Wednesday, March 26, 2008

Helgin komin niður, heilastarfsemin komin upp

Það hefur tekið mig alveg nú fram á fjórða í páskum að hrista helgina úr skrokknum. Hún fór niður með postulínssetu í gærkvöldi og það var hressandi.

Ekki úr vegi að taka stuttan annál: Meistaradeild og bjór með Daða og Svenna á miðvikudagskvöldið og það var ljómandi ágætt. Fimmtudagurinn fór í smálitla tiltekt og eilítið gláp fram að komu Örvars um kvöldið, en bjórdrykkja hófst vitaskuld um leið og sú stund rann upp. Við skruppum aðeins til Daða en þá var hann að laga sér samlokur sem fóru niður og drógu hann með sér svo sötrið í bænum var án hans.

Föstudagurinn var tekinn seint eftir væran svefn. Plön fæddust af sjálfu sér með óvæntu partýboði í það sem reyndist svo verða hið ágætasta partý. Leiðir mínar og Örvars skildust a.m.k. af hressandi ástæðum. Gott að ég gleypti ekki eyrnarlokkinn samt!

Laugardagurinn var einnig tekinn seint eftir væran svefn. Ég man eftir miklum en ósvöluðum kaffiþorsta lengi framan af degi enda ekkert kaffi að fá í lestarferð okkar til Óðinsvéa þar sem Pálmi "frændi" og fjölskylda voru heimsótt. Alveg hreint hrikalega ljúft kvöld það með dýrindis mat og hressu ungabarni og vaxandi bjórsötri sem hélt vitaskuld áfram í lestinni til Köben seinna um kvöldið. Þar beið Daði tilbúinn með vín í maga og við kíktum út á lífið - LA (þar skuldum við barsmíðar) og Skarvinn vitaskuld og sitthvað fleira sem fór samt að renna smátt og smátt í þoku.

Sunnudagurinn var svo kveðjustund hjá mér og Örvari. Takk fyrir mig!

Hvað svo? Bolti og bjór vitaskuld með Daða og Svenna. Gott spjall og fínn bolti (bæði alvöruboltinn og þessi sem spilast í Playstation). Mánudeginum eyddi ég í páskaeggjaát sem var fylgst margsinnis eftir með klósettferðum. Heilsan í vinnunni í gær var ekki upp á marga fiska en góður svefn í nótt bjargaði lífi mínu og afköstin í dag því með eindæmum!

Aldrei þessu vant er ég búinn að bóka mér flugmiða í langa helgarferð. Nei, ekki sú sem líklega verður á dagskrá í lok maí. Þessi er í byrjun maí og í austur en ekki vestur. Ég hlakka til! Fyrstu ólögbundnu frídagar mínir síðan 1. janúar sem er sosem í fínu lagi mín vegna en nánast ástæða til bannfæringar úr dönsku samfélagi sem fer í löng frí fjórum sinnum á ári!

Að lokum vil ég biðjast afsökunar á stanslausu flæði ófrýnilegra linka úr MSN-i mínu alla helgina. Einhver vírus eða róbót á ferðinni sem var á fullu sama hvort ég var við tölvu eða órafjarri, á MSN eða af. Ég vona að ég hafi náð að drepa óþverrann í gær!

Núna er engin ástæða lengur til að enda á að óska Fjólu góðs gengis lengur. Gengið var gott, og til hamingju með það, stúlka!

Tuesday, March 18, 2008

Eitt og annað en aðallega ekkert

Velkomin veri hvít jörð í Danmörku. Mikið var gott að finna hálku undir fótum sínum á ný. Íslendingar sitja nú ekki einir að snjónum og vitaskuld kom snjórinn á besta tíma í Danmörku: Þegar Danir voru byrjaðir að hlakka til vorsins.

Í fréttum er það helst að það er ekkert í fréttum. Alveg sérstaklega ekki í þessari viku þegar 70% vinnustaðarins er í löngu páskafríi sem sjálfkrafa sendir mig inn í 13 tíma vinnudaga. Ljómandi, því þá fæ ég völd og áhrif umfram hið venjulega. Ekki svo ljómandi því ég hef ekki verið utandyra í dagsbirtu (að undanskildum hádegishléum þegar ég þarf að labba til og frá mötuneyti) síðan á laugardaginn (sunnudeginum eyddi ég innandyra þar til rökkur skall á - takk fyrir mig, Ósk!).

Svo virðist sem yfirlestrarsæfing mín á vinnustaðnum hafi skilað sér í þónokkuri ánægju með yfirlestur minn á MA-ritgerð nokkuri, sem ekki verður farið nánar út í hér (kúkur laðar að sér flugur, svo ég skýri það aðeins "nánar").

Á fimmtudagskvöldið lendir eins og einn Örvar í Danmörku. Jess!!!

Danska krónan komin í tæpar 16 íslenskar krónur núna sé ég. Kannski ríkisrekin seðlabankastarfsemi og peningaútgáfueinokun hafi sína vankanta þrátt fyrir allt?

Titlarnir hlaðast á mig sem aldrei fyrr. Þeir nýjustu: "Master Pipe checker", "snillingur", "án nokkurs vafa sá besti", "the best brother in the world", og fleira ágætt. Kæra fólk, á að drepa mann með hroka og sjálfsöryggi?! Það verður ófögur sjón!

Skatturinn ákvað að iðrast að hluta fyrir fjárhagslega húðflettingu í fyrra. Það er gott mál, en betra mál væri að hann sæi algjörlega að sér.

