Monday, May 28, 2007

Takk fyrir mig frænka!

Fallegu frænku minni þakka ég kærlega fyrir mig. Ágætari ættingi og einstaklingur yfir höfuð er vandfundinn.

Daða bið ég formlega og skriflega afsökunar á laugardagskvöldinu hér með. Þegar til lengri tíma er litið held ég samt að allt hafi verið þess virði og vitaskuld mun ég sannfæra Daða um það. Ég sver!

Sólin er komin aftur til Köben og ætlar að halda í a.m.k. nokkra daga í viðbót ef eitthvað er að marka spár handónýtra danskra veðurfræðinga sem gætu ekki spáð fyrir um úrkomu eigin þvagfæra eftir 10 bjóra stanslaust bjórþamb.

Verður 14.-17. júní góð helgi? Það held ég!

Saturday, May 26, 2007

Mottan komin

Þá er komin motta. Næsta skref er að kaupa augnháralitunareitthvað og dekkja hana aðeins. Þessi fjárans sól (sem reyndar er farin núna) upplitar svo rosalega.

Thursday, May 24, 2007

Skrokkurinn kvartar!

Líkaminn er ekki sá hressasti eftir námskeið/fyrirlestur frá kl hálf níu til sex í dag. Spilaði inn í úrslitaleikur (bjórdrykkja) Meistaradeildarinnar í gær, uppsafnað svefnleysi vikunnar og almennt hvað mér finnst leiðinlegt að sitja í heilan dag og hlusta. Fyrirlesarinn var samt mjög góður - kallinn hressi lét okkur gera allskyns æfingar og var góður að halda okkur við efnið með alls kyns verkefnum og innbyrðis keppnum milli borða. Líkaminn var þó feginn að sleppa eftir þessa löngu törn. Ég lærði helling, þetta hafðist, en ég er þreyttur.

Örvar staðfestir væntanlega frábærar fréttir innan mjög skamms tíma. Hótel Geir opnar dyrnar sínar á ný eftir langt vorhlé - vonandi!

Annars virðist straumur fallega fólksins til Köben vera hafinn á ný (hófst vitaskuld á .is um daginn). Ingigerður yfirfrænka og vinkona koma á laugardaginn og ég ætla að gera mitt besta til að skemmta þeim þegar þær eru ekki að tæma Strikið (bæði verslanir þess af fötum og bari þess af bjór). Sólskin er vinsamlegast beðið um að staðfesta sig sem fyrst! Núverandi veðurspá má gjarnan breytast sem fyrst!

Reyndar er alveg með eindæmum hvað dönskum veðurfræðingum gengur illa að spá fyrir um veðrið nokkra daga fram í tímann (þótt það hafi að vísu engin áhrif á sjálfstraust þeirra í langtímaspám!). Á mánudaginn átti að vera smá væta á föstudag og laugardag. Í gær átti vætan að vera meiri og ná yfir stóran hluta föstudags og laugardags. Í dag er öll helgin orðin rennandi blaut! Ég vona að spáin geti jafnauðveldlega gengið til baka og hún gekk til verri vegar!

Ljósi punkturinn er sá að Danir kalla það oft "rigningu" sem Íslendingar mundu kalla smá skýfall. Sjá til dæmis "Nedbør" kortið hérna (það næsta sem hægt er að komast íslenskum hæðar- og lægðarkortunum góðu). Eina rigningin sem ég sé er smá lægð sem þýtur yfir Danmörku og er komin og farin á örfáum klukkutímum um miðja nótt.

Jæja nóg um veðrið!

Ég hvet einhvern velviljaðan til að aðstoða Árna (og einhverja Hildi) á Moggablogginu mínu við að sannfæra mig um ágæti Samfylkingar og ESB (og meinta yfirburði þessara fyrirbæra í augum manns sem hefur allt að því líkamlegt ofnæmi fyrir ríkisafskiptum og hinu opinbera almennt).

