Wednesday, June 28, 2006

To-do

Afskaplega sjálfhverf færsla núna.

Útflutningar taka sinn toll, þótt ekki sé nema á andlega sviðinu. Eftirfarandi liggur fyrir:
- Þrif (frí frá vinnu á föstudaginn til að taka á því báðum höndum).
- Smáviðgerðir í íbúðinni.
- Tilkynna flutning til rafmagns- og gasveitunnar.
- Taka saman depositum-fjárhæðir hvers og eins (mismunandi eftir fólki, og misstórir hlutir depositum-upphæðar hvers og eins á annars vegar reikning í minni umsjá og hins vegar reikning sem eigandi íbúðarinnar hefur).
- Millifæra depositum-upphæðir á 5 mismunandi bankareikninga (suma sem ég veit ekki um reikningsnúmerið á ennþá), fyrir utan minn eigin.
- Ganga frá uppsögn internet-þjónustunnar.
- Borga (næsta?)seinasta rafmagns- og gasreikninginn sem er hægt núna eftir að minn vitlausi fyrrverandi viðskiptabanki lokaði netbankaaðgengi mínu en hefur nú opnað á aftur.
- Díla við eigandann um smáatriði flutninga á laugardaginn (Svíinn þarf aukatíma, Daninn sömuleiðis, og ég þarf að standa vaktina).
- Hitta eigandann (stefnir því miður í að það verði á sunnudaginn sem gæti skekkt Hróaskeldu-planið) og fara í gegnum íbúðina og tryggja að hann dragi engin ósköp frá fyrir eitthvað sem er ekki hægt að hengja neinn á.
- Flytja það sem eftir er af mínu drasli (stór leigubíll eða lítill flutningabíll dugir í það).

Ég fæ í magann við tilhugsunina. Líklega er það ástæðan fyrir því að ég er alveg orku- og eirðarlaus og nánast kærulaus yfir þessu í bili enda verður stressið nóg sama hvenær ég byrja að taka á. Plúsinn er samt sá að ég verð þeim mun fegnari að vera fluttur þegar það loksins gerist.

"Bofællesskab" er skemmtileg lífsreynsla þrátt fyrir allt. Ég mun sakna sumra hliða búsetuformsins (hresst fólk úr öllum áttum, oft líf og fjör í íbúðinni), en tvímælalaust ekki allra (díla við semí-þveran eiganda, endalausar áhyggjur af því að allir hafi greitt leiguna, reikningagreiðslur). Næsti kafli tekur nú við. Húrra fyrir því!

Tuesday, June 27, 2006

Monday, June 26, 2006

Uppgötvun dagsins

Ég held að ég hafi komist að niðurstöðu í kvöld: Af öllum sem þekkja mig þá finnst engum ég vera skemmtilegri en... ég sjálfur!

Þessa niðurstöðu má auðvitað túlka bæði jákvætt og neikvætt. Er ég svona leiðinlegur að mín skoðun á mér er hámark vinsælda minna? Eða, er ég svona sjálfmiðaður að mér finnst mitt álit á mér toppa álit allra annarra á mér? Eða, er ég með svo brenglað skynbragð á því sem er skemmtilegt að ég sé hámark skemmtilegheita minna í miklu bjartara ljósi en allir aðrir? Eða, er ég svo óöruggur að ég þarf einhverja gríðarlega staðfestingu á ágætum mínum með stanslausum loforðaflaumi annarra en fæ ekki? Eða, er ég svona leiðinlegur að minn eigin húmor og mínar eigin athugasemdir fá engar undirtektir nema frá sjálfum mér, en skemmta mér samt svona líka ágætlega?

Allar svona pælingar mega liggja á milli hluta. Niðurstaðan stendur! Mér finnst hún frábær.