Talandi um skatt - best að smella eins og 3 dönskum krónum í ríkiskassann með eins og einum kvöldöl og leggja sig aðeins fyrir lokahasar dauðans í vinnunni á morgun. (Ofan á þær krónur sem ég greiddi með einum síðdegisöl í dag á milli verkefna - leyndó!)

Fjólu óska ég góðs gengis á næstu dögum! Endaspretturinn er hafinn!

Eitthvað fleira? Nei. Yfir og út!

Páskahretið náði líka til Danmerkur


Sjáið bara hvað litla gatan sem ég bý í var fín í morgun!

Svo virðist sem 'global cooling' (sem vitaskuld er afleiðing 'global warming') hafi líka náð til Danmerkur (og þykka vetrarúlpan var því tekin fram á ný).

Örvar, muna húfu, trefil og hanska!

Monday, March 10, 2008

Sælir eru syfjaðir, eða svona næstum

Eru allir búnir að kaupa og fá og þar á eftir lesa nýjasta hefti Þjóðmála? Ljómandi ef svo er. Að öðrum ólöstuðum var mín grein sú besta (þurr, troðfull af nýjungum fyrir íslenska lesendur og hlaðin óheflaðri hugmyndafræði). Stórmennskubrjálaði? Kannski.

Mér tókst aldrei þessu vant að hella í mig hellings af áfengi (utan heimilis míns) um þessa helgi, og þá á föstudaginn. Rokkstig kvöldsins enda öll hjá Betu, en Svenni og Jói Ben voru líka hressir. Sá skeggjaði sosem líka (nei, er ekki að meina mig), en í öðrum skilningi. Bærinn samt frekar dapur. Metró endaði á að verða ágætis skjól fyrir ágætis blund á heimleiðinni. Nóg um það.

Betu þakka ég annars fyrir labbitúr sem endaði á því að ég uppgötvaði þetta alveg ljómandi fína kaffihús í litlu göngufæri að heiman. Þynnkumatur og Budvar á krana á skínandi fínu verði.

Á morgun er fundur frá kl 9 til 17 (með smá pásu eftir hádegi til að skreppa á annan fund) með herramönnum frá Hitaveitu Suðurnesja (sem bíða nú í ofvæni eftir nýju vatnleiðslunni sinni milli lands og Heimaeyjar). Lesist: Á morgun verð ég í skyrtu í vinnunni.

Örvar kemur þarnæsta fimmtudag til Köben og tilhlökkun mikil hér á bæ!

Í dag fyllti ég út plagg vegna hins árlega "starfsmannasamtals" míns við stjóra sem ég man ekki hvenær verður haldið í vikunni. Spurt verður hvað ég vil gera, hvernig ég hef "þróast" í starfi, og þar fram eftir götunum. Mikil Dana-reiði var í mér í dag og það endurspeglast tvímælalaust í því sem ég hafði að segja. Nú er að sjá hvað setur.

Fjólu óska ég góðs gengis á næstu (ört fækkandi) vikum!

Eitthvað fleira? Nei. Yfir og út!

Tuesday, March 04, 2008

Já, ég er bráðlifandi!

Nú ætla ég að nota tækifærið á meðan þvottavélar berja storknuð bremsuför og svita úr fötum mínum og minna á tilvist mína. Eitthvað hef ég gert lítið af því undanfarnar vikur og lofa í sífellu betrumbótum en núna held ég að taki þetta frá degi til dags án loforða (þeir sem nenna ekki að uppfæra síðu þess í von um uppfærslu - eða skort þar á - geta notast við hina ágætu síðu bloggvakt.is).

Sumsé, ekki mjög mikið að gerast en það er aðallega að þakka gríðarlegri heimasetu minni um helgar og leti við að skreppa út á virkum kvöldum. Ekki alveg nógu gott því í Köben býr nú margt gott fólk sem ég á endilega að nýta mér semí-einokunar-aðgengi að og hitta sem mest.

Þó einhverjar undantekningar: Fimmtudagsöl með Daða í seinustu viku. Smá sötur nú á sunnudagskvöldið (og gríðarleg þreyta í vinnunni í gær). Eitthvað fleira smálegt get ég týnt til en í stórum dráttum hafa vinna og heimili verið mínir einu áfangastaðir. Eftir tvær þreytuhelgar í röð ákvað ég þess vegna um helgina að hafa þessa vinnuviku stutta - helst undir 35 vinnutímum, þar af rétt rúmir 6 tímar í dag. Þarf e.t.v að taka langan vinnudag á morgun en að öðru leyti ætla ég að reyna sem mest ég má að hafa þetta stutt og laggott!

Í nótt var 2-5 stiga frost. Afleiðing: Allt lestarkerfið fór í köku í morgun. Ég fékk að dúsa í meira en klukkutíma á lestarstöðinni og á endanum komast í troðfulla lest sem silaðist á minn áfangastað. Ekki sérstaklega góð byrjun á annasömum degi og ég varð - að sjálfsögðu - alveg snældutrítilóður af bræði! Bar mig samt vel eins og hver annar Dana-maur sem lætur allt yfir sig ganga. Svo hafðist þetta sosem í dag ef undan er skilið að vinnupósthólfið var skilið eftir með haug af óframfylgdum tölvupóstum. Skítt með það. Sólin skín, úti er kalt, vindur enginn, og hver veit nema bolti og bjór verði á dagskrá kvöldsins.

Fylgist spennt með næsta hefti Þjóðmála og látið mig endilega heyra það ef skrif mín í því gleðja eða gera bandbrjáluð.

Fjólu óska ég góðs gengis á næstu vikum!

Eitthvað fleira? Nei. Yfir og út!