Mér finnst MSN nafn ónefnds félaga míns núna mjög fyndið:
"Til hamingju, Ágúst Ólafur"

Af ástæðum sem verða ekki útlistaðar hér er ég frekar fúll yfir að vera ekki í aðstöðu til að stunda þungaflutninga og (fjárhagslega) ólaunaða iðnaðarmannavinnu eftir nokkra daga.

Perkasjoppugaurinn minn er mikill snillingur sem hlustar á óskir viðskiptavina sinna og reynir að framfylgja þeim eins og texta í heilagri ritningu.

Ég þakka (mjög) fallegri manneskju fyrir góða ábendingu.

Núna eru liðnir meira en sex mánuðir og kvarðinn núllstilltur á ný. Svei.

Orð dagsins um daginn, "haugur", er vonandi að missa stöðu sína. Ég bíð spenntur eftir staðfestingu á því.

Takk fyrir mig!

Börbunum þakka ég kærlega fyrir mat, snakk, áfengi, kaffi, köku, félagsskap og fótbolta. Hér með skjalfest (eins og Fjóla segir að ég mundi segja, sem ég geri þá auðvitað).

Monday, May 21, 2007

Heitt!

Danmörk datt í hug í dag að verða alveg rosalega heit. 25 stig en samt var alskýjað og mikill raki í loftinu. Ekki uppáhaldsblandan mín en vonandi er sumarið byrjað að festa sig í sessi.

Daði er fallegur maður og mikill snillingur. Gleymdi samt súkkulaðinu sínu. Svei, sóun á góðu skápaplássi það.

Orð dagsins er "haugur".

Vinnuvikan er að þróast út í einhverja algjöra fundavitleysu. Að minnsta kosti tveir (stuttir) fundir á morgun, deildarfundur á miðvikudaginn auk vinnufundar sem nær líklega yfir bróðurpartinn af deginum, heilsdagsnámskeið á fimmtudaginn (frá kl 8:30 til 18!) og enn einn (heilsdags!) vinnufundur á föstudaginn. Hvernig er ætlast til þess að einhverju sé hægt að koma í verk þarna?! Engin furða að allt er mörgum mánuðum á eftir áætlun.

Ísland hefur verið sett á sumardagatalið 28. júní til 10. júlí. "Stutt" sumarstopp að þessu sinni (2 helgar og nokkrir virkir dagar). Hver getur reddað mér ódýrum bílaleigubíl á þessu tímabili? Hann verður sennilega ekki mikið keyrður því mér skilst að áfengisneysla og akstur fari illa saman.

Ráðgáta í lok færslu: Hvernig getur sósíalisti - aðdáandi hins almáttuga og allt-um-faðmandi ríkisvalds - kvartað yfir því að ríkið leggi undir sig hin svokölluðu "fríríki" innan síns umráðasvæðis? Mér skildist að það væri venja sósíalista að breiða úr ríkisvaldinu þegar tækifærin gefast.

Sunday, May 20, 2007

Helgarmolar

Íbúðin neðan við mína er sannkölluð tölvuleikjaparadís. Í þessi þrjú til fjögur skipti sem nokkrir strákar koma saman í henni má heyra hróp og köll og öskur og bank í veggi og gólf og greinilega mikið stuð í gangi. Um daginn stóð einn þeirra út á svölum og var að segja við einhvern í símanum að þeir strákarnir væru að spila á Xbox. Núna heyri ég, í gegnum opnar svalahurðir mínar og þeirra, að Nintendo Wii leikur er í gangi. Ég held ég þurfi að íhuga að troða mér inn í þennan vinahóp!

Sumarhefti Þjóðmála er, að mér skilst, í lokavinnslu og kemur út eftir örfáar vikur. Kaupið áskrift!

Örlítill túr í bæinn á föstudaginn var athyglisverður. Ég held ég láti þau orð duga í opinberan annál minn.