Molar

Í dag fékk ég að heyra hvaða launahækkun ég fæ frá og með næsta launaseðli. Í krónum talið er hægt að kvarta, en í prósentu í sjálfu sér ekki. Af hverju finnst mér mikilvægt að vita hversu há hækkunin er miðað við einn eða tvo aðra sem ég tel mig stiginu fremri í deildinni? Á maður að reyna nöldra sig ofar? Á maður að líta svo á að prósentuhækkunin sé góð og gild þótt niðurstaðan (m.a. þökk sé nýju skattþrepi sem nú bankar upp í þrepaskattkerfinu) verði varla til að umbylta neinu? Ég leggst undir feld með þetta.

Ég fer ekki á Hróaskeldu fyrr en á sunnudaginn, en þvílíkan félagsskap fær maður! Sjálfur Haukur og hananú ef plön ganga eftir.

Föstudeginum eyði ég líklega fjarri vinnu og í þrif í íbúðinni sem ég er formlega persónulega ábyrgur fyrir að rýmist fyrir mánaðarmót. Laugardagurinn fær líklega líka sinn skerf af frágangi. Flutningar á laugardagssíðdegi og þá loksins get ég kallað mig fluttan til nýrra heimkynna!

Verður einhver íslensk sál í Köben í júlí ef ég held einhvers konar innflutningsteiti? Dagsetning getur auðveldlega ráðist af því hvaða stórmenni eru á ferðinni í sumar, og hvenær. Hvað partý varðar verður a.m.k. eitt haldið í haust: Aggú, Örvar, Stefán, Sverrir. Ég reikna með ykkur!

Ég er nú ekki mikill fjármálasérfræðingur í mér, en er ekki eitthvað að hafa út úr því að taka neyslulán í Danmörku til að eyða í eitthvað á Íslandi, t.d. sparnað?

Saturday, June 24, 2006

Flutningar

Flutningar eru eitt það leiðinlegasta sem ég geri. Ég kemst ekki í gang. Þó búinn að kaupa kassa undir fábreytta búslóð mína.

Kaupmannahöfn hefur nú fengið vítamíngjöf í æð með nokkrum góðum piltum frá Íslandi. Það er minn eini hvati til að ná að pakka einhverju. Jú, og sá að Þóra er orðin óþolinmóð eftir hillum. Svoleiðis hvati er samt mun léttvægari en tilhugsunin um ölþamb með verkfræðilingum.

Hróaskeldustaðan er enn óviss. Miðinn fellur af himnum ef hann gerir það. Myndi mæta seint á svæðið hvað sem öðru líður.

Ég tók smá vinnu með mér heim og tókst, mér að óvörum, að leysa það sem leysa þurfti. Góð tilhugsun það.

Lítil grein er tilbúin í ofninum (þótt aðal-yfirlesarinn sé fjarri góðu gamni). Hvaða prentmiðill er í mestri þörf fyrir tilbreytingu frá vinstriskrifum? Mér sýnist Fréttablaðið vera í sæmilegum málum. Hvað með Blaðið eða Moggann?

Jæja, ég hlýt að geta pakkað í einn kassa. Yfir og út.

Thursday, June 22, 2006

Danmerkur-annáll Geirs

Varúð! Þessi færsla er LÖNG og þurr! Hún er fyrst og fremst ætluð mér til skráfestingar, og innblásin af síendurtekningum spurningum innfæddra um hvað í fjáranum ég sé nú að gera í Danmörku.

Haust 2002- vor 2003: Fór til Danmerkur sem skiptinemi við DTU. Mikið djamm og djús. Komst að því að danskt skólafyrirkomulag hópvinnu og náms sem gaf ekki upp námsefnið nema maður mætti í tíma (helst þá alla saman) hentaði mér frekar illa. Kynntist hinni dönsku Sanne. Hróaskelda sumarið 2003 og svo til Íslands.

Sumar 2003 - sumar 2004: Lokaverkefni við HÍ auk nokkura námskeiða. Held sambandi við þá dönsku (öfugt öllu heldur). Hún flytur til Íslands í febrúar 2004 og vinnur á meðan ég klára námið.

Sumar 2004: Flyt með þeirri dönsku til Danmerkur. Ég finn vinnu (hreingerningar sept.-nóv., póstberi des.-maí, verkfræðingur júní-...). Hún fer í skóla. Leigjum saman litla íbúð í Nörrabro.

Vor/sumar 2005: Ég og sú danska ákveðum að flytja í sitthvort húsnæðið. Ekkert ósætti með það. Þetta var alveg fullkomlega eðlileg ákvörðun sem hafði legið í loftinu í einhvern tíma.

Júlí 2005: Er enn í sambandi með þeirri dönsku og nýbyrjaður í þessari frábæru vinnu. Hættum formlega saman um einhvern tímann í þessum mánuði. Vorum í raun hætt saman fyrr.

Ágúst 2005: Sýgst sífellt dýpra inn í vinnuna og fíla mig í tætlur. Nú orðinn einhleypur maður. Engin dönsk stelpa til að halda manni í landinu, en vinnan er miklu þyngra akkeri en það.

Vetur 2005 - vor 2006: Leigi herbergi í íbúð sem hýsir 5 aðra einstaklinga. Stjórna öllu sem er mikilvægt: Reikningshaldi, inn- og útflutningum, samskiptum við eiganda og húsfélag, osfrv. Ekkert sem heldur vöku fyrir manni en verður þreytt til lengdar. Eigandi ákveður að selja og húsnæðismál komast á dagskrá enn einu sinni í þessu landi.

Í dag: Íbúð keypt á sjúklega dýrum fasteignamarkaði til að losna af leiðinlegum leigumarkaði. Lít samt ekki á íbúðina sem slíka sem eitthvað akkeri. Ég ætla að halda vinnunni á meðan ég fíla mig jafnvel í henni og ég geri. Íbúð í Köben hlýtur að teljast sæmileg fjárfesting eins og margt annað.

Hvað með framhaldið? Óráðið. Reikna með a.m.k. tveimur árum í Danmörku í viðbót. Aldrei að vita samt. Spái hreinlega ekki svo mikið í það. Sakna fólks og fjölskyldu, en ég er svo bjartsýnn að ég held að þegar til lengri tíma sé litið þá sé ekkert á því að tapa að taka útlanda-lífið út. Ísland togar alltaf og mun á endanum toga alveg, en það gerist þá bara þegar það gerist.

Yfir og út.

Pappírarnir streyma inn

Hver pappírinn á fætur öðrum streymir nú frá fasteignasölu, banka og lánastofnun. Ég hlýt að vera orðinn yfirlýstur íbúðareigandi nú þegar sveitarfélagið er búið að senda mér minnismiða um greiðslu eignaskatta. Eignaskattur áður en ég hef greitt svo mikið sem eina afborgun? Danska kerfið er fljótvirkara á sumum sviðum (skattheimtan) en öðrum (þjónustan).

"Hvað ætli menn segðu ef samtök gjaldþrota manna skoruðu á menn að ganga í sérstökum fötum til að minnast kosningaréttar þeirra sem skulda sveitarstyrk?" (#)
Góður .

Heiðskýra og hlýindi dag eftir dag, viku eftir viku, er óneitanlega upplífgandi.

Sængursetning dagsins:
"Ligg þú sem gleiðust, ok haf sem kyrrast." (#)

"Arnar til Köben í júlí 2006" átakið þarf að hefjast bráðum.

Á laugardaginn og dagana þar á eftir lendir her góðra manna (og kvenna) í Kaupmannahöfn í tilefni Hróaskeldu. Ég er að vinna í því að láta hluti smella saman til að komast sjálfur. Ég læt vita hvernig málin þróast. Bannað að senda mér hressleikamyndir frá Hróaskeldu! Já ég er að tala við þig núna Hjalti!

