Wednesday, November 29, 2006

Pólitísk hugleiðing

Þessi færsla er hrein pólitík með örlitlu persónulegu ívafi. Hún gæti samt snert taugar hjá þeim sem vilja ekkert af pólitík vita.

Í byrjun næsta apríl verða reykingar bannaðar á öllum "opinberum" stöðum í Danmörku - veitingahúsum, börum (yfir 40 fermetrum), skemmtistöðum og svo framvegis. Þó verður leyft að koma upp sérstökum reykherbergjum en það var málamiðlun sem verður líklega afnumin innan fárra ára.

Á Íslandi munu svipuð lög taka gildi rétt eftir næstu Alþingiskosningar og Ísland þar með komið í hóp með löndum eins og Noregi, Írlandi, Svíþjóð og Skotlandi hvað þetta varðar.

Ég er á báðum áttum varðandi þessa löggjöf. Ég hef ekkert á móti því að dvelja á stöðum sem leyfa ekki reykingar - ég fer í bíó, á bókasöfn, vinn á reyklausri skrifstofu og sit í strætó. Ég var í Noregi um daginn og fór út á lífið og fannst ekki eins og líf mitt hefði verið eyðilagt með reykleysinu innandyra (reyndar var mjög þægilegt að fara út að reykja - margir staðir með tjöld utan við útidyrnar, nóg af öskubökkum þar og hitalampar til að ylja manni).

Það sem fer í taugarnar á mér er vanmáttur reykleysingja til að gera rekstraraðilum skemmtistaða það ljóst að reykleysi mun draga þá og seðlaveski þeirra að, og séu reykingar leyfðar þá muni þeir halda sig fjarri, eða a.m.k. ekki dvelja eins lengi. Sjálfur reykingamaðurinn ég læt alveg eiga sig að fara inn á suma staði sökum reykingamökks - ég þarf mitt súrefni!

Þessi vanmáttur langstærsta hluta neytenda - þeirra reyklausu - er sennilega hægt að útskýra af eftirfarandi ástæðum: Ríkið á að græja málin, reykmökkur í ölvunarástandi ónáðar ekki fyrr en daginn eftir í þynnkunni þegar föt og hár lykta af tjöru og nikótíni, reykingar eru svo sjálfsagður hlutur í ýmsu umhverfi að það tekur því ekki að malda í móinn fyrr en viðkomandi er kominn heim og getur skrifað reiðigreinar í blöðin, og, að sjálfsögðu, reykingafólk er svo skemmtilegt að fjarvera þess gerir stað hreinlega leiðinlegan!

Reynslan af lögboðnu reykingabanni er ekki svo slæm fyrir rekstraraðila skemmtistaða og veitingahúsa. Sagan segir að í upphafi haldi reykingamenn sig fjarri en reyklaust fólk streymir að. Smátt og smátt lætur reykingafólkið svo sjá sig aftur og venur sig hreinlega á að fara út til að kveikja sér í einni. En hvers konar lexíu á að draga af þessu? Að almenningur muni ekki passa upp á heilsu sína og virða aðra fyrr en hermenn mæta á staðinn og skikka alla til að fara í gymmið og sitja námskeið í kurteisi? Að fólk sé sauðfé áður en hirðirinn mætir til að reka það á og af fjalli? Mér sýnist það.

Lögbann á reykingar á almannafæri innandyra mun líklega ekki hafa neikvæð áhrif á mig. Ég mun kveikja mér í færri sígarettum, spara pening, bæta heilsuna og menga loftið minna (þar til viðrekstur verður bannaður líka). En þrátt fyrir allt þetta praktíska þá finnst mér réttlætið vera fótum troðið með löggjöf sem þessari (einkaeigendur húsnæðis í einkaeigu fá fyrirmæli um hvað þeir mega, leyfa og gera á sinni einkaeign) og af þeirri tilfinningu verður varla hægt að fá mig. Ef hermaður mætti heim til mín daglega til að segja mér að stunda æfingar á eigin gólfi, mér til hagsbóta, þá myndi það leiða til sömu tilfinningar, þótt niðurstaðan yrði heilbrigðari líkami og það allt.