Talandi um djamm - mín deild (eða hópur, "group" á vinnumálinu) er orðin ansi þyrst með hinni hækkandi sól. Svo þyrst að það er að stefna í að einhver djammhittingur sé planaður í hverjum mánuði. Ég kvarta ekki því verkfræðingar (líka danskir!) eru með eindæmum skemmtilegir í glasi, en á seinasta djammi var örlítið of mikil dramatík í gangi sem ég þarf að finna leiðir framhjá, ef eitthvað svipað kemur upp aftur. Það er ekkert fallegt við að sjá fullorðinn karlmann gráta söltum tárum fyrir að vera hent út af uppáhaldsskemmtistaðnum sínum. Nei, ég er ekki að tala um sjálfan mig undir rós!

Kannski Fjóla ætti að endurskoða afstöðu sína til stjórnarmeirihluta Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar því með 23 manna meirihluta verður eftirfarandi raunin: "Allir þingmenn Samfylkingarinnar, ráðherrar sem aðrir, munu geta setið hjá í atkvæðagreiðslum og mál samt runnið í gegnum þingið." Umorðað: Sjálfstæðismenn þurfa bara að tryggja að Samfylkingarfólk annaðhvort kjósi með eða sitji hjá. Líf Sjálfstæðismanna á þingi orðið aðeins einfaldara.

Góðir fyrirlestrar eru auðveldlega 18 mínútna virði. Sjaldgæft skynsamlegir leiðarar dagblaða eru auðveldlega 60 sekúndna virði. Heimskulegar athugasemdir við þá eru ekki sekúndubrotsins virði.

Á morgun kemur í ljós hvort ég renni á flugmiða í lok ágúst eða byrjun júlí. Málið er ekki alveg í mínum höndum en með smjaðri og sannfæringarkrafti gæti ég e.t.v. haft einhver áhrif á framtíð sumars míns.

Lokaorðin í bili á Seinfeld (sem í mínum bókum er einn mesti heimspekingur okkar tíma): "Skatturinn! Hann er eins og mafían! Hann getur tekið hvað sem hann vill!" (Season 3 Episode 2 Minute 9)

Friday, May 18, 2007

Samviskuspurning dagsins

Ef ég geri skoðanakönnum og spyr, "Finnst þér að ég eigi að heimila reykingar í íbúðinni minni?" og 51% aðspurðra (sem sumir og sumir ekki eru boðnir í heimsókn til mín) sögðu svöruðu, "já, mér finnst að þú eigir að gera það", er þá löggjafinn kominn með heimild til að setja lög um reykingar í íbúð minni?

Thursday, May 17, 2007

Sambönd í hnotskurn

Seinfeld-þættirnir góma oftar en ekki kjarna málsins. Hérna er kjarni sambanda gómaður. Njótið!

Monday, May 14, 2007

Hvar er pólitíkin?

Mér finnst þið, kæru lesendur, ekki búnir að vera nógu duglegir að hrósa mér fyrir að hafa flúið með megnið af pólitísku fjasi mínu út af þessari síðu (og inn á þessa og þessa). Að vísu get ég aldrei hreinsað alveg út, og auðvitað detta inn komment við færslur þessarar síðu sem eru hreinræktað dægurmálaþras, en ég er að vinna hörðum höndum að aðskilnaði og heimta lofgjörðir, vísur, brjóstmyndir og þakkir fyrir viðleitnina!

Stutt vinnuvika hófst (hjá mér) í gær og náði góðu flugi í dag og allt lítur út fyrir að ég nái að skila meira af mér en yfirferðarkerfið (prepare - check - approve) ræður við þessa dagana. Allt í góðu með það því ég stytti þá bara vinnudagana og vona að einhver nenni að leika við mig eða ég nenni að standa í útréttingum sem hafa setið á hakanum svo vikum og mánuðum skiptir. Eða horfi á Jackass Number Two aftur.

Svört atvinnustarfsemi verður seint ofmetin. Einn vinnufélagi minn sagði, hróðugur, í dag: "Ég er á móti svartri atvinnustarfsemi!"
Ég spyr á móti: "Hefuru aldrei þurft á iðnaðarmanni að halda?" (Munið, þetta er Danmörk.)
Svar vinnufélagans: "Ég meinti, að ég mundi aldrei stunda svarta atvinnu sjálfur!"
Skondinn kall, ha!

Mikið er gott að vera búinn í prófum. Þótt nú séu liðin um 3 ár síðan ég kláraði mitt seinasta háskólapróf þá er eins og tilfinningin og léttirinn um að vera búinn í prófum lifi enn. Ekki er það til að eyða tilfinningunni að hafa öll þessi harmkvæl í MSN-nöfnum námsfólks.

Af einhverri undarlegri ástæðu tók ég Netto-bækling með mér þegar ég var í minni 10. hver dagur verslunarferð áðan (áfengi og tóbak undanskilið). Skrýtið? Já sennilega.

Frumniðurstöður úr átakinu "eiga 50 pör af nákvæmlega sömu tegund svartra sokka" lofa góðu og tímasparnaður nú þegar orðinn staðreynd, auk þess sem sokkapirringur er svo gott sem alveg horfinn.

Ég minnist hér með 5. apríl 2006 með formlegum hætti.

Hvernig stendur á því að sængin er svo hlý og góð og ljúf á morgnana, en svo leiðinleg og dauf í tilhugsuninni á kvöldin og jafnvel langt fram á nótt?

VARÚÐ! EKKI FYRIR KLÍGJUGJARNA!

Ég kafnaði næstum því úr hlátri þegar ég sá þetta. Mæli með því að klígjugjarnir smelli EKKI á afspilunartakkann! Alls, alls, alls ekki! Já, og ekki horfa á þetta í vinnutölvunni eða þar sem fólk sér á skjáinn ykkar.

Lýkur hér með fyrirvörum og viðvörunum.

Sunday, May 13, 2007

Klemma karlmannsins

Kvenmanni sem er mismunað eftir kynferði er sagt að kæra, því annars náist aldrei jafnrétti í raun.

Karlmanni sem er mismunað eftir kynferði er sagt að halda kjafti, því ef hann kærir þá munu aðrir karlmenn kalla hann kellingu.

Pólitískur rétttrúnaður getur verið ansi snúinn stundum.

Saturday, May 12, 2007

Snýr Skattmann aftur í dag?

Spurning dagsins er: Snýr Skattmann aftur? Það væri athyglisverð niðurstaða félagsfræðitilraunar ef út í það er farið. Tókst að gera Íslendinga það ríka, að þeir hættu að kjósa um efnahagsmál og fóru að kjósa um eitthvað allt annað? Mér sýnist það jafnvel (efnalítið fólk hefur a.m.k. meiri áhyggjur af útgjöldum heimilis en hreindýramosa Austurlands).

Hvað er þá kosið um? Ráðstöfun ríkisins á eigin eigum og landi og fyrirtækjum? Er ekki augljóst hvernig svoleiðis deilum má útrýma með öðrum hætti en að ráða hið íslenska vinstri til að stjórna tékkhefti ríkisins?! Vísbending.

Ég játa að ég er svolítið smeykur við úrslit kosninganna (þótt ég búi ekki á Íslandi). Í sjálfu sér eru þær átakalausar fyrir mig: Ég bý í útlöndum, í landi þar sem er ekki-vinstristjórn (þó heldur ekki hægri- eða miðjustjórn á danskan mælikvarða), og ef Íslendingar vilja - í verki - rifja upp hvernig vinstrimenn stjórna á Íslandi þá þeir um það. Ég ætla ekki að blanda mér í þá tilraun ef til hennar verður stofnað.

Af sjálfum mér er það að segja að sennilega skelli ég mér á ølfestival síðdegis og svo er aldrei að vita nema áfengi verði haft við hönd í kvöld, þótt tilhugsunin um að vera ekki að fara í Evróvisjón-teiti með Hauki geri öll önnur partý grá og leiðinleg á væntingaskalanum.

Tuesday, May 08, 2007

Stuttur dagur í löngu máli

Stundum er eitthvað svo ágætt að enda vinnudaginn á hádegi og sinna allskyns öðrum verkefnum í staðinn.

