Thursday, March 29, 2007

Langblogg í amstri dagsins

Þessi sól ætlar bara ekki að gefast upp. Ég treysti því samt ekki að vorið sé alveg komið fyrr en í maí.

MBS samstarfsmaður minn er búinn að gjamma eins og ofvirkur saumaklúbbur í allan dag. Í morgun var hann í þessu þvílíka sólskinsskapi, allt að því syngjandi, og talandi við allt og alla um allt en þó aðallega ekkert. Núna eftir hádegi er hann búinn að eyða mikið af tíma sínum í að kvarta undan hinu og þessu og vera ósammála öllu sem einhver segir við hann. Á dögum sem þessum er gott að vera með góð heyrnartól!

Að tvísmella óvart á 640 Mb textaskrá getur verið slæm hugmynd.

Fimmtudagsöl í kvöld. Jess!

Næsta vika verður yndislega friðsæl vinnuvika með allt þetta fólk í páskafríi. Eins gaman og það er og umgangast fólk þá er bara sumt sem þarfnast einbeitingar.

Andúð mín á ríkisvaldinu er komin á það skeið að hún er farin að vinda upp á sjálfa sig án aðstoðar. Ég hlakka til að sjá hvert sú þróun leiðir mig.

Ónefndur byggingarverkfræðingur hefur verið skipaður sem ráðgjafi í verkefni sem hefur ekkert með byggingarverkfræði að gera. Ísland er svo sannarlega þverfaglegt samfélag!

Þegar Danir spurja mig af hverju Íslendingar lifa af þá segi ég yfirleitt fisk, áli (sölu raforku) og fjármálaviðskiptum, og svo vinna margir á Íslandi láglaunastörf til að þjónusta ferðamenn. Fyrir 5 árum hefði ég bara nefnt fisk og ál. Fyrir 30 árum hefði ég bara nefnt fisk. Hið athyglisverða við listann er að (næstum því) allt á honum er á einhvern hátt hatað, umdeilt eða öfundað. Sumir vilja þjóðnýta kvótann og taka aftur upp kreppuástand útvegsiðnaðarins frá fyrri tíð (góð sameign þjóðarinnar það). Sumir vilja flæma fjármálageirann úr landi með skattahækkunum, t.d. til að auka "félagslegan jöfnuð" (því þessir fjárans bankamenn eru svo ríkir miðað við alla hina). Margir segja að nú sé "komið nóg" af virkjunum og sölu raforku. Hvað ætli komi næst? Að þessar hræður sem villast upp á íslenskt hálendi borgi sérstakan mosaskatt fyrir að traðka niður íslenskan gróður? Þannig mundum við a.m.k. losna við ferðamannaiðnaðinn áður en ferðamennirnir verða orðnir svo margir að ekki verður við neitt ráðið.

Varúð! Eftirfarandi efnisgrein er ekki beint að neinni ákveðinni persónu eða persónum, heldur ákveðnu viðhorfi.
Óvinum einkaeignarréttarins ("bönnum X á stöðum sem veita mér aðgang", X = t.d. reykingar) verður hér með eingöngu veittur aðgangur að íbúð minni ef þeir lofa að biðja ekki um lög sem banna reykingar á einkaheimilum þegar heimsókn þeirra líkur. Ef bara veitingahúsa- og skemmtistaðaeigendur hefðu gert sama fyrirvara við aðgangi að sínum húseignum á sínum tíma! Þá væri ennþá til einkaeignarréttur á húsnæði sem hýsir þjónustustarfsemi. Er nóg að fá munnlegt loforð um að viðkomandi ætli ekki að biðja um löggjöf, eða þarf ég að hafa eitthvað skriflegt til að tryggja mig?

Internetveitan mín var svo væn að senda mér bréf í gær sem segir að þann 1. apríl tvöfaldast internettenging mín sjálfkrafa án þess að verðmiðinn á henni breytist. Ekki svo galið það.

Af hverju í ósköpunum er atvinnurekandinn að kaupa verkjapillur fyrir okkur vinnumaurana? Er hausverkur svo útbreiddur að fólk getur ekki keypt sínar eigin pillur lengur?

Annars sakna ég ginseng-tesins sem var hérna um daginn. Það virkaði!

Það má eiginlega segja að ég vinni í fimmvídd núna: Uppfæra skýrslu, reikna á sama tíma þrenns konar útreikninga sem eiga að fara inn í skýrsluna og í leiðinni svara athugasemdum við skýrsluna frá Frakkahelvítisfíflunum svo þeir samþykki hana í næstu útsendingarlotu. Stuð ef til þess er ró og næði, sem er einmitt raunin núna!

Ég næ sennilega ekki mars-mánuði, en ég hlýt eiginlega að taka áskoruninni og velja annan mánuð af "babe dagsins" á Dauðaspaðanum. Apríl kannski?

Jahérna þessi sól bara hangir og hangir uppi.

Athyglisvert - Rolling Stones í Köben 5. ágúst, miðasala hafin og ekki uppselt enn. Hvað er að gerast?

Þá er örgjörvinn kominn á 100% vinnslu og verður líklega í því ástandi langt fram á nótt. Út vil ek!

3 comments:

Fjóla Einarsdóttir said...

Hættu að ljúga til um þessa sól, alltaf þegar ég hef komið til Köben hefur verið skítkalt og smá stormur á köflum. Tek ekki mark á þessu sólarhjali þínu.

Geir said...

Það sem þú ert að reyna segja er að þú framkallar kulda utandyra en hlýju innandyra. Hér með skjalfest.

Anonymous said...

Hahahaha....já eitthvað svoleiðis :)