Ég er þó fyrst og fremst illa svekktur - svekktur yfir því að neytendur skuli ekki geta sagt skoðun sína og þar með búið til framboð eftir viðskiptum þeirra. Þetta vald neytandans - almennings - er nákvæmlega það sem hefur tryggt mikið, öruggt og snöggt framboð af góðum varningi og góðri þjónustu. Ef þetta vald er nú sett í hendur stjórnmálamanna er hættan sú að tregðan á markaðinum verði aukin gríðarlega. Fórn af því tagi mun leiða til miklu verri afleiðinga en óhreins lofts á skemmtistöðum, á meðan beðið er eftir löggjöf til að græja málin. Stjórnmálamenn rífast miklu meira innbyrðis en eigendur Vegamóta og Kaffi Súfus hafa nokkurn tímann eytt púðri í, þótt reykingapólitík þeirra sé gjörólík.

Reykingabannið er ekki endilega neikvætt í sjálfu sé. Tilurð þess er mér samt gríðarlega á móti skapi.

Tuesday, November 28, 2006

Andlaus en eigi óhress

Eitthvað innblástursleysi að hrjá mig á þessari síðu þessar vikurnar en ég geri tilraun til að blaðra út í eitt og vona að eitthvað læsilegt komi út úr því.

Vinnan er gríðarhressandi þessa dagana og í sjálfu sér engin sérstök ástæða fyrir því. Verkefni sem hafa hangið yfir mér í marga mánuði virðast vera nálgast endalok sín, julefrokost í næstu viku hefur kynt í góðri stemmingu meðal samtarfsfólksins og veðrið er ánægjulega laust við rigningu og rok (en ekki alveg við kulda). Þegar allt þetta kemur saman er góður andi í liðinu.

Glitnir er einhvers konar fávitabanki að mér finnst. Ég mun a.m.k. ekki þora í viðskipti við þá. Þá er það skjalfest. (Ég segi þetta þrátt fyrir að ákveðnar auglýsingar frá Glitni herja nú á landsmenn, en ekki vegna þess!)

Endurupptaka á greinaskriftum hefur lengi verið á döfinni en ég virðist eiga voðalega erfitt með að komast í gang eftir margra mánaða hlé (að örfáum smápistlum undanskildum). Mörg uppköst hafa fæðst en ekkert náð að komast alla leið í þónokkurn tíma. Kannski er ástæðan sú að margir virðast vera tilbúnir að ræða við mig beint um það sem ég fylli venjulega greinar af (sem er tiltölulega nýtt) og þannig fjarlægt þorsta minn til að predika fagnaðarerindi mitt meðal ókunnugra. Skrýtið að mér finnst og ekki eitthvað sem ég hefði búist við. Kannski vantar mig bara sjálfboðaliða úr rauða hernum (í alhæfingarskilningi mínum á þeim her) til að lesa yfir það sem ég er að berja saman og reyna drepa skriftir mínar áður en þær fæðast á prenti. Hver er til? Af nægu er að taka!

Framundan er gríðarhressandi helgi. Strætófyrirsæta Íslands og frú koma til Köben og á döfinni er almennt svínarí, Tívolí, glögg og enn meira svínarí. Barbarnir eru vonandi hressir líka og ákveðinn Óskarsson lætur vonandi sjá sig. Ég get ekki annað en hlakkað til!

Óáhugaverð staðreynd dagsins um sjálfan mig: Á morgun verða föt þvegin!

Djöfull get ég stundum hljómað málhaltur í dönsku ritmáli. Sem betur fer er mér alveg nákvæmlega sama hvað Baunum finnst um mína perka-íslensku. Annars mundi ég ekki skrifa orð á hrognamálinu þeirra.

Mmmmmmmmmm.... Jenna Jameson.

Second Life er alveg magnað kvikindi (að ég held). Ég hef ekki prófað það (ennþá) en lesið örfréttir um það sem birtast í einu dagblaða Kaupmannahafnar. Ein þeirra segir meðal annars frá tilraun sem varð gerð til að leggja skatt á "íbúa" þessa heims, sem aftur var mætt með harðri mótspyrnu og endaði með því að engin skattlagning tókst. Félagsfræðileg tilraun á heimsmælikvarða! Sennilega fyrsta skattauppreisn Vesturlandabúa síðan þeir voru skildir eftir í húsarústunum eftir stærstu styrjöld ríkisstjórna heimsins fyrr og síðar, Seinni heimstyrjöldina. Ég ætla skrá mig og prófa. Núna.

