Thursday, March 29, 2007

Langblogg í amstri dagsins

Þessi sól ætlar bara ekki að gefast upp. Ég treysti því samt ekki að vorið sé alveg komið fyrr en í maí.

MBS samstarfsmaður minn er búinn að gjamma eins og ofvirkur saumaklúbbur í allan dag. Í morgun var hann í þessu þvílíka sólskinsskapi, allt að því syngjandi, og talandi við allt og alla um allt en þó aðallega ekkert. Núna eftir hádegi er hann búinn að eyða mikið af tíma sínum í að kvarta undan hinu og þessu og vera ósammála öllu sem einhver segir við hann. Á dögum sem þessum er gott að vera með góð heyrnartól!

Að tvísmella óvart á 640 Mb textaskrá getur verið slæm hugmynd.

Fimmtudagsöl í kvöld. Jess!

Næsta vika verður yndislega friðsæl vinnuvika með allt þetta fólk í páskafríi. Eins gaman og það er og umgangast fólk þá er bara sumt sem þarfnast einbeitingar.

Andúð mín á ríkisvaldinu er komin á það skeið að hún er farin að vinda upp á sjálfa sig án aðstoðar. Ég hlakka til að sjá hvert sú þróun leiðir mig.

Ónefndur byggingarverkfræðingur hefur verið skipaður sem ráðgjafi í verkefni sem hefur ekkert með byggingarverkfræði að gera. Ísland er svo sannarlega þverfaglegt samfélag!

Þegar Danir spurja mig af hverju Íslendingar lifa af þá segi ég yfirleitt fisk, áli (sölu raforku) og fjármálaviðskiptum, og svo vinna margir á Íslandi láglaunastörf til að þjónusta ferðamenn. Fyrir 5 árum hefði ég bara nefnt fisk og ál. Fyrir 30 árum hefði ég bara nefnt fisk. Hið athyglisverða við listann er að (næstum því) allt á honum er á einhvern hátt hatað, umdeilt eða öfundað. Sumir vilja þjóðnýta kvótann og taka aftur upp kreppuástand útvegsiðnaðarins frá fyrri tíð (góð sameign þjóðarinnar það). Sumir vilja flæma fjármálageirann úr landi með skattahækkunum, t.d. til að auka "félagslegan jöfnuð" (því þessir fjárans bankamenn eru svo ríkir miðað við alla hina). Margir segja að nú sé "komið nóg" af virkjunum og sölu raforku. Hvað ætli komi næst? Að þessar hræður sem villast upp á íslenskt hálendi borgi sérstakan mosaskatt fyrir að traðka niður íslenskan gróður? Þannig mundum við a.m.k. losna við ferðamannaiðnaðinn áður en ferðamennirnir verða orðnir svo margir að ekki verður við neitt ráðið.

Varúð! Eftirfarandi efnisgrein er ekki beint að neinni ákveðinni persónu eða persónum, heldur ákveðnu viðhorfi.
Óvinum einkaeignarréttarins ("bönnum X á stöðum sem veita mér aðgang", X = t.d. reykingar) verður hér með eingöngu veittur aðgangur að íbúð minni ef þeir lofa að biðja ekki um lög sem banna reykingar á einkaheimilum þegar heimsókn þeirra líkur. Ef bara veitingahúsa- og skemmtistaðaeigendur hefðu gert sama fyrirvara við aðgangi að sínum húseignum á sínum tíma! Þá væri ennþá til einkaeignarréttur á húsnæði sem hýsir þjónustustarfsemi. Er nóg að fá munnlegt loforð um að viðkomandi ætli ekki að biðja um löggjöf, eða þarf ég að hafa eitthvað skriflegt til að tryggja mig?

Internetveitan mín var svo væn að senda mér bréf í gær sem segir að þann 1. apríl tvöfaldast internettenging mín sjálfkrafa án þess að verðmiðinn á henni breytist. Ekki svo galið það.

Af hverju í ósköpunum er atvinnurekandinn að kaupa verkjapillur fyrir okkur vinnumaurana? Er hausverkur svo útbreiddur að fólk getur ekki keypt sínar eigin pillur lengur?

Annars sakna ég ginseng-tesins sem var hérna um daginn. Það virkaði!

Það má eiginlega segja að ég vinni í fimmvídd núna: Uppfæra skýrslu, reikna á sama tíma þrenns konar útreikninga sem eiga að fara inn í skýrsluna og í leiðinni svara athugasemdum við skýrsluna frá Frakkahelvítisfíflunum svo þeir samþykki hana í næstu útsendingarlotu. Stuð ef til þess er ró og næði, sem er einmitt raunin núna!

Ég næ sennilega ekki mars-mánuði, en ég hlýt eiginlega að taka áskoruninni og velja annan mánuð af "babe dagsins" á Dauðaspaðanum. Apríl kannski?

Jahérna þessi sól bara hangir og hangir uppi.

Athyglisvert - Rolling Stones í Köben 5. ágúst, miðasala hafin og ekki uppselt enn. Hvað er að gerast?

Þá er örgjörvinn kominn á 100% vinnslu og verður líklega í því ástandi langt fram á nótt. Út vil ek!

Tuesday, March 27, 2007

Heitt!

Glampandi sól og mikill hiti í Danmörku þessa dagana og sem afleiðing þess er fólk almennt í alveg blússandi sumarskapi, syngjandi á göngunum og tala um hvenær eigi að fara á Nýhöfn og fá sér einn kaldan. Ég vona að veðrið haldi eitthvað en oft er erfitt að gera ráð fyrir því á dönskum vortíma. Páskahret, einhver?

Gleymdi alveg um daginn en ætlaði alltaf að benda á þessa ritstjórnargrein í Mogganum, en þar á bæ virðast menn vera vakna upp við þann vonda draum að VG geti í raun orðið áhrifaríkur flokkur í ríkisstjórn að loknum kosningum!

Vinnudagurinn í dag og í gær hafa farið í að ryðja frá óteljandi smáverkefnum. Núna get ég loksins látið braka í hnúfum og skellt mér í stóru skýrslurnar.

Nú er búið að ákveða að ég verði að fá ferðatölvu. Stjórinn minn veit alveg hvað það þýðir (a.m.k. í mínu tilviki): Skilin á milli einka- og vinnulífs hverfa endanlega, og nokkrir vinnutímar í "sjálfboðavinnu" (ógreiddir tímar) detta inn í hverjum mánuði.

Nýjasti stjórnmálaflokkur Danmerkur: Rygerpartiet, eða Reykingaflokkurinn. Markmið: Að berjast gegn öllum árásum hins opinbera á einkalíf einstaklinga (þar á meðal lögum sem skerða einkaeignarréttinn í nafni tóbaksvarna). Kannski ég gerist meðlimur!

Ætli einhvern tímann muni takast að setja lög (á Íslandi) sem banna eigendum fyrirtækja að reka þau eftir sínu eigin höfði (t.d. með því að ráða óhæfa karlmenn og borga þeim fúlgur fjár)? Hérna virðist hugsunarhátturinn a.m.k. vera sá að sumir atvinnurekendur séu að skjóta sjálfa sig í fótinn í ráðningum sínum: "Þótt mikið hafi miðað til framfara síðustu tvær aldir gæti þó hugsast að enn gangi fólk um með dálítið safn af ranghugmyndum sem hamla því að það taki ákvarðanir með hámarkshagkvæmni, til dæmis þegar kemur að því að ráða starfsmenn." En hvað með það? Er ekki leyfilegt að ráða óhæfa starfsmenn og byggja ráðninguna á ranghugmyndum og fordómum? Svo virðist ekki vera. Gvuð forði okkur frá pistlahöfundum sem telja sig vera hæfustu atvinnurekendur landsins, en hafa bara ekki enn náð svo langt að komast í stól atvinnurekanda!

Jæja núna er ég búinn að espa mig of mikið upp. Út í sólina, já takk!

Monday, March 26, 2007

Svíþjóð 2007 annáll

Fyrir sjálfan mig og til að varðveita minningar ætla ég núna að rita niður nokkur orð um helgina mína í Svíþjóð með verkfræðingum vinnustaðar míns (rúmlega 50 stykki af verkfræðingum án eftirlits í langtíburtu að fikta við áfengi og áhættuíþrótt - hvernig getur svoleiðis upplifun verið leiðinleg?).

Ferðin hófst beint eftir vinnu (hvað mig varðar) á fimmtudagskvöldið. Áfengi var strax komið í hendur nærri allra í rútunni góðu og fólk byrjaði fyrst að dotta um 2-leytið um nóttina. Rútan mætir á svæðið um 8-leytið morguninn eftir og strax borðað og skipt um föt og náð í skíði og dagurinn var hinn ágætasti. Ég var fljótur að rifja upp það litla sem ég kann á skíðum eftir 15 ára fjarveru frá þeim beinbrjótum. Um kvöldið var vinnukvöld, þó með ákveðnum galsa og léttri ölvun, en einhverju tókst nú samt að koma í verk þótt ég hafi óumflýjanlega verið með Dönum í vinnuhóp.

Snemma í háttinn og tiltölulega snemma á fætur (8:30) og vinna fram á hádegi og skíðað/drukkið fram á kvöld. Um það leyti var ég orðinn ansi veikburða í hnjám og skrokki öllum. Mikil áfengisneysla um kvöldið af minni hálfu og nær allra annarra var samt fljót að lækna öll eymsli. Sofnað um 5:30 leytið þá nótt.

Vaknaði svo 9-leytið (vegna hópmyndatöku sem ég og um 10 aðrir misstu af þrátt fyrir allt), sleppti skíðunum þennan seinasta dag enda höfðu alltof spenntir skíðaskór og röng skíðabeiting gert það að verkum að ég var allur uppétinn á kálfum og fæti og er enn með sár til merkis um það. Sötur allan daginn, tekið harðar á því um kvöldið og þegar rútan fór af stað á laugardagskvöldinu var ölvun orðin nokkur. Kynningar á verkefnavinnu helgarinnar um kvöldið höfðu tekist ágætlega og menn þóttust hafa skilað af sér góðri vinnu og góðri skemmtun án þess að annað eyðilagði hitt. Ég er ekki endilega sammála (hvað marga varðar) en það gildir einu. Bætti það upp í dag fyrir hönd míns hóps.

Næturrútan heim á aðfararnótt sunnudags var róleg því menn voru almennt rotaðir af þreytu og sváfu (vel) þrátt fyrir erfið skilyrði. Mættir til Köben á hádegi í gær (sunnudag) og flestir fegnir því. Ágæt mæting í vinnuna í dag þrátt fyrir allt.

Endir.

Helgin var svo ágæt

Wednesday, March 21, 2007

Svíþjóð kallar

Svo virðist sem mér sé ekki ætlað að heimsækja Norðurlöndin utan Danmerkur nema í gegnum vinnuna. Tvær Noregsferðir og báðar vinnutengdar. Á morgun er haldið til Svíþjóðar á vegum vinnunnar. Ætli bjórverðsgradíantinn sé ekki-Danmörk Norðurlöndum svo óhagstæður að ég leita einfaldlega í átt frá honum? Finnland er stóra spurningamerkið í þeirri spurningu.

En hvað um það - Svíþjóð á morgun og ég verð því netlaus þar til á sunnudaginn. Síminn minn verður varla í gangi. Kannski ég hafi vinnusímann í viðbragðsstöðu. Hver veit (hvað? númerið?).

Annars er synd og skömm að sjá á eftir þessari vinnuviku sem hefur gengið svo vel. Sálfræðileg ástæða gæti verið sú að ég vissi að hún yrði skert af utanaðkomandi ástæðum. Ég get hreinlega ekki unnið fulla vinnuviku - kannski vinn ég þá betur á meðan ég get? Nú eða að í allan gærdag og stóran hluta dagsins í dag var lítið verið að trufla mig. Danir eiga það til að reyna fá mann til að spjalla um allt en aðallega ekkert, án fyrirvara og hvenær sem er, en hafa lítið gert það í dag og í gær. Vinnuvikan (þessir tveir dagar) hefur a.m.k. verið með ágætum.

Talandi um vinnu þá er búið að vera óvenjumikið um það upp á síðkastið að mér sé att út í allskyns verkefnisstjórastöður. Er Daninn að fatta að með því að láta mig stjórna einhverju þá þagga ég ókurteisislega niður í óþarfa spjalli og afslappelsi á fundum sem eiga að taka enda? Þetta hljómar eins og gríðarlegt sjálfshól í eyrum Íslendings, en í Danmörku er ég ókurteis og stressandi, og stjórinn minn er einn af fáum innfæddum sem virðist kunna meta þann eiginleika.

Hvað um það, netleysi fram á sunnudag er hér með skjalfest. Góðar stundir!

Monday, March 19, 2007

Spútnikþingmálið í dag!

Alþingi - Ferill máls 26. - 133. lþ. ("Sala áfengis og tóbaks (sala léttvíns og bjórs)") er vægast sagt spennandi þingmál sem nær vonandi alla leið í gegnum Alþingi! Fastagestir á móti verða VG, nokkrir Samfóarar, einhverjir svokallaðir Frjálslyndir og kannski einn Framsóknarmaður. Vonandi sitja sem flestir af þessum leppalúðum hjá. Áfram áfengi!

Hrollvekja dagsins!

"Geir Ágústsson verkfræðingur fjallar um það hroll vekjandi efni, opinber fjármál í vinstrihöndum, og rifjar upp fjármálastjórn R-listans á höfuðborginni og ræðir hvaða vísbendingar hún gefur um hugsanlega vinstri stjórn á alþingi" (Vefþjóðvilji dagsins)

Ég sé ekki hvernig fólk ætlar að standast Þjóðmála-áskrift eftir svona kynningu á grein!

Sunday, March 18, 2007

Svefn er góður

Sunnudagur án sérstakra áætlana og án þynnku eru svo ágætir. Svefninum hefur verið sinnt í óhófi, vilji minn til að framkvæma nauðgun hefur aldrei verið minni og sófinn er óvenjulega þægilegur um þessar mundir. Sunnudagur eins og þeir gerast bestir.

Framundan er mjög svo tvískipt vika. Mánudagur-miðvikudagur verða líklega allir langir vinnudagar sem fara í kapphlaup við tímann án þess að slá af kröfunum og það allt. Á miðvikudagskvöldið sest ég síðan í rútu sem keyrir í 11-12 tíma til Norður-Svíþjóðar með flesta verkfræðingana á vinnustaðnum og næstu 2 sólarhringum varið í að skíða, drekka og sinna einhverjum vinnutengdum verkefnum sem leiða til stórkostlegs ávinnings fyrir vinnustaðinn. Herlegheitin enda svo á 12 tíma rútuferðalagi á laugardagsnóttina og sunnudeginum líklega varið í að jafna sig á líkama og sál.

Núna gerði ég mistök dagsins: Ég kíkti á vinnupóstinn. Þar lá ólesinn póstur frá samstarfsfélaga sem skilur ekki alveg hvernig sumt gengur fyrir sig þrátt fyrir 5 ára starfsreynslu á vinnustaðnum. Besta leiðin til að fá hann til að samþykkja ákveðið ferli er að byrja á að halda uppi vörnum fyrir því hvernig á ekki að gera hlutina, og láta hann svo sannfæra mann hið andstæða. Tímafrekt en þó ekki eins tímafrekt og að ætla sér að fá hann til að gefast upp í eilífu sundi hans gegn straumnum og vinnuferlunum á vinnustaðnum.

Eitthvað virðist ég eiga erfitt með að plana sumarið mitt og þar með skrepping til Íslands. Júní og júlí eru eiginlega úti og ágúst-mánuð þekki ég ekki ennþá. Kannski ég taki eitthvað sem nær yfir menningarnóttina aftur? Hún var skemmtileg seinast. Hvað með Ölympíuleikana? Það er eiginlega mikilvægara. Gæti þó verið að ég komi í byrjun júlí en það fer eftir öðrum en mér. Eða bara að gera eins og oft áður og velja tímasetningu og vona hún endi á að vera góð?

Það besta við að fá reikninga í hrönnum einn mánuðinn og þurfa bjarga helling af útgjöldum sem ég bjóst ekki við alveg strax en komu samt í miðju reikningaflóðinu, er að næstu mánuðir á eftir verða svo ágætir.

Rokið úti fer í taugarnar á mér þótt ég sitji hér inni í fokheldu húsnæði. Rok er bara óþolandi sama hvað!

Alltaf lærir maður eitthvað nýtt, t.d. það að vöxtur á greiðslum úr skattfjármögnuðu félagslegu kerfi hefur neikvæð áhrif á frjósemi í nálægt því hlutfallinu einn á móti einum (á einhverjum mælikvörðum sem ég þekki ekki). Hvað kennir þetta okkur? Jú, að til að fækka barneignum er oft ekki nauðsynlegt að gera annað en auka greiðslur úr félagslega kerfinu! Hefur einhver sagt Kínverjum þetta?

En núna er sunnudagur og ég er að læra eitthvað nýtt. Það þýðir bara eitt: Ég er ekki að glápa nógu mikið á Little Britain! I am the only gay in the village!

Wednesday, March 14, 2007

Fækkum nauðgunum - aukum klámvæðinguna!

"The incidence of rape in the United States has declined 85% in the past 25 years while access to pornography has become freely available to teenagers and adults. The Nixon and Reagan Commissions tried to show that exposure to pornographic materials produced social violence. The reverse may be true: that pornography has reduced social violence."
Heimild.

Klám er gott.

Tuesday, March 13, 2007

Jafnrétti hvað?

Hið fyrirhugaða frumvarp um breytingar á jafnréttislögum er alveg magnað kvikindi. Ég hef sjaldan séð aðra eins vitleysu! Nokkur dæmi (auk minnar túlkunar, að sjálfsögðu):

"Ef ekki er farið að fyrirmælum Jafnréttisstofu um framlagningu gagna, sem máli skipta í viðeigandi máli, getur kærunefnd ákveðið að leggja dagsektir á þann sem fyrirmælin beinast að þar til úr hefur verið bætt."
Hvaða gögn skipta máli? Ég sé það hvergi nefnt. Ég efast um að lögreglan geti beitt dagsektum ef vitni neita að vitna eða ef grunur leikur á að einhver búi yfir sönnunargögnum en þau finnast hvergi né eru látin fram. Er það rangt hjá mér?

"Sinni fyrirtæki ekki tilmælum Jafnréttisstofu um skýrslugjöf hefur Jafnréttisstofa heimild til að leggja dagsektir á viðkomandi fyrirtæki þar til úr hefur verið bætt."
Hlutafélög skila skýrslum um afkomu sína. Einstaklingar skila skattskýrslum. Núna bætist við skýrsluflóðið: Fyrirtæki þurfa mánaðarlega að sannfæra yfirvöld um að engin lög séu brotin! Já, þú ert skattsvikari þar til þú getur sýnt fram á annað, en ekki skattgreiðandi þar til sýnt er fram á að þú sért skattsvikari. Gott það!

"Atvinnurekanda er óheimilt að gera það að skilyrði fyrir ráðningu starfsmanns, að honum sé bannað að veita þriðja aðila upplýsingar um laun sín eða kjör."
Þar með hverfur launaleynd á Íslandi, en einnig heimild launþega til að þegja um laun sín ef "þriðji aðili" spyr þig um þau!

"Þar sem tilnefnt er í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga skal tilnefna bæði karl og konu. Við skipun skal þess gætt að hlutur hvors yns sé sem jafnastur og ekki minni en 40% þegar um fleiri en þrjá er að ræða."
Það er þá eins gott að ríkið eigi úr nægu starfsliði að velja ef allar hinna hundruði nefna ríkisins auk sveitarfélagsnefndanna eiga að fara telja fjölda tippa og píka áður en nefnd telst rétt skipuð!

"Í opinberri hagskýrslugerð um einstaklinga og í viðtals- og skoðanakönnunum skal greint á milli kynja við söfnun gagna, úrvinnslu þeirra og birtingu pplýsinga nema sérstakar ástæður, svo sem persónuverndarhagsmunir, mæli gegn því."
Ekki bara í opinberri hagskýrslugerð, nei líka í viðtals- og skoðanakönnunum! Ef Gallup segir að 30% Íslendinga drekki kók, þá mun það þurfa að fylgja sögunni að þar af séu 70% karlkyns og 30% kvenkyns. Frábært að vita!

"Ef leiddar eru líkur að því að kona og karl sem starfa hjá sama atvinnurekanda njóti mismunandi launa eða annarra kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf skal atvinnurekandi sýna fram á, ef um mun er að ræða, að hann skýrist af öðrum þáttum en kyni."
Hvað telst nægjanlegt til að hafa leitt að einhverju líkur? Hugboð? Þrír launaseðlar? Mér þykir nú ansi mikið slakað á réttarkröfum réttarríkisins hérna. Sekur uns sakleysi er sannað?