Ég kaus til dæmis í dag. Sjallar fá það atkvæði. Árna Richard tókst næstum því að fá mig til að hugleiða Íslandshreyfinguna en sú hugleiðing endaði á nöfnum eins og Margrét Sverrisdóttir, Ólafur Hannibalsson og Jakob Frímann Magnússon, auk þess sem mér finnst Ómar Ragnarsson hafa verið betri fréttamaður og skemmtikraftur en hann er frambjóðandi í kosningum. Flokkurinn er með mörg stefnumál sem jaðra við það að líkjast hægrimálum (a.m.k. ef marka má þessa síðu), t.d. þegar kemur að sköttum og fleira, en ég sé ekki áðurnefnda vinstrimenn í föruneyti Ómars vera líklega til að hrinda þeim í framkvæmd (og hvar Ómar stendur í stjórnmálum, fyrir utan að vera á móti fleiri virkjunum, hef ég enga hugmynd um).

Sjallarnir fengu því mitt atkvæði. Það er lokaniðurstaðan. Vonandi fara þeir vel með það og selja Landsvirkjun, lækka skatta, selja hálendið, frelsa landbúnaðarkerfið, hleypa einkaaðilum að heilbrigðiskerfinu og enn frekar að skólakerfinu og gera enn fleiri fríverslunarsamninga við útlönd. Spurning hvort Samfylkingin sé ekki orðinn heppilegri (og leiðitamari) dansfélagi í ríkisstjórn en Framsóknin. Framsóknin og fæðuöryggi hennar (bls 26) fer í taugarnar á mér.

Dönsk stjórnmál eru í miklu uppnámi um þessar mundir. Danskur miðjumaður sagði sig úr dönskum miðjuflokki og stofnaði annan danskan miðjuflokk, og umræðan hefur varla snúist um annað síðan.

Geta mín til að feta fjölfarnar götur í Kaupmannahöfn er orðin gríðarleg núna. Danir labba ekki beint og að ákveðnu marki. Þeir stoppa handahófskennt, snúa sér skyndilega við, ganga þvert á göngustefnu fjöldans, baða út höndum, sikk-sakka, labba mjög hægt í miðri mannþröng og sumir raða sér í eins konar varnarvegg sem lokar gönguleiðinni úr báðum áttum. Miðað við að Danir eru maurar sem elska að láta hrúga sér í troðfullar lestir og strætóa, og vita fátt betra en að vera eingöngu 50% fjárráða, þá eru þeir furðulega lélegir að koma sér frá einum stað til annars á tveimur jafnfljótum.

Ég er að safna í yfirvaraskegg. Þá veit alþjóð það.

Eftir alveg gríðarlega mikið áhorf á Seinfeld seinustu vikur tek ég eftir því að ég er byrjaður að apa ýmislegt upp eftir persónunum. George á það til að reka tunguna örsnöggt inn og út þegar hann er æstur. Kramer sveiflar höndunum á ákveðinn hátt þegar hann er að segja eitthvað í stíl við "æj láttu ekki svona". Ég hef ekki tekið eftir fleiri eftiröpunum enn, en mig grunar að þær séu fleiri!

Íslenskt afgreiðslufólk er mun líklegra en danskt til að bjóðast til einhvers utan hefðbundinnar þjónustu, og segja "ekkert mál" þegar viðskiptavinurinn þakkar fyrir greiðann og spyr hvort það sé í lagi að þiggja hann.

Enginn Örvar í maí. Virðuleg bankakona þarf því að leggja tvöfalt harðar að sér sem gestur í Köben!

Sunday, May 06, 2007

Tvífari dagsins


Tvífari dagsins er merki Picasa vefmyndakerfis Google, og merki Íslandshreyfingarinnar. Ef bara að Íslandshreyfingin hefði geta fundið not fyrir gula og fjólubláa litinn. Þá hefði ekki þurft að breyta neinu!

Saturday, May 05, 2007

Letiblogg á laugardegi


Til tilbreytingar býð ég lesendum upp á glænýja mynd af mér. Njótið!

