Sunday, November 12, 2006

Noregur kallar

Þá er móðurhelginni alveg að ljúka og eftir sitja lifrarskemmdir vegna kaffi- og öldrykkju á víxl í að verða þrjá sólarhringa. Ljómandi. Engin leið að ætla sér að borga neitt með móður sína með sér í verslunum og alls kyns hlutir hafa nú ratað inn á heimilið: Hnífasett (sem þýðir að Daði getur líklega ekki komið í heimsókn aftur), pottur, Reyka-vodki, íslenski fáninn á litlum stalli og allskyns hlutir sem ekki hafa verið hér áður. Íbúðin líka töluvert hreinni eftir tilkomu mömmu og borðplötur og hreinlega heilu borðin að láta sjá sig í fyrsta skipti síðan ég flutti inn.

Á morgun er vinnuferð til Noregs. Flugmiðar, hótel og annað komið á sinn stað og við tekur þétt dagskrá frá mánudegi til fimmtudags. Síminn minn verður líklega sambandslaus og ekki ætlar fyrirtækjasíminn að ná sambandi við dreifikerfi Sonofon þannig að tölvupóstur verður líklega það eina sem ég sé á milli öldrykkju og fyrirlestrarsetu. Þá veit alþjóð það.

Mál málanna virðist vera gott gengi Árna Johnsen í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins. Hann stal fé og fékk dóm fyrir það á meðan aðrir stjórnmálamenn stela fé en fá ekki dóm. Ég fæ samt vont bragð í munninn við að hugsa til þess að hann setjist aftur á Alþingi. Þeir sem stela fé löglega eru a.m.k. að stela því löglega. Ólöglegur þjófnaður er ekki réttlátari en má afsaka því þingmenn halda að þeir séu að gera eitthvað rétt og siðlegt (en eru ekki).

Næsta helgi er þéttpökkuð svo ekki sé meira sagt og fjörið byrjar á fimmtudagskvöldið. Á ég að halda (innflutnings)teiti fyrir útvalda? Eitthvað þarf að gera við allt þetta tópas- og opal-áfengi sem safnar ryki í hillunni minni.

6 comments:

Burkni said...

Verst að Árni hefur aldrei sýnt neina iðrun, hann bara "lenti í þessu leiðindamáli" ... ótrúlegur.

Anonymous said...

Rétt ábending og góð Burkni.

Út frá svörum Árna mætti draga þá ályktun að þingmenn væru allir nokkuð spilltir (þ.e. hann væri ekkert verri en hver annar). Hann var bara svo óheppinn að lenda í þessu leiðindamáli meðan hinir sluppu...

Vonum að svo sé ekki - sjálfra okkar vegna.

Þrándur.

Burkni said...

Já, maður veit ekki. Þingmenn hafa náttúrlega mismikið aðgengi að peningum og grjóti sem hægt er að stinga í eigin vasa.
Engu að síður er fáránlegt að það sé til fólk sem leyfir honum að vera í framboði fyrir flokkinn og enn fáránlegra að fólk skuli kjósa hann í prófkjörinu. Um fólkið sem aftur kýs flokkinn í vor ætla ég ekkert að segja :)

Anonymous said...

Jólabjórinn hjá Nörrebrobryghus byrjar á fimmtudaginn, rétt er það hjá þér...

Anonymous said...

Hvað á maður að kjósa? Ég er sjálfur í bölvuðum vandræðum.

Ekki VG sem vilja úthýsa bankastarfsemi og eru bara á móti, ekki samfó sem er svo ráðavillt að það er bara fyndið, rasistaflokkurinn er out, framsókn er ekki til umræðu og þá ...
...þá skilar maður auðu?

Ég er nú í Rvk-norður þannig að það bætir etv. stöðuna eilítið.

En þetta Árnamál var líklega það besta sem framsóknarflokkurinn gat óskað sér.

Þrándur

Anonymous said...

Ég kem til þín beint frá flugvellinum á morgun, verður líklega um átta. Verður ekki innflutningsparty í fullum gangi þá? Orvar