"Óheimilt er að auglýsa eða birta auglýsingu um laust starf þar sem gefið er í skyn að fremur sé óskað starfsmanns af öðru kyninu en hinu. Þetta ákvæði gildir ekki ef tilgangur auglýsandans er að stuðla að jafnari kynjaskiptingu innan tarfsgreinarinnar og skal það þá koma fram í auglýsingunni. Sama á við f gild rök mæla með því að einungis sé auglýst eftir öðru kyninu."
Eins slæmt og þetta ákvæði er efnislega, þá er líka alveg vitavonlaust að framfylgja því! Hvernig mælist kynjahlutfall innan heillar starfsgreinar? Með skoðanakönnun? Með hagtölum? Hvernig eru starfsgreinar greindar að? Er það e.t.v. augljóst? Nú eru fleiri konur en karlar að stunda nám í byggingar- og umhverfisverkfræði. Er þá heimilt að kljúfa þá tegund verkfræði frá öðrum til að hámarka kynjahlutfall kvenna innan meintrar starfsgreinar til að koma karlmanni að, eða þarf að hópa alla verkfræðinga saman og telja svo fjölda kynfæra, eða teljast tæknifræðingar með, og hvað með tölvunarfræðinga og tækniteiknara?

Þetta frumvarp er eitur og gengur mun lengra í átt að lögregluríki en nokkuð annað sem yfirleitt hefur hlotið einhverja athygli á Íslandi!

Monday, March 12, 2007

Er vorið komið?

Sólin skín og veðrið er stillt og það passar ágætlega við lundarfar mitt núna. Helgi með litla bróður var í alla staði algjör snilld. Við fengum skemmtilegt teiti, mótmæli með dagdrykkju, pilturinn verslaði aðeins og við fengum góðan túr í bæinn þar sem brósi sá um fararstjórarhlutverkið (dæmi, þar sem ég fékk eftirfarandi heilræði með leiðbeiningum um hvar klósettið væri: "Passaðu þig bara, það er mikið af varasömu fólki hérna!"). Ekkert nema frábær helgi nú að baki!

Djöfull er ég orðinn feitur.

Sambönd eru djöfullinn.

Danir sem hyggja á spjallpásu í skrifstofunni sem ég deili með þremur öðrum endast orðið styttra og styttra í tilraunum sínum til að fá mig í spjallham. Loksins hafa margar tilraunir með kerfi til að fá Dani í burtu borið árangur.

Samkvæmt Fréttablaðsgrein um helgina getur samfélag ekki kallast siðað fyrr en ákveðnar opinberar, skattfjármagnaðar velferðarstofnanir eru starfræktar í því. Getur einhver útlistað þetta nánar fyrir mér? Voru Bandaríkin og Bretland ósiðuð fyrir fyrri heimstyrjöld? Varð Prússland ekki siðað fyrr en í stjórnartíð Bismarck? Voru Sovétríkin hápunktur siðmenningarinnar? Mig vantar ramma!

Ég skildi til fulls ákveðna rökræðutækni um helgina (þar sem ég stóð á hliðarlínu mótmæla í Köben), "á móti"-röksemdarfærslan. Hún snýst um að finna skoðun sem maður er ósammála og benda á samfélagslega og menningarlega nauðsyn þess að vera á móti þeirri skoðun. Dæmi: Ég vill ekki að listamenn fái fé sem er innheimt með skattheimtu. Enginn stjórnmálaheimspeki fjallar um nauðsyn þess að ríkið innheimti skatta til að borga undir listamenn eða kaupi verk þeirra. Enginn hefur fært nein sérstök rök fyrir því að listamenn fái að liggja á spena launþega (t.d. þora fáir að segja að listir fæðist og deyi eftir því hvað stjórnmálamenn skaffa þeim mikið skattfé). Hvernig er þessari skoðun minni svarað? Með því að benda á nauðsyn þess að vera á andstæðri skoðun, samfélagsins og menningarlífsins vegna. Eða er eitthvað að fara framhjá mér?

Ísland og Danmörk eru, á alveg ótrúlega mörgum sviðum, með alveg nauðalíkt verðlag sama hvað hver segir. Undantekningar eru þó veigamiklar: Áfengi, stórmarkaðsmatvæli, sum föt og tóbak. Á móti kemur allt sem heitir húsnæði, rafmagn, skattar og bílar og nú er bensín einnig orðið dýrara í Danaveldi. Lífsstandard er haki eða tveimur lægri hér en á Íslandi. Það verður bara að segjast.

Sólin hékk á nánast heiðskýrum himni í allan dag. Vorið nálgast óðfluga!

