Sunday, March 18, 2007

Svefn er góður

Sunnudagur án sérstakra áætlana og án þynnku eru svo ágætir. Svefninum hefur verið sinnt í óhófi, vilji minn til að framkvæma nauðgun hefur aldrei verið minni og sófinn er óvenjulega þægilegur um þessar mundir. Sunnudagur eins og þeir gerast bestir.

Framundan er mjög svo tvískipt vika. Mánudagur-miðvikudagur verða líklega allir langir vinnudagar sem fara í kapphlaup við tímann án þess að slá af kröfunum og það allt. Á miðvikudagskvöldið sest ég síðan í rútu sem keyrir í 11-12 tíma til Norður-Svíþjóðar með flesta verkfræðingana á vinnustaðnum og næstu 2 sólarhringum varið í að skíða, drekka og sinna einhverjum vinnutengdum verkefnum sem leiða til stórkostlegs ávinnings fyrir vinnustaðinn. Herlegheitin enda svo á 12 tíma rútuferðalagi á laugardagsnóttina og sunnudeginum líklega varið í að jafna sig á líkama og sál.

Núna gerði ég mistök dagsins: Ég kíkti á vinnupóstinn. Þar lá ólesinn póstur frá samstarfsfélaga sem skilur ekki alveg hvernig sumt gengur fyrir sig þrátt fyrir 5 ára starfsreynslu á vinnustaðnum. Besta leiðin til að fá hann til að samþykkja ákveðið ferli er að byrja á að halda uppi vörnum fyrir því hvernig á ekki að gera hlutina, og láta hann svo sannfæra mann hið andstæða. Tímafrekt en þó ekki eins tímafrekt og að ætla sér að fá hann til að gefast upp í eilífu sundi hans gegn straumnum og vinnuferlunum á vinnustaðnum.

Eitthvað virðist ég eiga erfitt með að plana sumarið mitt og þar með skrepping til Íslands. Júní og júlí eru eiginlega úti og ágúst-mánuð þekki ég ekki ennþá. Kannski ég taki eitthvað sem nær yfir menningarnóttina aftur? Hún var skemmtileg seinast. Hvað með Ölympíuleikana? Það er eiginlega mikilvægara. Gæti þó verið að ég komi í byrjun júlí en það fer eftir öðrum en mér. Eða bara að gera eins og oft áður og velja tímasetningu og vona hún endi á að vera góð?

Það besta við að fá reikninga í hrönnum einn mánuðinn og þurfa bjarga helling af útgjöldum sem ég bjóst ekki við alveg strax en komu samt í miðju reikningaflóðinu, er að næstu mánuðir á eftir verða svo ágætir.

Rokið úti fer í taugarnar á mér þótt ég sitji hér inni í fokheldu húsnæði. Rok er bara óþolandi sama hvað!

Alltaf lærir maður eitthvað nýtt, t.d. það að vöxtur á greiðslum úr skattfjármögnuðu félagslegu kerfi hefur neikvæð áhrif á frjósemi í nálægt því hlutfallinu einn á móti einum (á einhverjum mælikvörðum sem ég þekki ekki). Hvað kennir þetta okkur? Jú, að til að fækka barneignum er oft ekki nauðsynlegt að gera annað en auka greiðslur úr félagslega kerfinu! Hefur einhver sagt Kínverjum þetta?

En núna er sunnudagur og ég er að læra eitthvað nýtt. Það þýðir bara eitt: Ég er ekki að glápa nógu mikið á Little Britain! I am the only gay in the village!

No comments: