Wednesday, May 31, 2006

Berlín nálgast

Þá eru bara nokkrir tímar í rútuna góðu til Berlínar, og örfáir tímar þaðan í frá til sjálfrar borgarinnar. Þetta verður hressandi. Ég kem með skorpulifur til baka (ásamt fleiri sjúkdómum vonandi).

Að sjálfsögðu var seinasti dagurinn fyrir frí (þótt stutt sé) stressandi og hressandi og endaður á haug af uppsöfnuðum verkefnum sem ég verð að fresta til næstu viku. Engin leið að fara í frí öðruvísi, þótt stutt sé.

Aldrei þessu vant sendi ég grein á Moggann núna, og þá fyrst og fremst af því ég veit að afar mínir lesa hann spjaldanna á milli alla daga. Mikið er maður góður í sér. Sniðugt kerfi hjá Mogganum með greinaskil. Vonandi að það sé jafnskilvirkt og það lítur út fyrir að vera.

Eiturklár, duglegur, frumlegur og hress einstaklingur með háskólagráðu í íslensku og stjórnmálafræði og góð meðmæli frá öllum vinnustöðum er að leita að vinnu. Einhverjar hugmyndir?

Daði, við erum komnir með guide í Vilnius, Litháen, ef við förum þangað í haust. Hafðu það í huga.

Transformers - The Movie er betri í minningunni en í alvörunni. Hafið það í huga.

Þegar það tekur bara 20 mínútur að pakka þá hlýtur eitthvað mikilvægt að hafa gleymst. Tíminn leiðir í ljós hvað það er.

Tuesday, May 30, 2006

Fjárans sjaldbloggari eða hvað?

Ég er orðinn sjaldbloggari sýnist mér. Ég er líka orðinn sjald-greinaritari. Ég held að sumarfrí frá greinaskrifum sé líklega á döfinni. Blogginu skal ég samt halda við eftir getu og nenni og innblæstri, eða bloggunum réttara sagt [1|2].

Frjálshyggju-anarkista-stuttbuxnafólkið hætti við hitting í kvöld og það þykir mér mjög leitt. Frekar dæmigert fyrir seinustu daga samt: Ég vann ekki á uppstigningardag þrátt fyrir fögur fyrirheit. Ég vann ekki seinasta laugardag heldur. Ég komst ekki í fiskitúrinn með nokkrum vinnufélögum á sunnudaginn. Eirðarleysið og sveiflukennd plön virðast vera einkenni seinustu viku og rúmlega það. Á fimmtudaginn er samt Berlín. Eingöngu endalok alheimsins munu koma í veg fyrir það.

Mikið rosalega eru fasteignasamningar þykk skjöl. Mér er skapi næst að skrifa bara undir og sjá hvað gerist. Svei'attan að hafa ekki geta séð upphaflegt búsetuplan rætast. Fyrir 450,000 kr á fermeterinn virðast ýmsar dyr lokast þegar kemur að húsnæðiskaupum.

Reglulega birtast fréttir af gróðurhúsaáhrifunum títtnefndu í dönsku lestarblöðunum, og alltaf talað um þau eins og ekkert sé sannaðra og vitaðra en að maðurinn sé að hafa stórkostleg áhrif á loftslag jarðar, og engar gagnrýnisraddir við þá skoðun prentaðar. Hvað er málið?

Ég er með takkaskó-far á vinstri kálfa eftir vinnufótbolta dauðans. Verst að það er svo dauft að það hverfur líklega fljótlega. Ekkert kúl úr því að hafa.

Síminn minn ákvað að verða mállaus um helgina (vekjaraklukkan varð þá að síma að hristast á háværum undirfleti og öll símtöl urðu að "missed call") en fékk svo röddina aftur í dag. Hressandi.

Myndagetraun Dauðaspaðans hlýtur einfaldlega að vera unnin - af mér - núna. Annað væru stórkostlega óvæntar fréttir.

Maður má alveg vorkenni Dönum svolítið. Það er svo margt sem þeir telja sjálfum sér í trú um sem stenst ekki alveg skoðun. Til dæmis halda þeir að fjölgun opinberra starfsmanna sé, næstum því út af fyrir sig, eitthvað jákvætt og uppbyggilegt. Íslendingar hafa þó margir ef ekki flestir hóflegan skammt af tortryggni þegar báknið blæs út á kostnað einkaframtaksins.

Ég þarf að pissa.

Sunday, May 28, 2006

Tilvitnun dagsins

Er þetta ástæðan fyrir góðu gengi vinstriflokkanna í mesta góðæri Íslandssögunnar?
Það gæti því verið helsta skýringin á því hve [VG] vegnar vel í skoðanakönnunum um þessar mundir að allar breytingarnar á efnahagslífinu sem hann hefur barist gegn á undanförnum árum, einkavæðing, skattalækkanir og aukið viðskiptafrelsi, hafa skilað sér í aukinni velmegun.

Velmegunin er orðin svo mikil að menn telja sig jafnvel hafa efni á að kjósa vinstrigræna. (#)
Kannski það bara!

Friday, May 26, 2006

Ekki-fréttir

Núna ætla ég að opna örlítinn glugga inn í líf mitt og býst vitaskuld ekki við neinu öðru en rífandi viðbrögðum við því:

Í kvöld er sötur með Óla. Það þýðir víst ekkert að vera edrú þegar fröken Óla er í próflestri og stráknum er hent að heiman ef hann vill leika sér.

Á morgun ætla ég að REYNA ná nokkrum vinnutímum. Þeir verða þá bara fáir og í þynnkuástandi.

Á sunnudaginn er fiskitúr með vinnufélögum. Líklega verður sá túr tekinn í þynnku því Óli verður líka hress á morgun.

Á mánudaginn skoða ég íbúð eftir vinnudaginn, jafnframt því sem ég fylgi eftir kauptilboði sem ég er búinn að gera í aðra íbúð. Hik er tap segi ég, og þegar fermetraverðið er að dansa í kringum 400,000 íslenskar krónur þá er lítið annað að gera en grípa það sem virkar vel og stendur til boða.

Á þriðjudaginn, eftir vinnufótboltann, mun ég hýsa litla samkundu öfga-anarkista-frjálshyggju-fólks sem ætlar að hittast og ræða eina ágæta bók, skrifaða af Frakka á tíma sem Frakkar voru einhvers virði.

Á miðvikudaginn gef ég vinnufélögum mínum sætabrauð í tilefni af eins árs starfsafmæli mínu hjá fyrirtækinu.

Á fimmtudaginn held ég til Berlínar og verð þar fram á sunnudag. Tilhlökkun mikil og doktorsgráðan vonandi afleiðing þess ferðalags.

Fylgist með Fréttablaðinu fyrir mig, krúttin ykkar, og látið mig endilega vita af smettið á mér birtist á síðum þess. Þeir sem hata DV en elska að lesa það, eða hata að lesa það en lesa það samt, mega líka segja til ef ég sést á síðum þess blaðs. Ritstjórnin er í einhverju þagnabindindi sem er að verða óþolandi.

Fleira er ekki í ekki-fréttum.

Wednesday, May 24, 2006

Milli svefns og vöku

Af hverju eyða margir hreinræktaðir vinstrimenn svona miklu púðri í að kalla sig ópólitíska og óflokkanlega í pólitík? Þetta gildir að vísu um einhverja hægrimenn líka en er engu lagi líkt á sama plani meðal þeirra.

Mikil keyrsla þessa dagana. Tveir vinnudagar gufuðu upp á námskeiði, samviskan segir mér að mæta til vinnu á morgun en jafnframt að sötra bjór með Óla í kvöld, veðrið er allt að koma til sem leiðir oftar en ekki til blautra helga, á sunnudaginn er fiskitúr með vinnufélögum og í dag er barátta við létta þynnku og þónokkra þreytu eftir bjór og mat með vinnufélögum á kostnað vinnunnar í gærkvöldi.

Eftir rúman klukkutíma ætla ég að skoða íbúð. Ég á erfitt með að venjast tilhugsuninni um að kaupa rúma 25 fermetra á næstum milljón danskar en kannski hún komi þegar ég sé að ekkert annað er mögulegt. Mottóið: Staðsetning framar fermetrafjölda!

Kosningar nálgast á Íslandi og spennan er mikil í Reykjavík: Mun útsvarið hækka mikið á næstu árum, eða stjarnfræðilega mikið? Ég fylgist spenntur með!

Mér virðist ekki ætla ganga vel að hjól-væða mig, og virðist eiga fá að blæða vel fyrir þá viðleitni mína að vilja spara tíma og fé með hjólnotkun í stað labb-strætó-lest-strætó-labb. Eins og mér finnst gaman að hjóla þá finnst mér hjólreiðar hata mig furðumikið.

Yfirmaður minn er snillingur. Lokasvar.

Eftir örfáa daga skipti ég vonandi um hlutverk við doktorinn. Líkaminn er a.m.k. þannig stemmdur núna, og hugurinn er sammála.