Voðalega er ég klámfenginn í hugsunum í dag. Klámfenginn að hugleiða umhverfismál. Hvað ætli það kallist? Blá-grænn? Hægri-bleikur? Græn-bleikur? Vinstri-grænn? Hægri-grænn?

Alltaf ánægjulegt þegar einhver nennir að skjótast eftir mat handa eftirsetukindunum á vinnustaðnum. Góður vinnudagur sem endar þá á mat, örlítilli vinnu til viðbótar og svo heim.

Saturday, March 10, 2007

Friday, March 09, 2007

Brósi í Baunaveldi

Þá er litli bróðir búinn að gista eina nótt í Kaupmannahöfn og ljómandi góð stemming í pilti. Ég þarf að slátra nokkrum tímum í vinnunni en svo er rokið í bæinn og tekinn túristarúntur. Er hafmeyjustyttan í eðlilegu ástandi um þessar mundir?

Er voðalega mikið inn að vera "hægri-grænn"? Ég tek bara undir með Vefþjóðviljanum og kalla hugtakið "furðuverk".

Alltaf gaman að fá tækifæri til að nota pV/T=fasti sambandið.

Ef einhver veit eða heyrir eitthvað um lausa íbúð til 2-3 herbergja leigu í sumar, helst miðsvæðis í Kaupmannahöfn, má hinn sami hafa samband. Nei, íbúðin er ekki fyrir mig.

Fátt eins hressandi og að kúka í stereó, og vita að lyktin í loftinu kom úr tveimur rassgötum hið minnsta.

Lýsi hér með yfir að núna er komin helgi!

Tuesday, March 06, 2007

Einn heima á ný

Þá er Bjarki floginn úr hreiðrinu og skildi íbúðina eftir í töluvert betra ástandi en hann kom að henni í, og skildi þar að auki eftir bjór í ísskápnum! Mikill öðlingur hann Bjarki.

Helgin var í góðu lagi þótt ég muni ekki eftir henni allri - seinast af öllu að hafa skolast snemma úr leik á laugardagskvöldinu. Piltunum góðu tókst að vinna ansi vel á áfengisbirgðunum mínum en þó er engin örvænting tekin við í þeirri deild. Fjarri því.

Ómar litli bróðir er væntanlegur í Köbenhafnar á fimmtudaginn og því fylgir mikil tilhlökkun! Enginn á betri bróður en ég. Enginn!

Mikið eru dönsk fyrirtæki hrifin af því að rukka mann á þriggja mánaða fresti.

Í góðum fréttum frá Köbenhöfn er það helst að,
- Ungdomshuset hefur verið jafnað við jörðu. Þar með fækkaði fundarstöðum skemmdarvarga og iðjuleysingja í borginni um einn.
- Vorið liggur í loftinu. Vonandi tollir það þannig!
- Saxófónspilandi betlarar á besta aldri í rándýrum íþróttaskóm og þykkum vetrarúlpum, sem standa við heilmiklar græjur sem spila undirspil við falskar nóturnar, venjast eins og hver önnur smávægileg truflun á örfáum vikum.
- Dani má temja eins og hverja aðra páfagauka með réttri nálgun og ákveðnum brögðum.
- Samgöngukerfið virkar - í bili!

Hver vill taka að sér að stúta ketti? Ég borga táknræna upphæð fyrir ómakið og fullan efniskostnað (t.d. vegna beitu, eiturs, skóflu og svarts plastpoka).

Er Little Britain sýnt í íslensku sjónvarpi? Ef svo er, af hverju er ekki búið að púa það niður ennþá í nafni pólitísks rétttrúnaðar? Annað eins hefur nú gerst í landi sem lætur örfáa háværa femínista stjórna umræðunni og takmarka funda-, ferða-, einstaklings- og athafnafrelsið.

Sunday, March 04, 2007

Tilvitnun dagsins

Ísland í dag?
Það er svo mikil andstaða gegn álverum og virkjunum og allir orð[nir] svo grænir og umhverfissinnaðir að það má búast við uppgjöf í virkjanamálum. Það eiga víst allir að vera námsmenn, ríkisstarfsmenn eða bótaþegar en enginn talar um hver á að borga brúsann.
Præcis!

Saturday, March 03, 2007

Music Quiz III

Um að gera fyrir alla að vera með í æsispennandi Music Quiz III hér: http://www.hawkhalf.com/blogg/ds2007/mqiii/MQIII.html

TAKTU ÞÁTT!