Úff meira vesenið að skrá sig í þetta en hafðist. Efast samt um að ég endist við að spila þetta. Það, eða ég verð forfallinn fíkill. Svoleiðis er það yfirleitt með mig. Væri samt til í eina skattauppreisn eða svo.

Ákveðinn vinnuþjarkur kemur mér til hugar núna. Gangi þér vel að berjast og þetta reddast! Við vitum það alveg.

Monday, November 27, 2006

Sunnudagshugleiðingin

Þá er komið sunnudagskvöld og þótt fátt sé að frétta er ýmislegt að hræra í hausnum á manni.

Ég fékk að gera nokkuð sem ég vonaðist til að fá að gera en vænti mótstöðu gegn. Vonandi að ég nýtist til einhvers en það kemur í ljós á næstu dögum.

Fótbolti með Börbunum var hressandi þótt niðurstaðan hafi ekki verið alveg sú besta að þeirra mati. O'Learys er svo ágætur staður.

Ég eyddi u.þ.b. hálftíma í vinnunni í dag sem verða að miklu fleiri klukkutímum í sparnaði á vinnu en ég get séð fyrir. Húrra fyrir því framtaki! Að öðru leyti fór helgin að mestu leyti í drepa uppsafnaða svefnþörf. Fögur fyrirheit breytast því í ófögur svik.

Tölvan mín er byrjuð að sína ellimerki, strax! Svei því.

Næsta helgi mun líklega verða harður pakki. Nöfn eins og Burkni og Eiki steik standa upp úr. Smáatriðin eiga enn eftir að koma í ljós, en þau verða vonandi öll framkvæmd með áfengi í blóði, eða adrenalín, eða hvoru tveggja.

Síðan hvenær telst alveg rosalega kynæsandi og kynþokkafull mannesakja ekki með? Er ég að misskilja eitthvað?

Ég er engu nær um hvenær Tívolíkortið mitt rennur út. Dugir þó yfir jólin komst ég að. Had to be there moment.

Ákveðin sendiherradóttir er sjaldséð eintak um þessar mundir. Ég stefni að því að bæta úr því.

Ákveðið bað má mjög gjarnan enda fljótlega!

Þá vitum við það: Fyrrverandi formaður Heimdallar á best heima í Samfylkingunni og þar með vera úr myndinni sem einhver sem einhver tekur mark á.

Baðið endaði. Húrra fyrir því!

Ég held ég sé kominn með ágæta stjórn á vinnufélögunum núna. Þeir sem höfðu hátt áður eru byrjaðir að þegja og aðrir byrjaðir hlýða. Örfáir gemlingar eftir en ég græja þá með tíð og tíma.

Nýji James Bond lítur ágætlega út í stolnu útgáfunni sem ég var að fá í hús. Ég held ég sjái samt myndina á breiðtjaldi fyrst áður en ég sé hana á mínum litla tölvuskjá. Góðar myndir eiga skilið góða umgjörð. Hið andstæða gildir um lélegar myndir.

Númer Eika hér með skjalfest og nóttin hrópar á svefn. Yfir og út.

Wednesday, November 22, 2006

Nóvemberannáll

Nóvember er mánuður sem ég gleymi seint, meðal annars þökk sé nóvemberannálnum sem núna verður skjalfestur.

Í dag er ég einn heima í fyrsta skipti í að verða tvær vikur í einn af fáum dögum í þessum mánuði.

Gestagangurinn hófst með Elísabetu í byrjun mánaðarins þar sem hún millilenti í Kaupmannahöfn á leið sinni til Sviss. Stúlkuna hafði ég ekki séð í einrúmi í töluverðan tíma, gott ef ekki síðan samstarfssumar okkar hjá Orkuveitunni endaði fyrir mörgum árum. Hún kom færandi hendi með áfengi og tóbak, keypti hálfa H&M og var í alla staði hress og frábær. Henni ætla ég ekki að týna í mannhafinu.