Ég er farinn að halda að það sé stór galli hvað mér líður vel einum heima. Ég geri enga tilraun til að fara út og hitta fólk og vera í félagsskap annarra. Ég hangi bara heima og glápi á Seinfeld og drekk bjór, kaffi, kók, vatn og appelsínusafa. Skrapp að vísu út í Netto og aftur síðar út í sjoppu en þar með enda utanferðir mínar. Svalir með sól og inni í skugga, lesa hér og horfa og skrifa þar. Heimili mitt er orðið að vímuefni út af fyrir sig, og ég er háður!

Hótel Geir er samt mjög skemmtilegt hlutverk. Mikill gestagangur er ekki síðri algjörri einveru heima. Vegur annað hitt upp?

Seinfeld er vel á minnst snilld.

Kramer: So what are you gonna do with all this money?
Seinfeld: Actually I was thinking about donating a large portion of it to charity.
Kramer: Really?
Seinfeld: No.

Ég þarf alltaf að reikna út frá ártali og fæðingardegi hvað ég er gamall þegar einhver spyr mig um aldur minn. Stundum held ég að ég sé 29 ára, stundum held ég að þrítugasta árið sé rétt handan við hornið. Ég er, þrátt fyrir allt, ennþá 28 ára. Vonandi man ég það nú þegar það er orðið skriflegt.

Ein mjög svo ágæt, falleg og góð vinkona mín spurði mig spurningar dagsins í dag (örlítið löguð til því SMS bjóða ekki upp á svo langt mál): Ég skil ekki vinstrimenn. Þeir vilja vera með forræðishyggju út af heimska fólkinu sem er ekki treystandi til að taka ákvarðanir, en samt má það fólk kjósa?

Lýðræði býður svo sannarlega upp á þversagnir af öllu tagi! Forræðishyggja í lýðræðisríki sömuleiðis. Ég held ég láti svarið (a.m.k. í bili) vera á milli mín og vinkonunnar mjög svo ágætu, fallegu og góðu.

Fréttablaðið ætlar að taka sinn tíma aftur! En ég er bjartsýnn. Vonandi - hugsanlega - ná næstu skrif að flæma a.m.k. einn eða tvo frá því að kjósa vinst... vitlaust.

Nokkrar áskoranir að lokum:
- Katrín: Haltu utan-skrifstofutímum eins óplönuðum og þú getur í Danmerkur-heimsókn þinni!
- Örvar: Senda staðfestingu sem fyrst!
- Daði: Láta sjá þig!
- Svenni: Skipuleggja úrslitakvöld Meistaradeildarinnar!
- Fjóla: Berjast! Endaspretturinn er skemmtilegastur!
- Svava: Berjast! Endaspretturinn er skemmtilegastur!

Endasprettur þessarar færslu hér með á enda.

Thursday, May 03, 2007

Stóri bænadagur

Löng helgi tekur nú við og sólin er tilbúin með 20 stiga hita, skýlausan himin og logn. Í kvöld er eitthvað húllumhæ með vinnufélögum og á morgun er stóri bænadagur. Held ég muni samt ekki biðja annarrar bænar en þá að losna við timburmenn, nema uppsöfnuð þreyta vikunnar haldi mér rúmliggjandi og meðvitundarlausum allan daginn.

Örvar kemur! Húrra!

God weekend.

Wednesday, May 02, 2007

Aha!

Já nú veit ég af hverju það er BANNAÐ með LÖGUM (8.gr. 3. liður) að viðlagðri refsingu að selja sígarettupakka með eingöngu 10 sígarettum í á Íslandi!

Nei, ekki til að forða fátækum, klinklausum eða tímabundið efnalitlum reykingamönnum frá því að fá skammtinn sinn.

Nei, ekki af því löggjafinn fyrirlítur þá sem reykja í hófi eða sjaldan og þurfa bara á litlum pökkum að halda.

Það er af því það er alveg óþolandi að ná seinustu 3-4 stykkjunum út úr þessum litlu 10 sígarettu pökkum!

Gvuð blessi löggjafann fyrir að spara Íslendingum þann pirring. Svei hinum danska fyrir að hafa ekki verið svona framsýnn og skilningsríkur á daglegu lífi reykingamannsins.