Infó-færsla

Hérna er litla kribbið sem ég var að fjárfesta í fyrir litlar 400,000+ kr. per fermeter.

Wednesday, June 21, 2006

Fundauppgefinn dauðans

Allur dagurinn í dag hvarf í fund og fyrir vikið er ég alveg dauður í öllum æðum. Óvenjuþéttur vinnufótbolti í gær er líka að segja til sín.

Eigandi íbúðarinnar sem ég bý í núna, og stjórna öllu sem gengur á í, er að stinga upp á því að hittast 1. júlí til að fara í gegnum uppgjör af henni og endurgreiðslu fyrirframgreiðsla. Þetta er með eindæmum slæm dagsetning sem mundi t.d. hola Hróaskeldu fyrir mér. Svo eru alveg óendanlega mörg atriði sem þarf að ganga frá fyrir mánaðarmót. Ég held jafnvel að Hróaskeldu sé stefnt í voða hjá mér (fyrir utan smáatriðið að vera miðalaus). Gaman þegar boltarnir sem þarf að halda á lofti á sama tíma eru orðnir svona margir, ha!

Ég fékk að heyra í gær að ég væri þver og þrjóskur þegar kemur að því að ræða suma hluti. Hér með staðfesti ég þann stimpil: Ég neita að víkja þegar kemur að sumu. Hvað annað varðar er hins vegar sjálfsagt að vega og meta og dansa eins og laufblað í vindi stefnuleysis.

Snickers er prýðilegur forkvöldverður/síðdegissnarl.

Komnar 100 skráningar á sumarhátíð vinnustaðar míns sem verður haldin í byrjun september. Seinasta hátíð var snilld. Þessi verður það líka ef áfengismagnið verður ótakmarkað aftur.

Spurning dagsins er, "Er hún ólétt eða bara búin að bæta á sig svolitlum mallakúti?". Þessi spurning verður aldrei spurð upphátt.

Ég held að forfeður okkar hafi ekki rambað á neina tilviljun þegar þeir skírðu "samúð" og "sambúð" nánast sama nafni, þar eð hið seinna kallar oft á hið fyrra.

Einn vinnufélaginn er að gera mig brjálaðan þessa dagana. Hann er búinn að tala um sama fjárans vandamálið í rúmlega viku núna, og þetta fer að verða vandræðalegt fyrir hann.

Að skrifa nafnlaust á spjallvef með léttri stemmingu er bráðskemmtilegt. Á öðrum spjallvef er nafnleysið hins vegar oftar en ekki notað til að tala með rassgatinu. Þjóðmálaumræðan á spjallvefum almennt er í ruslatunnunni.

Hvað er málið með næturhitann? Varla sofandi lengur á nóttunni. Daghitinn er líka að gera vinnuna óbærilega á meðan stuttbuxurnar góðu eru í þvotti. Er samt ekki alveg kominn niður í berar tásur eins og sumir í kringum mig.

Dana-reynsla dagsins: Daninn segir, "ég hef ekki tíma", þegar hann hefur ekki 2 tíma aflögu fyrir 5-10 mínútna verkefni.

Sunday, June 18, 2006

Sunnudagsskvaldur

Ákveðið reynslulögmál er að fæðast á þessari síðu: Því fleiri sem langar færslur eru, því færri eru athugasemdirnar við hverja þeirra (einnig þær styttri). Ég veit sjálfur hvað langar færslur geta oft virst fráhrindandi og því kemur þessi niðurstaða lítið á óvart, og fagna henni raunar því minnkandi lesendahópur gefur aukið hugrekkis-svigrúm fyrir opinskárri skrif.

Ég og Baldur sambýlingur misskildnum eitthvað útflutningspartý íbúðarinnar í gær sem var kannski bara allt í lagi því ég var á báðum áttum með stemmingu (fyrst og fremst þá líkamlegu). Þeir Østerbro-bræður Palli og Tommi (hljómar eins og nöfn úr lélegri barnabók?) eru alltaf hressir.