Daginn eftir mætir Fjóla í bæinn, sumarklædd og með rauða ferðatösku. Ekki amalegt að fá að hýsa tvær fallegar kvenverur sömu nóttina og rumska við þær masa saman daginn eftir.

Túristarúnturinn var tekinn af mikilli afslöppun og í miklum rólegheitum og honum vil ég ekki gleyma. Fjólu fékk ég að draga í bæinn til að hitta Barbana og drekka marga bjóra og var mikið fjör. Í fyrsta sinn sá ég manneskju fá tiltal frá löggunni fyrir að í fyrsta lagi hjóla ljóslaus, í öðru lagi hjóla sikksakkandi á miðri götu og í þriðja lagi hjóla sikksakkandi fyrir löggubíl sem var að koma úr gagnstæðri átt.

Mjög ágæt helgi sem endaði með Afríkufjör Fjólu.

Móðir mín lendir svo á fimmtudeginum. Hún er svo afskaplega ágæt og alveg miklu meira en það. Þrátt fyrir mótmæli mín var hún staðráðin í að kaupa eitthvað í búið handa mér (í nafni afmælisgjafa) og fann upp á helling af hlutum sem mig vantaði án þess að ég vissi það fyrirfram. Bjórar voru drukknir heima og að heiman, jazztónleikar sóttir og mikið spjallað og ég þakka henni kærlega fyrir heimsóknina! Megi hún móðir mín komast sem oftast til mín og/eða ég til hennar.

Á mánudeginum flýg ég til Noregs og er þar í fjóra daga til að sitja námskeið á vegum vinnunnar (eða þannig séð). Minning þess tíma pakkast saman í örfáa frasa (og slæmra minninga um verðlag Stavanger, Noregi): Offshore! Halvtreds tusind tons! Offshore! Josh!

Skömmu eftir lendingu og heimkomu á fimmtudeginum mæta Barbarnir heim til mín (ég skulda þér ennþá fyrir hrekkinn Daði!). Ekki er hægt að segja annað en þeir hafi komið færandi hendi og nokkrir bjórar strax komnir niður þegar Sverrir mætir á staðinn, beint frá Kastrup. Drykkja og gleði og La Fontaine allt þar til ég eyðilagði skemmtunina með því að draga mig (og um leið Sverri) úr leik til að freista þess að ná nokkrum vinnutímum daginn eftir.

Eftir stuttan vinnudag á föstudaginn tekur við bæjarrölt með Sverri og svo stutt heimkoma til að koma fyrir verslunarafrakstri hans. Síðan var haldið á Kastrup til að taka á móti Aggú og Örvari. Aggú heldur á aðrar slóðir það kvöld en ánægjulegt kofafyllerí var þó haldið heima hjá mér. Afganginn af kvöldinu ræði ég ekki.

Laugardagurinn var svo vitaskuld enn meira sötur og jafnvel enn skemmtilegri bær. Nöfn eins og Signe og Kolla á Lergravsparken eru enn í fersku minni (á alveg fullkomlega alklæddan og siðprúðan hátt).

Mönnum eins og Ingimar og Börbunum þakka ég kærlega fyrir helgina.

Á sunnudeginum er piltum fylgt á flugvöllinn og við tekur þynnka og annað sem fylgir stífum pakka.

Á mánudeginum kemur Fjóla aftur heim frá Afríku og fór svo í morgun. Hún á skilið skammir fyrir það hvernig hún skildi íbúðina mína eftir sig! Allt uppvaskað og raðað og umslag hér og miði þar og hausinn á mér í tómu tjóni þótt íbúðin sé í toppstandi! Já, þú veist að þú mátt ekki gera svona lagað, Íslendingur!

Lýkur þar með nóvemberannál.

Sunday, November 19, 2006

Þynnkuskitan að baki

Þá er nú liðinn alveg skelfilega langur tími síðan seinasta færsla var sett hingað og það er auðvitað alveg óásættanlegt.

Noregur var ljúfur. Atvinnurekandinn samt að eyða alltof miklu miðað við það sem hann fær til baka. Norskur bjór er dýr en norskar stelpur eru yndi. Nammi hreinlega.

Örvar, Sverrir og Aggú eru núna í loftinu á leið til Íslands. Þeir eru það fallegasta og besta í heimi. Ég þakka þeim kærlega fyrir tímann okkar saman!