Monday, May 22, 2006

Stóri kökudagurinn

Þungur dagur í Danmörku í dag. Skýjað, vottur af rigningu og allt frekar grátt útlits. Á móti kemur að hafsjór af sætabrauði er á boðstólnum í dag. Einn kom með köku því hann hafði farið í klippingu um helgina. Annar býður upp á köku seinnipartinn í dag því tannlæknirinn fann engar holur í morgun. Þriðja kakan er svo til að bæta upp fyrir lofaða köku á fundi fyrir 3 vikum í einum undirhópnum innan minnar deildar. Afsakanirnar til að borða sætabrauð verða sífellt léttvægari.

Dagar sem byrja á hressandi skilaboðum eru góðir dagar.

Sumir dagar skipuleggja sig bara sjálfir:
Samstarfsmaður: "Geir, ég er með örlítið verkefni hérna sem þarf að lesa yfir, vilt þú taka það?"
Geir: "Já, já, hvenær þarf ég að vera búinn?"
Samstarfsmaður: "Innan klukkutímans."

Þær geta verið skemmtilegar stjórnmálaumræðurnar hérna. Nú er enn ein "útjöfnunaraðgerðin" farin af stað í Danmörku. "Rík" sveitarfélög eiga að fá að blæða enn meira til "fátækra" sveitarfélaga en áður. Nokkrir samstarfsfélaganna búa í þessum "ríku" sveitarfélögum og hlakkar ekkert sérstaklega til að fá lofaðan aukaskatt ofan á það sem er lagt á fyrir. Þeir eru samt ekki á móti því af principp-ástæðum (að ríkið eigi ekki að standa í neinum jöfnunaraðgerðum), heldur af því þeir eru að verða fyrir blóðtökunni sjálfir. Ósköp skilur maður vel hversu auðvelt er að skattpína Danann þegar hann stendur á svona veikum hugmyndafræðilegum baráttugrundvelli gagnvart ríkisvaldinu.

Út að borða og drekka á kostnað vinnunnar á Tattúveruðu ekkjunni annað kvöld (staður sem bjórunnendur ættu að þekkja ágætlega). Ágætt að vera stundum meðlimur af ákveðinni gerð vinnumaurs. Þarf líklega að passa mig að fá mér ekki alltof marga bjóra alltof hratt því tveir af átta einstaklingum á svæðinu (ég meðtalinn) eru næsti og þarnæsti yfirmaður minn. Eða skiptir það máli?

Sunday, May 21, 2006

Sunnudagshugvekjan

Þá er hressandi grein um almenningssamgöngur komin á skrifborð ritstjórnar Fréttablaðsins. Ég hvet alla til að láta mig vita ef þeir rekast á smettið á mér á prenti. Ég nenni ómögulega að sækja dagblað á dag í tölvunni í leit að sjálfum mér og missi fyrir vikið af ýmislegu.

Sá samt auglýsingu frá Framsóknarflokknum áðan. Ég vissi alveg að það væri loforðafyllerí í gangi, en ExBé náði samt að slá mig út af laginu. Eru engin mörk á því hverju má lofa?!

Djamm með systur í gær var hressandi, sem lýsir sér í því að ég er ekki sá hressandi í dag. Núna er maður líka orðinn hjóleigandi (loksins?). Vonandi verður fáknum ekki stolið í þennan eina sólarhring sem ég er ekki með lykil að hjólageymslunni hérna. Það væri eftir öðru í mínum samskiptum við hjól í Danmörku.

Óþolandi fimmtudagur í þessari viku - uppstigningardagur! Verð að geyma hann fyrir verkefni sem ég get unnið án samstarfsmanna. Tók þannig vinnudag í gær og náði að gera meira á 5 tímum en á venjulegum 8-10 tíma degi.

Friday, May 19, 2006

Nútímalega risaeðlan

Ég er nútímaleg risaeðla. Risaeðla er ég af eftirfarandi ástæðum:
  • Ég fer á haugafyllerí þegar ég fer á fyllerí.
  • Ég segi brandara um konur, fólk af öðrum kynþætti og trúarhópa, svo eitthvað sé nefnt (hlæ yfirleitt mest sjálfur þegar ég segi þá).
  • Ég er í dæmigerðri karlagrein - verkfræði - og vinn á vinnustað þar sem karlmenn eru í miklum meirihluta, og fíla það!
  • Mér finnst fólk almennt ekki gera margt annað en væla, tuða og suða og kvarta yfir eigin vandamálum með því að skella skuldinni á aðra (mjög gamaldags hugsunarháttur).
  • Mér finnst húsverk og eldamennska vera ákaflega leiðinleg iðja (þó skárri þegar fleiri en ég munu borða máltíðina eða fleiri en ég deila húsrýminu).
  • Ég hef engan áhuga á því að koma fram í sjónvarpi eða tala um sjálfan mig, híbýlí mín eða persónu fyrir framan ókunnugt fólk (gríðarlega gamaldags hugsunarháttur).*
  • Mér finnst áfengi og ölvun vera jákvætt, og ég neyti tóbaks í óhóflegum mæli án þess að hirða um afleiðingarnar.
  • Ég grófflokka ókunnugt fólk grimmt, og nota staðalímyndir og fordóma óspart þar til viðkomandi einstaklingur sýnir fram á að annað gildi.
  • Mér finnst gaman að horfa á og spila fótbolta.
  • Tímarit með (meðal annars) nöktu eða hálfnöktu kvenfólki eru oftar en ekki skemmtileg tímarit.
Ég er nútímalegur af eftirfarandi ástæðum:
  • Mér þætti fínt að vera með kvenmanni sem þénaði meira en ég (liti raunar á það sem ákveðinn kost, en dreg aftur á móti í efa vilja minn til að vera í sambandi yfirleitt).
  • Ég er ekki einstæð móðir (gamaldags), en gæti vel hugsað mér að verða einstæður faðir (hlýtur að flokkast sem nútímalegt).
  • Ég er óttalega væminn stundum (nútímalegt), þótt ég flaggi því ekki mikið (gamaldags).
  • Mér finnst sumt vera "sætt", "krúttlegt" og "kósý" (þótt ég forðist að nota þessi orð eins og heitan eldinn).
Er ég þá ekki orðinn nútímaleg risaeðla? Já segjum það.

* "Ég hef engan áhuga á því að koma fram í sjónvarpi eða tala um sjálfan mig, híbýlí mín eða persónu fyrir framan ókunnugt fólk" Er ekki mótsögn hjá mér að skrifa á opna vefsíðu að ég hafi ekki gaman af því að fjalla um mig fyrir framan ókunnugt fólk? Jú, líklega er það svo, en ég tel mér í trú um að það nenni enginn ókunnugur að lesa þetta, og varla kunnugir, svo ég held að mótsögnin sé ekki svo svæsin.

Thursday, May 18, 2006

Örhugleiðingar í amstri dagsins

Ég held að Ísland komi til með að sakna DV. Hver á núna að segja slúðrið? Hvaða fjölmiðill á nú að vera á milli tannanna á fólki? Verða Séð og heyrt og Hér og nú að einu gulu pressu Íslands? Verður eina gula pressa Íslands glanstímarit með myndum af fræga og fallega fólkinu?

Ég hef reiðst yfir vinnubrögðum DV og ég held að enginn fjölmiðill hafi haft öflugra markaðsaðhald en DV (það öflugt að blaðið hefur nánast verið lagt niður), en ég mun sakna þess í hversdagsumræðunni. Allir lásu það þegar þeir gátu, og allir sögðust ekki lesa það. Fallegt.

Í mínu starfi vísa ég aldrei í neitt sem heitir löggjöf eða reglugerðir. Olíuiðnaðurinn er með sína eigin staðla og viðmiðunarreglur sem engin löggjöf gæti nokkurn tímann fangað. Í raun vinn ég í "anarkíu" - ríkislausu umhverfi hins alþjóðlega olíuvinnsluheims. Fyrir vikið eru líka gerða kröfur um bæði gæði og gróða, en ekki bara annaðhvort eða hvorugt.

Bankinn er tilbúinn að lána mér fyrir íbúð upp á allt að 1,2 milljónir danskra króna. Í Kaupmannahöfn þýðir það 30-35 fermetra einstaklingsíbúð (1 herbergi, líklega opið eldhús). Dýr djöfull en ég held ég verði að hlýða kallinu.

Ísland fékk óvænta heimsókn í dag.

Á ég að skella mér í heimsókn í skóla litlu systur á laugardaginn og taka Eurovision-partý með tvítugum unglingum? Systirin auðvitað búinn að siða mann til eftir seinustu heimsókn. Haukur, ég sakna partýanna okkar!

Systir er vel á minnst alveg gríðarlipur penni með skemmtilegan stíl. Hvernig væri að blasta hana með kommentum nú þegar síðan hennar fer brátt að renna sitt skeið á enda?

Einkahúmor á vinnustað er ótakmörkuð auðlind.

Mikil skrifstofugredda í mér í dag. Ég þarf að finna einhverja stúlku á vinnustaðnum sem er til í að hoppa í felur með manni þegar náttúran kallar.