Í gær fékk ég afhenta lykla að lítilli stúdíó-íbúð á Amager og hér með tilkynnist það þá að ég er orðinn íbúðareigandi í Danmörku. Seinasti pappírinn rétt svo náði í undirskrift í gær áður en langar og e.t.v. óafturkallanlegar seinkanir hefðu komist á ferlið svo þetta stóð tæpt.

Búið að gerast ansi hratt - svo hratt að ég trúi því eiginlega ekki enn. Ég skoðaði plássið þann 24. maí (í um korter), og núna um þremur vikum seinna er öll skriffinnska frágengin og undir bönkum og öðrum slíkum stofnunum komið að frelsa eitt lán á kostnað annars. Ég held ég hinkri samt með að flytja inn á meðan við rýmum út úr íbúðarflæminu sem ég deili núna með 5 öðrum manneskjum.

Núna tekur við skyldaður hjólatúr. Ágætt í heiðskýrunni og 20 stigunum.

Friday, June 16, 2006

Fílingur á föstudegi

Undanfarna daga hefur alveg stórmyndarleg stúlka sést á göngum vinnustaðarins og oftar en ekki í félagsskap yfirmanns deildarinnar minnar. Sögur herma að þar sé dóttir hans á ferð. Vinnustaðagreddan þurfti svo sannarlega ekki á þessari kyndingu að halda. Hversu svalt væri að komast yfir dóttur stjóra?

Dönsk dagblöð vilja nú siga ríkisvaldinu á hið enn óútgefna danska systurblað Fréttablaðsins og tala um "marga möguleika á samkeppnisröskunum" (eða í álíka stíl). Allt sem heitir samkeppnisyfirvöld ætti að heita samkeppniseyðingarvöld. Ríkisafskipti í nafni samkeppni eru alveg jafnslæm og ríkisafskipti í nafni verndarstefnu og sérhagsmunagæslu, ef ekki bara nákvæmlega sami hluturinn.

Svo seldist upp á Hróaskeldu. Ég hafði lofað mér að kaupa ekki miða fyrr en ég væri viss um að vera með þak yfir höfuðið í júlí, sem er ekki ennþá orðið 100% öruggt. Maður þarf því víst að byrja á einhverjum fjárans miðareddingum ef þakið staðfestist fljótlega. Nú eða panik vegna húsnæðisleysis af það staðfestist ekki.

Danir skiptast í tvo hópa: Annar er sá sem samanstendur af þeim sem ganga um götur landsins og er hægt að hitta og sjá. Hinn er sá sem skrifar í blöðin.

Dönsk blöð eru troðfull af væli um stress, gróðurhúsaáhrif, ofnotkun fólks á vatni í hitanum, lélegum starfsskilyrðum, miklu álagi á vinnustöðum, versnandi heilsu og holdafari, og svona má lengi telja. Hinn almenni Dani er vissulega með vel bókaða dagskrá bæði heima og á vinnustaðnum, en hann kvartar ekki yfir því nema í undantekningartilvikum (a.m.k. ef marka má reynslu mína af þremur mismunandi vinnustöðum í Baunaveldi - sem verkamaður, póstberi og loks verkfræðingur).

Ég er að hugsa um að fagna hverjum föstudegi með því að vera í "enjoy capitalism"-bolnum mínum. Eingöngu ríku markaðssamfélögin geta starfað og haldið uppi góðum lífskjörum þrátt fyrir að þorri vinnandi manna og kvenna taki sér tvo frídaga í hverri viku. Föstudagur hér með umskírður Uppskerudagur kapítalismans.

Þrír tímar í föstudagsbjórinn heyri ég sjálfan mig hugsa.