Fjólan kemur á morgun. Ég hlakka til þótt tíminn sé skammur og hasarinn mikill.

Ef ég væri atvinnurekandi minn þá mundi ég veita mér tiltal fyrir viðveruóstöðugleika og léleg afköst á seinustu 2 vikum, en sem betur fer er ég ekki atvinnurekandi minn.

Leggja sig núna og vera hress í kvöld eða harka af mér þynnkuna og fara snemma að sofa? Við sjáum til...

Sunday, November 12, 2006

Noregur kallar

Þá er móðurhelginni alveg að ljúka og eftir sitja lifrarskemmdir vegna kaffi- og öldrykkju á víxl í að verða þrjá sólarhringa. Ljómandi. Engin leið að ætla sér að borga neitt með móður sína með sér í verslunum og alls kyns hlutir hafa nú ratað inn á heimilið: Hnífasett (sem þýðir að Daði getur líklega ekki komið í heimsókn aftur), pottur, Reyka-vodki, íslenski fáninn á litlum stalli og allskyns hlutir sem ekki hafa verið hér áður. Íbúðin líka töluvert hreinni eftir tilkomu mömmu og borðplötur og hreinlega heilu borðin að láta sjá sig í fyrsta skipti síðan ég flutti inn.

Á morgun er vinnuferð til Noregs. Flugmiðar, hótel og annað komið á sinn stað og við tekur þétt dagskrá frá mánudegi til fimmtudags. Síminn minn verður líklega sambandslaus og ekki ætlar fyrirtækjasíminn að ná sambandi við dreifikerfi Sonofon þannig að tölvupóstur verður líklega það eina sem ég sé á milli öldrykkju og fyrirlestrarsetu. Þá veit alþjóð það.

Mál málanna virðist vera gott gengi Árna Johnsen í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins. Hann stal fé og fékk dóm fyrir það á meðan aðrir stjórnmálamenn stela fé en fá ekki dóm. Ég fæ samt vont bragð í munninn við að hugsa til þess að hann setjist aftur á Alþingi. Þeir sem stela fé löglega eru a.m.k. að stela því löglega. Ólöglegur þjófnaður er ekki réttlátari en má afsaka því þingmenn halda að þeir séu að gera eitthvað rétt og siðlegt (en eru ekki).

Næsta helgi er þéttpökkuð svo ekki sé meira sagt og fjörið byrjar á fimmtudagskvöldið. Á ég að halda (innflutnings)teiti fyrir útvalda? Eitthvað þarf að gera við allt þetta tópas- og opal-áfengi sem safnar ryki í hillunni minni.

Thursday, November 09, 2006

Móðirin kemur

Þá eru bara 18 tímar eða svo í hana móður mína. Helgin fer í allt sem tilheyrir móðurheimsókn; kaffihús, öldrykkja, spjall og rölt. Ekkert stress, engin sérstök plön og eintóm "hygge". Ég hlakka til.

Noregsvinnuferðin komst í mikið uppnám í dag. Ég komst að því að það átti að senda okkur af stað rétt eftir hádegi á sunnudeginum sem er skelfing (mér var í upphafi tjáð að ég væri að fara á "frá mánudegi til fimmtudags"). Ég bað því um láta að draga mig út úr dæminu nema ég fengi fluginu breytt til mánudagsmorguns og kemst að því á morgun hvernig það fer. Glætan að ég ætli að hanga á norsku kaffihúsi á sunnudegi þegar ég get verið að spjalla við hana móður mína á dönsku kaffihúsi. Svo illa uppalinn er ég ekki.

Ég lýsi yfir miklum vonbrigðum með sjálfan mig eftir vinnudag dagsins. Eins einfalt og þursahelt og Visual Basic getur oft verið þá getur það líka verið algjörlega yfir minn skilning hafið. Bless bless sex klukkutímar í dag.

Note to self: Vera alltaf með lágmarksframfærslu af reiðufé í vasanum. Danskt kortakerfi virkar engu betur en danskt lestarkerfi.