Wednesday, May 17, 2006

Ringlaður

Það er naumast maður bloggar núorðið. Er orðinn sjóveikur á að glápa á tölustafafylltan skjá eftir aaaðeins of marga bjóra í gærkvöldi miðað við vikudag og daginn-eftir-skyldur. Lifi samt af og vonandi nógu lengi til að sjá úrslitaleik Meistaradeildarinnar í kvöld (yfir nokkrum bjórum).

Sum góðlátleg hrósyrði eru í rauninni argasta diss jafnvel þótt ekkert illt hafi verið meint með þeim. Á hinn bóginn eru mörg blóts- og dissyrði hið prýðilegasta hrós.

Ég er ekki frá því að ég geti kennt þessum Dönum í kringum mig eitt og annað. Þeir kunna núna að hella upp á kaffi á mettíma, hafa vit á því að hafa aukastól í nágrenni skrifborða sinna ef gest ber að garði, skrifa rétta ensku, setja upplýsingar fram á máli sem viðskiptavinurinn skilur, spara sér óendanlegt magn handavinnu í Excel með því að læra að fikta í macróum og Visual Basic, og svona má lengi telja. Allt þökk sé MÉR! (Kannski eru það örlitlar ýkjur, en ég á a.m.k. hlut í öllum þessum framfaraskrefum!)

Bankaviðtal nálgast. Spennandi!

Jess! Eða hvað?

Tuesday, May 16, 2006

Hamrandi... !

Hamrandi þreyttur! Samt svo ferskur. Blóðþyrstir piltar í fótbolta eru næring í æð. Öl með góðum piltum á eftir verður enn meiri næring í æð.

Rigning í Kaupmannahöfn í dag. Manni líður bara eins og á Íslandi fyrir utan skortinn á rokinu.

Örlagaríkt samtal við banka mun eiga sér stað á morgun. Eftir það verða ákvarðanir teknar og aðgerðum hrundið af stað.

Ég er að hugsa um að breyta þessu í blaðagrein og reyna að koma á prent fyrir kosningar. Ekki vanþörf á í geldri umræðu, a.m.k. eins og hún blasir við úr fjarlægð erlenda netnotandans. Öll gagnrýni velkomin fyrirfram.

Nú lítur út fyrir að ég verði kominn með tvö hjól til ráðstöfunar áður en þessi mánuðir er úti. Þetta mun létta líf mitt mikið. Verkföll, lestarkerfi sem má treysta jafnvel og vísindamönnum í loftslagsvísindum, strætókerfi sem tekst að vera alveg rétt mátulega óhentugt hvað vinnustaðinn varðar, verkföll, vélabilanir, bilanir í merkjakerfi, forföll vegna veðurs og annarra fyrirbæra og svona má lengi telja hafa rænt af mér ófáum klukkutímunum. Sökudólgurinn er auðvitað leti mín að verða mér úti um reiðhest, en sú tíð er senn á enda, sinnum tveir!

Voðalega eru Daði og Svenni lengi að melta. Ætli stærð maga sé áhrifavaldur?

Já...

Hún er ansi mögnuð.

Monday, May 15, 2006

Mánudagur til mæðu - bókstaflega!

Þessi vinnudagur byrjaði á því að mér var sagt að ég þyrfti að uppfæra verklýsingu fyrir verksmiðjuna okkar einn-tveir-og-þrír því nýjar upplýsingar hefðu borist frá kúnnanum og verksmiðjan væri í startholunum að byrja framleiðslu. Alltaf gaman að vera dembt inn í vinnuvikuna með þessum hætti. Stemmingin er a.m.k. með ágætum, af fleiri en einni ástæðu.

Núna gefst ég samt upp. Engin ástæða til að eyða klukkutíma í eitthvað núna sem kemur til með að taka 10 mínútur í fyrramálið. Þarf líka að tappa af mér hugmynd að grein og fleira skemmtilegt. Og lesa í Lögin eftir Bastiat. Maður er nefninlega kominn í leshóp í Baunaveldi. Anarkista-stuttbuxnastráka leshóp undir stjórn kvenmanns. Stuð.

Sunnudagshugvekjan

Löng helgi að baki og nokkur grömm af lifrarvef horfin (eða orðin skorpin). Engin tívólí-ferð samt. Sussumsvei.

Eitthvað lítið að frétta samt. Niðurtalning hafin fyrir
- Eurovision-helgina
- Kveðjudjamm með litlu systur
- Berlín
- Innflutning (í húsnæði sem er enn ófundið)
- Hróaskeldu
Læt það duga í bili. Seacrest out.