Thursday, June 15, 2006

Í amstri dagsins

Æsispennandi hugleiðingar Geirs á vinnudegi sem ætti helst að vera að frídagur á Nýhöfn með bjór í hönd.

kl 08:38
Fyrsti kaffibollinn er alltaf svo frábær.

Múrsmaður sýnir ósveigjanleika flokkakerfisins/lýðræðisins ótrúlegan skilning. Verst að hann gefur ekkert til kynna sem sýnir að hann skilur sveigjanleika markaðsins þar sem fólk kýs oft á dag og sendir lélega valkosti í gjaldþrot á augabragði.

Hressandi spjall hérna. Magnað hvernig sumir blanda tortryggni manns á ríkisvaldinu saman við flokk sem kallast Sjálfstæðisflokkurinn. Jafnvel sett samasemmerki þarna á milli! Þeir hinir sömu og þjást af þessum rugling hljóta þá að setja samansemmerki milli sín og einhvers annars tiltekins stjórnmálaflokks.

kl 10:26
Urgh!

kl 10:41
Svei, orðinn svangur og um klukkutími í mat.

kl 12:51
Þökk sé óendanlega margra klukkutíma puði yfir tilraun til að gera ákveðna reikninga örlítið sjálfvirkari er ég núna u.þ.b. 50 sekúndur að gera eitthvað sem annars tæki a.m.k. einn vinnudag. Vona það sé þá rétt gert líka! Tíminn leiðir það í ljós. Monta mig á meðan.

kl 13:18
Ég eyði örugglega alls klukkutíma á viku bara í að hella upp á kaffi í vinnunni. Nokkrar mínútur á dag af tiltekinni afhöfn eru fljótar að telja. Þetta blogg er til dæmis hrein peningaeyðsla fyrir atvinnuveitanda minn.

kl 14:02
Í raun er ótrúlegt að Norðmenn og Danir skilji hvorn annan svona vel með þennan oft á tíðum gjörólíka framburð á sama ritmálinu.

kl 14:28
Djö... ný gögn sem þýða endurtekning á sömu handtökunum! Sem betur fer taka handtökin núna bara nokkkrar mínútur í stað heils vinnudags áður þökk sé útsjónarsemi minni. Hóhóhó...

kl 15:13
Greinilega komin helgi í fólk þegar föstudags-eftir-vinnubjórinn er orðinn að umræðuefni.

kl 16:02
Ég þakka fyrir hvern dag sem er laus við símabiðraðir eða ratleik í frumskóg skriffinnskunnar. Hvað þetta varðar þakka ég ekki fyrir daginn í dag.

kl 17:13
Þá getur seinna dagsverkið tekið við.

kl 18:10
Jöss! Verð sloppinn fyrir kl 19:30 og jafnvel vel það með þessu áframhaldi. Takk fyrir í dag!

Wednesday, June 14, 2006

30 stiga heitur vinnudagur

Næstum því ólíft úti í þessari viku fyrir hita. Get ekki einu sinni verið í peysu kl 23 á kvöldin, og alls ekki kl 8 á morgnana.

A-zone er góður staður að vera á, en ég efast ekki um að næsta opna svæði sé líka frábært.

Leikurinn í gærkvöldi var ofsi inn á þéttpökkuðum O'Leary. Ég ætla tvímælalaust að gera þann stað að öðru heimili mínu í júní.

Í gær heyrði ég varla í símanum allan daginn. Eftir klukkutíma fjarveru frá símanum á meðan á þriðjudags-vinnufótboltanum stóð voru komin 3 ubesvarede opkalds. Húrra fyrir hinu órannsakanlega kosmíska almætti.

Húrra fyrir óseðjandi kökulyst Danans.

Skrifstofugreddan byrjuð að trufla mig.

Eftirfarandi stendur í tölvupósti sem ég var að fá sendan:
"Lejligheden er din, jeg modtog den endelige accept fra mægler i går."
Nokkur tækniatriði bíða nú afgreiðslu og þá getur ekkert stoppað mig!