Burknur hafa boðað komu sína til Köben fyrstu helgina í desember og það vekur upp mikla tilhlökkun enda er þetta með eindæmum hressandi félagsskapur, þessi hjú. Þau eru að ég held einu hjónin sem ég þekki sem eiga ekki að sækja um skilnað hið fyrsta.

Mér tókst að lauma inn örlítilli frjálshyggju (á íslenskan mælikvarða) inn í félagsfræðiritgerð ónefnds háskólanema. Ekki spurja mig hvernig.

Ljón hafa gott bragðskyn. Því miður, fyrir suma ferðalanga.

Voðalega hressist MSNið við þegar ég er byrjaður að hugleiða svefn undir hlýrri sæng. Sem betur fer eru verkefni vinnudagsins á morgun frekar heilalaus (að einu undanskildu) svo fórnin við að eiga mannleg samskipti umfram eiturhressan morgundag er lítil.

Ég bít mig alltaf í tunguna þegar ég sýg sjálfan mig inn í umræðu sem endar líklega aldrei þannig að báðir aðilar geti fundið sameiginlegan flöt.

Af hverju finnst mér þetta vera skemmtilegt áhorfs?

Veðurfar Köben er tvískipt um þessar mundir: Heiðskýrt, logn og ííííískalt, eða rigning, rok og hlýtt. Maður saknar næstum því Íslands á haustin/vorin/sumrin/veturnar í seinna tilvikinu!

Talandi um veður, ég þekki myndarlegasta veðurfréttamann Íslandssögunnar. Húrra fyrir því!

Að banna fíkniefni er eins og að gefa mafíósa þróunaraðstoð til að fullkomna verklag sitt.

Mikið hlýtur að vera þægilegt að vera í stjórnarandstöðu. Fyrst er að styðja á-þeim-tíma-vinsælt málefni og hljóta hrós fyrir. Þegar deilur byrja að blossa upp vegna þess, og þegar árangur lætur á sér standa, þá er manni í lófa lagt að skipta um skoðun og vera þá sá sem hefur "rétt" fyrir sér á meðan sitjandi stjórnvöld súpa seyðið af upphaflegu ákvörðuninni.

Lítil tilvitnun, bara fyrir mig: "Now the unhappy libertarian voters are threatening Republican congressional seats in the Mountain West. Republicans will warn about the high taxes voters can expect from a Democratic Congress, and that will keep some libertarian voters in the GOP camp. But war, corruption, overspending, and an excess of social conservatism will cause many others to stay home or vote Democratic."

En ætli það sé ekki kominn háttatími núna og rúmlega það.

Monday, November 06, 2006

Langblogg á løngum degi

Þá fylltust næstu tvær vikur upp á einu bretti. Oft er mikið að gera en nú er það mjög mikið!

Ég þarf að ná öllum vinnutímum vikunnar fyrir fimmtudaginn kl 17:30 (og helst meira ef síbreytilegur verkefnabunkinn er jafntímafrekur og hann er hár). Þannig fæ ég að sleppa vinnu á föstudaginn án þess að stjóri geti sagt nokkurn skapaðan hlut (að hans sögn). Á fimmtudagskvöldið tek ég á móti móður minni í Köben og helgin skipulögð út frá því. Á mánudaginn fer ég til Noregs á fjögurra daga vinnutengt námskeið. Líklega bíður mín vænn stafli af verkefnum eftir það sem ég þarf að dreifa yfir helgina þar á eftir og fram á fimmtudag vikunnar eftir þegar strákarnir mínir byrja að streyma til Köben til að eyða helginni hér. Törnin er hafin og endar mánudaginn 27. nóvember með hressandi "venjulegum" mánudagsmorgni í vinnunni.

Þetta verður hressandi rússíbanareið, erfið og skemmtileg á sama tíma, og félagsskapurinn tilvonandi er ekki til að keppa við!

Lýsi í leiðinni eftir Burkna og konu til Köben fyrstu helgina í desember og Stebba og konu aðra helgina í desember.

Í gærkvöldi var rykið dustað af greinaskriftunum og löng færsla send út í netheima. Svona til að toppa sjálfhverfu mína ætla ég að vitna í sjálfan mig: "Atvinnurekendur og launþegar eru samstarfsaðilar, ekki óvinir eða keppinautar. Velgengni eins hjálpar öðrum að ganga vel líka."

