Sunday, August 24, 2008

Svefn er sæla

Sunnudagur til silfurs, er það ekki eitthvað sem má segja núna? Ekki hefur íslenska landsliðinu í handbolta vantað athyglina hérna í Danmörku og einn vinnufélagi skrifaði til mín í morgun, "Har spillet en formue på Island", átsj!

En svo ég reki skrefin aftur á bak í gegnum seinustu vikur;
- Sommarfest í vinnunni á föstudag var stórkostlega skemmtileg. Ég sagði eitt eða tvennt vandræðalegt við hina og þessa og fékk að heyra ekki færri vandræðaleg ummæli frá vinnufélögum (þar á meðal fjármálastjóranum sem var svolítið krípí). Vinnudjömm á mínum vinnustað klikka hreinlega ekki!
- Náði svo gott sem eðlilegri vinnuviku með 45 vinnutímum sem að mestu fóru í að undirbúa næsta þriðjudag (fundur í Noregi, ullabjakk).
- Seinasta helgi var löng og ljómandi góð með góðu fólki í borginni. Horfðum á Ísland gera jafntefli við Dani sem var svo ágætt á þéttsetnum O'Learys-bar og hverju einasta marki var fagnað (Danir og Íslendingar á svæðinu í nokkurn veginn sama fjölda). Djamm og þynnka og allt saman gott mál.
- Þarseinastu viku var meira og minna eytt í Noregi að fylgjast með örlitlu krísu-verkefni í vinnunni. Enginn minna yfirmanna kom með svo ég var því maðurINN sem sagði já og nei og gaf fyrirmæli og deildi út verkefnum. Það venst alveg ágætlega!

Ekki vantar ævintýrin framundan. Ég þarf að klára smá Noregs-ferð og þá er kominn miðvikudagur. Ég veit satt að segja ekki hvort ég komist til Íslands um næstu helgi sem mig langar samt svo einlæglega til. Búið að bjóða mér í þrítugsafmæli í byrjun september sem mig langar líka alveg rosalega til að komast í. Systa, brósi og mútta verða í Kaupmannahöfn alla aðra viku september og þá er létt að forgangsraða tíma sínum. Mikið og margt að gera og sem er hægt að gera en erfitt að taka skrefin af ýmsum ástæðum. Úff!

Annars lítur út fyrir að ég eigi núna framundan hinn rólegasta sunnudag án þynnku eða þreytu. Ljómandi, og verða það lokaorðin í bili.

Saturday, August 09, 2008

Ólafsvaka var æðisleg

Núna er ég að mestu búinn að endurheimta fulla heilastarfsemi eftir ofsalega Ólafsvöku. Á ég myndir? Nei ekki ennþá. Myndavélasnúran mín týnd og mér bent á að kaupa snúru sem var svo ekki rétt og ég því á byrjunarreit aftur.

Vinnuvikan var góð og afslappandi á sinn stressandi hátt. Á mánudaginn flytur fyrirtækið í nýja byggingu og sá dagur fer því sennilega í að leita að snúrum. Á mánudagskvöldið fer ég til Noregs á vegum vinnunnar og mun því búa á hóteli í næstu viku (í 2-4 daga, óvíst enn).

Noregur - París - Litháen - Ísland - París - Ísland - Færeyjar - Noregur - ...

Já millilandaflakkið orðið töluvert í ár og ennþá nóg eftir!

Hef annars ekki mikið í fréttahorninu. Hvernig eruð þið að fara með ykkur?