Monday, June 12, 2006

Mogginn

Hver er til í að taka fyrir mig skjáskot eða skönnun af MÉR í Morgunblaði dagsins (greinasíðunum)? Ég þarf nefninlega að sjá hvernig myndin kom út.

Sunday, June 11, 2006

Sól á sunnudegi

Heiðskýr himinn og rjúkandi heit sól í Kaupmannahöfn í dag. Ég hef nýtt daginn vel og legið inni og horft á svolítinn fótbolta og sjö Transformers-þætti á meðan aðrir hafa legið í sólinni.

Í vikunni koma væntanlega allrasíðustu pappírarnir frá bankanum sem staðfesta íbúðarkaup mín. Spennan er í hámarki. Þegar ég sé síðustu undirskriftina á seinasta pappírnum taka við miðakaup á Skelduna.

Þetta er dæmi um galla af því að hafa fyrirtæki í opinberri eigu. Núna á allt í einu að hugleiða samningssvik í nafni pólitísks þrýstings - eitthvað sem stjórnmálamenn komast einir upp með.

Skabbalútur er mikil snilldarsíða og tímaþjófur stór. Hver ætlar að giska á notandanafnið mitt?

Ísland 11. ágúst er dagsetning sem nálgast furðuhratt. Tveir mánuðir í það núna. Hver heldur partý fyrir menningarnótt?

Thursday, June 08, 2006

Molar í dagsins amstri

Ritað að morgni til:
Sólin kom aftur Danmerkur í fyrradag. Sumarið helst vonandi í þetta sinn og spá upp á 25 gráður um helgina er e.t.v. til merkis um það. Tívolí, dagdrykkja og leti í Kongens Have er á dagskránni.

Blaðagreinaskríbentar í Danmörku eru upp til hópa síkvartandi sósíalistar að heimta að aðrir greiði fyrir áhugamál sín, kröfur, þarfir eða gæluverkefni. Undantekningin birtist þó á miðvikudögum í einu blaðinu. Í morgun var actually verið að hvetja til einstaklingsábyrgðar og einstaklingsframtaks á því sem margir vilja kalla vandamál ríkisins eftir greiðslu skattanna, nefninlega í málefnum aldraðra. Margir vilja að háar skattgreiðslur eigi að tryggja að maður sé laus við gamla fólkið, aðrir ekki.

Skrifað um hádegisbilið og fyrri hluta dags:
Dönum er ekkert heilagt. Vinnufélagi verður frá á morgun til að fara með strákinn sinn á sjúkrahús. Einhver spyr hvers vegna. Svarið kom um hæl: "Hann er með skakkt typpi." Húrra fyrir þeim upplýsingum!

Fjólublár varð ég svo sannarlega. Vandræðalegt ástand allt saman.

Á morgun er hið æsispennandi hálfs-árs-lega spjall við stjóra um vonir og væntingar í starfi. Þetta eyðileggur auðvitað alveg fyrir manni fimmtudagsstemminguna sem oftar en ekki snýst um nokkra bjóra og örlitla föstudagsþynnku. Vil helst ekki vera með of mikinn vínanda í andadrættinum á morgun.

Skrifað síðdegis:
Skrifstofugreddan er mætt. Óþolandi. Einu sætu stelpurnar á hæðinni minni að spjalla og hlægja hinum megin við hilluna bak við mig. Ætli þær séu að kitla hvor annarri?

LÍN er ólíkur bönkunum hvað viðræðuhæfni varðar.

Monday, June 05, 2006

Mánudagsmolar

Þungur dagur í dag (fyrst og fremst líkamlega). Tók mig t.d. 6 klukkutíma að fá mér eitthvað að borða. Ætlaði að vinna eitthvað í dag en tókst að svíkja mig um það. Einhvern veginn er svo margt að gerast í einu að ég missi alla einbeitingu gagnvart einhverju einu. Tókst þó að taka til í herberginu þannig að það sé hægt að komast að með ryksugu, og þvoði meira að segja smá.