Sniðugt. Ekki bara í S-Afríku.

Þróunaraðstoð Kínverja til Afríku er svolítið sniðug og felst í því að stórauka fríverslun við álfuna (henda vitaskuld einhverju í fjárstuðning og annað eins til að kaupa sér ákveðna ímynd). Auðvitað alltaf hægt að gagnrýna hitt og þetta og nota til þess pólitískan rétttrúnað og ofurtrú á heilagleika Evrópu en aukin fríverslun er staðreynd og því ber að fagna!

Orðið voðalega dimmt úti og klukkan bara rétt að verða fimm. En leiðinlegt.

Það var mikið að manni var boðinn vinnu(far)sími.

Núna er ég aleinn á "skrifstofunni" sem ég deili með þremur öðrum. Freistingin að kveikja sér í einni rettu hérna inni er mikil en ég held ég láti mig hafa það að labba 30 metra og frjósa í 3 mínútur.

Jess hún lifir! Þá get ég hætt að halda niðrí mér andanum í bili.

Gaui þó.

Ótrúlegt en satt: Sex Danir eftir á hæðinni og klukkan orðin rúmlega 18! Einn ætlar meira að segja að sækja eitthvað að borða. Mjögott því ég er ennþá starfhæfur í hausnum og um að gera og nýta tímann vel.

Svei'attan, bara þrír Danir eftir á hæðinni nú þegar klukkan slær 19 og nú fyrst verið að keyra á eftir matnum og hausinn minna starfhæfur en hann var.

Mér finnst skrif-eins-og-þessi (sem sagt, skrif flokksbundinna manna um meint vandræði innan annarra flokka) alveg óendanlega fráhrindandi og þreytandi og tilgangslaust lesefni (les þó sumt til að geta verið fúll á móti). Af hverju að eyða púðrinu í að fjalla um innanhúsmál annarra flokka? Á Íslandi er enginn skortur á lélegum hugmyndum í stjórnmálaumræðunni og því ráð að byrja á að tækla þær áður en prófkjörsslagir og innanhúsmál hjá öðrum verða aðkallandi umræðuefni, og hananú!

Matur!

Sunday, November 05, 2006

Hótel Geir stóðst fyrstu lotu

Þá er löng helgi senn að baki. Hótel Geir var vel bókað, meira að segja tvíbókað eina nóttina. Svefnsófinn dugði ágætlega með nýju yfirdýnunni og gestasæng og koddi leystu teppið góða af hólmi. Hlyni er þakkað fyrir prufutíma sinn á Hótel Geir. Margar endurbætur hafa nú verið gerðar sem féllu í ágætan jarðveg.

Innkaupalisti fyrir Hótel Geir nú kominn á blað og sumt komið af honum aftur:
- Kaffi
- Krydd
- Kaffirjómi/mjólk
- Aukaljósaperur

Eitthvað djamm en hef þó verið harðari í þeirri deild. Vinnufélagar drukku jólabjór á föstudaginn og Daði og Svenni voru síþyrstir alla helgina hvenær sem bærinn kallaði. Kvenkynsgestir Hótel Geir voru líka í ljómandi góðu stuði og voru duglegir að sulla í sig ölinu. Gauja náði ég samt aldrei að hitta en ég tek alveg á mig sökina þar.

Nóvember sæmilega þétt bókaður á Hótel Geir sem að sjálfsögðu er hið besta mál.

Ég þakka fyrir helgina, þið fólk!

Thursday, November 02, 2006

Bjórsala á föstudegi

Ungir frjálshyggjumenn selja bjór: "Ungir frjálshyggjumenn munu selja bjór á morgun, föstudaginn 3. nóvember kl. 14. Salan fer fram á Lækjartorgi og er í mótmælaskyni við einokun hins opinbera á sölu áfengis í landinu. Bjór verður seldur öllum sem náð hafa 20 ára áfengiskaupaaldri. Ungir frjálshyggjumenn vilja með þessu hvetja alþingismenn til að afnema lög um einokun ríkisins á sölu áfengis."

Hvernig væri að mæta og hvetja kappana? Bjórsalan stendur ekki lengi yfir en verður táknrænt vonandi lengi í minnum.