Saturday, May 12, 2007

Snýr Skattmann aftur í dag?

Spurning dagsins er: Snýr Skattmann aftur? Það væri athyglisverð niðurstaða félagsfræðitilraunar ef út í það er farið. Tókst að gera Íslendinga það ríka, að þeir hættu að kjósa um efnahagsmál og fóru að kjósa um eitthvað allt annað? Mér sýnist það jafnvel (efnalítið fólk hefur a.m.k. meiri áhyggjur af útgjöldum heimilis en hreindýramosa Austurlands).

Hvað er þá kosið um? Ráðstöfun ríkisins á eigin eigum og landi og fyrirtækjum? Er ekki augljóst hvernig svoleiðis deilum má útrýma með öðrum hætti en að ráða hið íslenska vinstri til að stjórna tékkhefti ríkisins?! Vísbending.

Ég játa að ég er svolítið smeykur við úrslit kosninganna (þótt ég búi ekki á Íslandi). Í sjálfu sér eru þær átakalausar fyrir mig: Ég bý í útlöndum, í landi þar sem er ekki-vinstristjórn (þó heldur ekki hægri- eða miðjustjórn á danskan mælikvarða), og ef Íslendingar vilja - í verki - rifja upp hvernig vinstrimenn stjórna á Íslandi þá þeir um það. Ég ætla ekki að blanda mér í þá tilraun ef til hennar verður stofnað.

Af sjálfum mér er það að segja að sennilega skelli ég mér á ølfestival síðdegis og svo er aldrei að vita nema áfengi verði haft við hönd í kvöld, þótt tilhugsunin um að vera ekki að fara í Evróvisjón-teiti með Hauki geri öll önnur partý grá og leiðinleg á væntingaskalanum.

No comments: