér einhvern tímann á fyrstu mánuðum háskólaferils míns að ég ætti að hafa í huga að það fólk sem ég kem til með að kynnast í háskólanáminu er líklega það fólk sem ég mun, bæði félagslega og faglega, umgangast eða þekkja allt mitt líf. Ætli það skipti máli að hafa slíkt í huga? Hvað væri öðruvísi í dag ef ég hefði á einhvern stórkostlegan hátt tekið tillit til þess að faglegir tengiliðir framtíðarinnar væru allt í kring og tilbúnir að dæma mig vanhæfan eða óhæfan vegna tiltekinnar félagslegrar eða námslegrar hegðunar í skólanum?

Svarið er: Ég ætti leiðinlegri og einsleitari vini og kunningja, og líklega vitlausari og gagnslausari í ofanálagt.

Ég er ánægður með MSN-tengiliðalistann minn og það þversnið sem hann gefur af því fólki sem ég þekki. Húrra fyrir ykkur!

Viðbrögð

Ég hlakka til að sjá næstu Fréttablaðsgrein mína birtast. Hún er nefninlega svolítið spes.

Wednesday, November 09, 2005

Bjánar

Tele2 hefur marga bjána í vinnu. Ætlun mín var að skipta frá Tele2 áskriftareitthvað (sem ég batt mig í í 6 mánuði til að fá ódýran síma) og yfir í Tele2 talfrelsieitthvað. Einfalt ekki satt?

Ég fer á heimasíðuna og smelli á Tele2 talfrelsisdótið, vel möguleikann "halda númerinu", pikka inn eitt og annað og fæ nýtt SIM-kort þremur dögum seinna. Einfalt ekki satt?

Í gær hætti gamla SIM-kortið mitt að tengjast símkerfinu svo ég dreg fram hið nýja SIM-kort og set í símann og kveiki á. Hið nýja kort getur heldur engu tengst og ég reiknaði þá með því að vera einhvers staðar á milli steins og sleggju í einhverju tölvukerfi og þyrfti bara að bíða aðeins þar til hið nýja kort næði sambandi.

Eftir sólarhring af þessu sambandsleysis-rugli, með tvö SIM-kort og hvorugt sem virkar, þá hringi ég í alræmda "kundeservice" Tele2 (fræg fyrir mjög marga möguleika til að velja á milli til að loksins komast í rétta símbiðröð, og bíða síðan lengi lengi eftir að einhver svari). Þar er mér sagt að "villa" hafi komið upp þegar ég var að "skipta" um símþjónustu (innan sama fyrirtækis vel á minnst).

Þegar ég logga mig inn á hladdu-taletid-í-símann-þinn síðuna stendur að villa hafi komið upp. Frábær villa meira að segja: "Flytning af nummer afvist af dit gamle selskab. Tele2 undersøger sagen." Já einmitt. "Gamla símfyrirtækið" hafði "hafnað flutning" á númerinu.

Kellingarbeyglan í þjónustudeildinni sagði að hún myndi senda meldingu í kerfið sem gæti tekið allt að fjóra daga að greiða �r. Tele2 hefur marga góða eiginleika og margt hjá þeim er ágætt. En að það taki mig fimm símalausa daga að skipta frá einni þjónustu þeirra yfir í aðra er reiðivaldandi.

Ónefnd stúlka sagði að það væri engin furða að Íslendingar væru að kaupa upp fyrirtæki í Danmörku eins og óðir væru, því einhver þyrfti að kenna þessum Baunum hvernig á að reka fyrirtæki. Ég er hjartanlega sammála.

Daninn gómaður!

Örstutt samtal milli mín og Dana:
Daninn: "Hefuru augnablik?"
Ég: "Já, fer eftir því hvað augnablikið er langt samt. Hvað langan tíma?
Daninn: "Sona 2-3 mínútur sirka."
Ég: "Það passar mjög vel. Ég þarf að fara á fund eftir 6 mínútur."
Daninn: "Nú fund? Þá ætla ég ekki að vera trufla þig en láttu vita þegar þú ert búinn á fundinum."

Lexían: Daninn notar alltaf miklu meira en tvöfaldan áætlaðan tíma, og Daninn veit það.

Tuesday, November 08, 2005

En dynamisk hverdag

Verkfræðingur óskast á deildina mína. Stuð.

Lubbi

Fartölvan

Þetta lítur út fyrir að vera góð græja á góðu verði!

Einhverjar smásmugulegar athugasemdir eða ábendingar til að hafa í huga? Ef ekki þá er það símtal í bankann og verslunarleiðangur! Tíminn er knappur!

Monday, November 07, 2005

ipod+pc

Hvaða hugsanlegu ástæður gæti maður haft fyrir því að hika við iPod-kaup því maður er PC-maður en ekki Mac og gerir kröfur um 100% notendavæni og viðmótsþýði? Smámunasemi og neikvæðni velkomin!

2. - 4. desember 2005

Má bara til með að lýsa því yfir að égg hlakka gríðarlega til þessarar helgi.

Örfærslur

Ég hef séð SBS í framtíðinni. Hann vinnur hjá British Petroleum og fer yfir skýrslur og gerir smámunasamar og fullkomlega ópraktískar athugasemdir við þær.

J-dagur reyndist mörgum á vinnustaðnum erfið raun á laugardaginn og líklega verður raunin sú í dag líka en af öðrum ástæðum en timburmönnum.

Svart er sætt. Gríðarlega.

6 klst fundur bíður handan við hornið. Er nokkur leið að undirbúa sig andlega fyrir slíkar svitabúðir?

Friday, November 04, 2005

Hvað ef?

Hvað ef viðamikil rannsókn á þúsundum einstaklinga á Vesturlöndum myndi leiða í ljós skýra fylgni milli mikillar kaffidrykkju tiltekinna hópa (2+ bollar á dag) og tíðni hjartaáfalla innan hópanna? Væri það nóg til að stinga upp á og fá samþykkt bann við ákveðið mikilli kaffidrykkju? Væri kannski hægt að banna kaffi á þessum forsendum?

Svo virðist vera miðað við hvað fólk lætur út úr sér varðandi reyktóbak og skyndibita. Svona líta helstu rök fyrir lögbanni á flestum fíkniefnum út.

Áhyggjuefni eða eðlilegur hluti af "samfélagssamningum" sem enginn þurfti að samþykkja?

Enn um lögmálið góða

Kvenmaður A, B og C sátu nú hlið við hlið við hlið í mötuneytinu eins og viðbúið var að myndi gerast fyrr en síðar. Lögmálið heldur.

Thursday, November 03, 2005

DV...

...á morgun. Örlítil snemmbær jólahugleiðing.

Úff

Einn af fáum ókostum þess að vera háður nikótíni er að fá stundum ekki tækifæri til að svala fíkninni.

Tuesday, November 01, 2005

J-dagur

Greinilegt að J-dagur nálgast óðfluga þegar yfirmaðurinn getur ekki hugsað um annað en hvar deildin hans eigi að hittast kl 20:59 á föstudagskvöldið til að drekka fyrsta jólabjór ársins.

Góð ábending í boði Tony Blair: "Quit blaming Bush. The U.S. Senate voted 95-0 against Kyoto during the Clinton Administration, and the U.S. participation would have had little effect on future emissions anyway." (#)

Annars er heilinn að mestu uppurinn í dag og kominn tími á eitthvað gjörsamlega heilalaust, eins og að skrifa design report.

Mens jeg husker...

Velferðarkerfið: Kerfi sem reynir að passa að jafnvel fari á með öllum, en ekki kerfi þar sem reynt er að tryggja velferð allra.