Var að horfa á frjálshyggjumyndina I, Robot og held hún sé bara ágæt hugleiðing um hættuna á bak við að telja sig vita hvað er öðrum fyrir bestu.

Í vikunni kemur væntanlega í ljós hvort ég sé orðinn íbúðareigandi eða ekki. Ekki laust við að smá spenna fylgi því. Ef íbúðin verður mín þá er vitaskuld Hróaskeldu-miði næstur á innkaupalistanum. Ef ekki tekur við að bjarga sér frá því að lenda á götunni í júlí. Til hvers að tefla ef ekki á að tefla djarft?

Þóra nokkur Jensdóttir flytur til Danmerkur á morgun með allt sitt hafurtask og það er hressandi tilhugsun. Maður er jú allur í því að vera leiðsögumaður og annað eins í Kaupmannahafnarborg, og ekkert sjálfsagðara en að gera flutning til borgarinnar að eins mjúku ferli og frekast er unnt.

Mig vantar nafn á "online"-hluta MSN-listans núna. Er eiginkonan að stela tíma frá mér núna?

Tónlistarþursinn ég er núna að reyna byggja upp þekkingu á stærstu nöfnum Roskilde ef ske kynni að sú hátíð komist á dagskrá hjá mér. Tool brýtur ísinn. Hverjir eru næstir? Nei, ekkert útnára gringó-rokk frá Fjarskanistan takk. Bara alvöru.

Berlín babie

Eiturhressandi símtal veitir á hressandi innblástur í eins og eina færslu:

Berlín er indæl borg og í góðum félagsskap alveg frábær borg. Byrjum á einni sögu úr ferjunni á leiðinni frá Þýskalandi til Danmerkur (nákvæmt orðalag ekki endilega til staðar):

Geir (á veitingastað í ferjunni, með 2 miða upp á 2 pakka af tollfrjálsum sígarettum): Sígarettur takk, ef þú átt þær til.
Afgreiðslukonan: Hvað viltu margar? Karton?
Geir: "Tvo pakka af Cecil rød takk.
Afgreiðslukonan: Tvo pakka? Það er ekkert sérstaklega mikið.
Geir: Ég á bara tvo miða fyrir tollfrjálsum pökkum, svo ég tek bara tvo pakka.
Afgreiðslukonan (tekur upp kartonið): Við getum bara sagt að þessir tveir pakkar séu tollfrjálsir og að hinir séu það ekki. Verðið er það sama.
Geir (ánægður): Hljómar vel! Ég þigg það.

Verðið reyndist svo bara tíu sinnum tollfrjálst verð. Skattsvik eru yndisleg.

Stikkorðin (ekki í réttri tímaröð):
"Hefuru séð spennuna mína?" - "Ég þarf að pissa" - Irish Pub - Kareókí-barinn að degi til og kvöldi - mistæk skottækni - skoðunarferð með rútu - rauður hlýrabolur á bar - Gyðingasafn (hauskúpulaust) - 5-3 (bíður staðfestingar) - kirkjurústir - blautur labbitúr - kökuboxið - sólgleraugu - "Þarf aðeins að hringja í..." - 60 mín pizza - Hard Rock í þynnku - atvinnu- og húsnæðisleysingjar - engin krem - orðinn samkynhneigður - "Eydd'enni" - bjór og meiri bjór - Óli/Louise - frábært hótelútsýni - sól og rigning - "Já" eða "nei" eftir atvikum - fáar sjoppur - "For ultimate pleasure" - kvennafrídagurinn frábæri/vafasami ...[to be continued?]

Engar skuldbindingar en allir keppinautar verða drepnir (mótsögn ég veit). Re-union í sumar er krafa dagsins. Takk fyrir mig kynæðislegust!