Friday, May 12, 2006

Örlítil stjórnmálatengd hugleiðing

Stúlka nokkur fékk frábæra hugmynd um "aktivisma" í Danmörku sem hún deildi með póstlista nokkrum sem ég er skráður á. Sagan er sú að Danir borga afnotagjöld til síns ríkisútvarps, -sjónvarps og -heimasíðu (sem núna á að byrja rukka af tölvu- og farsímaeigendum) og er svo sagt að þeir verði jú að borga fyrir það sem þeir eru að fá (sem sagt, aðgang að dagskrá ríkismiðlanna). En hver bað um aðganginn? Eiga að fylgja gíróseðlar með auglýsingaruslpóstinum því hann var jú afhentur og maður á að borga fyrir það sem maður fær? Þetta má benda fólki á og kannski búa til einhverja sniðuga herferð í kringum það (samanber þessi).

En úr því stjórnmál ber á góma þá eru nú miklar umræður um örlög hafarnarstofnsins í Danmörku þessa dagana, en hann er víst voðalega viðkvæmur og fámennur þótt hann hafi náð að rétta örlítið úr sér á seinustu árum. Hafernir hérna drepa sig reyndar með því að fljúga inn í dönsku sjávarvindmyllurnar en það er önnur saga.

Í Danmörku eru til lög um verndun stofna í útrýmingarhættu (eins og Íslendingar þekkja). Þau geta valdið því að ríkið þarf að loka heilu landflæmunum ef t.d. hafarnarpar tekur upp á því að verpa eggi innan ákveðins svæðis. Eignarréttur landeigenda er með öðrum orðum háður því að hafernir haldi sig fjarri. Í Bandaríkjunum kallast slík löggjöf "the three S's" - "shoot it, shuffle it and shut up", því hún veldur því að ef dýr í útrýmingarhættu kemur á land þitt þá er langbest að losa sig við það strax til að halda í eignarréttinn á landinu.

Danski haförninn þarf líklega að finna fyrir dýraverndunarlöggjöf eins og aðrir. Ætli að sé ástæða vindmyllusjálfsmorðanna?

Í öðrum fréttum: Óvenju viðráðanleg þynnka í dag sem þýðir bara eitt - drekka meira í kvöld!

Thursday, May 11, 2006

Stóri bænadagurinn

Á morgun er víst almennur frídagur í Danmörku, hinn svokallaði "store bededag" sem var komið á á sínum tíma í stað margra hálf-frídaga sem voru dreifðir yfir árið. Kóngurinn tók einfaldlega litlu hálf-frídagana saman í einn alvörufrídag og niðurstaðan er furðulegur frídagur sem þýðir í sjálfu sér ekkert, en er haldið við hefðarinnar vegna.

Þetta þýðir að sjálfsögðu fimmtudagsdjamm með Daða, Svenna, Óla og fleiri góðum einstaklingum. Gott mál í alla staði (ef vinnan og álagið þar er undanskilið, en fokkit).

Berlínar-túr 1.-4. júní er kominn á planið, greitt, staðfest og frágengið á öllum vígstöðvum. Tilhlökkun af fleiri en einni ástæðu það.

En, Streckers here I come!

Tuesday, May 09, 2006

Daði í Köben

Þá er hvíti hvalurinn lentur á danskri jörð og hreyfingar stjarnanna búnar að breyta um sporbauga til að aðlaga sig að því. Þetta þýðir að sjálfsögðu dagleg bjórdrykkja og erfiðir vinnudagar út vikuna og e.t.v. eitthvað í þeirri næstu. Bara jákvætt.

Á fimmtudaginn þarf ég að mæta í ljósri skyrtu í vinnunna til að einhver ljósmyndarabjáni geti tekið myndir af verkfræðinördunum fyrir einhvern bækling. Ég er búinn að hóta að mæta í Slipknot-bolnum góða (takk Soffía) eða Better Dead Than Red peysunni og uppskorið blendin viðbrögð. Sjáum hvað setur.

Vinnufótboltinn var góður og erfiður og ég er alveg útkeyrður. Hann var einmitt það sem ég þurfti. Geggjuð sól úti og blóðþorsti í mannskapnum og tilheyrandi bjórþorsti eftir á. Gút.

Sunday, May 07, 2006

Næturbloggið

Kvöldið og nóttin þróaðist örlítið öðruvísi en ég reiknaði með þegar ég vaknaði í dag. Miðarnir mínir á Radiohead-tónleika voru víst fyrir sunnudagstónleikana svo ég vona að Óli og Svenni hafi drukkið einn fyrir mig og hlegið að þursaskapnum. Hef það samt mér til málsbóta að það var uppselt á báða tónleika og ég keypti bara það fyrsta sem losnaði. Spurning hvað maður gerir svo á morgun.

Rólegar helgarnætur eru ágætar og ég sé ekkert eftir þessari. Hressandi ævintýri lauslega planað, lifrin spöruð fyrir Kaupmannadvöl Daða, kók þambað, vindlingar reyktir, einn og einn grínþáttur tekinn, downloads, MSN (því miður engin Beta á næturvakt samt), blogg, planað, rifist og skammast, hlýtt á fyrirlestra, en fyrst og fremst kyrrseta.

Maí verður líklega mánuður frétta, en júní að minnsta kosti. Nokkrir bankar verða tilbúnir með íbúðarlána-svör auk þess sem svoleiðis mál verða rædd við barbapabba og viðtal við atvinnurekandann verður vonandi til þess að breyta útgreiddum launum eitthvað.

Furðuleg launastefna samt hjá þessu liði sem felst í því að gera allt nema borga há laun til að halda manni ánægðum, t.d. dæla í mann allskyns fríðindum og niðurgreiðslum, bjóða upp á svo gott sem ókeypis mötuneyti, stór og feit heilbrigðs- og líftrygging, tvær stórar starfsmannahátíðir á ári með óendanlegu magni af mat og áfengi, verkefnahópafyllerí, deildafyllerí, ódýrt áfengi í föstudagskjallaranum, allskyns dót (vasareiknar, UBS-minnislyklar), og líklega er ég að gleyma einhverju. En hvað get ég svo gert við allt þetta áfengi og glingur í fasteignaleitinni? Ekki nokkurn skapaðan hlut.

Maður lætur sig samt hafa það sem býðst núna (með ákveðnum neðri mörkum samt). Ég væri jú ekki í sósíalistaríkinu Danmörku ef ég væri of launafókuseraður. Læt bara ódýran bjór og sígarettur vega þetta upp með því að veita þessum varningi veglegt pláss í útgjöldum mínum. Ísland tekur við einhvern tímann og "pakkinn" sem því fylgir (konan, barnið, bíllinn, íbúðin, skuldirnar, fjarvera frá djamminu, reykleysi, áfengisfóbía). Allt í sóma með það.

Lítur út fyrir að ætla verða sólríkur dagur í dag og kannski Tívolí með litlu systur. Hæsta hringekja heims hljómar eins og áskorun!

Thursday, May 04, 2006

Í lok vinnudags

Of mikill svefn gerir mann slappan. Of lítill svefn gerir mann dofinn. Svefn næturinnar, rétt rúmlega 6 tímar, hitti beint í mark hressleikans. Eða er það öðrum þáttum að þakka, svo sem hressleika í vinnufélögum, glampandi sól og hita, bjórtilhlökkun og því að á morgun er ferð á Nýhöfn beint eftir vinnu og teiti í mínum húsakynnum um kvöldið? (Reyndar haldið af Baldri sambýling en allir velkomnir segi ég!)

Ég kvíði mest fyrir því að þurfa fara út í jakka. Mun líklega neyðst til að halda á honum.

Í pólitíkinni er það helst í fréttum að það er ekki..
nútímalegt að neita alfarið að setja ribbaldakapítalismanum eðlilegar skorður á stjórnmálasviðinu. Það er gamaldags og forneskjulegt, já, og beinlínis háskalegt.
Líklega leiðir af þessu að það sé mjög nútímalegt að tala fyrir ríkisafskiptum af hinum frjálsa markaði. Vinstri = nútímalegt, hægri = gamaldags og háskalegt. Takk fyrir að benda á það, Ólafur Hannibalsson, nútímalegi.

Einn lélegur brandari fyrir fólk í námshugleiðingum:
Logic for beginners:
Knowledge is power
Power corrupts
Corruption is a crime
Crime does not pay
Therefore Knowledge does not pay. So why study? (#)

Wednesday, May 03, 2006

Myndablogg

Vegna fjölda áskorana (ehm..) kemur nú örlítið myndablogg. Allar myndir má stækka með því að smella á þær. Neðan við hverja mynd er örlítill texti sem útskýrir innihald hennar. Njótið vel!

Seinasta föstudagskvöld vogaði ég mér út úr húsi í minni yndislegu "Better Dead Than Read"-treyju. Ef minnið mitt bregst ekki (eftir 10 bjóra eða þar um bil) þá tel ég víst að kærasta Óla sé orðin ansi tortryggin á ríkisvaldið eftir hressandi spjall við anarkistastrákinn Geir.

Gallinn við litla "skrifborðið" mitt er stærð þess sem er ekki ýkja mikil og krefst þar af leiðandi tíðari hreingerninga en mörg önnur húsgögn mín. Heimilislegt er það samt, þótt ég segi sjálfur frá.

Þrátt fyrir háa elli er ég ekki ennþá búinn að komast að niðurstöðu um hvaða skeggvöxt ég kann best við. Framsóknarleiðin er reyndar viðeigandi hvað það varðar: Að vilja halda en samt sleppa. Að vilja bæði eiga kökuna og borða. Ég tók samt stóra skrefið núna: Frá alskeggi og til þess minnsta sem (hár)rakvélin mín bíður upp á. Léttir og söknuður á sama tíma.

Vinnuaðstaðan mín. Óvenjuhreint svæði miðað við hvað ég umgengst það mikið, en fyrir því eru tvær ástæður: Hreinn og klár ótti við að gleyma, týna og tapa hlutum og verkefnum sem koma niður á vinnunni, og dagleg þrif hreingerningarfólks.

Litla systir dvelur í Danmörku þessa mánuðina og drekkur, djammar og dansar í lýðháskóla norðan við Kaupmannahöfn á milli þess sem hún drekkur, djammar og djúsar í sjálfri borginni með bróður sínum, skólafélögum eða vinkonum í heimsókn. Ég mun sjá á eftir henni þegar hún yfirgefur Baunaland í lok maí, en á móti kemur að mér líður ágætlega að vita af henni og Daða í sitthvoru landinu.

Tilvitnun dagsins er einmitt í boði systur minnar (úr MSN-samtali): "eg kem til koben a fostudag med tinnu ... eg læt kannski heyra i mer ...en thu ert heppin[n]"

Líkur hér með myndablogginu. Þau verða kannski fleiri ef gvuð og nenna lofar.

Tuesday, May 02, 2006

Ísland 11.-25. ágúst

Þá er sumarfríið á Klakanum bókað: 11.-25. ágúst.
Planið enn sem komið er: Brúðkaup hjá frænku, Ölympics og Menningarnótt í Reykjavík. Fleiri viðburðir og hittingar mjög velkomnir því ég kann engan veginn að vera í svona löngu fríi.

Grein-dur!

Ég í Fréttablaði dagsins kæra fólk. Blaðamenn virðast ekki skilja mig þegar ég segi: EYDDU ÚT ÖLLUM MYNDUM AF MÉR SEM ÞÚ ÁTT Í DAG, OG SETTU MEÐFYLGJANDI MYND(IR) INN Í GAGNAGRUNN BLAÐS ÞÍNS Í STAÐINN. Ekki laust við að það fari örlítið í taugarnar á mér.

Vinnufótbolti eftir 10 mínútur og öll einbeiting fyrir löngu á brott.

Nú, 5 mínútum og engu vinnuframlagi seinna, er alveg ljóst að einbeitingin er á brott. Út og yfir!

Monday, May 01, 2006

Ólgandi 1. maí

Óhætt að segja að dagurinn í dag sé ólíkur mörgum öðrum mánudögum. Vitaskuld 1. maí-stemming sem aldrei fyrr. Stutt yfirlit frá hinu alþjóðlega og til þess persónulega:

Vinstrimenn stunda eignaspjöll víða um heim eins og þeim er einum lagið.

Skatttekjum hellt í vinkonur borgarstjóra svona rétt á meðan hún hangir í embætti.

Dulítil skýrsla gefin út af Frjálshyggjufélaginu sem bendir á margt sem lítið fer fyrir í loforðafylleríi sveitarstjórnarkosninga.

Ég fagnaði deginum með því að fara í slagorðamerktum bol í vinnuna og viðbrögðin voru blendin en ekki neikvæð: Einn sem ég taldi víst að væri sósíalisti sagðist hafa átt veggspjald með sama slagorði á sínum "yngri" árum. Annar sagðist halda að þessi frídagur þýddi ekkert annað en ofurölvun í Fælledparken (frekar stórt opið svæði í Kaupmannahöfn). Annars enginn frídagur hjá mínu fyrirtæki enda lítill tími til slíks á meðan lögin skikka mann ekki til að sitja heima - olían þarf jú að streyma svo fólk komist í kröfugöngurnar!

Til hamingju með 1. maí!

Sykursæt vika

Vissara að bursta tennurnar vel í þessari viku. Tveir í deild minni búnir að vera hér í 3 mánuði í þessari viku sem þýðir að annar gaf sætabrauð í dag og hinn gefur á morgun. Yfirmaðurinn snýr aftur frá fríi/lokaverkefnisskrifum á miðvikudag sem hlýtur að þýða að hann gefur sætabrauð. Á fimmtudaginn er kaka í mötuneytinu og á föstudaginn fagnar einn því að hafa verið hér í eitt ár. Skemmtileg hefð þetta verð ég að játa.